SunnudagsMogginn - 05.09.2010, Side 23

SunnudagsMogginn - 05.09.2010, Side 23
Víkingi Heiðari og Höllu var nýlega gefið antíkpíanó, svokallað „square piano“ frá árinu 1785, gefandinn er eldri kona sem býr fyrir neðan þau í Oxford á Englandi. „Þetta er alveg fríkað,“ segir Víkingur Heiðar. „Þetta er ómetanlegur gripur og ofsalega fallegur. Píanóið smíðaði maður sem hét Astor, það var sveinsstykkið hans frá Longman & Broderip- píanófabríkunni í London, sem á þessum tíma var fremsti píanóframleiðandinn. Astor þessi varð síðar moldríkur á því að stofna Waldorf-hótelin í London og New York, en þau heita einmitt Astoria eftir honum.“ Nágrannakonan sem gaf þeim gripinn heitir Sally Thomas og ætlaði upprunalega að gefa það Waldorf Astoria í London þar sem henni fannst viðeigandi að loka hringnum. „Hins vegar er Waldorf Astoria nú í eigu Hilton-fjölskyldunnar skilst mér og þau höfnuðu gjöfinni,“ segir Víkingur Heiðar. „Þau vilja bara glænýtt og glansandi píanó, helst raf- magnað. Þetta eru bjánar,“ bætir hann við og hlær. „Við fórum svo með píanóið að hitta mann sem heitir David Winston, en hann gerði með- al annars upp flygla Chopins og Beethovens og tekur ekki að sér hvaða verkefni sem er. Hann er víðkunnur í hljóðfærasmiðabransanum og er með aðsetur í ævintýralegri hlöðu, sem lítur út fyrir að vera eins og hver önnur skemma, en að innan eru þar mörg dýrmætustu og fallegustu hljóðfæri heims, fullkomlega falin í sveitinni í Kent á bak við bóndabýli.“ Og Winston var spenntur fyrir hljóðfærinu. „Það stendur sem sagt til að gera það upp í vor og svo er ætlunin að koma með það heim til Íslands. Þetta yrði væntanlega eina píanó á Íslandi frá 18. öld og mig dreymir um að láta semja nýtt verk fyrir það. Kannski við mögnum það upp og notum það sem aukahljóðfæri meðfram flygli í nýjum píanókonsert. Við sjáum til …“ Fékk gefins forláta píanó frá árinu 1785 „Já, ég er farinn að læra það. Ef ég er beðinn að taka þátt í flutningum, þá vísa ég því frá mér. Ég get ekki verið að lyfta þungum hlutum og vil ekki upplifa mig sem aum- ingja heldur. Hendurnar eru svo mikið atvinnutæki. Ég er alltaf að hugsa um það, að passa upp á hendurnar, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Ég hef dottið niður stiga án þess að bera þær fyrir mig.“ Hann hlær innilega að sjálfum sér. „Manni lærist smám saman að vera ekki í töffaraleik. Það skiptir svo miklu máli að vera í toppformi. Ef vöðv- arnir stífna, þá getur það eyðilagt nokkurra daga vinnu.“ – Er erfitt að samrýma píanóleikinn einkalífinu? „Góðir vinir mínir hafa lært það smám saman að ég er oft upptekinn, það er því engin rosaleg krafa á mig að mæta alltaf. En ég vil heldur ekki fara einförum. Ég glími við sjálfan mig alla daga, er einn með flyglinum í átta til níu tíma á dag, og það getur verið gott að komast á breska pöbbinn eða æfa fótbolta, þar sem þarf ekki að hugsa, heldur bara gera...“ – Þú spilar fótbolta! „Já, ég geri það. En ég fer ekki í mark!“ – Og félagsskapurinn heitir? „Knattspyrnufélag hraustra Íslendinga. Nafngiftin er til komin af því að við spiluðum í íþróttahúsi Kennarahá- skólans og utan á húsinu stóð KHÍ. Annars spila ég lítið núna – maður getur lent í byltum í boltanum.