SunnudagsMogginn - 07.02.2010, Page 23
7. febrúar 2010 23
Óhætt er að tala um undrið í Suður-
Afríku þegar litið er til þess hvernig fornir
erkifjendur sömdu um frið, fyrirgefningu
og framtíð landsins á síðasta áratug lið-
innar aldar. Vissulega bar eitt og annað út
af, en undrið er hversu snurðulaust þessi
fífldjörfu áform gengu eftir, án þess blóð-
baðs sem margir töldu óumfýjanlegt. En
hvernig má segja þá margslungnu sögu –
um örlög heillar þjóðar, nei þjóða – með
viðhlítandi hætti í aðgengilegri bók, hvað
þá bíómynd?
Hluti fyrir heild
Breski blaðamaðurinn John Carlin var
stöðvarstjóri breska dagblaðsins The In-
dependent í Suður-Afríku á árunum
1995-98 og hafði orðið vitni að þessum
miklu hræringum. Hann gældi við hug-
myndina um að skrifa „stóru bókina“ um
suður-afríska undrið, en áttaði sig brátt á
því að það væri vonlaust verk. Á hinn
bóginn datt honum í hug að það mætti
reyna að segja sögu af einum, einstökum
þætti þessarar margbrotnu sögu á þann
hátt að hún segði í raun alla söguna. Og
hann vissi nákvæmlega hvaða saga það
væri.
Hann ráðfærði sig við Nelson Mandela,
sem þá var sestur í helgan stein, og forset-
inn fyrrverandi hvatti hann eindregið til
verksins. Ruðningur er vinsæl íþrótt
meðal margra þjóða hins gamla breska
samveldis, auk nokkurra annarra þjóða.
Heimsmeistaramótið árið 1995 var haldið í
Suður-Afríku og úrslitaleikurinn þótti
einstaklega spennandi meðal ruðnings-
aðdáenda víða um heim. Þorri heims-
byggðarinnar tók þó ekki einu sinni eftir
honum, en í Suður-Afríku var leikurinn
vendipunktur í sögu lands og þjóðar. Það
var engin tilviljun. Mandela hafði lagt á
ráðin um það af mikilli einbeitni, en fram-
kvæmdina annaðist landsliðið í ruðningi,
Springboks (stökkhafrarnir).
Kvikmyndin Invictus, sem Clint
Eastwood framleiðir og leikstýrir, fjallar
um þessa atburði og byggist á bók Carlins.
Meðframleiðandi hans er Morgan Freem-
an, sem leikur Mandela í myndinni. Man-
dela hafði fyrir mörgum árum sagt að ef
einhver gerði kvikmynd um sig væri
Freeman kunningi sinn rétti leikarinn, en
Freeman reyndi í nokkur ár að berja sam-
an kvikmyndahandrit upp úr sjálfs-
ævisögu Mandela, án árangurs. Þegar
honum barst ágrip af bók Carlin í hendur
þóttist hann hins vegar sjá í hendi sér að
þarna væri komin saga, sem næði kjarna
málsins og erindi Mandela. Hann flaug því
til Suður-Afríku og bar það undir Man-
dela, sem kannaðist við málið og veitti því
blessun sína.
Svarthvítar hetjur
Invictus segir sögu tveggja manna –
tveggja þjóðarbrota – og hvernig þeir taka
höndum saman við að ná hvor sínu mark-
miði. Nelson Mandela vill byggja þjóð, en
landsliðsfyrirliðinn François Pienaar vill
verða heimsmeistari. Áður en yfir lýkur
deila þeir markmiðunum líka.
Myndin hefst þegar Mandela er sleppt
úr fangelsi og hvítur Afríkani lýsir því yfir
að þetta sé dagurinn þegar landið fór í
hundana. Fjórum árum síðar, árið 1994,
tekur Mandela við forsetaembætti og
vanda þeirrar vegsemdar. Þeldökkir
stuðningsmenn hans eru sigurreifir, vilja
jafnvel láta kné fylgja kviði, en hvíti
minnihlutinn er uggandi um framtíðna.
Úr þessu vill Mandela bæta og hann telur
sig vita hvernig megi gera það.
