Kirkjuritið - 01.04.1959, Blaðsíða 28
170
KIRKJURITIÐ
böl, sem liggur eins og kolsvart ský yfir framtíð mannkynsins.
Mjög er það misjafnt, hvernig menn almennt hugsa og ræða
um afbrot og glæpi yfirleitt. Sumir reyna að skýla alvörunni
með því að henda gaman að öllu saman. Glæpir eru spennandi,
og sögur um afbrot hafa visst aðdráttarafl, hvort sem þær eru
lesnar af bókum eða gerast í eigin samfélagi. En það er um
glæpi eins og eldsvoða. Menn geta talað um brennandi hús og
framkallað ískrandi óhugnað hjá sjálfum sér sem eins konar
tilbreytingu frá atburðaleysi hversdagslífsins, en skemmtunin
fer af, þegar eldurinn leikur um þá sjálfa eða þá, er þeim standa
næstir. Það er ekki sízt þessi æfintýrabragur, sem tekizt hefir
að varpa yfir afbrot, drykkjuskap, lauslæti og annað þess hátt-
ar, sem veldur því, að hin áhættugjarna æska stígur fyrstu
skrefin á óheillabraut. Blöðin og reyfararnir gylla ævintýrið,
eða vekja hinn nauðsynlega hrylling, sem þarf til þess að les-
andi eða heyrandi njóti ævintýrisins, —- og margir, sem hrif-
næmir eru, láta sér þá ekki nægja að heyra frásagnir, heldur
vilja taka þátt í ævintýrinu sjálfir. Ég bað einu sinni ungan
fanga að lýsa fyrir mér hugarástandi sínu, bæði við upphaf
og endi sögu sinnar, og hann gerði það nokkurn veginn á
þessa leið:
„Við byrjuðum á þessu af því, að okkur þótti það gaman.
Það var spennandi að etja kappi við lögregluna. Þegar við
höfðum unnið leikinn hvað eftir annað, urðum við djarfari og
djarfari. Okkur nægði t. d. ekki að stela með auðveldu móti,
heldur urðum við helzt að brjótast inn á þann hátt, að allt
yrði sem glæfralegast. Því meiri menn urðum við í eigin aug-
um, og því hróðugri urðum við, eins og þeir, sem haft hafa
betur í spilum eða í venjulegum kappleik. Taugarnar urðu
spenntar, æsingin varð okkur nautn, og við urðum á valdi ein-
hverrar dulinnar ástríðu, sem við réðum ekki við. En smám
saman vaknaði hjá okkur önnur tilfinning. Að einu leytinu var
það óttinn, beygurinn, sem smeygði sér inn. Við urðum í raun-
inni hvergi frjálsir menn, þótt við gengjum lausir. Að hinu
leytinu komst inn leiði á hlutverki glæpamannsins. Okkur fór
að langa til að vera og verða eitthvað annað en þetta, en við
vorum bundnir og fjötraðir, og vildum ekki kannast við það
hver fyrir öðrum, að við raunverulega vildum hætta. Það var
lagt út í hópnum sem heigulsháttur. Sá, sem skarst úr leik,