Prestafélagsritið - 01.01.1924, Síða 22
Prestafélagsritið.
HVAÐ ER KRISTINDÓMUR?
Synóduserindi eftir dr. Jón Helgason biskup.
Þessar senn 19 aldir, sem liðnar eru síðan kristindómurinn
hófst hér á jörðu, hefir hann óneitanlega birzt og komið
fram í mörgum, sumpart harla ólíkum myndum. Svo margvís-
lega hefir hann þróast í allar áttir. Svo fjölbreytilegur hefir
hann orðið við hinar mörgu kennisetningar, guðræknisathafnir
og helgisiði, er myndast hafa utan um hann og orðið honum
viðloðandi, eftir því sem aldir liðu fram. Það getur enda
orðið erfitt að koma auga á rótina, sem þetta mikla tré er
vaxið upp af og nærist af fram á þennan dag. Fyrir því er
sízt að furða, þótt spurningin: Hvað er kristindómur? rísi upp
á ný með hverri kynslóð og heimti svar. Henni er að því
leyti líkt farið og annari spurningu, sem henni er náskyld,
spurningunni: Hver var Jesús Kristur? sem altaf rís upp að
nýju með hverri nýrri kynslóð og mennirnir geta aldrei fengið
greitt úr að fullu, svo að þeir sætti sig við svarið til lengdar.
Mynster biskup minnist á það á einum stað í »Hugleiðing-
um< sínum, hvernig spurningin um hvað kristindómur sé, iáti
mennina aldrei í friði. Og hann kemst í sambandi við það svo
að orði: »Ættum vér að óska þess, að kristindómurinn væri
orðinn dauð eign, og gengi hönd úr hendi og munn frá
munni án rannsóknar og umhugsunar?* Hann svarar þeirri
spurningu vitanlega neitandi. Því hvað er þetta, að þessi
spurning getur ekki dáið eða rís upp að nýju með hverri
nýrri kynslóð og er tekin til nýrrar meðferðar á hverjum
tima, annað en sönnun þess, hve óumræðilega þungvæg spurn-
íngin er? Hefði mannsandanum nokkru sinni tekist að leysa