SunnudagsMogginn - 05.12.2010, Síða 44
44 5. desember 2010
N
orrænir leikarar hafa löngum átt við ramm-
an reip að draga í Hollywood. Einkum karl-
leikararnir, sem tæpast hafa komist á blað
vestra og vandfundin ástæðan. Ein augljós er
yfirbragðið, ljóshærðir og bláeygir karlar henta í tak-
mörkuð hlutverk, hvað helst sem hetjur eða illmenni,
gjarnan haldin kvalalosta. Leikarar frá Mið- og Suður
Evrópu, eru oftar en ekki manngerðirnar í það sem
býðst. A.m.k. hafa bíógestir vanist því að sjá dökk-
hærða karla á brún og brá í öllum mögulegum hlut-
verkum. Á fyrri hluta síðustu aldar, þegar hefðirnar
voru að festast í sessi í kvikmyndaiðnaðinum, gaf varla
að líta kvennabósa sem líktist ekki Rudolph Valentino.
Svipuðu máli gegndi um illmenni, blóðsugur og annan
trantaralýð, þar réðu ríkjum leikarar á borð við hinn
ungverska Bela Lugosi og Peter Lorre.
Öðru máli gegnir með kvenkynið, snemma á öldinni
sem leið komust norrænar leikkonur í tísku, ekki síst
vegna þess að þær fengu að fylgja eftir leikstjórum sem
komust á mála í kvikmyndaborginni. Þeir höfðu gjarn-
an uppgötvað þessar konur og kröfðust þess að þær
fylgdu með. Von bráðar voru þeir gleymdir og horfnir
austur um haf en leikkonurnar urðu stjörnur. Margar
þeirra höfðu aukinheldur slegið í gegn í evrópskum
myndum, líkt og Marlene Dietrich í Der blaue Engel og
Ingrid Bergman í Intermezzo, sem veitti þeim braut-
argengi vestan hafs. Þá má ekki gleyma ævintýrinu um
Gretu Garbo, sem var fræg á meginlandinu um miðjan
þriðja áratuginn, einkum sakir Gösta Berlings saga, sem
kom henni og leikstjóranum Mauritz Stiller vestur á
Kyrrahafsströndina. Hann hvarf fljótlega aftur heim til
Svíþjóðar en Garbo varð skærasta stjarna kvik-
myndanna um árabil. Raunaleg saga sem varð kveikjan
að verðlaunamyndinni A Star Is Born, sem hefur verið
endurgerð í nokkur skipti.
Það gekk verr hjá Lars Hanson, sænska leikaranum
sem lék m.a. í Gösta Berlings saga og síðar í myndum
Sjöströms, The Scarlet Letter og The
Wind. Sjálfsagt hefði ferill Hansons
varað lengur ef hann hefði náð betri
tökum á enskunni þegar talmyndirnar
komu til sögunnar. Þær urðu þrösk-
uldur ófárra leikara og svo er enn.
Undantekning frá þessum tímum er sá
sænski Nils Asther, sem gat sér gott
orð á tímum þöglu myndanna í Holly-
wood og átti vammlausan feril sem
karakterleikari í talmyndunum.
Einn annar, norrænn karlleikari, Daninn Carl
Brisson, komst á blað í Hollywood á 3. og 4. ára-
tugnum. Mikill hæfileikamaður sem sló fyrst í
gegn í hnefaleikum en naut síðar nokkuð óvæntra
vinsælda sem leikari í söngva- og dansamyndum
í Svíþjóð. Þaðan hélt hann til Englands þar sem
Brisson lék m.a. í fyrstu myndum Hitchcocks.
Hann átti stuttan stans í Hollywood en
átti umtalsverðan feril á Broadway.
Sonur hans giftist leikkonunni Ro-
salind Russell og var farsæll fram-
leiðandi á fjölum leikhúsanna.
Það var George Stevens sem
kynnti til sögunnar karlleik-
arann sem komst hvað næst
kvenstjörnunum í vinsældum.
Þetta er Max von Sydow, sem
lék Jesús Krist í The Greatest
Story Ever Told. Þessi mik-
ilhæfi Bergman-leikari hafði
alþjóðlegan feril upp úr
krafsinu og hefur leikið
(einkum feit auka-
hlutverk), í fjölda mynda
eins og Hawaii, The Ex-
orcist, Three Days of the
Condor, Hannah and Her Sisters, og myrkrahöfðingj-
ann í Needful Things.
Í 30 ár var von Sydow eini, umtalsverði, norræni
karlleikarinn í Hollywood. Það brá fyrir mönnum eins
og Svíanum Ulf Palme í The Counterfeit Traitor; landa
hans Tommy Berggren í The Adventurers og Norð-
manninum Sverre Anker Ousdal í The Island at the Top
of the World. Þá má ekki gleyma hlut Íslendingsins
Peters Ronson (Péturs Rögnvaldssonar), í Leynd-
ardómum Snæfellsjökuls – Journey to the Center of the
Earth.
