Morgunn - 01.06.1943, Page 90
84
MORGUNN
fyrir sálarrannsóknunum eftir kynni sín af enskum miðlum, og
hafði fengið tímaritið til þess að heita 2500 dollara verðlaunum
þeim miðli, sem gæti sýnt sönn líkamleg fyrirbrigði í viðurvist rann-
sóknarnefndar, sem tímaritið sjálft skipaði. í nefndinni voru fjórir
viðurkenndir vísindamenn, en síðar var bætt í nefndina sjónhverf-
ingamanninum kunna, Houdini, sem sjálfur hafði beiðzt þess að fá
sæti í henni. Vitanlega var Houdini ekki skipaður í nefndina sem
vísindamaður, heldur vegna þess, að hann var frægur sjónhverf-
ingamaður, en bæði hann og margir aðrir fullyrtu, að miðlarnir
gætu engin önnur fyrirbrigði sýnt en þau, sem unnt væri að sýna í
trúðleikahúsum, þar sem slungnir sjónhverfingamenn væru að verki.
Hin fræga læknisfrú í Boston gaf sig nú undir rannsókn þessarar
nefndar, og þó ekki vegna dollaranna, sem í boði voru, því að hún
var auðug kona, sem árlega fórnaði stórfé með sínum ágæta manni
í þágu sálarrannsóknanna.
í VI. árg. MORGUNS segir séra Haraldur Níelsson frá tilraun-
um nefndarinnar, og farast honum þar m. a. orð á þessa leið:
„Næsta kvöld var síðari tilraunin með miðilinn í svarta stokknum.
(Margery var lokuð í trékassa þannig, að að eins hendur og höfuð
stóðu út úr kassanum. Með þessu átti að tryggja, að hún gæti ekki
verið valdandi að þeim fyrirbrigðum, sem í tilraunaherberginu
kynnu að gerast.) Þegar frúin var komin í stokkinn, og að því var
komið að loka honum, var sem hún yrði fyrir innblæstri (fengi hug-
boð) og beiddist hún þess, að stokkurinn væri rannsakaður. En
Houdini svaraði: „Ó, nei, það er óþarfi“. Nú er það öllum augljóst,
að ef fi'úin hefði flutt eitthvert áhald með sér inn í stokkinn, þá
hefði hún ekki beiðzt þess sérstaklega, að hann yrði rannsakaður.
Þegar Houdini hafði lokað stokknum utan um hana, sáu fundar-
menn, að hann þreifaði með hægri hendi upp eftir vinstra handlegg
miðilsins, unz höndin var komin inn úr hliðargati stokksins. Til
hvers gerði hann þetta? Til þess sýndist engin skynsamleg ástæða.
Rétt í sama bili heyrðist til „Walters" (hins ósýnilega stjórnanda
miðilsins) : „Hvers vegna gerðuð þér þetta, Houdini? Þér . . . það
er kvarði í stokknum, óumræðilegi dóninn yðar!“ En Houdini og
aðstoðarmaður hans höfðu útbúið stokkinn. Enginn annar snert
hann.
Þá kallaði Houdini upp: „Ó, þetta er skelfilegt! Ég veit ekkert
um neinn kvarða. Hvers vegna ætti ég að aðhafast slikt?“ Eftir
stutt tal voru ljósin kveikt. Hélt Houdini þá höfðinu milli handanna,
bar sig aumlega og mælti: „Mér er illt, ég er ekki með sjálfum mér“.
Nú var stokkurinn tekinn og rannsakaður. Þar fannst 2 feta kvarði,
samanlagður. Þá kallaði Houdini: „Ég er fús að gleyma þessu, ef
þér viljið gleyma því“.