SunnudagsMogginn - 07.02.2010, Page 15
7. febrúar 2010 15
„Þetta er hryllingur – óskiljanlegt,“ segir Baltasar Kormákur
um niðurskurð stjórnvalda á framlögum til kvikmyndagerðar.
„Þetta er sérstaklega sorglegt fyrir mig, þar sem ég hef verið
ötull í að ná fram leiðréttingu á framlögunum. Ég var formaður
SÍK á þeim tíma, en fram að því höfðu framlög til kvikmynda-
gerðar ekki hækkað í langan tíma, heldur rýrnað og orðið að
ekki neinu. Nú er sú leiðrétting notuð til að skýra niðurskurð-
inn, en það er með öllu óskiljanlegt.“
Hann segir að á sama tíma og niðurskurður nemi 5-10% í
öðrum listgreinum, þá sé kvikmyndagreinin skorin niður um
33%. „Það er úr samræmi við allt og kemur mér mjög á óvart,
því ég hélt að hugmyndafræði Vinstri grænna væri önnur, fyrir
utan að þetta er arðbær iðnaður, sem útvegar gjaldeyristekjur,
skapar störf og hefur margfeldisáhrif í hagkerfinu. Reiknað var
út að sennilega myndu hundrað kvikmyndagerðarmenn missa
vinnuna á ársgrundvelli og ef allur sá hópur fer á atvinnuleys-
isbætur, þá er það dýrara fyrir ríkið en sparnaðurinn sem felst
í niðurskurðinum. Og þar verður ekkert úr þessum peningum.
Þannig að þetta er með öllu óskiljanlegt.“
Ef horft er til tíu ára tímabils, þá hafa framlög til kvikmynda-
gerðar ekki hækkað meira en framlög til Sinfóníuhljómsveitar
Íslands eða Þjóðleikhússins, að sögn Baltasars. „Hækkunin
var mikil á tímabili, því framlögin höfðu staðið í stað svo lengi.
Í eðli sínu er kvikmyndasjóður eins og hver önnur menning-
arstofnun, nema hann byggist á útboðum í stað þess að fram-
leiða sjálfur. Og þetta er sú menning sem nær til flestra, fyrst í
kvikmyndahúsum og svo í sjónvarpi. 90 þúsund manns sáu
Mýrina í kvikmyndahúsi og síðan fór hún í sjónvarp. Kvikmynd-
ir lifa með þjóðinni sem íslensk frumgerð verk og jafnvel þegar
þær eru gerðar eftir bók, þá er jafnan leitað í íslenska sam-
tímasögu eða menningu. Maður er algjörlega forviða á því, að
fólki skuli detta þetta í hug.“
Hann gagnrýnir jafnframt Pál Magnússon útvarpsstjóra.
„Svo kom þessa fáránlega yfirlýsing Páls Magnússonar í kjöl-
farið, sem var svívirða af verstu tegund og lýsandi fyrir fram-
komu Sjónvarpsins í garð þessa iðnaðar. Fyrir utan að logið er
og tölur uppdiktaðar til að uppfylla skilyrði þjónustusamnings-
ins. Þar var skýrt kveðið á um að lágmarksupphæð til kaupa á
efni frá íslenskum framleiðendum ætti að vera að lágmarki
200 milljónir, en þrátt fyrir einbeittan brotavilja og kreatíft bók-
hald gátu þeir ekki komið upphæðinni hærra en í 170 millj-
ónir. Af þeim fara svo 67 milljónir í talsetningu á erlendu
barnaefni! Þá er nánast jafnmiklu varið í alla innlenda fram-
leiðslu utan stofnunarinnar og í talsett barnaefni, þar sem
tveir leikarar í hljóðveri tala í hljóðnema. Það er með ólíkindum
– ekki getur það talist íslensk kvikmyndagerð eða nýsköpun.
Ég hef ekkert á móti barnaefni, en það á ekki að grafa undan
sjálfstæðum framleiðendum með þessum hætti.“
Hann segir að RÚV sé eina ríkisrekna sjónvarpsstöðin í
heiminum sem hafi þá yfirlýstu stefnu að kaupa ekki bíómynd-
ir frá heimalandi sínu. „Ekki einu sinni Íran fellur í þann flokk.
