Morgunblaðið - 22.01.2010, Side 26
26 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 22. JANÚAR 2010
✝ Kristjana Berg-þóra Sigurjóns-
dóttir fæddist í
Hafnarnesi við Fá-
skrúðsfjörð 7. júlí
1930. Hún lést á
Landspítalanum í
Fossvogi hinn 14.
janúar sl.
Foreldrar Berg-
þóru voru Sigurjón
Níelsson, f. 2.4.
1892, d. 7.1. 1971, og
Björg Bergsdóttir, f.
21.4. 1899, d. 28.4.
1973. Systkini Berg-
þóru eru: Alberta, f. 19.8. 1916, d.
29.2. 2004, Svanhvít, f. 3.10. 1917,
d. 7.10. 1991, Ingólfur, f. 7.8.
1919, d. 18.1. 2000, Björg, f. 11.9.
1920, Ottó, f. 10.10. 1922, d. 23.5.
2005, Laufey, f. 11.3. 1927, d.
12.2. 2009, Guðrún, f. 25.4. 1929,
Níels, f. 24.9. 1931, Jóhanna, f.
6.11. 1932, Sigurveig, f. 3.1. 1934,
Anna, f. 13.1. 1937, Lára, f. 29.5.
1938, og Ragnar, f. 19.11. 1945.
Hinn 24.3. 1951 giftist Berg-
þóra eftirlifandi eiginmanni sín-
um, Sigursveini Guðmanni
Bjarnasyni frá Skeiðflöt í Sand-
gerði, f. 21.10. 1928. Foreldrar
hans voru Bjarni Jónsson, f.
24.12. 1886, d. 3.10. 1963, og Jón-
ína Guðmundsdóttir, f. 20.2. 1886,
d. 18.2. 1959. Bergþóra og Sig-
ursveinn eignuðust sex börn. Þau
eru: 1) Erla Sigurbjörg, f. 25.12.
1950, maki Gunnar
Guðbjörnsson og
eiga þau þrjú börn,
Kristjönu Hildi,
Gunnar Davíð og
Lilju Írisi, og þrjú
barnabörn. 2) Guð-
laugur Vignir, f.
31.8. 1954, maki
Rannveig Grétars-
dóttir, Vignir á tvö
börn, Guðbjörgu og
Jón Eðvald, og tvö
barnabörn, Rannveig
á tvær dætur,
Björgu og Söru. 3)
Þóra Kristín, f. 1.1. 1956, maki
Heimir Morthens og eiga þau
þrjú börn, Hlyn, Bergþór og
Heimi Þór, og þrjú barnabörn. 4)
Jón Bjarni, f. 10.8. 1957, maki
Júlía Stefánsdóttir og eiga þau
þrjú börn, Sigursvein Bjarna, Júl-
íus Methúsalem og Ástrósu, og
sex barnabörn. 5) Heimir, f. 15.5.
1959, maki Aldís Búadóttir og
eiga þau fjögur börn, Evu Dís, Ír-
isi Eddu, Karitas og Diljá, og þrjú
barnabörn. 6) Inga f. 28.1. 1969,
maki Eiríkur Guðmundsson og
eiga þau þrjú börn, Birtu, Guð-
mund Breiðfjörð og Anton Erni.
Barnabörn Bergþóru og Sig-
ursveins eru því alls 18 og barna-
barnabörnin 17.
Útför Bergþóru fer fram frá
Safnarðarheimilinu í Sandgerði í
dag kl. 14.
Elsku mamma mín er dáin. Mig
langar til að minnast hennar með
nokkrum orðum. Hún mamma mín
var einstök kona, hún var hlédræg
og var ekki að trana sér fram. Hún
var með svo fallega hvítt hár og allt-
af umhugað um að líta vel út. Fjöl-
skyldan var henni allt, það voru
hennar skemmtilegustu stundir
þegar fjölskyldan kom saman.
Barnabörnin og barnabarnabörnin
elskuðu ömmu. Oft var mannmargt
á Túngötunni og var það nokkuð
víst að þar yrðu reiddar fram kræs-
ingar og heitt kakó. Mamma og
pabbi voru nú ekki ánægð nema all-
ir fengju eitthvað að borða og séð
var til þess að enginn færi svangur
burt.
