Morgunblaðið - 05.02.2010, Side 12
12 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. FEBRÚAR 2010
SKÁTAFÉLAGIÐ Vogar og
Skátafélagið Hraunbúar hafa
gert með sér samkomulag um að
endurvekja skátastarf í Vogum.
Lögð verður áhersla á barna- og
ungmennastarf og verður starf-
semin rekin undir merkjum Voga-
búa. Samkomulagið stendur út
þetta ár. Skátastarf á sér nokkuð
langa sögu í Vogunum en hefur
legið niðri undanfarin ár.
Skátafélagið Hraunbúar munu
standa fyrir reglubundnu skáta-
starfi auk þess að vera með úti-
lífsnámskeið og mun mögulega
hafa aðkomu að verkefnum á veg-
um Félagsmiðstöðvarinnar Bor-
unnar. Róbert Ragnarsson bæj-
arstjóri og Guðjón Rúnar
Sveinsson félagsforingi undirrit-
uðu samkomulagið
Skátastarf í Vogum
Í DAG, föstudag, kl. 13:00, standa
samgönguráðuneytið, Samband ís-
lenskra sveitarfélaga og Samband
sveitarfélaga á Suðurnesjum, fyrir
kynningarfundi um nýjar leiðir til
að efla sveitarstjórnarstigið, í Du-
us-húsum í Reykjanesbæ.
Fundurinn er haldinn í tilefni
þess að skipuð hefur verið sam-
starfsnefnd til að ræða og meta
sameiningarkosti fyrir sveitarfélög
í hverjum landshluta. Nefndin mun
síðan leggja drög að sameining-
arkostum fyrir næsta landsþing
Sambands íslenskra sveitarfélaga
til umræðu og álits. Fundurinn er
öllum opinn.
Fundur um eflingu
sveitarstjórnarstigs
FÉLAG einstæðra foreldra hefur
ákveðið að úthluta fjórum styrkjum
úr námssjóði félagsins fyrir vorönn
2010. Félagið úthlutaði styrkjum til
félagsmanna á árunum 1996-2005.
Sjóðurinn hefur síðan þá legið niðri
vegna fjárskorts, auk þess sem
bankahrunið hafði þær afleiðingar
að ekki reyndist unnt að úthluta á
tilsettum tíma.
Umsóknareyðublöð eru á netinu,
www.fef.is, en einnig er hægt að
nálgast eyðublöð á skrifstofu fé-
lagsins að Vesturgötu 5, 101
Reykjavík. Umsóknarfrestur er til
15. febrúar.
Styrkir í boði
ÍSLANDSMÓT í
fagsmökkun á
kaffi verður
haldið í fimmta
sinn í húsnæði
Kaffismiðju Ís-
lands, Kárastíg
1, sunnudaginn
7. febrúar kl. 13.
Íslandsmótið í
fagsmökkun á kaffi gengur út á að
greina á milli mismunandi tegunda
í svonefndri „þríhyrnings-
smökkun“, þar sem tveir af þremur
kaffibollum eru af sömu tegund en
sá þriðji er öðruvísi. Markmið kepp-
andans er að finna út, með hjálp
bragð- og lyktarskyns, hver þess-
ara þriggja er öðruvísi.
Allir sem vilja geta fylgst með
keppninni.
Íslandsmótið í
kaffismökkun
STUTT
Eftir Hlyn Orra Stefansson
hlynurorri@mbl.is
ÖSSUR Skarphéðinsson og Árni Þór Sigurðsson
voru meðal þeirra sem seldu stofnfjárhluti í
SPRON rétt áður en fyrirtækið var skráð á mark-
að. Lögmaður segir ýmislegt gruggugt við sölu
stofnfjárhluta í sjóðnum.
Mikið hefur verið fjallað um sölu stjórnenda og
stjórnarmanna í SPRON, og maka þeirra, á stofn-
fjárhlutum í sparisjóðnum á tímabilinu júlí til
ágúst 2007 eða frá því tekin var ákvörðun um að
skrá sparisjóðinn á markað og þar til lokað var
fyrir viðskipti með stofnfjárhluti.
Ýmsir þeir, sem keyptu stofnfjárhluti á þessum
tíma, telja stjórnendur og stjórnarmenn hafa not-
fært sér innherjaupplýsingar til að losa sig við
hlutina, en verðmæti SPRON hríðféll strax eftir
skráningu.
