Morgunblaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 27.08.2009, Blaðsíða 30
30 Minningar MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. ÁGÚST 2009 Elsku afi, þá er þinn tími liðinn eftir stutt en erfið veikindi. Það hefur verið erfitt að vera svona langt í burtu frá þér meðan á veikindum þínum stóð. En alltaf var jafn gott að geta spjallað við þig í síma og fylgst þannig með líðan þinni frá degi til dags. Þú sagðir mér á afmælisdaginn að þínu takmarki væri náð, þú vildir ná 84 ára aldrinum og vera heima yfir afmælið. Eftir það símtal ákvað ég að gera mér sérferð í bæ- inn til að hitta þig. Við áttum góða stund saman og viku seinna fór ég aftur í bæinn og hitti þig í síðasta sinn á spítalanum. Þegar við kvöddumst vissum við báðir að við vorum að kveðjast í síðasta sinn og var mjög erfitt að fara frá þér þann dag. Við vorum svo nánir og góðir vinir og brölluðum oft mikið sam- an. Ég kom oft með þér að opna hina ýmsu lása og fórst þú létt í gegnum hvaða skrá sem var. Þú hafðir gaman af því að segja frá því sem gerðist á lögreglustöðinni þar sem prakkaraskapur þinn kom oft við sögu. Alltaf varstu jafn sak- laus af þeim hrekkjum sem vakta- félagar þínir lentu í en sökin var samt oftast þín. Það var alltaf gaman og gott að koma í kakó til ykkar ömmu bæði á Dunhagann og í Suðurhvamminn. Ég kom mjög oft til ykkar og fannst gott að eyða kvöldstund með ykkur og spjalla um daginn og veginn. Þú hafðir dá- læti á að gera hlutina á annan hátt en ömmu fannst rétt og þar komu hrekkirnir upp aftur. Við gerðum í því að snúa pönnukökunum vit- laust sem amma bakaði og hún sagði okkur alltaf að snúa réttu hliðinni upp. Hún tók okkur svo í smá fræðslu um pönnukökur og muninn á hliðum pönnukökunnar. Við höfðum mikið gaman af þessu og vorum mjög samstiga í útúr- snúningum og snerum öllu upp í smá glens og hlógum mikið. Ég kom oft með bílana mína inn í skúr til þín og þú hjálpaðir mér oft að bóna og dytta að bílunum. Sjálfur varstu oft með bónbrúsann á lofti og þínir bílar voru líka eins og nýir þegar þú seldir þá, þrátt fyrir að vera keyrðir á annað hundrað þús- und. Þú varst mikill dundari og allt sem þú tókst þér fyrir hendur var vel gert. Alla tíð varstu hjálpfús og Karl Bóasson ✝ Karl Bóassonfæddist í Njarðvík í Borgarfirði eystra 9. júlí 1925. Hann lést á líknardeild Landa- kotsspítala laug- ardaginn 25. júlí sl. og fór útför hans fram frá Neskirkju 14. ágúst. vildir öllum gera greiða. Hvort sem þurfti að mála, flísa- leggja, teppaleggja eða hvað sem okkur vantaði, þá varst þú alltaf reiðubúinn að leggja okkur lið. Þegar ég og Linda fluttum norður á Hóla þá vildir þú endilega fá að koma norður til að hjálpa okkur að flytja. Þú komst nokkrum sinn- um til okkar norður og áttum við þar alltaf mjög ánægjulegar stundir. Börnin mín nutu þeirra stunda sérstaklega vel því þeim leið alltaf vel í kringum þig og þú sýndir þeim mikla vænt- umþykju. Afi, það er erfitt að kveðja þig eftir þessi stuttu veikindi en þinn tími hjá okkur er liðinn. Lykla- Pétur hefur kallað á þig til nýrra krefjandi verkefna til að opna gullna hliðið. Ég, Linda Hrönn, Bjarni Dagur, Sindri Gunnar, Aníta Sóley og Elsa Margrét