Viggo Mortensen telst ekki með góðri samvisku
til Norðurlandabúa, í þeirra hópi eru Svíarnir
Stellan Skarsgård, Peter Stormare og Dolph
Lundgren, mest áberandi ídag. Sá síðastnefndi
hefur einkum verið orðaður við ónýti, utan
Rocky IV., en Stormare er jafnan flottur hæfi-
leikamaður sem hefur stungið upp kollinum í
ólíklegustu hlutverkum í sundurleitustu
myndum. Einna minnisstæðastur sem
skúrkurinn á hvítu sokkunum í Fargo.
Síðast en ekki síst skal telja Stellan
Skarsgård, því hann er sá Norður-
landabúi sem er sýnilegastur í ensku-
mælandi myndum nú um stundir. Fyrst
kom Óbærilegur léttleiki tilverunnar-
The Unbearable Lightness of Being ár-
ið 1988 en fyrst vakti hann eftirtekt í
Breaking the Waves, sem opnaði
honum ýmsar dyr. Í kjölfarið fylgdu
Good Will Hunting, Angels and De-
mons, Mamma Mia, myndirnar um
Sjóræningja Karíbahafsins, svo
stiklað sé á stóru. Næsta mynd
leikarans er ensk kvikmyndagerð
bókar Stiegs Larsson, sem verður
frumsýnd að ári.
Max von Sydow (fyrir miðju) í frægu atriði í kvikmyndinni The Exorcist.
Reuters
Dræm
velgengni
norrænna
leikara í
Vesturheimi
Þrátt fyrir gnótt gæðaleikara í
gegnum tíðina hafa leikarar frá
Norðurlöndunum átt takmörk-
uðu gengi að fagna í Hollywood
gegnum tíðina.
Sæbjörn Valdimarsson saebjorn@heimsnet.is
Weinstein-bræðurnir, Harvey og Bob,
eru með umtöluðustu framleiðendum í
kvikmyndaheiminum. Risu upp úr duft-
inu í lok 8. áratugarins allt til þeir seldu
Disney-veldinu fyrirtæki sitt, Miramax,
15 árum síðar á tæpar 100 milljónir dala.
Undir stjórn bræðranna óx Miramax og
dafnaði og framleiddi nokkur kassa-
stykki og Óskarsverðlaunaverk, þó svo
að uppistaðan í framleiðslunni væru lít-
ilsigldar B-myndir. Þeir héldu áfram að
vinna fyrir Disney uns þeir stofnuðu The
Weinstein Company 2005.
Bræðurnir hafa átt dræmri velgengni
að fagna hvað nýja fyrirtækið snertir,
miðað við Miramax-tímabilið. Reyndar
var Inglorious Basterds (́09), tilnefnd
„upp á grín“, á síðasta
ári, en hún er gerð af
helsta leikstjóra í sögu
Weinsteinanna, Quent-
in Tarantino. Eftir að
The Kinǵs Speech var
frumsýnd um síðustu
helgi, lyftist brúnin á
bræðrunum, sem láta
sig nú dreyma um verð-
launagripi og forna
frægð. Gagnrýnendur tóku myndinni af-
ar vel og Óskarsumræðan hófst með það
sama.
Konungsræðan er sögð bráð-
skemmtilegt og innblásið drama sem
tekst með ágætum að draga upp mann-
lega mynd af bresku konungsfjölskyld-
unni, þó dárast sé að henni í leiðinni. Sag-
an, sem þykir einkar fyndin og frumleg,
segir af feimnum prins (Colin Firth), sem
verður, eftir að bróðir hans segir af sér,
Georg VI., Englandskonungur og faðir
núverandi drottningar. Handritshöfund-
urinn, sá gamalreyndi David Seidler (Tuc-
ker, The King and I), heldur sig að mestu
við staðreyndir en kryddar söguna á ýms-
an hátt, m.a. með geðstirðum þúsund
þjala smið (Geoffrey Rush), sem slípar
George á ýmsa lund.
Leikstjóri er Tom Hooper (The Damned
United), en leikhópurinn er blanda af
enskum og áströlskum stjörnum, m.a.
Helenu Bonham Carter, Michael Gambon,
Derek Jacobi og Robert Portal.
Firth og Rush þykja líklegir Ósk-
arshafar í hlutverkum konungs og læri-
meistarans, sem beitir algildum sem
óhefðbundnum aðferðum við að koma
döngun í sinn háttsetta en óframfærna og
stamandi skjólstæðing. Kennir honum
t.d. að syngja og dansa og njóta lífsins.
George er orðinn fullnuma í lokin, þegar
hann lýsir yfir stríði við Þriðja ríkið í
frægri útvarpsræðu þar sem enginn
heyrði hið minnsta stam.
Konungsræðan er auðheyrilega út-
hugsuð Óskarsverðlaunamynd, bræð-
urnir eru örugglega byrjaðir að rýma til á
arinhillunni.
saebjorn@heimsnet.is
Weinstein-bræður komnir á kreik
Framleiðandinn
Harvey Weinstein.
Kvikmyndir
Dolph
Lundgren
Stellan Skarsgård
hefur nóg að gera.