Mamma var mikil saumakona og
lék allt í höndunum á henni og var
hún vandvirk með eindæmum. Hún
saumaði öll fötin á okkur systkinin á
okkar yngri árum. Hún sagði mér
líka að hún hefði saumað jólakjólana
á systur sínar þegar hún var fimm-
tán ára. Þegar ég var á táningsaldri
kom ég oft heim með efni og bað
mömmu að sauma á mig eitthvað
sem ég hafði séð í tískublöðunum.
Aldrei man ég eftir að hún neitaði
mér um það, en í eitt skipti, þegar
ég kom heim með röndótt sæng-
urveraefni og bað hana að sauma
kjól á mig, kom hik á hana. En hún
samþykkti það síðan með því að hún
fengi að fóðra hann. Svona var
mamma, allt varð að vera vel gert
og lagði hún sig alla fram um að svo
væri.
Mamma ræktaði garðinn sinn vel,
hann var líf hennar og yndi. Henni
fannst fátt skemmtilegra en að
ganga út í garðinn á fallegum sum-
ardegi og skoða blómin og hlúa að
þeim. Og hlutu þau viðurkenningu
frá Sandgerðisbæ fyrir fallegan
garð.
Seinni árin þurftir þú að kljást við
erfiðan sjúkdóm, sem þú áttir erfitt
með að sætta þig við. En þú varst
svo einstaklega heppin að eiga hann
pabba að, sem gerði allt fyrir þig og
bar þig á höndum sér. Nú þegar ég
er að baka lagkökur fyrir þína síð-
ustu veislu vakna minningar um
hvað þú varst ánægð að geta tekið
þátt og hjálpað mér að setja krem á
lagkökurnar fyrir jólin. Þér þótti
svo mikilsvert að geta gert eitthvert
gagn. Eins var þegar við systurnar
vorum að gera hreint á Túngötunni
fyrir jólin, þér fannst svo gaman og
lifnaðir öll við. Eins og þú sagðir;
það er svo gaman að vera svona
saman.
Við kvöddum gamla árið saman
og horfðum á flugeldana, þú varst
svo ánægð og þér fannst svo gaman,
rúmum sólarhring seinna kom áfall-
ið og varð ekki aftur snúið. Kveðju-
stund þín var einstök og gefur okk-
ur systkinunum svo mikið. Þú
opnaðir augun og við náðum öll að
komast í augnsamband við þig. Þeg-
ar þú hafðir kvatt okkur öll tókstu
þinn síðasta andardrátt. Svo frið-
sælt og fallegt.
Elsku pabbi, þakka þér fyrir hvað
þú varst henni mömmu yndislegur
og bið góðan guð að styrkja þig og
alla okkar fjölskyldu.
Elsku mamma, ég kveð þig með
söknuði.
Þín dóttir,
Erla Sigurbjörg.
Gott er sjúkum að sofna,
meðan sólin er aftanrjóð,
og mjallhvítir svanir syngja
sorgblíð vögguljóð.
Gott er sjúkum að sofa,
meðan sólin í djúpinu er,
og ef til vill dreymir þá eitthvað,
sem enginn í vöku sér.
(Davíð Stefánsson)
Minning þín mamma mun lifa
með mér og minni fjölskyldu um
ókomna tíð.
Minning um yndislega og ljúfa
móður, tengdamóður, ömmu og
langömmu.
Þín dóttir,
Þóra Kristín.
Elsku mamma mín. Þegar hug-
urinn reikar og minningabrotin
skjóta upp kollinum þá einkennir
þau öll hlýja, góðmennska og vænt-
umþykja. Það voru einmitt þín ein-
kenni og þannig varst þú mamma
mín; hjartahlý, skilningsrík og svo
góð með þitt rólega yfirbragð. Þetta
gafstu börnunum þínum og barna-
börnunum og öllum í kringum þig
og það munum við alltaf geyma með
okkur. Þú laðaðir að þér börnin á
öllum aldri, þau fundu frá þér
hlýjuna og alltaf var nægur tími fyr-
ir þau. Þú varst þeim besta amma
sem hægt er að hugsa sér, alltaf var
jafn spennandi að fara til ömmu og
afa í Sandgerði og þar hafa þau og
við öll átt svo margar ógleyman-
legar stundir.
Þú varst líka besta mamma sem
hægt er að hugsa sér. Ég mun alltaf
eiga í hjarta mínu allar góðu sam-
verustundirnar, öll góðu samtölin,
spjall við eldhúsborðið á Túngöt-
unni, þú hafðir alltaf nægan tíma til
að hlusta, studdir mig í gegnum
uppvaxtarárin, nám, starf og hin
ýmsu tímamót í lífinu, og varst alltaf
til staðar í gleði og sorg. Í uppeldi
barnanna minna horfi ég æ meira til
hvernig þið pabbi hefðuð brugðist
við hinum ýmsu aðstæðum mamma
mín, því ég veit að í ykkur hef ég
góðar fyrirmyndir.
Söknuðurinn er mikill og ég bið
góðan Guð að styrkja pabba og okk-
ur öll í sorginni.
Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá
aftur hug þinn, og þú munt sjá, að þú
grætur vegna þess, sem var gleði þín.
(Kahlil Gibran / Gunnar Dal)
Hafðu þökk fyrir allt og hvíl í friði
elsku mamma mín.
Þín
Inga.
Það var fyrir rúmlega 18 árum
sem ég kynntist Bergþóru fyrst, ég
borgarstrákurinn var boðinn í
sunnudagslæri á Túngötu 13 í Sand-
gerði. Var nú frekar hikandi hvern-
ig mér yrði nú tekið þar sem litla
stelpan þeirra, Inga, var farin að
hitta nýjan kærasta úr bænum. Það
var ekki að spyrja að því, mér var
tekið frábærlega inn í þessa ynd-
islegu fjölskyldu og er það ekki síst
henni Bergþóru að þakka sem hefur
alltaf verið yndisleg í minn garð.
Það er á svona stundu sem maður
lítur um öxl og rifjar upp þær frá-
bæru stundir sem við fjölskyldan
höfum átt með þér. Þar eru efst í
huga þær stundir sem við höfum átt
á Túngötu 13 í gegnum tíðina, t.d
þegar við spiluðum vist fram á nótt
þar sem þínar ótrúlegu frystihúsa-
sagnir gerðu lítið úr manni trekk í
trekk. Eins ber að minnast okkar
frábæru sumarbústaferða sem eru
nú orðnar býsna margar þessi 18 ár
sem við höfum þekkst. Mér er það
enn í fersku minni þegar þú komst
og heimsóttir okkur til Hollands
þegar við bjuggum þar og áttum við
þar frábæran tíma þar sem Holland
var skoðað í bak og fyrir. En elsku
Bergþóra, ég vil fyrst og fremst
þakka þér fyrir að hafa verið frábær
tengdamamma og frábær amma
barna okkar Ingu sem ég veit munu
sakna þín gríðarlega. Hún Birta mín
er búin að lofa því að halda nafni
þínu hátt á lofti, svo hann Anton
Ernir muni nú þekkja þig vel þegar
hann verður stærri, enda þrátt fyrir
þín veikindi náðuð þið Anton Ernir
ótrúlega nánu sambandi.
Elsku Sveini og börn, guð gefi
ykkur styrk í þessari miklu sorg.
Elsku Bergþóra, að lokum vil ég
þakka fyrir þann tíma sem ég fékk
með þér.
Þinn tengdasonur,
Eiríkur Guðmundsson.
Til elskulegrar tengdamóður
minnar.
Þinn lífsins dagur liðinn jörðu á.
Ljómar eilífð björt og dýrðar há,
Frelsarinn það fyrirheiti gaf,
sem fór með sigur yfir dauðans haf.
Hann bíði nú á bjartri friðar strönd
og blíða þér hann rétti kærleikshönd.
Vinir þínir líta liðna tíð,
ljúf um hjörtun streymir minning blíð.
Kona og móðir, fram með fórnarlund,
færðir starfsins gjafir hverja stund.
Allt hið besta breiða vildir þú,
á brautir þinna vina, af ást og trú.
Barnabörnin blítt á örmum þér,
barstu í kærleik meðan dvaldir hér,
að þeim hlúði höndin milda þín,
hún var ætíð jöfn á gæðin sín.
Tári á vanga að breyta í brosin hlý
best hún amma kunni lag á því.
Tengdabörnum tryggð þín aldrei
brást,
trú þú varst í þinni móðurást,
eins til þeirra og eiginbarna hér,
eðli hugans fagurt vitni ber.