“ – Sérstaklega á móti Einari Kárasyni? „Ég hef lent í einni eða tveimur á móti honum. Hann stendur alltaf í fæturna,“ segir Víkingur Heiðar og hlær. – Þú átt ekki langt að sækja tónlistargáfuna? „Pabbi [Ólafur Óskar Axelsson] er arkitekt og tónskáld og mamma [Svana Víkingsdóttir] er píanókennari, þannig að þetta er klassíska sagan.“ – Þú hefur þá kynnst því í gegnum föður þinn, hversu mikil forréttindi það eru að geta lifað einvörðungu á list- inni? List sem sprettur upp í kreppu oft frumlegri „Já, það er ekkert grín fyrir pabba að teikna hús og vera í stressvinnu, koma heim í kvöldmat og byrja að stunda listina þegar annað fólk horfir á Ubly Betty. Listin er fullt starf og rúmlega það. Þess vegna einbeiti ég mér að því að spila allan daginn. Í mestu törnunum velti ég því stundum fyrir mér af hverju ég hafi valið svona erfitt starf, en í raun eru flest önnur störf erfiðari. Þrátt fyrir allt er auðvelt að vera hamingju- samur í tónlist. Þó að það geti verið erfitt að horfast í augu við sjálfan sig, þá er maður að vinna við eitthvað fagurt sem auðgar andann. Það er mikilvægt að minna sjálfan sig á það, þegar maður er alveg búinn á því, eftir að hafa setið við í tíu tíma og ekki náð að útkljá tæknilegt vandamál. Tónleikar hjálpa manni líka að halda einbeitingunni. Það er hættulegt að láta líða of langt á milli þeirra, þá getur maður orðið þungur. Það er svo nærandi að komast í snertingu við áhorfendur.“ – Það einkennir íslenskt tónlistarlíf að ekki eru skýr mörk á milli tónlistargreina. Einn daginn spilarðu með Björk og hinn daginn Ashkenazy? „Mér finnst það algjör snilld. Svo framarlega sem mað- ur stýrir því sjálfur. Þetta getur verið hættulegt. Um leið og maður tekur að sér verkefni án þess að hafa trú á þeim og gerir of mikið af því að troða upp, þá skapast fljótlega viðhorf til tónlistar sem er svolítið hversdagslegt. Ég vil ekki að það verði eins og vinna að spila á tónleikum, held- ur að það sé sérstök upplifun. Ég frumflyt nýja píanó- konserta, hef bara einu sinni spilað með Björk, spilaði með Kristni Sigmundssyni og stefni að því að gera þætti fyrir sjónvarpið. Þetta eru ólík verkefni, en ég hef ástríðu fyrir þeim öllum. Ég myndi ekki gera neitt af þessu, nema ég legði hjartað í það. Það getur verið erfitt að halda í það og eiga um leið fyrir salti í grautinn, en mér finnst gaman að lifa þannig lífi. Ég lít upp til Bjarkar, sem getur leyft sér að syngja ekkert eitt árið eða bara í Múmínálfunum eða einbeitt sér að íslenskri náttúruvernd. Ekkert er ókeypis í þessum heimi og fáir sem ílengjast þegar stritið hefst sem fylgir því að sjá sér farborða. Það er vandlifað á listrænum forsendum, en mín stefna er að gera það sem allra lengst. Og gleyma því aldrei, að það er ekki sjálfgefið.“ – Eru að verða kynslóðaskipti í íslensku tónlistarlífi? „Það eru mjög áhugaverðir tímar. Harpan verður opn- uð í vor og æ fleiri miðar seljast á sinfóníutónleika, bæði í kreppunni og fyrir kreppu. Það er líka gróska í poppinu, Hjaltalín og eldri bönd eins og Sigur Rós, sem eru með sprenglærðum tónlistarmönnum, halda áfram að þróast og eiga fyrir því. Og fólk er að fást við tilraunakenndari og skemmtilegri verkefni en fyrir hrun. Það er nokkuð til í því að list sem sprettur upp í kreppu er oft miklu frumlegri en í góðærum, þegar allir eru of uppteknir af því að selja og hitta á einhvern nagla. Þess vegna má segja að það, að Harpan verði opnuð í vor, í því ástandi sem blasir við næstu fimm árin, sé ákveðin gæfa fyrir þjóðina. Nú er að mörgu leyti hinn fullkomni jarð- vegur fyrir spennandi list. Ég hef spurt mig af hverju svona mikið af fólki á Íslandi vinnur við eitthvað skap- andi. Ég held það byggist á sjálfstrausti, að við getum allt og ætlum að gera það sem okkur þykir skemmtilegast. Þetta eru frasar sem heyrast gjarnan á Íslandi. Í stærri samfélögum leyfir fólk sér ekki að hugsa svona. Þar er kúltúrinn bældari, fólk er of raunsætt og leyfir sér að ekki að elta drauminn.