Þetta er algjörlega fáránlegt. Þess vegna er kallað eftir afsögn
Páls Magnússonar, því ekki verður við þetta unað. Ef RÚV tel-
ur sitt eina hlutverk vera að framleiða forkeppni Eurovision, þá
er mikið að. Það er hlægilegt að horfa á RÚV við hlið Stöðvar 2
í samkeppninni um innlent efni, enda hafa menn þar áttað sig
á því að í innlendri dagskrárgerð eru mestu verðmætin fólgin,
því það er hægt að hlaða niður erlendum þáttum og bíómynd-
um á Netinu. Þeir hafa náð mun meiri árangri, með aðeins
markaðinn til að vinna með, á móti fyrirtæki sem hefur hátt í
fjórða milljarð í forgjöf.“
Með öllu
óskiljanlegt
inu. Það hefur verið tilhneigingin þegar leikrit eru nú-
tímavídd að fletja þau út og ég er ekki hrifinn af því. Ég
er þeirrar skoðunar að hægt sé að þjóna báðum þessum
húsbændum; að gera skemmtilegt leikhús en styðjast
við skáldskap og vel skrifaðan texta á sama tíma.“
Baltasar segir að einhverju leyti horft til spagettí-
vestranna í uppfærslunni. „En það lifir bara í nokkrum
augnablikum sem spagettí, til dæmis þegar þeir tveir
leggja í leiðangur til að drepa einhvern. En þegar komið
er að Ögri, þá er allt annað upp á teningnum, venjulegt
heimilisrifrildi, hver gerði hvern óléttan.
En ef farið verður í kvikmyndanálgun á verkinu,
nokkurs konar vegamynd, þá yrði örugglega sótt meira í
spagettívestrana. Nema það vantar vonda kallinn. Það
væri hægt að setja Bútralda Brúsason í það hlutverk, en
hann gegnir engu lykilhlutverki í sögunni. Og er bara
hugarburður, þó að getgátur séu uppi um að hann hafi
jafnvel drepið Þorgeir. Í raun eru aðalpersónurnar Þor-
geir og Þormóður vondu kallarnir, því maður gengur
undir manns hönd í að fá þá til að halda friðinn, vera
bara heima og rækta garðinn sinn, en það finnst þeim
ekki nógu smart.“
Hann staldrar við.
„Laxness hefði getað verið heima og sleppt því að
flækja lífið fyrir sér – róta í þjóðinni. Það er ekki auðvelt
að búa með svona manni. Og að því leyti eru Þormóður
og Þorgeir hliðstæður við hann.“
– Verður þetta bíómynd?
„Ég hefði mikinn áhuga á því, ef leitað væri eftir því,
enda höfum við unnið mikið í sögunni. En það er undir
öðrum komið. Ef við klárum víkingamyndina, þá erum
við hins vegar með mikinn forða af sverðum og bún-
ingum, auk þess sem hægt væri að breyta bæjunum sem
búið er að byggja, þannig að það gæti nýst.“
Gibson setti strik í reikninginn
Baltasar segir að víkingamyndin, sem til stendur að taka
upp á Höfn í Hornafirði, þar sem þegar er farið að reisa
leikmyndina, sé andhverfan við Gerplu, þó að hún gerist
á sama tíma. „Það má segja að Gerpla sé paródía af vík-
ingamyndinni, því frásögnin er í hefðbundnum stíl hvað
varðar hetjumyndir. Enda væri ekki heiglum hent að gera
skopmynd í anda Íslendingasagnanna – það þyrfti þá Ben
Stiller í aðalhlutverkið! Víkingamyndin er gerð á raunsæ-
isforsendum og Karl Júlíusson hefur búið til mjög trú-
verðugan heim, en hann gerði nú síðast leikmyndina fyr-
ir Hurt Locker, sem tilnefnd er til tíu óskarsverðlauna.“
Hann segir að ný mynd sé dregin upp af þessum tíma,
sem Íslendingar hafi ekki séð áður. „Hingað til hafa þetta
verið skeggjaðir idjótar með tvö horn og hjálm. En við
drögum fram að á þessum tíma var kúltúr á Íslandi, til
dæmis sýnum við Alþingi eins og við ímyndum okkur að
