Morgunblaðið - 02.10.2009, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 02.10.2009, Blaðsíða 30
30 Minningar MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. OKTÓBER 2009 ✝ GuðmundurBenediktsson fæddist á Hurðarbaki í Kjós 24. júlí 1918. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 20. sept- ember sl. Foreldrar hans voru Benedikt Einarsson, hagyrð- ingur, kennari og bóndi á Miðengi í Grímsnesi, og kona hans, Halldóra Jak- obína Guðmunds- dóttir. Hún lét að sér kveða í félagsmálum. Systkini Guðmundar eru Halldór, f. 21.7. 1912, og Helga, f. 18.1. 1915, og eru þau bæði látin. Guðmundur kvæntist 24. júní 1941 Ingu Bjarnadóttur, f. 5. júní 1923. Þau bjuggu í 10 ár á Miðengi og stunduðu búskap á hálfri jörð- inni, en fluttu eftir það á Selfoss. Þeirra börn eru Guðmundur, f. 1941, d. 2002, Bjarni, f. 1942, og Anna, f. 1950. Þau tóku Báru Guðnadóttur, f. 1947, í fóstur fimm ára gamla. Guðmundur og Inga skildu eftir 14 ára hjúskap. Guð- mundur kvæntist 1966 Auðbjörgu Björnsdóttur, f. 5. apríl 1923, d. 19.6. 2006. Börn Auð- bjargar eru Björn Antonsson, f. 1947, og Magnea Antons- dóttir, f. 1951. Guðmundur stund- aði nám við Íþrótta- skólann í Haukadal veturinn 1936-1937. Hann starfaði hjá E. Pihl og Sön við Sogs- virkjanir á 6. ára- tugnum, og árin 1961-1962 hjá sama fyrirtæki í Kvalbö í Færeyjum vegna jarðganga. Eftir það fór hann á samning sem nemi í húsa- smíði hjá Braga Sigurbergssyni. Guðmundur lauk sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1969. Hann starfaði í mörg ár í Trésmiðjunni Völundi og að lokum við húsvörslu við Alþing- ishúsið. Hann unni alltaf sveitinni sinni en hann ólst upp í Miðengi frá fimm ára aldri. Útför Guðmundar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 2. október, kl. 13. Þegar ég kveð föður minn Guð- mund Benediktsson hvarflar hugur- inn aftur til frumbernskunnar. Ég sé fyrir mér stóran, sterkan og glæsi- legan íþróttamann við æfingar á túninu í Miðengi með félögum sínum af næstu bæjum. Á árunum 1937 til 1950 sem ég tel vera toppárin hans pabba í frjálsum íþróttum og í glímu var Ungmennafélagið Hvöt í Gríms- nesi með nokkra íþróttamenn sem voru með þeim bestu á Íslandi í nokkrum greinum. Grein pabba var kúluvarp og var hann í þessum hópi Grímsnesinga þegar hann varð annar í kúluvarpi á Landsmóti Ungmenna- félaganna á Íslandi í Haukadal 1940. Á þessum árum var mikil gróska í uppbyggingu á bújörðum í sveitum landsins. Allt var á uppleið. Kraftar pabba fóru að dreifast og fjölhæfur var hann. Hann vann á jarðýtum, við virkjanir, bústörf, smíðar og múr- verk án þess þó að hafa verið á samn- ingi hjá iðnmeisturum sem nemi. Því var komið í verk síðar. Þegar ég var barn og unglingur undraðist ég það stórum að þegar ég gerði fólki grein fyrir því hverra manna ég væri þá sagði fólk, og það gætti virðingar í rómnum, „já, sonur Guðmundar frá Miðengi“. Hann var veiðimaður af ástríðu og vel hagmæltur. Hann var snaggaralegur í hreyfingum og ekki var alltaf auðvelt að fylgja honum eft- ir á göngu í t.d. veiðitúrunum, hug- urinn var svo mikill í öllu því sem átti hug hans allan hverju sinni. Hann var tvígiftur eins og sést í æviágripinu og því ansi stór hópurinn sem hann kveður nú og telst vera fjölskyldan hans. Frá fyrra hjóna- bandi er eftirfarandi börn og makar þeirra. Guðmundur Guðmundsson, látinn, og Þórdís K. Skarphéðinsdótt- ir, Bjarni Guðmundsson og Inga K. Guðmundsdóttir, Anna Guðmunds- dóttir og Erlendur Ragnar Krist- jánsson. Hann tók einnig í fóstur Báru Guðnadóttur, hún er fráskilin. Þessi hópur gaf honum 10 barna- börn. Frá seinna hjónabandinu, árin hans og Auðbjargar Björnsdóttur frá Ánanaustum, koma Magnea Antons- dóttir og Sigurður Einar Lyngdal og Björn Antonsson og Helga Jakobs- dóttir, þau gáfu honum 5 barnabörn til viðbótar hinum 10. Með Auðbjörgu urðu árin yfir 40, eða þangað til hún lést og studdu þau hvort annað af ráð dug. Ekki reyndi lítið á það þegar veikindi og ellin tóku að láta að sér kveða. Þeirra sambúð var ástrík og þótti föður mínum ákaf- lega vænt um Auðbjörgu og fjöl- skylduna sem hún færði honum þeg- ar þau giftust 1966. Ég veit að í minningargreinum um þau koma margar sögur frá Gráhellu, sumarbú- staðnum þeirra, en hér læt ég staðar numið. Nú er komið að kveðjustundinni. Megi Guðmundur Benediktsson hvíla í friði. Bjarni Guðmundsson. Kappinn er allur! Ég kveð hér vin minn og stjúpföð- ur Guðmund Benediktsson. Okkar kynni hófust þegar Guðmundur gift- ist móður minni Auðbjörgu Björns- dóttur, ég var á átjánda ári og urðum við strax góðir vinir. Sú vinátta átti aðeins eftir að vaxa með árunum. Margt brölluðum við saman og sér- staklega austur í Grímsnesi, nánar tiltekið á Gráhellu í Miðengislandi þar sem móðir mín og hann reistu sér sumarbústað. Þar var hans sælureit- ur og þar leið honum best. Margt lærði ég af kappanum sem hefur komið mér vel í lífinu, svo sem veiðimennsku, náttúruskoðun og virðingu fyrir umhverfinu. Afahlut- verkið rækti hann einstaklega vel, alltaf tilbúinn að gera eitthvað fyrir barnabörnin. Stundum var kappið meira en forsjáin þegar hann var yngri og koma þurfti einhverju í verk, þá var ekkert sem gat stöðvað hann, nema kannski beinbrot, því engan þekki ég sem oftar hefur brot- ið sig en alltaf komið fílefldur til baka. Ég kveð þið, Guðmundur, með söknuði og virðingu. En eins og þú sagðir alltaf: „Við getum ekki end- urtekið ánægjustundirnar en við höf- um þó alltaf minningarnar og njótum þeirra.“ Björn Antonsson. „Fór á þorrablót að Írafossi. Hitti þar Auðbjörgu Björnsdóttur.“ Þann- ig skrifar Guðmundur, um sín fyrstu kynni af móður minni, í dagbókina hinn 13. febrúar 1965. Hvorki meira né minna. Þannig kom Guðmundur Bene- diktsson inn í líf okkar á Flókagöt- unni. Eitt það besta sem gat hent þessa litlu þriggja manna fjölskyldu. Þau mamma náðu vel saman og áttu eftir að eiga góð ár allt þar til hún lést árið 2006. Nú lagði mamma litla smíðatóls- hamrinum og alvöru verkfæri tóku við. Ekki þurfti lengur að kvabba á Þorsteini gamla í risinu því nú var kominn í líf okkar stór og stæðilegur íþróttamaður, laghentur smiður, góð- ur múrari, og mikill veiðimaður á Landrover-jeppa. Maður sem kunni að koma fram við okkur unglingana. Enda sagði hann stundum: „Maður á fyrst að vinna börnin á sitt band, þá verður annað auðvelt.“ Hann kom með villibráðina inn á heimilið lax, rjúpu og gæs, kenndi okkur að meta þetta góðgæti, sem mamma matreiddi svo vel. Guðmundur stundaði veiði í Hvítá á tímabili. Þar höfðust þau hjónin við í litlum veiðikofa á bakkanum og undu hag sínum hið besta. Þessi kofi var svo fluttur upp í Miðengisland og var gistiaðstaða á meðan stóri bú- staðurinn var reistur á Gráhellu. Þar áttum við fjölskyldan góða daga í mörg ár. Það var fastur liður hjá þeim hjónum, að keyra á sumrin austur á föstudögum eftir vinnu. Þegar Guðmundur kom austur var eins og öll þreyta væri á bak og burt. Hann var alltaf strax kominn í vinnu- gallann og farinn að sinna uppbygg- ingu eða gróðri. Fyrstu árin var allt með einföldu sniði, snjór tekinn á Hellisheiði til að halda matvælum köldum og vatn í brúsa frá Miðengi. Svo var rigning- arvatn af þakinu notað, en mesta framförin var þegar vatnsleiðslan var lögð og þau fengu rennandi vatn. Guðmundur var mikill náttúruunn- andi, þekkti söng og kvak fuglanna. Hann var hagmæltur og mundi allar vísur fram á síðasta dag. Síðustu ár hans á Hrafnistu sat ég oft og skrif- aði niður eftir honum vísurnar sem hann þuldi. Hann var líka með tilefni vísnanna á hreinu. Þá skemmtum við okkur vel. Hann stundaði mikið íþróttir á sín- um yngri árum og var alla tíð áhuga- samur um þær. Hann fylgdist spenntur með þeim í sjónvarpinu. Þótti gaman að þeim öllum en þær frjálsu áttu þó hug hans allan. Guðmundur var einstakt ljúf- menni, en gat samt verið fastur fyrir. Hann var hjálpsamur, jákvæður og talaði vel um alla. Hann var mjög þakklátur fyrir það sem fyrir hann var gert. Eftir að mamma dó var hann alltaf svo ánægður þegar einhver kom í heimsókn. Þó svo að hann fylgdist vel með því sem var að gerast í heim- inum fóru samræðurnar fljótlega að snúast um veiði eða vísur. Oft hringdi hann á kvöldin og hóf samtalið á þessum orðum. „Hér er allt í góðum málum.“ Hann vildi fylgjast með gangi mála hjá okkur og sýndi alla tíð áhuga á því sem barnabörnin voru að gera. Með þessum orðum viljum við hjónin kveðja Guðmund og þakka fyrir allar góðu stundirnar. Magnea og Sigurður. Á lognkyrrum sumardögum má stundum sjá fisk vaka í Kerinu í Grímsnesi. Ég hef stundum verið spurður af samferðafólki mínu hvort það sé virkilega fiskur í vatninu og svarað því til að það sé rétt athugað að afi minn hafi sett seiði í vatnið á sínum tíma. Það mun hafa verið einhvern tíma í kringum 1970 sem Guðmundur afi minn frá Miðengi gerði tilraun til fiskiræktar í Kerinu og þó að sú til- raun hafi ekki skilað sér sem skyldi lifir samt enn stofn smábleikju í vatn- inu. Lifir líkt og gamlar minningar. Afi var nefnilega mikið náttúru- barn í sér og líka athafnasamur í meira lagi og aldrei nein lognmolla í kringum hann. Margar af mínum bernskuminningum og fram á full- orðinsár eru tengdar ógleymanleg- um stundum í Grímsnesinu. Minn- ingar um afa að reka nagla með berum höndum í gegnum tommu borð eða að varpa kúlu. Minningar frá því ég smápolli dvaldist með afa og pabba við Vaðnes þar sem afi var með netalagnir í Hvítá og byggði sér veiðikofa úr timbri ættuðu frá Sov- étríkjunum. Minningar um netalagn- ir í gegnum ís á Kerinu. Gamli veiðikofinn var svo seinna notaður sem gestahús á Gráhellu en svo nefndi afi landið sitt við Miðengi. Þar var hann kóngur í ríki sínu og dvaldist löngum stundum í sumarbú- staðnum sem hann byggði og innrétt- aði smekklega ásamt Auðbjörgu konu sinni. Þar var alltaf tekið vel á móti fólki af höfðingsskap og gestrisni. Athafnasemi afa fékk útrás á Grá- hellu og þar var alltaf nóg í gangi. Stórtæk kartöflurækt, girðingavinna og viðhald og endurbætur húsa. Að loknum góðum degi hreiðraði sá gamli um sig í uppháhaldsstólnum sínum og tendraði í vindli, sagði sög- ur og kvað vísur ef sá gállinn var á honum. Afi notaði veglegan trébát í neta- veiðina í Hvítá og löngu seinna átti bátur þessi eftir að taka á sig ferða- lag alla leið í Þórisvatn þar sem hann kom að góðum notum í eftirminnileg- um veiðitúr. Báturinn lá svo lengi vel ónotaður en sá gamli hélt honum þó alltaf við. Það var svo 1998 að afi þá orðinn áttræður lét gamlan draum sinn rætast og fékk niðja sína til að hjálpa sér við að setja bátinn á flot og leggja net í Úlfljótsvatn. Mín síðasta minning tengd veiðiskap með Guð- mundi afa mínum er frá þessum tíma. Við fengum fallegar bleikjur í netin og ræddum málin og sögðum sögur fram á rauða nótt. Þó að Elli kerling hefði náð tökum á afa hin seinni ár var hugur hans skýr fram á síðasta dag og gangur náttúrunnar, dýralíf og fiska honum hugleikið sem fyrr. Heimir Bjarnason. Afi Guðmundur hefur kvatt. Amma Auja og afi giftust árið 1966, amma átti þá tvö stálpuð börn frá fyrra hjónabandi, Björn og Magneu. Gekk afi okkur börnum þeirra í afa stað. Flestallar minningar okkar tengjast Flókagötunni þar sem afi og amma áttu lengst af heima og svo Gráhellu, sumarbústaðnum góða fyr- ir austan. Afi var mikill sveitakarl enda úr sveit og greinilegt var þegar hann var fyrir austan, í Gráhellu, að þá var hann á réttum stað. Á sumrin dvöldum við þar oft og mikið öll barnabörnin í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa. Smurbrauð og dúkað borð í hvert mál og svo eldaði amma þríréttað á hverju kveldi meðan afi kenndi okkur borgarbörnunum réttu handtökin í sveitinni. Sérstaklega eru okkur minnisstæð þau skipti sem við fengum að keyra Toyota-jeppann, heimsóknirnar á Miðengi og veiðin í Kerinu. Svo á hverju kveldi sagði afi okkur söguna um tófuna og hrafninn. Það var ótrúlegt hve þolinmóður hann afi var við okkur – hann þreytt- ist aldrei á að segja okkur sömu sög- urnar, aftur og aftur. Afi var góður maður kom til dyr- anna eins og hann var klæddur, það fór ekki mikið fyrir honum en hann var stoðin og styttan hennar ömmu. Afi missti mikið þegar amma Auja dó snögglega í júní 2006 og síðan þá voru hans helstu áhyggjur að verða of gamall. Það gleður okkur því að vita að nú eru þau aftur saman á ný. Við erum ánægð og þakklát fyrir afa og hversu góður hann var alltaf við okk- ur, fyrir þolinmæðina og kærleikann sem hann sýndi okkur og sérstaklega fyrir það hversu góður hann var við ömmu okkar. Takk fyrir það! Auðbjörg Björnsdóttir, Ásthildur Björnsdóttir, Reynir Lyngdal. Guð blessi þig, afi minn. Ég veit að þið amma eruð saman núna. Kysstu hana stórum kossi á munninn frá mér og þér. Ég mun aldrei gleyma því þegar þú kenndir mér mannganginn og við sátum og tefldum heima hjá ykkur ömmu á Flókagötunni. Þú með enda- lausa þolinmæði, ég bara lítill gutti. Líka þegar þú hjálpaðir mér yfir