sökn- um þín sárt og munt þú lifa áfram í okkar minningum. Ég mun segja mínum börnum meira frá þér svo að þau yngstu munu varðveita ljúf- ar minningar um þig um ókomna tíð. Hvíldu í friði elsku besti afi. Þórður Ingi Bjarnason. Það er erfitt að horfast í augu við það að þú sért ekki hjá okkur lengur en ég veit að þú ert sáttur. Minningarnar um þig eru til og það eru þær sem munu lifa með okkur. Einhvern veginn man ég varla eftir þér nema að vera að gera eitt- hvað. Ef það var eitthvað verk að vinna þá varst þú alltaf fyrstur á staðinn með pensilinn eða hvað sem vantaði til að klára verkið. Þegar ég og Brynja fluttum í okk- ar fyrstu íbúð varst þú mættur til að flísaleggja, og til að fullkomna verkið þá mættir þú með nýja sög sem þú hafðir keypt á leiðinni til okkar. Einnig eru mér minnisstæð- ar flugferðirnar okkar sem við fór- um saman þegar ég skutlaði þér til Jóns vinar þíns og til baka aftur viku seinna. Það var ævintýri sem ég minnist oft á. Minningarnar eru miklu fleiri en ég get talið upp hér en það er samt ekki hægt að hætta án þess að minnast á Lödu-tímabilið mitt. Þá var bílskúrinn þinn alltaf opinn og við brösuðum við að reyna að koma bílunum saman, svo ég gæti a.m.k. keyrt aðeins lengur á þeim. Ef illa gekk þá beið amma með heitt kakó og kringlur og þá vorum við til- búnir í allt. Nú er komið að leiðarlokum og kveðjustund. Ég mun alltaf muna eftir síðasta deginum okkar saman uppi á spítala með Brynju og Bjarti þegar Bjartur kom til þín og kyssti þig bless bæði á höndina og munninn. Þú kysstir okkur og hélst í hendurnar á okkur fastar og lengur en vanalega, það var erfitt að kveðja þig. Takk fyrir allt, elsku Kalli afi. Hinrik Örn Bjarnason. Langafi minn, hann Karl Bóas- son, var skírður Thomas Charles Bóasson. Hann fæddist 9. júlí árið 1925 á bænum Borg í Njarðvík í Borgarfirði eystra á Austurlandi. Hann starfaði sem lögreglumaður í rúm 40 ár. Með lögreglustörfum var hann ökukennari auk þess sem hann keyrði leigubíl á frívöktum og er því ekki hægt að segja að hann hafi verið óduglegur maður. Langafi var fyrstur manna að bjóða upp á lásaþjónustu á Fróni. Þeir skussar og annað fólk sem læstu íbúðum sínum eða bílum nutu góðs af því hversu klár hann var að opna hvaða lás sem var. Hann var mikill dundari og fyrstu græjurnar hans í lásaopnun voru gömlu prjónarnir hennar lang- ömmu sem hann slípaði niður og bjó til lyklaför. Langafi dútlaði við ýmislegt, meðal annars fluguhnýt- ingar og hann bjó til öll lögreglu- belti sem lögreglan í Reykjavík notaði til fjölda ára. Hann var al- veg laus við hroka og lét ekki vita af afrekum sínum. Dæmi um það er að eitt sinn las langamma í Morgunblaðinu að langafi hafi unn- ið skotkeppni lögreglunnar og var þetta þriðja árið í röð sem hann sigraði þessa keppni og hún vissi ekki að hann væri þjálfaður í vopnaburði og hvað þá að hann hefði starfað við sérsveit lögregl- unnar. Langafi var mikill hrekkjalómur og naut þess að geta litið á spaugi- legu hliðina á daglegu lífi. Vakt- félagar hans í lögreglunni fengu ansi oft að kenna á því. Eitt sinn var hann kallaður í útkall þar sem tilkynnt var til lögreglunnar að grunur væri um að lík væri í fjör- unni í Viðey. Langafi fór ásamt öðrum lögreglumanni á bát út í Viðey. Þegar þangað var komið fundu þeir líkið og komu því fyrir í líkpoka og um borð í bátinn. Langafi sá að líkið var þannig á sig komið að hann taldi réttast að lög- regluvarðstjóri myndi líta á líkið. Þegar langafi var búinn að koma líkinu fyrir í lögreglubílnum fóru þeir beint upp á lögreglustöð og kölluðu á varðstjóra og báðu hann að koma út í port og skoða líkið. Varðstjórinn varð hissa á þessum vinnubrögðum en fór til þeirra. Þegar varðstjórinn opnaði líkpok- ann sá hann líkið. Það var selur. Selurinn hafði drepist í fjörunni í Viðey. Varðstjórinn varð fölur þeg- ar hann sá þetta en féll þó ekki í yfirlið þar sem hann áttaði sig á því að Karl Bóasson hefði þarna átt hlut að máli og þegar svo var mátti búast við öllu. Svona voru margar vaktir hjá langafa og eru til margar prakk- arasögur af honum í lögreglustarfi. Langafi missti aldrei dag úr vinnu vegna veikinda og var alla tíð heilsuhraustur. En síðasta árið var honum erfitt vegna veikinda. En nú líður honum betur og hefur fengið hvíld. Hvíldu í friði, afi. Bjarni Dagur Þórðarson Þú fannst, að það er gæfa lýðs og lands að leita guðs og rækta akra hans. Í auðmýkt naust þú anda þeirra laga, sem öllum vilja skapa góða daga. Í dagsverki og þökk hins þreytta manns býr þjóðarinnar heill – og ævi- saga. (Davíð Stef.) Kalli svili minn er genginn eftir harða baráttu við krabbamein síð- ustu mánuði, baráttu sem hann háði af slíku æðruleysi að mann setur eiginlega hljóðan. Aðaláhyggjuefni hans var ekki eigin heilsa, heldur að hann yrði ekki til staðar fyrir Dóru sína, en hún dvelur á Hrafnistu. Auðvitað vissi hann að hún ætti sterkan bak- hjarl í fjölskyldu þeirra en hann vildi nú helst gera hlutina sjálfur. Lengst af áttu Dóra og Kalli heimili á Dunhaganum og þar bjuggu þau þegar ég kom fyrst til þeirra með Garðari, litla bróður hennar Dóru. Mér var strax tekið af hlýju og einlægni, og þó síðan séu liðin mörg ár eins og segir í ágætu kvæði eða ein 46 þá hefur aldrei borið skugga á okkar sam- skipti. Milli okkar Kalla ríkti gagn- kvæm væntumþykja. Hann var mér afskaplega góður, kenndi mér á bíl og bæði ég hann um aðstoð stóð ekki á því enda einstaklega bóngóður og nei ekki til í hans orðaforða. Hann var sérlega barn- góður og börnin okkar Garðars minnast hans með hlýju og hve viljugur hann var að leika við þau. Við Kalli vorum bæði fædd og uppalin í sveit austur á fjörðum, hann á Borgarfirði, ég á Norðfirði. Við gátum endalaust rætt um æskustöðvarnar, mannlífið þar, fjöllin okkar háu og tignarlegu, ekki síst Dyrfjöllin sem standa vörð um Borgarfjörð. Kalli var mikill náttúruunnandi, hann hafði yndi af fuglaskoðun og ekki síður að vera með stöngina sína við Þingvallavatn. Flugurnar hnýtti hann sjálfur svo listilega vel, enda bæði listrænn og sérlega vandvirkur. Kalli var alla ævi heilsugóður og það má heita sérstakt að ná 84 ára aldri án þess að hafa á spítala kom- ið. Einungis tvær síðustu vikurnar dvaldi hann á Landakoti þar sem hann lést 25. júlí. Að leiðarlokum viljum við Garð- ar, börnin okkar og fjölskyldur þeirra þakka Kalla samfylgdina og allt það sem hann var okkur. Dóru okkar, börnum þeirra og fjölskyldunni allri vottum við okk- ar innilegustu samúð. Hvíl í friði. Hulda. Mig langar hér með fáum orðum að minnast Karls Bóassonar eða Kalla Bó eins og við kölluðum hann alltaf. Kynni mín af Kalla hófust fyrst fyrir rúmlega 40 árum er hann kenndi móður minni á bíl, en Kalli starfrækti ökukennslu til margra ára. Kalli var frábær öku- kennari – hafði þá lagni, þolinmæði og róandi áhrif sem nauðsynlegt er að hafa við að leiðbeina verðandi ökumönnum. Alla vega var móðir mín svo ánægð með kennsluna að hún vísaði mörgum úr minni fjöl- skyldu á Kalla til að læra á bíl. Óhætt er að segja að þessi kynni foreldra minna af Kalla hafi varað ævilangt, því leiðir okkar áttu eftir að liggja aftur saman. Þegar ég nálgaðist bílprófsaldurinn þá kom eiginlega ekkert til greina annað en að ég lærði á bíl hjá Kalla – en því miður hafði Kalli tekið sér frí frá ökukennslunni á þeim tíma en samt tók hann mig í nokkra tíma og vísaði mér svo á annan öku- kennara til að ljúka ökuprófinu. Þessi fyrstu kynni mín af Kalla voru bara byrjunin, því þegar ég kynntist svo konunni minni, henni Björgu, kom í ljós að hún var bróð- urdóttir hans – þetta er skemmti- lega tilviljun. Á þessari stundu veltir maður því fyrir sér svona mörgum árum síðar hvað tilvilj- anirnar í lífinu geta verið ánægju- legar – að hafa kynnst honum og svo nokkrum árum síðar tengst inn í fjölskylduna. Kalli hafði mikinn áhuga á veiði og ég minnist nokk- urra veiðiferða sem við fórum sam- an í með Munda ásamt nokkrum fleiri félögum í Veiðivötn og Rangá. Þetta voru skemmtilegar ferðir og augljóst var að hann hafði ánægju af því vera úti í náttúrunni. Áður en farið var í veiðiferð var gott að leita til Kalla til að fara yfir veiðihjólin, smyrja og þess háttar – vissara að hafa veiðigræjurnar og allt í góðu lagi. Áhugavert var að fylgjast með honum þegar hjólin voru tekin í sundur – allir þessi fínu og smáu hlutir og allt þurfti svo að fara rétt saman aftur – og ekki klikkaði það. Nú hefur þú, Kalli minn, fengið þinn frið eftir stutt veikindi og langar mig ásamt fjölskyldu minni að kveðja þig með virðingu og votta Dóru, börnum þínum og af- komendum samúð okkar. Guð blessi þig. Páll Haraldsson og fjölskylda. Að setjast niður og ætla að skrifa minn- ingargrein um Gógó, frænku mína, (en undir því nafni gekk hún alltaf meðal sinna nánustu) er næsta óraunverulegt. Á milli okkar var átta mánaða aldursmunur og má segja að við höfum næstum alist upp saman. Við vorum systradæt- ur og báðar einkabarn mæðra okk- ar. Það var lítið sem gat truflað okkar samveru. Snemma fór að bera á listrænum hæfileikum hjá Gógó og eftir gagnfræðapróf fór hún í Handíða- og myndlistarskól- Matthea J. Jónsdóttir (Gógó) ✝ Matthea JóhannaJónsdóttir (Gógó) listmálari fæddist á Þverá á Síðu í V- Skaftafellssýslu 7. júlí 1935. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 9. ágúst sl. og var jarðsungin frá Digra- neskirkju 17. ágúst. ann og lagði stund á málaralist sem átti hug hennar allan allt til hinstu stundar. Fyrstu einkasýn- inguna á verkum sín- um hélt hún í Ás- mundarsal 1967 og þá síðustu 1998 í Gerðarsafni. Auk þess tók hún þátt í nokkrum samsýning- um hér heima og er- lendis. Það sannaðist á Gógó að enginn er spámaður í sínu föð- urlandi því verk hennar virtust vekja meiri athygli erlendis, því átta sinnum fékk hún viðurkenn- ingu eða verðlaun að utan, meðal annars gullverðlaun Biennale de Lyon 1979. Ekki má gleyma þætti Stefáns, eiginmanns hennar, því hann var óþreytandi að styðja hana og stappa í hana stálinu á listabrautinni. Þrátt fyrir mikinn glæsileika var Gógó fremur hlé- dræg. Móðir hennar Matthildur var líka betri en enginn á heim- ilinu til aðstoðar við barnauppeldi og önnur heimilisstörf, því dæt- urnar urðu fjórar á skömmum tíma. Elsku Gógó mín, margt var Guði falið þegar við vorum stelpur. Við deildum rúmi í mörg sumur í sveitinni. Alltaf fórum við með kvöldbænirnar okkar og faðirvorið ásamt einni og einni persónulegri ósk sem við þóttumst vita að Guð einn væri fær um að uppfylla. Ein- um og hálfum sólarhring fyrir and- lát þitt hélt ég um fallegu höndina þína og fór með bænina okkar og faðirvorið og bað Guð um að taka á móti þér í ríki sitt. Ég vil trúa að við höfum verið saman í þessari bænastund eins og oft áður. Guð blessi þig og varðveiti. Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. (Hallgrímur Pétursson.) Þín, Margrét. Elsku amma Gógó er dáin. Þú varst yndisleg amma og það var alltaf gaman að koma til ykkar afa í heimsókn, sérstaklega af því að þá vissum við að þú værir að baka heimsins bestu pönnukökur og mikið af þeim – þannig að við gátum borðað eins margar og við vildum. Það var alltaf eitthvað sem við gátum gert heima hjá ykkur afa, gramsa í dótinu ykkar, leika við Tátu, fara út í garðinn ykkar að leika – skoða blómin og steinana sem voru í garðinum – og okkur fannst alltaf spennandi að fara í vinnustofuna þína og skoða allar myndirnar þínar sem þú hafðir málað eða þú varst að mála. Þið afi áttuð líka ótalmarga og fallega steina sem okkur fannst gaman að skoða. Þú sýndir okkur alltaf áhuga, vildir vita allt sem við vorum að gera, um skólann, áhugamálin, hvernig okkar liðum gengi í fót- boltanum, hvort við værum skotin í einhverjum og þú gafst okkur alltaf góð ráð um hvernig við gæt- um gert hluti betur en við höfðum gert. Þú sýndir okkur oft málverkin sem þú varst nýbúin að mála og leyfðir okkur stundum að horfa á þig mála. Þú varst heimsins besta listakona að okkar mati, enda var franskur listfræðingur sem vildi að þú flyttir til Frakklands til að stunda þar þína list. Þú varst mjög falleg og góð amma, hugsaðir alltaf vel um útlit- ið þitt og neglurnar þínar voru alltaf fullkomnar – ekkert gervi. Þú verður alltaf hjá okkur í hjarta okkar og í hvert skipti sem við sjáum myndirnar þínar – munum við eftir þér. Við vitum að þú saknaðir afa mikið, og huggum við okkur við að nú eruð þið búin að hittast aftur – sitjið áreiðanlega saman með góð- an kaffibolla og nýbakaðar pönnu- kökur. Sem betur fer fékk mamma pönnukökuuppskriftina þína. Við vitum að Táta er hjá ykkur, áreið- anlega búin að leggjast nokkrum sinnum á bakið að láta ykkur klóra sér. Við elskum þig og söknum þín mikið, elsku amma okkar … við biðjum að heilsa afa. Þín barnabörn, Andri, Tanja, Sindri og Erla.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.