Ástvinirnir allir vefja nú
um þig hjartans þökk í bæn og trú.
Á kveðju stund sem hljóð og heilög er,
í hæðir hjartansbænir lyfta sér.
Lífsins faðir launi á himnum þér,
liðna dagsins störf og fórnir hér.
Á friðarlandi um ljóss og dýrðar stig,
leiði Drottins hönd og blessi þig.
(Höf. ók.)
Almáttugur Guð verndi þig og
blessi elsku Bergþóra.
Þín tengdadóttir,
Júlía.
Elsku amma mín.
Ég kveð þig með miklum söknuði.
Tárin streyma fram þar sem ég sit
og framkalla í huganum þær minn-
ingar sem ég geymi um þig, þú
varst svo hjartahlý og kærleiksrík
að það er nánast yfirþyrmandi. Þú
varst einstök manneskja og ég get
með sanni sagt að þau forréttindi
mín að hafa átt þig að hafa gert mig
að betri manni.
Heimsókn á Túngötu 13 hefur allt
mitt líf verið ánægjuleg upplifun.
Sem gutti vildi ég oft gista hjá ykk-
ur afa um helgar. Þegar samþykki
ykkar og foreldra minna lá fyrir gat
ég byrjað að hlakka til því það var
ávallt hægt að bóka eftirfarandi:
Það var alltaf til íspinni í frystikist-
unni inni í þvottahúsi. Það var alltaf
til kók í kælinum. Það var alltaf
horft á bíómyndina í ríkissjónvarp-
inu á laugardagskvöldinu (vestrar
voru í uppáhaldi). Það var alltaf
lambalæri eða hryggur með brúnni
sósu, kartöflum, rauðkáli og græn-
um baunum í hádeginu á sunnudeg-
inum. Enginn gerði betri sunnu-
dagssteik en amma, það get ég
vottað.
Ferðalögin með ykkur að sum-
arlagi eru sveipuð ævintýraljóma,
hvort sem gist var í tjaldi eða sum-
arhúsi. Heilu dunkarnir af nýbök-
uðu sætabrauði voru þá dregnir
fram, vínarbrauðið fræga, kanilsn-
úðarnir, sandkakan og þess háttar
góðgæti. Umfram allt fann ég alltaf
fyrir öryggi og hlýju þegar ég ferð-
aðist með ykkur. Hvert sem ég seil-
ist í hugskotin, hvergi finn ég annað
en ljúfar minningar.
Þegar ég komst á unglingsaldur
og byrjaði að vinna á sumrin fór ég
oft í kaffitímanum til ykkar afa. Það
var ótrúlegt að verða vitni að hlað-
borðinu sem þú snaraðir fram á ör-
fáum mínútum, aldrei sneri ég
svangur til vinnu. Ég gæti reyndar
talað endalaust um matinn þinn, í
seinni tíð eftir að ég byrjaði að búa
hringduð þið afi ósjaldan og létuð
mig vita þegar eitthvað var í matinn
hjá ykkur sem þið vissuð að ég gæti
ekki staðist. Kjötsúpan og saltkjöts-
hakkbollurnar goðsagnakenndu
voru sér á báti, þvílík sæla að njóta.
Ég veit að mér er tíðrætt um mat-
seld þína og bakstur en það verður
bara að hafa það, ég gæti skrifað
bók um þann málaflokk ef út í það
er farið. Þú varst ótrúlega dugleg
kona, heimili þitt og garðurinn í
kringum húsið báru þess ótvíræð
merki, meiri snyrtimennska var
vandfundin.
Þú sýndir okkur krökkunum allt-
af mikinn áhuga. Þú vildir alltaf fá
að vita hvernig gekk í prófunum,
fótboltaleiknum, sundmótinu o.s.frv.
Alltaf fundum við sterkt fyrir þeirri
staðreynd að þér var ekki sama um
okkur, þú naust þess að heyra okk-
ur segja frá því sem á daga okkar
hefði drifið og alltaf merktum við
það að þú værir stolt af afrekum
okkar.
Börnin mín hefðu ekki getað ver-
ið heppnari með langömmu. Þau
hugsa til þín með hlýju. Ástrós
Aþena dýrkaði ykkur og bað oft um
að fá að fara í heimsókn til „Berg-
þóruömmu og Sveinaafa“. Ég vildi
óska að ég hefði látið það oftar eftir
henni.
Elsku amma mín, mikið óskap-
lega á ég eftir að sakna þín mikið og
sárt. Ég mun aldrei gleyma þér.
Hvíldu í friði.
Þinn,
Sigursveinn Bjarni.
Elsku besta amma mín, ég veit að
guð hefur fengið engil sér við hlið er
þú kvaddir heim okkar hér á jörðu
niðri. Mér er hugsað til þín með
þökk í huga og get ekki annað en
leyft mér að leiða hugann að þeirri
eilífu góðsemd og hlýju er þú hefur
fært í hjarta allra þeirra sem í þinn
heim hafa komið. Ég þakka þér fyr-
ir rabarbara með miklum sykri sem
gaf okkur frændunum þá aukaorku
er þurfti til að hlaupa um og prakk-
arast í pössun hjá ykkur afa, ég
þakka þér fyrir að leyfa okkur að
vaka frameftir hlæjandi upp úr
þurru, tveir á gólfinu og einn upp í
rúmi, bara af því að lífið var svo
skemmtilegt á Túngötu 13, ég
þakka þér fyrir að aga okkur til með
því að sussa á okkur með alvarleg-
um tóni er yfir strikið var komið.
Ég þakka þér fyrir háaloftið og
þær ævintýrastundir sem við barna-
börnin eyddum þar tímunum sam-
an, ég þakka þér fyrir ferðir í kart-
öflugarðinn þar sem öll stórfjöl-
skyldan mætti á svæðið og tíndi
kartöflur og fékk sér svo nesti í
formi Prins pólós og kóks í gleri. Ég
þakka þér fyrir öll matarboðin,
kaffiboðin, heimabökuðu kökurnar,
heita kakóið og allar sortirnar sem
þóttu þó einhvern veginn aldrei
vera nógu fínar eða boðlegar í þín-
um augum þótt þær virkuðu eins og
himnasending fyrir alla aðra er að
þeim komu, þá sérstaklega mig og
föður minn í grútskítugum vinnu-
göllunum með smurningu upp á
enni eftir bílaviðgerðir í bílskúrn-
um. En fyrst og fremst þakka ég
þér fyrir að hafa verið þú og engin
önnur – heimsins „bestasta“ amma.
Ég kveð þig með þessum orðum
sem virka smávægileg í ljósi þess
hversu mikið þú hefur gefið mér og
okkur öllum er tengjumst þér á einn
eða annan hátt. Ég veit að þú munt
vaka yfir mér og fjölskyldu minni.
Þitt barnabarn
Gunnar Davíð og fjölskylda,
Guðrún, Steinunn Erla
og Gunnar Darri.
Kristjana Bergþóra
Sigurjónsdóttir
Fleiri minningargreinar um Krist-
jönu Bergþóru Sigurjónsdóttur bíða
birtingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.
✝
Okkar innilegustu þakkir til allra þeirra sem sýndu
okkur samúð og vinarhug við andlát og útför elsku-
legrar móður okkar, tengdamóður, ömmu og
langömmu,
KRISTRÚNAR JÓHÖNNU ÁSGEIRSDÓTTUR,
Hönnu,
Kjarrhólma 22,
Kópavogi.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólki á deild 11-E á Landspítalanum við
Hringbraut og heimaþjónustu Karitas fyrir einstaka umönnun og hlýhug.
Guðný Ásgerður Sigurðardóttir,
Þorkell Jóhann Sigurðsson, Gróa Halldórsdóttir,
Hrönn Sigurðardóttir, Ægir Björgvinsson,
Brynja Sigurðardóttir,
Gunnar Sigurðsson, Guðrún Margrét Einarsdóttir,
Hörður Sigurðsson, Ingibjörg Jóhannesdóttir,
Sigurður Þór Sigurðsson, Sigrún Inga Magnúsdóttir,
Hallfríður Sigurðardóttir, Ómar Elíasson,
Elías Sigurðsson, Emilía Bergljót Ólafsdóttir,
Jóhanna Sigríður Sigurðardóttir, Finnur Einarsson,
Ásgeir Sigurðsson, Svala Steina Ásbjörnsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.