Hugur - 01.01.2000, Page 150
148
Eyjólfur Kjalav Emilsson
HUGUR
raun og veru rafstraumur sem skýst úr skýi niður í jörð. Með þessu er
ekki verið að segja að eldingar séu ekki til, heldur skýra hvað þær
eiginlega eru. Margir efnishyggjumenn hafa haldið að eins mætti fara
með sálina og sálarlífið, og hafa sætt áköfum og að mínu viti oft
sannfærandi andmælum frá kollegum sínum fyrir.15 Hin mynd efnis-
hyggjunnar vill einfaldlega segja að sálarlífsfyrirbæri séu ekki til. Fyr-
ir þeim muni fara eins og draugum, galdranornum, flogistoni, og eter.
Þessir hlutir eru ekki og hafa aldrei verið til, þótt menn hafi að vísu
haldið það.16 Óþarft er að eyða fleiri orðum að efnishyggju hér í hvorri
myndinni sem er: Það er alveg ljóst að þegar Brynjólfur segir að andi
og efni séu eitt, á hann við hvoruga þeirra. Hvað á hann þá við?
Önnur hugmynd um samband sálar og líkama er að þetta séu tveir
sjálfstæðir en samstilltir veruleikar: „Parallelismi“ er þetta kallað.
Brynjólfur hafnar slíkri skoðun berum orðum í Lögmálum og frelsi,'1
og tal hans um einingu og einn veruleika kemur líka illa heim og
saman við þetta. Einn kostur enn er það sem kallað er „epipheno-
menalismi“, „fylgifyrirbæristrú“ væri skiljanlegt en ekki sérlega fall-
egt íslenskt orð yfir þetta: Vitundin er þá einhvers konar afurð efnisins
sem í rauninni breytir engu um gang mála. Orsakakeðjan sem máli
skiptir fer öll fram í efninu, en vitundarfyrirbæri verða til sem óvirk
fylgifyrirbæri. Brynjólfi er líka í mun að hafna slíkri skoðun: Vitund-
in skiptir vissulega máli, segir hann.18 En eins ég kem að á eftir, telur
hann jafnframt eins og fylgifyrirbærissinnar að hin efnislegu ferli hafi
að geyma fullnægjandi ástæður alls sem gerist, þannig að sú spurning
hlýtur að vakna um skoðun Brynjólfs sjálfs hvaða hlutverki viljinn og
vitundin geti gegnt.
15 Sjá t.d. Thomas Nagel, „What Is it Like to Be a Bat?“ í ritgerðasafninu Mortal
Questions (Cambridge: Cambridge University Press 1979), bls.165-180 og Saul
Kripke, Naming and Necessity (Cambridge, Mass.: Harvard University Press
1980). Upphaflega hjá D. Davidson og G. Harman, Tlie Semantics of Natural
Language (Dordrecht: Kluwer 2. útg. 1977).
16 Sjá t.d. Richard Rorty, „Mind-Body Identity, Privacy, and Categories" og „In
Defense of Eliminative Materialism", hjá D. Rosenthal, sama verk, bls. 174-199
og 223-231, og Paul M. Churchland, Matter and Consciousness, endursk. útg.
(Cambridge, Mass: MIT Press, 1988). Skarpa gagnrýni á kenningar af þessari
gerð má sjá hjá Lynn Rudder Baker, Saving Belief: A Critique of Pliysicalism
(Princeton, N.J.: Princeton University Press 1987).
1 7 Lögmál ogfrelsi, bls. 104.
1 8 Lögmál og frelsi, bls. 94-95.