Hugur - 01.01.2000, Page 84
82
Ólafur Páll Jónsson
HUGUR
nægi tilteknum félagslegum mælikvörðum á það hvort menn meini
samlagningu með „plús.“ Og þar sem þessi mælikvarðar eru ekki
sannkjör setninga á borð við „Jón meinar samlagningu með „plús“,“
þá getum við játað setningunni með fullum rétti án þess að hafa hlið-
sjón af þeim staðreyndum sem gætu gert setninguna sanna.
VI Lausn Kripkensteins
Samkvæmt þeirri nýju mynd sem ég hef verið að eigna Kripkenstein
hafa setningar bæði sannkjör og sagnkjör. Sannkjörin eru túlkandi
fyrir þessar setningar á þann hátt að þau tiltaka undir hvaða kringum-
stæðum setningarnar eru sannar. Sagnkjörin eru, á hinn bóginn,
kringumstæður sem réttlæta að slíkum staðhæfingum sé játað eða
neitað og eru ekki skilgreinandi fyrir merkingu þeirra.
En hvað eru þessi sagnkjör eiginlega? Það sem réttlætir þá stað-
hæfingu að Jón meini samlagningu með „plús“ er ekki nein staðreynd
um huga Jóns-það er ekki nein ætlun hans, tilhneiging eða hugar-
mynd-heldur sú staðreynd að til þessa hefur Jón brugðist við samlagn-
ingardæmum á þann hátt sem fullnægir tilteknum félagslegum mæli-
kvörðum á það hvort maður meini samlagningu frekar en eitthvað
annað með orðinu, „plús.“ Þær staðreyndir sem réttlæta staðhæfinguna
eru ekki þær staðreyndir sem gera hana sanna, sé hún yfirleitt sönn.
Setningin „Jón meinar samlagningu með „plús““ er ekki sömu merk-
ingar og sú staðhæfing að til þessa hafi Jón brugðist við samlagn-
ingardæmum með þessum eða hinum hættinum. Aukinheldur þá úti-
loka þessar staðreyndir ekki að Jón meini eitthvað allt annað með
„plús,“ hann gæti vel brugðist við næsta samlagningardæmi með ein-
hverjum hætti sem við skildum ekki hið minnsta í og haldið þó fast
við að hann væri bara að fylgja sömu reglu og fyrr.
Uppistaðan í hinum nýja vefnaði Kripkes og Wittgensteins er ekki
hugmyndaheimur einstaklinga eða þekking þeirra á eiginleikum né
heldur skilningur þeiiTa á reglum, heldur sameiginlegur lífsmáti. Þessi
lífsháttur verður því ekki útskýrður með vísan til skilnings einstakl-
inga-við getum ekki sagt að við séum öll sammála um að „125“ sé
rétta svarið við „68 + 57“ vegna þess að við skiljum samlagningar-
regluna sama skilningi. Við skiljum hana sama skilningi vegna þess
að við höfum sama lífshátt, og hluti af því að hafa sama lífshátt er að
vera sammála um einföld samlagningardæmi. Kripke skrifar: