Saga - 2000, Blaðsíða 273
LÚÐVÍK KRISTJÁNSSON
271
þeirra. Árangurinn varð stórvirkið Vestlendingar, sem út kom í
þremur bindum á árunum 1953-60. Annað afsprengi þessarar
rannsóknar var bókin Á slóðum Jóns Sigurðssonar (1961), og á árun-
um 1962 og 1963 kom út þriðja verkið, sem einnig má rekja til Flat-
eyjarferðarinnar sumarið 1942, tveggja binda ævisaga Þorláks Ó.
Johnsons kaupmanns, Úr heimsborg i Grjótaþorp.
Þessar bækur verða að sönnu ekki taldar ritröð, en þær mynda
rannsóknarheild og segja stjórnmála- og félagssögu Vestlendinga
og greina frá mikilsverðum þáttum í stjómmálastarfi Jóns Sig-
urðssonar um miðbik 19. aldar. Árið 1991 má svo segja að Lúðvík
hafi lokað hringnum, en þá gaf hann út bókina Jón Sigurðsson og
Geirungar. Sú bók var afrakstur rannsóknanna á 6. og 7. áratugn-
um, eins konar eftirhreytur.
Eftir bækur sínar um Vestlendinga, Jón Sigurðsson og Þorlák Ó.
Johnson var Lúðvík orðinn öllum mönnum fróðari um sögu íslend-
inga á 19. öld og þess í raun albúinn að rita ýtarlega ævisögu Jóns
Sigurðssonar. Af því varð þó ekki og í stað þess að halda áfram
rannsóknum á íslenskri sögu 19. aldar afréð hann að helga sig
vinnu við söfnun heimilda um íslenska sjávarhætti. í sautján ár
kom engin bók frá hans hendi, en allmargar stórar ritgerðir birti
hann í fræðiritum. Árið 1980 kom svo fyrsta bindi íslenzkra sjávar-
hátta og síðan hvert af öðru, uns útgáfunni lauk með V. bindi, sem
út kom árið 1986. Þá var Lúðvík orðinn 75 ára og bjuggust nú
flestir við því að hann færi að hægja á. Svo var þó ekki og árið
1991 birtist, eins og áður sagði, síðasta ritið í rannsóknarverkinu
um 19. öld. Á árunum 1993-95 kom út endurskoðuð útgáfa Vest-
lendinga og á sama tíma kom út lítið kver - eða stór ritgerð - sem
nefndist Bréf til móður minnar, saga frænda Lúðvíks, Sigurðar
Kristófers Péturssonar. Þá þótti Lúðvík sjálfum loks nóg komið,
lagði frá sér pennann og flutti á Hrafnistu. Áhuginn á fræðunum
var þó enn óbilaður og fram til hinstu stundar fylgdist hann náið
með, las flest af því, sem út kom um íslenska sögu og þjóðfræði,
sótti fundi og fyrirlestra.
Þannig var starfssaga Lúðvíks Kristjánssonar í sem stystu máli
og getur engum dulist, að enginn var hann meðalmaður. Afköst
hans voru ótrúleg og kemst enginn íslenskur sagnfræðingur á 20.
öld í námunda við hann að því leyti, nema ef vera skyldi dr. Páll
Eggert Ólason. Mér telst svo til að hann hafi skrifað sautján bæk-
ur og ritgerðir hans og greinar skipta tugum, ef ekki hundruðum.