Sameiningin - 01.03.1953, Blaðsíða 16
14
Sameiningin
sóttu að honum. Og ekki voru það aðeins hinar yfirstignu
freistingar, sem risu þá upp aftur; einnig hinar, sem hann
ekki hafði sigrazt á, með óendanlega víðtækum afleiðingum,
komu í lifandi myndum fram fyrir sálarsjón hans, og hann
bliknaði upp.
f hræðslu sinni út af valdi hins illa í hans eigin lífi og
meðan hann nærri því máttvana var að berjast við hið tæl-
andi og ógnandi myrkravald, sem risið hafði upp að nýju,
missti hann hugsanaþráðinn, sem hann hafði ætlað sér að
rekja allt að fyrstu uppsprettu hins vonda. Allar hinar
einstöku myndir þess, sem freistað hefir mannssálnanna og
truflað þær, rann fyrir augum anda hans saman og varð að
einni einustu skelfingar-veru, er lagði sig með óákveðnu
ummáli eins og þokuslæða yfir gjörvallan heiminn. f þoku-
slæðu þeirri hinni takmarkalausu sá hann vonbrigða-blæju
þá, er faðir lyginnar, höfðingi þessa heims, felur sig í.
Hann sá ekki aðeins sjálfan sig, heldur og allan hinn skap-
aða heim — enn og allt til síðustu tíðar — liggjandi eins og
greftraðan djúpt niðri í hinu illa, — og honum þótti hinn
mikli óvinur sálnanna grípa í sig og hrífa sig út fyrir endi-
mörk jarðarinnar og alla stjörnuhimnana, til þess að sýna
honum vald hins illa. Hann hélt þó enn í hendinni á penn-
anum með svarta dropanum í. Kenndi hann nú alls hins
andlega afls síns og skoraði með hinum sterkustu orðum á
hinn illa anda að hverfa aftur þaðan er hann væri kominn
og fela sig í dropanum, sem vígður var til hugsunar hans.
Aflið, sem hélt honum yfir hinu óendanlega úthafi heims-
víðáttunnar, sýndist nú renna saman og hverfa inn í upp-
sprettu sína, frumdepil möguleika síns í blekdropanum
litla svarta, sem titrandi loddi við pennasnáp særandans.
Dropinn féll niður, en gjörvöll hin takmarkalausa heims-
víðátta varð af því svört fyrir augum mannsins, eins og
svartasta grafarhvelfing. Penninn var dottinn úr hendi
hans, og í óskaplegri skelfing steypti hann sér sjálfur út í
mytkrið óendanlega.
„Miskunnsami guð og frelsari!“ — hrópaði hann og
þrýsti að brjósti sér krossmarkinu, sem hann hafði ósjálfrátt
gripið þaðan, er það stóð við lampann hans, áður en hann
varð frá sér numinn í hinni svimandi sýn. Það var nú, að
honum virtist, eins og líkneskið af frelsaranum lifnaði við í
hendi hans og horfði á hann með tár hins eilífa, almáttuga
kærleika í augunum.