laugina með því að kenna mér hunda- sund. Veiðiferðirnar í Kerið, þar sýndir þú mér galdurinn við að veiða. Þú varst alltaf jákvæður og hvattir mig áfram þegar kom að myndlist- inni. Vildir alls ekki að ég slægi slöku við. Mér finnst gaman að þú skyldir ná að hitta hana Díönu og kynnast henni. Þakka þér fyrir að styrkja mig þegar illa lá á í lífi mínu og að vera besti afi í heimi og mjög góður vinur. Vinur í raun. Bless afi minn ég mun alltaf sakna þín. Þinn Anton. Það er komið haust og uppskeran komin í hús. Við systur búnar að tína ber og sveppi fyrir veturinn kringum Gráhellu, bústaðinn sem afi okkar byggði af miklum dugnaði og útsjón- arsemi. Kannski má segja að húsið hafi verið byggt úr afgöngum, næst- um hvert stykki átti sér fortíð úr öðru samhengi. Í móanum umhverfis bú- staðinn er berjalyng í haustlitum í bland við birkikjarr og annan móa- gróður. Loftið er kyrrt og stillt og svalt haustloftið ber með sér að einu tímabili er lokið og annað tekur við. Alls staðar í kringum bústaðinn eigum við minningar um afa að braska í einhverju. Hugurinn reikar til liðins tíma: Það var minkur á ferð í nótt og nú þurfti að beita öllum ráðum til að ná honum, sett upp gildra og hræ af ýmsum toga. Eftir mikið bras var ein kló afrakstur veiðinnar, en sögur herma að síðar hafi einmitt veiðst minkur sem á vantaði eina kló. Uppi á fuglaþúfunni á hólnum situr rjúpa, hún er á vakt. Afi segir mér að karrinn sé með margar kerlingar undir sínum verndarvæng. Afi að braska við að rækta fisk í Kerinu, við fjölskyldan að bisa við að koma bát niður að vatninu svo hægt væri að vitja um fiskinn sem aldrei stækkaði þótt reynt væri að fóðra hann með ýmsum ráðum. Við Heimir með afa á túnblettinum við gamla veiðikofann að reyna að læra að kasta kúlu, afi kastaði alltaf lengst enda íþróttakempa á sínum yngri árum og sannur ungmenna- félagsmaður í sínu hjarta. Afi að stjórna kartöfluútgerð og við ásamt öðrum afkomendum afa að taka upp skínandi nýjar kartöflur og tína í poka. Ættarmót og glatt á hjalla og afi búinn að breyta gömlum hjólbörum í útigrill, steikjandi kjöt með stóra svuntu framan á sér. Afi í græna stólnum inn í bústað, kannski örlítill Dali í glasi og ef sá gállinn var á honum kom vísa eða heilu vísnabálkarnir. Sum ljóðin eftir hann sjálfan misvel varðveitt, mörg þeirra voru aldrei skrifuð niður, en voru settar fram sem stemning á því augnabliki. Kannski flaug þessi vísa eftir Pál Ólafsson: Ellin hallar öllum leik. Ættum varla að státa. Hún mun alla eins og Bleik eitt sinn falla láta. Elsku afi, við kveðjum þig með þökk fyrir góðar minningar á þinni löngu ævi. Hafdís Bjarnadóttir og Dagný Bjarnadóttir. Guðmundur Benediksson Elsku afi. Takk fyrir handfyllirnar af klinki. Takk fyrir ferðirnar á Grá- hellu. Takk fyrir veiðikennsluna í Kerinu. Takk fyrir að giftast ömmu. Takk fyrir vindlalyktina. Takk fyrir sögurnar. Takk fyrir kvæðin. Takk fyrir húmorinn. Takk fyrir jákvæðnina. Takk fyrir skilninginn. Takk fyrir áhugann. Takk fyrir stuðninginn. Takk fyrir hreinskilnina. Takk fyrir rólegheitin. Takk fyrir að vera besti afi í heimi. Ég elska þig og sakna þín. Þín Kristín. HINSTA KVEÐJA

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.