Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1963, Side 16
14
hafa verið til greina á fjárlagafrumvarpinu allar fjárlagaóskir
Háskólans. Veit ég ekki til þess, að slíkt hafi nokkru sinni
gerzt og a. m. k. ekki síðustu ár eða áratugi. Marka þessar
ánægjulegu undirtektir hæstvirtrar rikisstjórnar tímamót, og
ekki sízt þegar haft er í huga, að í fjárlagaáætlun Háskólans
þessu sinni voru sjö nýir liðir og miklu fleiri en nokkru sinni
áður. Þess er einnig að geta, að á fjárlögum ársins 1962 var
tekin upp fjárveiting til Háskólabókasafns, 150.000 krónur, en
slík fjárveiting til bókakaupa hefir ekki verið á fjárlögum
síðan 1920, þótt oft hafi verið leitað eftir henni. Nú er þessi
fjárveiting hækkuð í 250.000 kr. samkvæmt ósk Háskólans,
og er hér um mjög merka stefnubreytingu að ræða. Er höfuð-
nauðsyn á því að efla vísindalegan bókakost landsmanna. 1
því efni þarf raunar við stórátak, og auk þess er mjög brýnt
að auka starfslið Háskólabókasafns hið allra fyrsta.
m.
Rannsóknarstarfsemi Háskólans fer fram bæði í rannsókn-
arstofnunum og utan þeirra, enda er Háskólinn í heild sinni
rannsóknarstöð. Þykir vel hæfa að víkja á þessum vettvangi
lítillega að starfsemi nokkurra rannsóknarstofnana.
Islenzk orðabók og samning hennar er eitt markverðasta
rannsóknarverkefni, er Háskólinn hefir beitt sér fyrir. Hefir
verið unnið að því verkefni síðan 1944. Hafa nú verið orð-
tekin flest óprentuð orðabókarhandrit, sem hér eru á Lands-
bókasafni, svo og prentuð rit íslenzk frá upphafi prentaldar
(1540) allt til 1850. Frá síðari tímum hafa verið orðtekin
nokkur höfuðrit frá síðari helmingi 19. aldar, þ. á m. talsvert
af tímaritum og blöðum, og enn fremur nokkuð af ritum frá
þessari öld. Vinnuáætlun hefir verið gerð um úrval af ritum
frá lokum 19. aldar allt til vorra daga, sem ástæða þykir til
að orðtaka, og er nú starfað samkv. henni. Þrír fastir starfs-
menn vinna að þessu verkefni. Á fjárlagafrumvarpi hefir feng-
izt 100.000 króna viðbótarfjárveiting til orðabókarinnar, og
standa vonir til, að unnt sé að auka starfslið. Er þess mikil
þörf, þar sem geysimikil verkefni eru hér óleyst.