Samrýmdist ekki ráðherrasetu
Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að Össur
Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefði selt
stofnfjárhluti sína í SPRON á umræddu tímabili.
Hann segir fráleitt að hann hafi haft innherjaupp-
lýsingar um stöðu sparisjóðsins. „Ég hafði engar
upplýsingar um SPRON, eða nokkra aðra banka-
stofnun, sem ekki var á vitorði allra í gegnum fjöl-
miðla.“
Ástæða þess að Össur seldi hlutinn hafi verið sú
að hann taldi það ekki samrýmast setu í ráðherra-
stól að eiga í SPRON. Því segist hann hafa selt
skömmu eftir að hann varð iðnaðaráðherra í maí
2007. „Ég hafði alltaf trú á þessari stofnun og taldi
að þetta væri mín bankastofnun,“ segir Össur.
Hagnaður Össurar af viðskiptunum nam um 30
milljónum, þar sem hann keypti í nokkrum lotum
fyrir samanlagt 33 milljónir, en seldi fyrir 63 millj-
ónir. Bréfin keypti hann fyrir lán sem hann segist
hafa greitt.
Stofnfjárhlutina hefur Össur átt síðan seint á
níunda áratugnum þegar hann var aðstoðarfor-
stjóri Reykvískrar tryggingar. „Við áttum í mikl-
um og góðum samskiptum við SPRON og var mér
þá boðið að gerast stofnfjáreigandi.“
Vildi ekki eiga í sparisjóði á markaði
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri
grænna, segir pólitískar ástæður einnig hafa ráðið
því að hann seldi stofnfjárbréf sín í SPRON stuttu
áður en fyrirtækið var skráð á markað. Hann seg-
ir að alveg frá því hann sat í stjórn sparisjóðsins,
árin 1998 til 2004, hafi hann verið mótfallinn því að
sjóðurinn væri skráður á markað. „Ég var alltaf
þeirrar skoðunar að sparisjóðirnir ættu að vera
sparisjóðir, en ekki einhver útrásar-fjármálafyr-
irtæki í hlutafélagaformi.“
Þegar stjórn sjóðsins tók ákvörðun um að skrá
hann á markað ákvað Árni Þór því að losa sig við
megnið af sínum hlut, um 1,3 milljónir að nafn-
virði. Hann hafi ekki haft neinar upplýsingar inn-
an úr SPRON eftir að hann fór úr stjórninni.
Eins og áður sagði seldu
ýmsir stjórnendur, stjórn-
armenn og aðilar þeim tengdir
stofnfjárbréf sín í SPRON eft-
ir að tekin var ákvörðun á
stjórnarfundi SPRON um að
skrá félagið á markað en áður
en lokað var fyrir viðskipti
með stofnfjárbréf.
Þórarinn V. Þórarinsson
hæstaréttarlögmaður segir þó-
nokkra sem keyptu stofn-
fjárbréf á þessum tíma hafa haft samband við sig
vegna gruns um að þeir hafi keypt bréf stjórn-
enda og stjórnarmanna á óeðlilega háu verði.
Hann segir ýmislegt í málinu vera gruggugt. Í
fyrsta lagi hafi stjórnendur
SPRON aldrei gefið til kynna
að á sama tíma og þeir hvöttu
aðra til að kaupa stofnfjárhluti
hafi stjórnendur og stjórn-
armenn þess selt sína hluti.
Í öðru lagi sé spurning hvort
þeir sem seldu á þessum tíma
hafi gert það á grundvelli inn-
herjaupplýsinga. Loks sé
spurning hvort eðlilegt og
sanngjarnt sé að misjafnlega
reynslumiklir viðskiptamenn, sem keyptu stofn-
fjárhluti með lánsfé frá SPRON, beri allan skað-
ann af viðskiptum sem stofnað var til með þessum
hætti.
Segjast ekki hafa haft
innherjaupplýsingar
Össur og Árni Þór segja pólitískar ástæður hafa ráðið því að þeir seldu í SPRON
Morgunblaðið/RAX
Sala Ýmsir stjórnendur, stjórnarmenn og aðilar þeim tengdir seldu stofnfjárbréf sín í SPRON eftir að
tekin var ákvörðun um að skrá félagið á markað en áður en lokað var fyrir fyrir viðskipti með bréfin.
