Kirkjuritið - 01.01.1955, Blaðsíða 13
TIL KIRKJUFUNDAR OG BISKUPSVÍGSLU
11
varð koma hans til þess, að kirkja íslands gerðist þátttakandi
í Kirknasambandi Norðurlanda. Hann á nú heima í Sigtúnum
og kennir heimsspeki við lýðháskólann.
Aðrir sænskir stjórnarmenn eru Nils Karlström, dómprófast-
ur í Skara og ritstjóri tímaritsins, sem Kirknasambandið gefur
út, og Gunnar Westin, prófessor í kirkjusögu í Uppsölum; er
hann Baptisti.
Danskir stjórnarmenn eru K. E. Skydsgaard, prófessor við
Hafnarháskóla, frægur fyrirlesari, og G. Sparring-Petersen,
prestur í Kaupmannahöfn.
Frá Finnlandi eru í stjórninni Almo Nikolainen, prófessor,
og G. O. Rosenquist, biskup í Borgá, sem áður var prófessor
í kennimannlegri guðfræði. Hann var vígður síðastliðinn hvíta-
sunnudag.
Norðmennirnir gátu ekki sinnt stjórnarstörfum að þessu
sinni sökum námsdvalar í Ameríku. Þeir eru Ejnar Molland,
prófessor, og Kristian Hansson skrifstofustjóri í kirkjumála-
ráðuneytinu.
Björkquist biskup las fyrst upphaf 21. kapítulans í Opinber-
unarbókinni og bað bænar. Því næst setti hann fundinn og
minntist Sigurgeirs biskups Sigurðssonar, sem hafði átt fyrst-
ur íslendinga sæti í stjórn Sambandsins og verið nýkjörinn
formaður þess, er hann lézt. Fór hann fögrum orðum um
ástúð hans og eldmóð, og hlýddum við á þau standandi.
Þá var tekið til fundarstarfa, og flutti framkvæmdastjóri
Kirknasambandsins langa skýrslu um störf þess árið 1953:
Undirbúning undir Evanstonþingið. Þátttöku í starfi Alkirkju-
ráðsins og Lúterska heimssambandsins. Hjálp við bágstadda,
einkum flóttamenn. Fundarhöld með Norður-Þjóðverjum um
málefni kristindóms og kirkju. Önnur fundahöld og nefndar-
störf.
Næst fóru kosningar fram fyrir tímabilið til næsta stjórnar-
fundar.
Formaður Kirknasambandsins var ég kosinn.
Varaformaður Björkquist.
Formaður starfsnefndar Kristian Hansson.
Eftir hádegi var fundurinn fluttur til heimilis þeirra Björk-
quistshjónanna. En þau eiga heima á efstu hæð húss eins, sem
stendur rétt hjá Stofnuninni, og var hún reist handa þeim.