“ – Þú hefur verið með masterclass-námskeið á Stokka- læk og endurtekur leikinn í vetur. Ertu með því að draga aðra tónlistarmenn á þinn leynistað? „Já, þó að ég hafi gaman af því að kenna og miðla, þá er tíminn af skornum skammti. Þess vegna held ég master- class-námskeið, þar sem ég tek lengst komnu nemend- urna í tíma. Þá koma krakkarnir og eru yfir helgi, þeir spila fyrir mig og ég kem með ábendingar, svo fylgjast þeir líka með þegar aðrir spila. Svo hlustum við saman og greinum tónlist á kvöldin, eða bara horfum á bíómynd og borðum pítsu. Ég nýt þess að miðla og draumurinn er að gera meira af því seinna. En það nýtist mér líka í spila- mennskunni, því oft leysi ég vandamál hjá sjálfum mér þegar ég útskýri fyrir öðrum. Þá er ég knúinn til að meitla hugsunina í orð og skerpa á henni.“ – Og þú gerir líka mikið af því að ræða við fólk almennt um tónlist – breiða út fagnaðarerindið? „Ég hef engan áhuga á fræðilegu tali í því samhengi, heldur þessum fáu orðum sem geta gjörbreytt upplifun. Þá er ég ekki að tala um, að ég segi því að sjá fyrir sér landslag, og byrji að spila, heldur eitthvað sem opnar fyrir persónulega upplifun þess, en samt þannig að það sé á eigin forsendum.“ – Það tíðkast einmitt á popptónleikum að talað er á milli laga og þannig kviknar áhugi hjá fólki. Ætti að gera það á sinfóníutónleikum? Mesta fúttið og brjálæðið í klassískri tónlist „Ég var spilaði Grieg fyrir norðan og eftir fyrsta kafl- ann, sem var með hrikalegum hljómum og aksjón, þá sprakk salurinn og hrópað var bravó í mínútu. En ein- hvern tíma í mannkynssögunni hefur einhver ákveðið að það þætti ekki tilhlýðilegt að sleppa sér á miðjum tón- leikum í klassík og fyrir vikið varð allt formlegra. Ætli það hafi ekki verið aðalsmenn í London. Þessu þarf að breyta, því tónlistin er sprottin úr um- hverfi, sem var miklu afslappaðra. Þegar Mozart var uppi á 18. öld, þá drukku menn vín á tónleikum og klöppuðu inni í verkinu, eins og þegar heyrist flott riff á djass- tónleikum. Það er nokkuð sem við þurfum að endurvekja. Fyrir mér er mesta fúttið og brjálæðið í klassískri tónlist. Það getur verið óþægilegt að geta ekki fengið útrás fyrir það líkamlega þegar stórbrotin tónlist er spiluð. Ég er opinn fyrir því að umhverfið verði óhefðbundn- ara og það má gera með ýmsu móti, til dæmis með því að fá listamenn til að mála myndir við prelúdíur Chopins eða ljóðskáld til að yrkja. Þetta er ekki svo heilagt, að fólk eigi bara að klappa á undan og eftir, og enginn megi hósta. Tónlistin er svo lifandi í eðli sínu, svo víbrant, og mín kynslóð er miklu afslappaðri gagnvart öllu svona. Það verður áhugavert hvernig tekst að þróa og brjóta upp formið í Hörpunni; tónleikaformið má ekki staðna, þá verður tónlistin safngripur. Og það þarf einhver að byrja!“ 5. september 2010 23

x

SunnudagsMogginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.