Íslendingar hafa nýleg dæmi um hvern-
ig stjórnmálamenn reyna að notfæra sér
velgengni á íþróttasviðinu til pólitísks
framdráttar, en Mandela þurfti að fara
öðru vísi að. Í Suður-Afríku var ruðningur
íþrótt hvíta mannsins, en fótbolti hins
svarta. Í augum flestra svertingja var
Springboks-liðið holdgervingur ofríkis
hvíta minnihlutans, eins og best sást á
landsleikjum. Þeir fáu blökkumenn sem á
annað borð fóru á völlinn stóðu ávallt með
gestunum gegn eigin landsliði. Það veittist
þeim létt, enda Springboks fráleitt sig-
ursælt á þeim árum.
Þessu öllu vildi Mandela breyta. Hann
vildi að Springboks yrði eiginlegt landslið,
sem nyti stuðnings allrar þjóðarinnar, og
hann vildi að það ynni heimsmeist-
arakeppnina að ári, til þess að sýna þjóð-
inni og heiminum öllum hvað byggi í
hinni nýju „regnbogaþjóð“ Suður-Afríku.
Pienaar var fremur efins um þessa ráða-
gerð Mandela, en forsetinn taldi hann á að
leiða lið sitt til frækilegra afreka og vitnar í
ljóð, sem hann hafi sjálfur sótt styrk í á
fangelsisárunum. Það er ljóðið Invictus
eftir William Ernest Henley, en heiti þess
þýðir „ósigraður“.
Það heiti tekur á sig víðari merkingu
eftir því sem líður á myndina.
Freeman, Damon og Eastwood
Nelson Mandela er vitaskuld höf-
uðpersóna myndarinnar og því er Morgan
Freeman útnefndur til Óskarsverðlauna,
sem besti leikari í aðalhlutverki.
Matt Damon, sem leikur François
Pienaar, er hins vegar útnefndur til sömu
verðlauna sem besti leikari í auka-
hlutverki. Í því felst nokkur ósanngirni,
því hlutverk hans er nokkru veigameira
og hann skilar því alveg ljómandi vel.
Hlutverk Freeman er aftur á móti mun
lágstemmdara, hann þokast um tjaldið
sem heilög manneskja og sérhver setning
er spakmæli eða orðskviður. Sem slíkur er
hann afar sannfærandi og raunar var
greinarhöfundi sagt það af François
Pienaar, að Freeman „negldi“ Mandela
fullkomlega.
Ekki má gleyma þætti Clint Eastwood
leikstjóra. Sú sterka, þögla týpa hefur
ákveðið að gefa myndina ekki tilfinning-
unum á vald. Hún er tilfinningarík, en
ekki tilfinningasöm. Og þrátt fyrir við-
fangsefnið tekst Eastwood að koma því til
skila án þess að prédika fyrir áhorfand-
anum. Sögusviðið og framvindan eru
aldrei dregin með svörtum eða hvítum
dráttum. Það er undirliggjandi spenna í
myndinni, en Eastwood liggur ekkert á að
losa hana. Um leið glittir hvarvetna í
mannlega eiginleika. Þeir eru misgöfugir,
en það er aldrei gert lítið úr persónunum
heldur mistökum þeirra.
Það er líka kjarni málsins, því enda þótt
myndin fjalli um ruðningsboltaleik, sem
aftur er samþjöppuð dæmisaga um þjóð-
arbrotin og átök þeirra (sem endurspegl-
ast frábærlega í núningi milli þeldökkra og
fölra lífvarða Mandela), þá fjallar myndin
að lokum um einhverja göfugustu kennd
mannsins, fyrirgefninguna. Er það ekki
vel af sér vikið hjá manni, sem fékk Ósk-
arinn fyrir Unforgiven?
Fyrirgefningin
ósigrandi
Morgan Freeman hefur fengið mikið lof fyrir túlkun sína á frelsishetjunni Nelson Mandela.
Matt Damon hefur ekki fengið „stærra“ hlutverk um dagana. Hann leikur François Pienaar.
Clint Eastwood leikstjóri slær á létta strengi á tökustað.
’
Ég held
samt að við
höfum allir
dregist að þessu
verkefni vegna
þess að sagan er
bæði sönn og
sannarlega upp-
lífgandi.