Árdís - 01.01.1949, Page 68
66
Á R D í S
glatt á hjalla, þegar unglingarnir úr nágrenninu mættust þar til
að skemta sér. Hún var ávalt með í þeim hóp, ef bústarfsannir
leyfðu. Bar fundum okkar sjaldan saman á seinni árum, svo ekki
bærist samtalið að „Bakka“. Þaðan voru hennar sælustu endur-
minningar.
Kristjana sáluga var yngsta móðirin, sem settist að á bökkum
Islendingafljóts í Árdalsbyggð 1901. Kom hún með 4 ung börn,
og hjartað fullt af þrá eftir bjartri framtíð fyrir börn sín í þessu
ónumda landi. Munu sum sporin hafa verið ærið þung, en samt
bar hún það alt með rósemi, hógværð og bæn til Guðs um kraft
til þess að bera þær raunir, sem hún þurfti að líða. Mun sá kraftur
hafa stutt foreldra okkar allra í landnámi þessarar farsælu byggð-
ar. Virðist það vel viðeigandi, að Kristjönu var leyft að vera sú
síðasta af þessum landnemahóp að hverfa heim.
Með henni er fyrsta kynslóð íslenzkra landnema í Árborg fall-
in í valinn, önnur kynslóð farin að eldast, sú þriðja tekin til starfa
og sú fjórða að vaxa upp. Það fennir í sporin, sem fyrst voru geng-
in, en minningarnar lifa.
Síðustu ár hennar var hún blind, en auðlegð sálar hennar
gjörði bjart í kringum hana. Hún naut ástúðar og virðingar barna
og barnabarna sinna í ríkum mæli. Við, hennar mörgu vinir, geym-
um endurminningar um samstarf og þökkum fyrir hennar lausn,
því dagurinn var orðinn langur og hvíldin kærkomin.
Blessuð sé minning þín, kæra vina.
ANDREAJOHNSON
☆ ☆ ☆ ☆