Saga SPRON á hlutabréfamark-
aði er, eins og frægt er orðið,
síður en svo glæsileg. Gengi
hlutabréfa sparisjóðsins við
skráningu í október 2007 var
18,5. Verðmæti hans hríðféll
strax í kjölfar skráningar og
hélt áfram að falla þar til spari-
sjóðurinn var úrskurðaður
gjaldþrota í mars á síðasta ári.
Þegar SPRON var skráður á
markað var þeim, sem áttu
stofnfjárhluti, boðið að skipta
þeim í hlutafé. Eftir að tekin var
ákvörðun um að skrá sparisjóð-
inn á markað fylgdu ýmsar full-
yrðingar um að hlutafélaga-
formið hentaði sparisjóðnum
vel, bendir Þórarinn V. Þór-
arinsson hrl. á, og því töldu
margir að bjartir tímar væru
framundan hjá sjóðnum.
Þeir sem keyptu stofnfjár-
hluti stjórnenda og stjórn-
armanna SPRON eru að vonum
ekki ánægðir í dag, enda margir
hverjir í erfiðri stöðu vegna lána
sem þeir tóku fyrir hlutunum.
Efnahagsbrotadeild ríkislög-
reglustjóra hefur haft sölu
stjórnenda og stjórnarmanna á
stofnfjárhlutunum til rann-
sóknar.
SPRON var í frjálsu falli frá skráningu og fram að gjaldþroti
NOTKUN á vefnum mbl.is hefur
nánast verið óbreytt undanfarna
mánuði samkvæmt nýrri fjöl-
miðlakönnun Capacent. Lestur
Morgunblaðsins hefur minnkað en
Fréttablaðsins aukist. Sameig-
inlegur lestur á Morgunblaðinu,
prent- og netútgáfu, var 67,7% á
dag og 89,4% þegar uppsöfnuð
notkun á viku er skoðuð.
78,2% þátttakenda heimsóttu
vefinn mbl.is í hverri viku á
könnunartímanum frá nóvember
2009 til janúar 2010. Er það ná-
kvæmlega sama hlutfall og mæld-
ist í könnun sem birtist í nóv-
ember.
Hlutfall þeirra, sem heimsóttu
vefinn daglega, lækkaði í 56,3%
úr 58,3%. Vefurinn mbl.is er sá
eini, sem mældur er í netmiðla-
könnun Capacent.
Meðallestur á tölublað á Morg-
unblaðinu mældist 32,2% á tíma-
bilinu frá 1. nóvember til 31. jan-
úar samkvæmt könnun Capacent.
Á sama tíma lásu 62,7% að með-
altali hvert tölublað Fréttablaðs-
ins.
Þegar mæld var uppsöfnuð
dekkun yfir vikuna mælist Morg-
unblaðið með 57,8% og Frétta-
blaðið 82,1%.
Á sama tíma fyrir ári lásu
42,7% landsmanna að jafnaði
hvert tölublað Morgunblaðsins og
63,7% hvert tölublað Fréttablaðs-
ins. Í síðustu könnun, sem birtist í
nóvember, mældist meðallestur á
tölublað 37,3% á Morgunblaðinu
en 59,8% á Fréttablaðinu.
Samkvæmt könnuninni var
meðallestur á Morgunblaðinu
36,5% á höfuðborgarsvæðinu en
30% á landsbyggðinni. Fréttablað-
ið mældist á höfuðborgarsvæðinu
með 76,4% lestur að meðaltali en
á landsbyggðinni með 42%.
Þessi tvö dagblöð eru þau einu
sem taka þátt í dagblaðamælingu
Capacent.
Um var að ræða samfellda dag-
blaða- og netmiðlamælingu í nóv-
ember 2009 til janúar 2010. Í úr-
takinu voru 4.200 Íslendingar á
aldrinum 12 til 80 ára, valdir með
tilviljunaraðferð úr þjóðskrá.
Endanlegt úrtak var 4.019 og
fjöldi svara var 2.414. Nettó svar-
hlutfall var 60,1%.
Notkun á mbl.is helst stöðug
Lestur á Morgunblaðinu
prent- og netútgáfu, á árinu 2009 (hlutfall)
Feb.-apríl
2009
Maí-júlí
2009
Ágúst-okt.
2009
Nóv.2009
-jan. 2010
Sameiginlegur lestur Morgunblaðsins og mbl.is er 67,7% að meðaltali á dag
Össur
Skarphéðinsson
Árni Þór
Sigurðsson