Prestafélagsritið - 01.01.1924, Blaðsíða 47
Prestafélagsritið.
Um kirkjulíf á Englandi.
43
að söfnuðurinn syngur standandi, biðst fyrir krjúpandi eða
sitjandi, og hlustar á ritningarlestur og ræðu sitjandi.
Auk guðsþjónustuhaldsins birtist kirkjulíf Englendinga í víð-
tækri safnaðarstarfsemi í margvíslegum myndum.
Má þar nefna húsvitjanir til kristilegra áhrifa á heimilunum,
og samkomur til andlegrar vakningar, bæði inni við í kirkjum
eða fundarhúsum og úti við undir beru lofti; einnig félags-
skap með ýmsu móti og margvíslega fræðslustarfsemi, með
munnlegri kenslu, með myndasýningum, með bókum og blaða-
útgáfu; ennfremur líknarstarfsemi, sem söfnuðurinn annast að
öllu eða einhverju leyti.
Beinist þessi starfsemi bæði að ungum og öldruðum og
miðaldra fólki, að sjúkum, sorgmæddum og fátækum, og að
þeim sem fara villir vega og engu andlegu vilja sinna. Einnig
beinist starfsemi safnaðanna að trúboði meðal heiðingja, og
að því að styrkja trúbræður í öðrum löndum, sem erfiðlega
eru settir á einhvern hátt.
Einna stórfenglegust er sú starfsemin, sem beinist að börn-
um og ungmennum. Skilst mönnum það bezt, þegar þeir sjá
af nýjustu skýrslum, að sunnudagaskólar þjóðkirkju- og utan-
þjóðkirkjumanna eru sóttir af 5 til 6 miljónum barna. Auk
þess eru kristileg félög ungra manna og kvenna víðsvegar
um Iandið og starfa með miklum krafti. Einnig eru ýmis-
leg önnur félög með uppeldismarkmiði styrkt af kirkjunnar
mönnum, t. d. svonefnd »Skátafélög«, bæði fyrir drengi og
stúlkur, o. fl.
Mikið er einnig gert til þess að ná með boðskap og áhrif
kristindómsins til fulltíða karla og kvenna utan guðsþjónust-
anna í kirkjunum, og reynt á ýmsa vegu að fá menn til að
taka þátt í kirkjulegri starfsemi. Eru útisamkomur víða not-
aðar til þessa. Er þá reistur ræðustóll á einhverjum stað, þar
sem heppilegt þykir, og þar stígur ræðumaður í stólinn, en
hljóðfærasveit eða söngflokkur syngur vanalegast á undan
og eftir.