SunnudagsMogginn - 14.08.2011, Blaðsíða 18

SunnudagsMogginn - 14.08.2011, Blaðsíða 18
18 14. ágúst 2011 „Við köllum þetta Amsterdam,“ segir Friðrik Rúnar Friðriksson er hann gengur um gróðurhúsið, þar sem lamparnir hanga innan um plönturnar, en ekki fyrir ofan þær. „Þetta er díóðulýsing, tilraunaverkefni styrkt af Philips í Hollandi sem útvegaði lampana. Ljósin eru rauð í myrkri eins og rauðu ljósin í Amst- erdam. Við byrjuðum á tilrauninni í janúar og sama manneskjan tínir og vinnur paprikur úr þessu bili í gróðurhúsinu og viðmiðunarbilinu. Árangurinn kemur í ljós þegar árið verður gert upp.“ Lengri og sætari Innst í gróðurhúsinu er verið að rækta paprikur sem eru á lengd við gúrkur og krumpaðri, en þó fallegur litur á þeim. „Þær eru lengri og sætari en venjulegar paprikur,“ segir Friðrik. „En líka ljótari. Ég kvartaði yfir því við fræframleiðandann og þá sagði hann að þær ættu að vera ljótar. Þegar ég var á Spáni um dag- inn, þá var þetta afbrigði orðið vinsælt þar. Það er notað töluvert í salöt til að fá sæta bragðið á móti rammleikanum.“ Hann grípur eina paprikuna og býður blaðamanni og ljósmyndara að fá sér bita. Alls staðar má tína græn- metið og borða það, engin eiturefni sem hindra það. „Þetta fór á markað í vikunni og við sjáum til hvernig þessu verður tekið. Ef neytendur taka þessu vel, þá framleiðum við meira. Maður prófar aldrei mikið í einu á Íslandi, markaðurinn er það lítill.“ Lífsstílsbreyting Íslendinga Annars ræktar Flúðajörfi, eins og fyrirtækið nefnist, tómata, papriku, kínakál og blómkál – og er stærsti framleiðandinn á Íslandi á spergilkáli. Friðrik og eiginkona hans Monika Domagala rækta saman spergilkál á bökkum Hvítár og er þar reynt að nota eins mikinn vistvænan áburð og kostur er. Dregið hefur verið úr tilbúnum áburði um 35% og er sveppa- massi frá Flúðasveppum notaður í staðinn, frjór jarð- vegur sem sveppirnir vaxa í. Fara um 150 tonn af massa árlega á þrjá og hálfan hektara svæðis og er vatn úr Hvítá notað ef rigningin dugar ekki. Friðrik segist finna fyrir lífsstílsbreytingu meðal Ís- lendinga, þeir séu farnir að neyta meira af grænmeti. „Þegar ég byrjaði að rækta árið 1987 var sala á tómöt- um á Íslandi um 500 tonn, en ég held hún sé komin í 1.500 tonn. Bæði er að neyslan hefur aukist og með til- komu lýsingarinnar fórum við að rækta tólf mánuði á ári í stað sjö.“ Fjölbreytnin er líka meiri. „Miklu meiri,“ segir Frið- rik. „Þá var ræktað eitt afbrigði af tómötum, ég held þau séu tólf í dag. Ég held að við garðyrkjubændur höfum verið nokkuð duglegir að fylgjast með nýj- ungum erlendis frá. Við erum alltaf að prófa okkur áfram.“ Eiginlega grátlegt Og enn liggja tækifæri í heilsársræktun. „Gúrkurnar og tómatarnir hafa sannað sig og okkur sýnist grundvöll- ur fyrir ræktun á paprikum með ljósum. Svo er það háð blessaðri pólitíkinni hvernig rafmagnsverð þróast,“ segir hann. „Hér í Jörfa notum við 1,2 megavött þegar allt er kveikt, en við borgum sama dreifingarkostnað og íbúðarhús í Árborg. Við fáum engan afslátt, en rík- issjóður borgar hluta af flutningskostnaðinum úr ein- um vasa í hinn. Þetta er óeðlilegt. Jörfi notar jafnmikið rafmagn og Stokkseyri og Eyrarbakki til samans og það hlýtur að vera ódýrara að henda rafmagninu á einn stað heldur en 400 mæla. Þetta er eiginlega grátlegt. Við þyrftum helst að tala með hollenskum hreim – þá yrði hlustað á okkur.“ Rauðu ljósin á Flúðum Friðrik Rúnar Friðriksson við paprikur sem eru lengri og sætari. ’ Þær eru lengri og sætari en venjulegar paprikur. En líka ljótari. Ég kvartaði yfir því við fræframleiðandann og þá sagði hann að þær ættu að vera ljótar. Þegar ég var á Spáni um daginn, þá var þetta afbrigði vinsælt þar. Það er notað töluvert í salöt til að fá sæta bragðið á móti rammleikanum.“ Þ að er hægt að rækta miklu meira,“ segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna. „Þetta er bara spurning um hvaða umhverfi er skapað, til dæmis hvert orkuverðið er. En það er fullur hugur í mönnum, enda framsækið fólk í greininni og neytand- inn kallar á vöruna – menn vilja sinna því. Og auðvitað er þetta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein, því annars flytja menn inn vöruna og nota til þess gjaldeyri.