það hafi verið. Gerpla er á allt öðrum nótum. Við getum
tekið Íraksstríðið sem dæmi. Ef horft væri á það út frá
sjónarhorni forsætisráðherra Bretlands með hefð-
bundnum hætti, þá væri hann á fundum með öðrum
leiðtogum, og í heimsókn á vettvangi. En sjónarhorn
Gerplu væri annað á sama veruleika, þar væri hann sýnd-
ur skíthræddur heima hjá sér, með niðurgang og maga-
kveisu.“
Samningaviðræður standa yfir við stórt kvikmynda-
fyrirtæki um tökur á víkingamyndinni, að sögn Baltas-
ars. „Mel Gibson setti strik í reikninginn um tíma. Menn
fengu sjokk er þeir heyrðu af hans mynd, en nú er þetta
að komast á skrið aftur. Best væri að við gerðum báðir
víkingamynd enda af nógu að taka og mér finnst hann
frábær leikstjóri.“
Baltasar hefur einnig augun á kvikmynd, sem byggð
verður á leikritinu Djúpinu eftir Jón Atla Jónasson. „Við
fengum vilyrði úr sjóðnum,“ segir hann. „Handritið er
byggt á sögu Guðlaugs, eða Sundlaugs, og myndin verð-
ur eins íslensk og nokkur mynd getur orðið. Jón Atli
byggir það lauslega á leikritinu og sögunni og handritið
er komið ansi langt.“
Fleira bíður á teikniborðinu, en óvissan er jafnan
mikil í heimi kvikmyndanna. „Ég var fenginn til þess að
leikstýra endurgerð Reykjavík-Rotterdam fyrir Work-
ing Title, sem er Universal-fyrirtæki og framleiðir meðal
annars myndir Coen-bræðra. Þar finn ég áþreifanlega að
ég stjórna ekki ferðinni. Líklegt er að af henni verði í ár
– en verður það í ár?“
Hann yppir öxlum.
„En það vantar ekki verkefnin.“
– Verður Ingvar Sigurðsson í aðalhlutverki í Djúpinu
eins og á leiksviði?
„Nei, ekki Ingvar,“ svarar Baltasar afdráttarlaust.
„Hann er að nálgast fimmtugt, en ég er að leita að yngri
manni, auk þess sem maður með holdafar Ingvars væri
ekki líklegur til að lifa lengi í sjó. Ég hef áhuga á honum í
önnur hlutverk, enda met ég hann mikils sem leikara.“
– Þú leggur áherslu á að þetta verði íslensk mynd?
„Inn að beini,“ segir hann ákveðinn. „Ég hef verið
spurður úti hvort hún verði á ensku, en ég sé enga
ástæðu til þess. Og ég mun ekki velta mér upp úr trag-
edíu manna sem dóu eða þeirra nánustu. Það stendur
ekki til að klæmast á einkalífi fólks. Þvert á móti verður
þetta afrek notað til að segja sögu allra sem björguðust
og fórust á Íslandsmiðum. Og þannig vörpum við ljósi á
sögu íslenskra sjómanna.“
– Hvernig ertu að þróast sem leikstjóri?
„Núorðið geri ég bara það sem mig langar til. Ég veit
það getur verið frekt, en þannig er það. Ég tekst líka á
við verkefnin af meiri alvöru. Það getur verið heilmikill
húmor í verkunum, en mér er mikið í mun að gera allt
eins vel og ég mögulega get, hvort sem það er leikrit,
kvikmynd, bók eða grein í blaði. Annað væri óvirðing
við áhorfendur.“
Hann klykkir út með:
„Það getur verið að einhverjum finnist ég taka mig
hátíðlega, en ég geri það ekki. Ég hef hins vegar meiri
ábyrgðartilfinningu en ég hafði. Og kannski á það við
um mig sem manneskju.“
’
„Ég mun ekki velta mér upp úr tragedíu manna sem dóu
eða þeirra nánustu. Það stendur ekki til að klæmast á
einkalífi fólks. Þvert á móti verður þetta afrek notað til
að segja sögu allra sem björguðust og fórust á Íslandsmiðum.“
Baltasar brá á leik á æfingu á Gerplu þegar ljósmyndari ætlaði að mynda leikarana – og eins og sést í speglinum lyfti hann búklausu höfði fyrir myndavélina.