Morgunn - 01.06.1943, Page 47
MORGUNN
41
íslenzk dulsjá.
Eftir ýmsum heimildum.
GÖMUL DRAUMVÍSA 0. FL.
Einhver merkasti prestur sinnar tíðar á Islandi var
séra Hjalti Þorsteinsson, prófastur í Vatnsfirði, er hélt
þann stað í 50 ár og andaðist árið 1754, nær 89 ára að
aldri. Hann var gáfumaður mikill, mannkosta- og fræði-
maður, en kunnastur verður hann í sögu landsins sem mál-
ari, og má raunar telja hann fyrsta íslenzka mannamynda-
málara þjóðarinnar, sem nú er vitað um. Þannig nefnir
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hann fyrstan í riti
sínu, íslenzkir listamenn. Af málverkum séra Hjalta munu
nú kunnastar myndir hans í Þjóðminjasafninu af séra
Hallgrími Péturssyni, Þórði Þorlákssyni Skálholtsbiskupi
og konu hans, Guðríði Gísladóttur, og Markúsi Bergssyni
sýslumanni í Ögri. Enn er til skorinn og málaður predik-
unarstóll úr Vatnsfjarðarkirkju, afar skrautlegur og
merkilegur, sem Matthías Þórðarson telur vafalaust mál-
aðan og útskorinn af séra Hjalta.
Sjálfur hafði séra Hjalti smíðað kirkjuna í Vatnsfirði,
á yngri árum sínum, og vandað mjög til smíðinnar, en
síðan málað hana að innan, svo að snilldarlegt þótti, og
má telja víst, að engin önnur kirkja á íslandi hafi verið
með annarri eins prýði gerð á þeirri tíð, enda bendir saga
sú, sem hér fer á eftir, til þess, að ekki hafi honum látn-
um staðið á sama um þetta verk sitt.
Sagan segir, að nokkuru eftir dauða séra Hjalta hafi
verið gert við kirkjuna og myndirnar skemmdar, en að þá
hafi einn af þeim, sem að því óhappaverki unnu, dreymt
draum. Honum þótti séra Hjalti koma til sín, líklega nokk-
uð gustmikill, og kveða vísu þessa:
Lífs hjá Guði lifi ég enn,
leystur af öllum pínum.