Gripla - 01.01.1980, Blaðsíða 95
90
GRIPLA
gengið síðar fram en hinn, vegna þess að Gellir er kominn í kvenlegg
af Ingólfi sterka. Hins vegar rekst tafla IV ekki á tímatal.
Ef leiknum er haldið áfram mætti ímynda sér að móðir Eiríks rauða
hafi verið dóttir Þorsteins hreggnasa, systir Þorbjargar fyrri konu Víga-
Styrs og að Þorsteinn sonur Eiríks rauða hafi verið látinn heita eftir
móðurföður sínum. Þar væri þá skýring þess, að Víga-Styrr er í heimild-
um talinn einn helsti stuðningsmaður Eiríks.
Ef gert er ráð fyrir að það sé missögn í heimildum, að Eiríkur rauði
hafi verið sonur Þorvalds landnámsmanns á Dröngum á Hornströndum
verður einnig að gera ráð fyrir missögn, að hann hafi ráðist norðan og
rutt lönd í Haukadal. Missögn af þessu tagi gæti verið komin upp vegna
þess, að Eiríkur hafi raunar verið frá Dröngum á Skógarströnd. í sjálfu
sér er ekki ástæða til að rengja að Eiríkur hafi rutt lönd í Haukadal,
eftir að hann gekk að eiga Þjóðhildi; hann hefur þá fengið land hjá
stjúpföður hennar, Þorbirni að Vatni. Hins vegar getur naumast verið
rétt, að Eiríkur hafi numið Brokey og Öxney, eftir að hann var gerður
úr Haukadal; þessar eyjar hafa varla verið ónumdar kringum 980;
líklegra er að þær hafi tilheyrt landnámsjörðinni Breiðabólstað á
Skógarströnd, eins og Drangar hafa ugglaust gert, og hefur Eiríkur þá
leitað aftur heim í átthagana, þegar hann varð héraðssekur úr Haukadal.
Kaflinn um deilur Eiríks rauða í Breiðafirði í sögu hans og Land-
námu er á ýmsan hátt merkilegur. Hann virðist vera skrifaður af kunn-
ugum manni, og er augljóst að sá sem fyrst færði hann í letur hefur
gert ráð fyrir að ekki þyrfti að ættfæra eða gera nána grein fyrir mönn-
um þeim sem þar eru nefndir. Best gæti ég trúað, að Eiríkur rauði hafi
ekki verið ættfærður í frumgerð þessa kafla, fremur en aðrir sem þar
koma við sögu, en síðar meir hafi Landnámuhöfundur, væntanlega á
13. öld, ráðið bót þar á, en hafi enga ritaða heimild haft um ætt Eiríks
rauða aðra en þá, að hann hafi verið Þorvaldsson frá Dröngum, og hafi
talið að þar væri átt við Þorvald landnámsmann á Dröngum á Horn-
ströndum, sem væntanlega hefur verið nefndur í elstu gerðum Land-
námu og e. t. v. talinn afkomandi Öxna-Þóris. En önnur skýring kemur
einnig til greina. Hugsanlegt er að það sé sjálfur höfundur Eiríks sögu
rauða sem hefur gert söguhetju sína að syni landnámsmanns og hafi þá
farið eins að og þegar hann ættfærði Þorbjörn Vífilsson. Ef svo er mætti
ætla, að hann hafi fengið kaflann um vígaferli Eiríks rauða í Haukadal
og deilur hans við Þorgestlinga frá kunnugum manni við Breiðafjörð
þegar hann var að draga að sér efni sögunnar.