SunnudagsMogginn - 07.02.2010, Side 30

SunnudagsMogginn - 07.02.2010, Side 30
30 7. febrúar 2010 A f tónlist ertu kominn … Hann byrjaði fimm ára að læra á orgel hjá Áskeli Jónssyni frænda sínum á Akureyri en hefur undanfarin ár starfað sem tónskáld í Hollywood; semur músík í kvikmyndir og segir það draumadjobbið. „Ég lít í raun ekki á þetta sem vinnu, miklu frekar köllun. Það sem ég geri veitir mér mikla gleði og fullnægir einhvers konar hvöt sem ég hef. Ég vinn mjög mikið en það er aldrei kvöð að sinna þessu starfi og ég gæti eytt nánast öllum mínum tíma í stú- dóinu, nema vegna þess að ég þarf auðvitað að hugsa um fjölskylduna líka. En það eru forréttindi að fá að vinna við það sem mann langar til að gera,“ segir Atli Örvarsson í samtali við Morgunblaðið og bætir við: „Mér finnst reyndar algjörlega óhugsandi að ég væri að vinna við eitthvað annað.“ Atli býr í Los Angeles með bandarískri eiginkonu og ungum syni þeirra. Sól og fallegar strendur koma væntanlega upp í hugann hjá einhverjum sem heyra borgina nefnda en Akureyringurinn er ekki dug- legur að iðka sólböð. „Ég er örugglega fö- lasti maðurinn í Kaliforníu!“ Atvinnumaður í músík 13 ára Faðir Atla, Örvar Kristjánsson, er þekktur harmonikkuleikari og systkin hans, Grét- ar, Karl og Þórhildur, þekktir tónlist- armenn. Þá er elsti bróðirinn, Karl Birgir, liðtækur lagasmiður og söngvari. Eftir ár við orgelið hóf Atli formlegt nám á blokkflautu í Tónlistarskólanum á Akureyri, en trompet varð svo hans hljóð- færi, frá sjö ára aldri og fram á unglingsár. Hann var í blásarasveit Tónlistarskólans og lék lítillega með Lúðrasveit Akureyrar en ferill Atla sem atvinnumaður í músík hófst þegar hann var 13 ára. Þá lék hann með hljómsveit í söngleiknum My Fair Lady hjá Leikfélagi Akureyrar og segist varla hafa unnið við annað en músík síðan. „Ég var að vísu í öðru á sumrin meðan ég var í gagnfræðaskóla en eftir að ég byrjaði í menntaskólanum hef ég aldrei unnið við annað en músík.“ Þegar Atli var kominn í MA stofnaði hann ásamt Karli bróður sínum og fleiri félögum hljómsveitina Stuðkompaníið. „Það var gaman en ég sá samt ekki mikinn tilgang í því og eftir að ég úskrifaðist úr menntaskólanum var ég staðráðinn í að fara í eitthvað allt annað. Hugleiddi bæði hagfræði og stjórnmálafræði.“ En honum tókst ekki að feta aðra braut en tónlistarinnar. Stundum fá menn ekki við neitt ráðið. Frábært í Berklee Atli hóf tvítugur nám í Tónlistarskóla FÍH í Reykjavík, lék jafnframt um tíma með popphljómsveitunum Sálinni hans Jóns míns og Todmobile en í janúar 1993 hélt hann svo til náms í þeim heimsfræga tón- listarskóla Berklee í Boston og hefur verið meira og minna í Bandaríkjunum síðan. „Berklee er frábær músíkskóli að mjög mörgu leyti, meðal annars vegna fjöl- breytni; þar er hægt að læra allt frá djass- píanóleik yfir í upptökustjórn eða klass- ískar tónsmíðar. Þetta er mjög góður skóli til þess að finna hvað mann langar að gera.“ Í Berklee komst Atli einmitt að því hvað hann vildi verða. Hann hóf nám í djass- píanóleik en skipti yfir í kvikmynda- tónsmíðar, af praktískum ástæðum. „Mér sýndist það sniðugt aðalfag því það sam- einaði margt sem mig langaði að prófa; tónsmíðar, útsetningar, upptöku- og tölvutækni. Um leið og ég fór að gera tón- list fyrir kvikmynd skynjaði ég svo að ná- kvæmlega þetta vildi ég gera; samruni tónlistar og myndar er sterkur galdur. Ég hef aldrei fundið mig í því að semja pop- plög, ekki það að ég gæti það ekki, en ég fann strax að tónlist fyrir kvikmyndir væri málið fyrir mig. Það er erfitt að útskýra tilfinninguna.“ Að þekkja rétta fólkið Eftir að Atli útskrifaðist með bachelor- gráðu frá Berklee 1996 hélt hann til Norð- ur-Karólínu og hóf meistaranám í kvik- myndatónsmíðum í listaháskóla þar. „Þar var ég í tvö ár hjá frábærum kennara; staðurinn var afskekktur og ég gat einbeitt mér algjörlega að náminu.“ Kennari Atla í sveitasælunni þekkir kvikmyndabransann út og inn og sagði nemanda sínum að skella sér til Holly- wood að námi loknu. Hann væri búinn að læra allt og kvikmyndaborgin væri rökrétt framhald. BMI, ein þrennra höfundarrétt- arsamtaka í Bandaríkjunum, veita árlega styrk sem Atli hlaut þegar þarna var kom- ið sögu; vann samkeppni á vegum sam- takanna og hlaut að launum dvöl við fót- skör goðsagnarinnar Mikes Posts, sem samið hefur tónlist fyrir marga vinsælustu þætti í bandarísku sjónvarpi síðustu þrjá áratugi. „Ég sat við hlið hans í nokkrar vikur haustið 1998 og allt sem ég hef gert síðan er í rauninni framhald þess. Maður getur lært margt í skóla en mest við það að vinna í faginu.“ Atli fékk vinnu hjá Post og starfaði þar í fimm ár. „Þegar mér bauðst að gera tónlistina við Stuart litla númer 3 fékk ég frí hjá Mike til að sinna því verkefni og eftir það fannst honum tímabært að ég stigi næsta skref. Kynnti mig fyrir umboðs- Ekki vinna heldur köllun Atli Örvarsson gerði heiðarlega tilraun til þess að brjótast til mennta á öðrum sviðum en tónlist, en það tók hann ekki langan tíma að skynja að örlögin urðu ekki umflúin. Hann er nú störfum hlaðið kvikmyndatónskáld í Hollywood ’ Ég hef aldrei fundið mig í því að semja popp- lög, ekki það að ég gæti það ekki, en ég fann strax að tónlist fyrir kvikmyndir væri málið fyrir mig. Það er erfitt að út- skýra tilfinninguna. Viðtal Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.