Samtíðin - 01.07.1943, Page 7
SAMTiÐIN
Júlí 1943 Nr. 94 10. árg., 6. hefti
ÚTGEFANDI: SIGURÐUR SIÍÚLASON MAGISTER. UM ÚTGÁFUNA SJÁ BLS. 32.
SNEMMA á þessu ári kom út á forlagi
Búnaðarfélags íslands lítil bók, sem
að mínum dómi á skilið, að hún sé lesin
af miklum þorra íslendinga, en þó fyrst
og fremst af sveitafólki og öllum þeim,
sem unna sveitum Iands vors og hafa
samúð með þeim hluta þjóðarinnar, er þar
heyir lífsbaráttu sína. Þessi bók lætur
ekki mikið yfir sér. Hún svignar ekki af
lærdómi, eins og rit hinna mestu lær-
dómsmanna vorra, og hún á ekkert skylt
við reyfara, sem seldir eru í fögrum um-
búðum og við háu verði, en eru lítið ann-
að en tímaþjófar. Hún er alveg einstök
í sinni röð og svo undursamlega geðþekk
aflestrar, að enginn vandi er að lesa hana
hvíldarlaust frá upphafi til enda. Þessi bók
er eftir merkan bónda, Hákon Finnsson
í Borgum í Hornafirði, og nefnist S a g a
smábýlis 192 0—1 9 4 0, en formála
að henni hefur ritað Ragnar Ásgeirsson
búnaðarráðunautur. Nokkrar myndir
fylg-ja.
í þessari litlu bók segir Hákon í Borg-
um frá framkvæmdum sínum á jörð sinni
um 20 ára skeið, og skiptir hann bókinni
í þessa kafla: 1. Forsaga og tildrög, 2.
Borgir 1920, 3. Ræktunin, 4. Vegagerð, 5.
Byggingar, 6. Hugleiðingar, 7. Eftirmáli
höfundar.
Borgir eru lítil jörð, ekki nema 4,74 hndr.
að eldra mati, en við þessa jörð hefur
Hákon Finnsson tekið tryggð, sem er mjög
til fyrirmyndar, og trú hans á mátt hinn-
ar íslenzku moldar er í ætt við trú þeirra
Eggerts Ólafssonar og síra Bjarnar Hall-
dórssonar í Sauðlauksdal. Hann fer ung-
ur utan og kynnist búskaparháttum í Dan-
mörku, sækir sér þangað hugsjónir og við-
horf, sem löngum hafa reynzt Islending-
um drjúg, því að utanfarir hafa jafnan
þótt vænlegar til þroska, einkum ef menn
hafa borið gæfu til annars og betra en
þess, að gleypa erlendis ýmsar öfgar, sem
þeir hafa síðan selt hér upp ómeltum
framan í landa sína. — Borgir hafa orð-
ið Hákoni Finnssyni lítið konungsríki, og
þann garð hefur honum tekizt furðu vel
að gera frægan. í sögu jarðarinnar segir
hann frá öllum sínum margvíslegu fram-
kvæmdum á næsta mörgum sviðum. Á ein-
um stað kemst hann þannig að orði: „Eitt
mitt fyrsta verk var því að smíða mér
nýja s v i p u — þá fyrstu bjó ég til um
haustið 1912. — Þetta með svipuna er
svo að skilja, að ég bjó til smákver, sem
ég skrifaði í allt, sem gera þurfti á hverj-
um tíma. Þessi smákver kalla ég verk-
efnabækur. í þær skrifa ég allt, sem er
ógjört, ekki síður smátt en stórt, svo að
ekki lenti í undandrætti og vanhirðu, og
merki við jafnóðum og lokið er. Síðustu
„svipuna“ hef ég alltaf á skrifborðinu.
Nú, 1939, eru þessar smábækur orðnar 23
í 2 knippum og verkefnin um 18000, þau
eru þetta 6—800 á ári.“
Saga þessa smábýlis er sagan um trúna
á land vort, þegar hún er sterk og menn
bera gæfu til að sýna hana í verki. Ekki
hugsa ég, að það væri allra að fara í föt
bóndans í Borgum, en margt geta menn
af honum lært, m. a. það, að heimta ekki
allt af öðrum og hitt, að gera nokkru
meiri kröfur til sjálfra sín en margir
gera um þessar mundir.
VEGNA rúmleysis í þessu hefti varð því
ekki við komið að birta framhald af
greinaflokkinum: Frá leiksvi ðinu
hér. Næstu greinina í þeim flokki skrif-
ar frú Þóra Borg Einarsson, og munu
margar myndir fylgja. Greinar leikaranna
hér í Samtíðinni hafa verið lesnar með
mikilli ánægju af mörgum, og munu þær
reynast allmerkar heimildir, er fram líða
stundir. Munið, að næsta hefti Samtíðar-
innar kemur 1. sept. Margar merkar grein-
ar og snjallar sögur bíða næstu hefta.