“ Fólk hugsar meira um heilsuna Gunnlaugur segist greina lífsstílsbreytingu í neyslu grænmetis. „Kannanir sýna að fólk upp úr fertugu og jafnvel fyrr er farið að hugsa meira um heilsuna og borðar meira grænmeti. Fólk hefur meiri þekkingu en áður og fjölbreytnin eykst. Öll þessi tegundaafbrigði í tómötum eru til marks um það, mismunandi bragð og eiginleikar, sem hafa komið fram á nokkrum árum og sú þróun virðist halda áfram. Þetta er eins og rauðvín- ið, það er ekki bara ein tegund heldur margar og þær hæfa ólíkum tilefnum. Ég get nefnt konfekttómata sem seldir eru á heilli grein og látnir fullþroskast þar, margir telja að þeir endist betur og séu bragðmeiri. Það er um að gera að smakka og prófa sig áfram. Mikið er um kirsuberja- tómata, sem fólk borðar milli mála sem snakk. Ef sett er askja á borðið áður en vinnudegi lýkur, þá tæmist hún! Þetta kemur í stað sælgætis, fólk kemst á bragðið og eins lítil börn. Þau borða kannski heila gúrku eða papriku, nokkuð sem þekktist ekki áður.“ Ættu að vera takmörk fyrir ósanngirninni Ekkert hefur breyst varðandi raforkumálin, sem er eitt helsta baráttumál garðyrkjubænda. „Vandamálið er flutningskostnaðurinn á rafmagninu, hann er of hár og ekki er tekið tillit til magns,“ segir Gunnlaugur. „Við erum enn í þeirri stöðu að það er 15% álag á dreifbýli óháð því hversu mikið magn er keypt. Ef það eru 200 íbúar eða fleiri, þá er eitt gjald, en ef íbúarnir eru færri, þá er gjaldið hærra. Sláandi dæmi um þetta er garð- yrkjustöðin Laugaland í Borgarfirði. Þar eru ræktaðar gúrkur og þrátt fyrir að hann noti jafnmikið rafmagn í þá ræktun og allir íbúar Borgarness, þá er hans gjald- skrá 15% hærri en rafmagn til heimilisnota! Það bara verður að leiðrétta þessa vitleysu í verðlagningu á raf- magni til orkusækinnar starfsemi.“ Gunnlaugur segir að garðyrkjan kaupi orku, rafmagn og heitt vatn, fyrir á annan milljarð og geti framleitt mun meira. „En þarna hafa stjórnvöld og starfsfólk orkufyrirtækja ekki séð sér fært að koma til móts við okkur, sem hefur valdið því að þróun í greininni hefur nánast stöðvast frá hruni. Það er óskiljanlegt að menn gangi ekki í þetta mál og klári það.“ Málið er flókið að því leyti, að garðyrkjubændur kvarta ekki undan verðinu á rafmagninu, heldur flutn- ingsverðinu. „Við létum kanna hvað nýtt dreifikerfi kostar fyrir garðyrkjuna og það kostar ekki nema 400 milljónir, en orkusalar rukka atvinnugreinina um 300 milljónir á ári. Í skýrslu sem Eymundur Sigurðsson verkfræðingur tók saman kemur fram að flutnings- kerfið sem orkufyrirtækin settu upp til garðyrkjunnar á sínum tíma var greidd upp árið 1998 með fullri arð- semiskröfu, þannig að hækkunarþörfin er engin, þetta er bara hreinn hagnaður. En í stað þess að lækka álagn- ingu, þá hafa menn kosið að hækka hana. Og svarið hjá greininni er einfaldlega þetta: Það ættu að vera tak- mörk fyrir því, hvað ósanngirnin megi vera mikil.“ Orðalagið sem notað er til réttlætingar er að jafna dreifingarkostnað, að sögn Gunnlaugs. „Þetta er svo- lítið eins og Animal Farm. Spennistöðin er til dæmis í túninu á Laugalandi, síðan liggur strengurinn áfram upp í Bifröst og þar er flutningurinn á lægra verði. Rökin eru þau að það búi ekki jafnmargir á túninu! Á meðan við stýrum málum svona í þessu landi, þá fram- leiðum við okkur ekki út úr kreppunni, en það er eina leiðin – að skapa meiri verðmæti hér heima, spara þannig meiri gjaldeyri og skapa störf.“ Nóg til af tómötum en samt flutt inn Gunnlaugur segir ágætis gang í ylræktinni, neytendur hafi tekið þessum vörum vel og gott framboð verið á tómötum í sumar. „En það er mjög sérstakt, að á með- an nóg er til af tómötum þá finna sumir hjá sér þörf til að flytja þá inn. Það er Búr sem gerir það, fyrirtæki sem flytur inn fyrir Samkaupsbúðirnar og Kaupás. Við er- um í kreppu en samt kjósa menn að flytja inn það sem nóg er af. Við skiljum það ekki og enn síður að dæmi eru um að innflutta grænmetið dúkkar upp í búðum í kössum frá okkur – grænu plastkössunum frá Sölu- félagi garðyrkjumanna. Það er á mjög gráu svæði. Ég hef ekkert á móti því að keppa svo lengi sem það er ljóst hvaðan varan kemur og neytandanum er þannig gert kleift að velja. Samkvæmt lögum og reglum skal það koma fram hvaðan varan kemur. Neytendur eiga rétt á að vita það og þá eru menn að keppa heiðarlega.“

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.