SunnudagsMogginn - 10.07.2011, Blaðsíða 26

SunnudagsMogginn - 10.07.2011, Blaðsíða 26
26 10. júlí 2011 N ýlega var staddur hér á landi Wolfgang Mau- rer, langafabarn Konrads, ásamt konu sinni Ingrid og syni þeirra Martin. Þau Wolfgang og Ingrid ferðuðust um landið í viku en Martin sonur þeirra hélt síðan för sinni áfram til að feta slóð langalangafa síns. Af þessu tilefni hitti Maurer- fjölskyldan nokkra íslenska fræði- og áhugamenn sem komu að útgáfu ferðasögunnar á íslensku. Það var vel við hæfi að hópurinn hittist og snæddi hádegisverð í Dillons- húsi, en Konrad hafði þar búsetu fyrstu þrjá mánuðina sem hann dvaldi á Íslandi. Ræddi hópurinn um ferðir Konrads og afrek frá Íslandsdvölinni. Einnig var velt upp þeirri hugmynd að afkomendur hans gætu myndað eins konar áhugahóp til að flýta fyrir útgáfu ferðasögunnar á þýsku. Nú er stefnt að útgáfu hennar haustið 2012 en meira þarf ef duga skal. Við hádegisverðinn hélt Martin tölu og sagði frá því að fjölskylda hans gæti rakið ættir sínar aftur um 12 ættliði allt aftur á 15. öld. Slíkt er óvanalegt í Þýskalandi nema aðalsmenn eða aðra slíka megi finna í ættinni. Týnt í skókassa Konrad Maurer var prófessor í þýskum lögum og nor- rænni réttarsögu. Hann hafði mikinn áhuga á réttarsögu norræna þjóða og sérstaklega íslenskri réttarsögu. Einnig var Maurer áhugamaður um íslenskar þjóðsögur og æv- intýri. Hann ferðaðist um landið þvert og endilangt árið 1858 til að heimsækja þingstaði og safna þjóðsögum. Með því hvatti hann þá Jón Árnason og Magnús Grímsson til að halda áfram söfnun sinni sem þeir höfðu hafið árið 1845. Framlag Maurers til söfnunar íslenskra þjóðsagna er því mikilsvert. Maurer lagði upp í för sína frá Reykja- vík, þar sem hann dvaldi um tíma, og ferðaðist meðal annars til Þingvalla og að Geysi. Hann hélt síðan suður á land og ferðaðist þaðan norður í land yfir Sprengisand. Úr norðri hélt hann vestur eftir og heimsótti meðal ann- ars Stykkishólm, söguslóðir Laxdælu og eyjar á Breiða- firði á leið sinni. Um ferð sína ritaði Maurer ítarlega ferðasögu. Þar getur að lesa lýsingar á þeim stöðum sem hann heimsótti, fólkinu sem hann hitti og lýsingar á ýmsu því sem fyrir augu bar. Bókin var gefin út í íslenskri þýðingu árið 1997 og ber heitið Konrad Maurer Íslands- ferð 1858. Er hún þýdd eftir handriti sem fært var yfir á nútímaþýsku eftir frumhandriti Maurers. Það var Kládía Róbertsdóttir, sem starfaði á Íslandi við rannsóknir í ís- lenskum fræðum, sem fyrst vakti athygli þýska háskóla- kennarans Dr. Kurts Schiers á því að einhvers staðar mundi vera að finna handrit að ferðasögu Maurers. Hún hafði þá lesið bréfaskipti Maurers og Jóns Sigurðssonar þar sem fram kom að Maurer væri að skrifa slíka sögu. Eftir mikla leit þeirra Kládíu og Schiers fannst handritið loks árið 1975. Það hafði þá legið allan þennan tíma ofan í skókassa ásamt fleiri gögnum Maurers niðri í kjallara hjá einum afkomenda hans sem var einmitt afi Wolfgangs. Þetta kom þeim Wolfgang, Martin og Ingrid á óvart en þau höfðu ekki áður séð nein slík gögn frá Konrad. Íslensk útgáfa Einn þeirra sem hittu afkomendur Maurers var Jóhann J. Ólafsson lögfræðingur, en frétt af handritafundinum í Morgunblaðinu það sama ár vakti fyrst verulegan áhuga hans á því að láta gefa út ferðasögu Maurers á íslensku. „Það má rekja þennan áhuga minn til þess þegar ég var smábarn og pabbi var að lesa fyrir mig þjóðsögur Jóns Árnasonar. Þá kom nafn Maurers upp og þegar ég spurði pabba hver þetta hefði verið sagði hann að þetta hefði verið stórmerkur maður. Síðan gerist eiginlega ekkert fyrr en ég les í Morgunblaðinu að þetta handrit hafi fundist. Þá fór ég að inna ýmsa menn eftir því hvort ekki ætti að gefa þetta út. Það kom þó lítið út úr því þar til ég heimsótti Kurt Schier í München. Hann tók mér opnum örmum og gaf mér handritið sem hafði verið slegið inn. Upp úr því fór ég að athuga hvort ekki væri hægt að gefa þetta út hér og gekk frá manni til manns. Talaði meðal annars við Árna Björnsson sem varð til þess að Páll Sig- urðsson, sem þá var forseti Ferðafélags Íslands, sam- þykkti að félagið gæfi þetta út. Þá var sett saman nefnd með okkur Tómasi Einarssyni, Árna Björnssyni, Baldri Hafstað, Páli Sigurðssyni, Kurt Schier og mér og unnið sleitulaust að útgáfu. Baldur gerði meistaralega góða þýðingu og þeir skrifuðu formála Árni Björnsson og Kurt Schier. Maurer hafði ekki lokið við söguna og virðist hafa hætt við útgáfu hennar. Hafa líkur jafnvel verið leiddar að því að Maurer hafi talið að búið væri að taka af sér þetta erindi eftir að Daninn Kristian Kålund gaf út verk um ferðir á þing- og sögustaði Íslands líkt og Maurer,“ segir Jóhann. Útgáfunefndin tók söguna upp á arma sína eins og hún kom fyrir og var bókin gefin út í einum 2- 3000 eintökum. Á meðan unnið var í útgáfunni fannst einnig dagbók Maurers. Þar má lesa söguna frá upphafi til enda og bæta við það sem upp á vantaði í ferðasögunni sjálfri.“ Fetað í hófför Maurers Langalangafabarn Konrads Maurers er nú á ferð um landið og fetar í fótspor hins merka áhugamanns um Ísland, sögu þess, lög og þjóðsögur. María Ólafsdóttir maria@mbl.is Jóhann J. Ólafsson, áhugamaður um Konrad Maurer (t.v.), ́ásamt Wolfgang Maurer, konu hans Ingrid og syninum Martin. Konrad Maurer var mikill áhugamaður um Ísland.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.