Nýjar kvöldvökur - 01.04.1930, Page 4

Nýjar kvöldvökur - 01.04.1930, Page 4
50 NÝJAR KVÖLDVÖKUR . »Þakkaðu þér miklu fremur sjálfum«, sögðu þau. Þegar Hallgrímur kom út á balann, sneri hann sér við og kallaði: »Þið fáið kveðju frá mér eftir vetur- næturnar«. »Mikill einstakur öðlingur er hann Hallgrímur«, sagði Þorleifur; hann var orðinn bæði loðmæltur og smámæltur. »Það eru góðar taugar í honum«, svar- aði Guðrún. Eftir veturnæturnar kom poki frá Hallgrími í Dal; í honum voi'u tvö hangi- ketslæri, smérfjórðungur og nokkur pund af ull. IV. Ferming. Guðmundur var kominn á fermingar- aldur. Hann var í meðallagi hár, sam- svaraði sér vel, rjóður í andliti, ljóshærð- ur og stríðhærður; heldur var hann sein- legur í hreyfingum og óframfærinn í fasi, rétt eins og aðrir unglingar, er alast upp heima í kotinu, hafa lítil mök við jafn- aldra og fá sjaldan tækifæri til að taka þátt í gleðskap. Móðir hans hafði snemma kent honum að lesa, svo að hann stóð að því leyti ekki öðrum börnum að baki; en um kennslu í skrift eða reikningi var ekki að gera þar heima; til þess varð hann að leita annara og af því að enginn í Vog- inum gaf sig sérstaklega við kennslu barna, varð það Jón Daðason í Beykis- húsinu, sem fenginn var til að segja Guð- mundi til í þeim greinum, veturinn fyrir ferminguna. Jón var fjórum árum eldri en Guðmundur, gáfaður piltur og vel að sér, mesti æringi og hrókur alls fagnað- ar, en þótti nokkuð ófyrirleitinn og í meira lagi hæðinn; gerði hann gabb að flestu, er hann gat. Kennslan fór fram ýmist í Nausti eða í Beykishúsinu og gekk fremur skrykkjótt. Elcki mátti Guðmund næman kalla, en Jón var óþolinmóður og beitti oft ónotum og keskni, til þess að skerpa skilning Guðmundar, en lítið bætti það um; enduðu tímarnir oft í fússi og ó- bænum, en samkomulagið lagaðist furð- anlega aftur, þegar þeir hittust næst. Þó var Guðmundur orðinn skrifandi um vor- ið og gat reiknað með heilum tölum og nokkuð með brotum. Kverið lærði hann heima hjá sér og var spurður af presti eftir messu á sunnudögum tvo síðust i veturna fyrir ferminguna. Það átti að ferma á hvítasunnudag. Veður var kyrt og sólskin mikið um dag- inn. Allir voru snemma á ferli í Nausti, því að mikið stóð til. Guðmundur fór um morguninn upp í Beykishús og var klippt- ur þar og greiddur. Fór hann svo í spán- ný, svört vaðmálsföt, setti upp brúna brjósthlíf, með hvítri líningu og svarta derhúfu, með gljáandi skygni; drifhvítur vasaklútur' stóð til hálfs upp úr brjóst- vasanum á jakkanum. Þá var hann búinn til kirkjugöngu, en foreldrar hans voru enn um stund að dóta sig til; þau ætluðu að vera til altaris. Loksins voru þau öll ferðbúin, en þá bar mikinn vanda að höndum. Hálfum mánuði áður hafði Guðmundur séð svo fallegan, gulan hvolp á bæ þar í nágrenninu, að hann gat ekki á heilum sér tekið í marga daga á eftir og linnti ekki látum fyr en hann fékk leyfi foreldra sinna til að kaupa hvolpinn fyrir sex bönd af ýsu. Nú var Kópur hálfvaxinn og orðinn svo hændur að Guðmundi, að hann mátti ekki af honum sjá. Það var því mesta vandamál, hvað gera ætti við hvolpinn, á meðan á fermingunni stæði- Þorleifur vildi loka hann inni, en Guðrúnu og Guðmundi kom saman um að kvikind- ið mundi ýla og skrækja sig bandvitlaust og að líkindum grafa sig út. Niðurstað- an varð sú, að Kópur fékk að elta þau, en Guðrún átti að reyna að hafa hemil á

x

Nýjar kvöldvökur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Nýjar kvöldvökur
https://timarit.is/publication/511

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.