SunnudagsMogginn - 07.02.2010, Page 16
16 7. febrúar 2010
H
ljómfagur og samstilltur kór
verður ekki til af sjálfu sér.
Þegar áheyrandi mætir uppá-
búinn á tónleika til þess að
njóta fegurðarinnar um stund er jafnan
langur tími að baki við æfingar hjá söngv-
urum og stjórnanda. Margir svitadropar.
Stundum margir bensíndropar; það á að
minnsta kosti við í tilfelli Kammerkórs
Norðurlands.
Rúmir tveir tugir manna frá Sauðárkróki
í vestri til Kópaskers í austri hittast þrisvar
til fimm sinnum á vetri, einn til þrjá daga í
senn, og syngja saman undir stjórn Guð-
mundar Óla Gunnarssonar sem hefur verið
við stjórnvölinn síðan árið 2000.
„Við kennum okkur við Norðurland,
reynum að fara sem víðast um svæðið og
náum að syngja á nær öllum þétt-
býlisstöðum á tveggja ára tímabili,“ sagði
Jón Pálmi Óskarsson formaður kórsins
þegar blaðamaður leit inn á æfingu í hús-
næði Tónlistarskólans á Akureyri um síð-
ustu helgi. Þeir Guðmundur Óli hafa á orði
að ekki sé algengt að kórar haldi fleiri tón-
leika en æfingar en sú tölfræði eigi við í
þeirra tilviki!
Kórinn var stofnaður haustið 1998 og
þróunin hefur verið sú að í honum er nær
einvörðungu fagfólk; t.d. tónlistarkenn-
arar, organistar eða lærðir söngvarar. „Við
æfum svo lítið að ekki gefst tími til þess að
kenna fólki raddir, þess vegna er hér bara
menntað tónlistarfólk eða söngvarar með
mikla reynslu,“ segir stjórnandinn.
Kórfélagar víla það ekki fyrir sér að
keyra um langan veg á æfingar. Þrír þeirra
eru búsettir á Kópaskeri og aka því hátt í
400 kílómetra hverja æfingahelgi.
„Guðmundur Óli gerir miklar kröfur og
við fáum tækifæri til þess að fást við erf-
iðari verkefni en annars væri,“ segir Krist-
ján Þ. Halldórsson, einn kórfélaganna sem
búsettur er á Kópaskeri, í samtali við
Morgunblaðið.
„Það er allt afstætt,“ segir Kristján
spurður um vegalengdirnar. „Við sem bú-
um langt frá helstu þéttbýlisstöðum erum
vön löngum ferðum bæði í starfi og leik;
það er vissulega tímafrekt að keyra á milli
en kemst upp í vana. Helsta ástæða þess að
við tökum þátt í starfinu er hversu
skemmtilegt og gefandi er að vinna með
þessum góða hópi.“
Kórinn syngur eingöngu án undirleiks;
„a capella“ eins og það er kallað. Áhersla
hefur verið lögð á íslenska tónlist undan-
farin ár og tónskáld fengin til þess að semja
sérstaklega fyrir kórinn. Á söngskránni
sem nú er verið að æfa eru til dæmis fimm
ný íslensk lög, þar af þrjú eftir Pál Barna
Szabó – sem stundum er kallaður Barna-
Páll af félögum sínum í kórnum. Hann er af
ungversku bergi brotinn, býr á Hauganesi
en starfar sem tónlistarkennari á Dalvík og
syngur í Kammerkórnum.
Framundan eru tónleikar á Norðurlandi í
vetur, þeir fyrstu á Húsavík 21. febrúar,
auk þess sem kórinn syngur í Langholts-
kirkju í Reykjavík 7. mars.
Blóð, sviti
og bensíntár
Á bak við tjöldin
Í Kammerkór Norðurlands eru um 20 manns
víðs vegar úr landshlutanum. Sumir keyra um
langan veg á æfingar en segja ferðalagið vel þess
virði því mjög gefandi sé að syngja með hópnum.
Texti og ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is
Söngvararnir eru auðvitað allir vel með á nótunum; frá vinstri, Sigurdríf Jónatansdóttir, Judit
György, Guðný Erla Guðmundsdóttir og Auður Aðalsteinsdóttir.
Jón Pálmi Óskarsson bassi er jafnframt formaður Kammerkórs Norðurlands.