Kirkjuritið - 01.01.1955, Side 15
TIL KIRKJUFUNDAR OG BISKUPSVÍGSLU
13
dr. Olle Herrlin á móti mér og bauð mér gistingu í húsi sínu.
Nokkru síðar héldum við í garð erkibiskups, og var þar vel
fagnað. Erkibiskup er maður svipmikill og gáfulegur, hár
vexti, nokkuð lotinn, enda kominn á sjötugsaldur. Kona hans
er dóttir Natans Söderbloms erkibiskups, heldur lítil vexti og
lík föður sínum. Tvær systur hennar eru einnig biskupsfrúr.
Móðir hennar er enn á lífi, og bað erkibiskupsfrúin mig að
heimsækja hana. Við töluðum öll saman góða stund, og sýndi
erkibiskup mér skrifstofu sína uppi í húsinu, og er þaðan
mjög víð og fögur útsýn. Við töluðum um vígsluna meðal annars.
Kvaðst ég helzt vilja lesa upp Ritningarorð á íslenzku, sameigin-
legu máli Norðurlandaþjóða fyrr á öldum. Tók erkibiskup því
vel, en bað mig þýða orðin á eftir. Þeir erkibiskup og dóm-
prófastur eru nánir samstarfsmenn, mun dómprófastur vera
um 20 árum yngri. Hann er doktor bæði í guðfræði og heims-
speki.
Við ókum síðan til heimilis Dags Strömbácks prófessors í
norrænu og konu hans. Hitnaði mér um hjartarætur við kveðju
hans: „Komið þér blessaðir og sælir.“ Og allar voru viðtök-
urnar eftir því. Hann á fyrirtaksgott bókasafn í íslenzkum
fræðum, og dáðist ég að lærdómi hans. Jafnframt er hann
ágætur starfsmaður kirkjunnar.
Þaðan höldum við til frú Önnu Söderblom, sem nú er um
hálf nírætt og á heima rétt hjá dómkirkjunni uppi í turni.
Þar varðveitir hún bókasafn manns síns og ýmsa gripi, merka
og fræga. Fyrr um daginn hafði ég gengið að leiði hans, eir-
hellu mikilli í gólfi kirkjunnar, og lesið þessi orð, er hann
hafði sjálfur valið: „Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört
það eitt, sem vér vorum skyldir til að gjöra“ (Lúk. 17, 10).
Stundin hjá ekkju hans gleymist mér ekki, og ég hvarf með
henni til horfinna tíða. Andans þróttur hennar er enn mikill,
og hún horfir til himins. Hún var líkust svani, sem hefur
flug í hæðir.
Snemma á sunnudagsmorgun fór fram altarisganga í Þrenn-
ingarkirkjunni, sem er ein af elztu kirkjum Svía. Þar þjónaði
fyrir altari dómprófasturinn í Stokkhólmi, Olle Nystedt, er
mjög hafði komið til greina við biskupskjörið. Hann er talinn
klerkur ágætur, og var tón hans fagurt.
Kl. 11 skyldi vígsluguðsþjónustan hefjast í Dómkirkjunni, en