SunnudagsMogginn - 18.09.2011, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 18.09.2011, Blaðsíða 30
30 18. september 2011 Þ að er dýrt fyrir fámenna þjóð að búa í stóru landi. Innviðir sam- félagsins hafa að mestu verið byggðir upp á síðustu 100 árum eða rúmlega það. Það hefur kostað mikið að byggja vegakerfið upp, fyrst malarvegi og svo uppbyggða vegi með slitlagi. Það hefur kostað mikið að byggja hafnir um allt land. Það hefur kostað mikið að byggja flugvelli um allt land. Það hefur kostað mikið að byggja skóla um allt land. Það hefur kostað mikið að byggja sjúkra- hús víðs vegar um landið. Allt hafa þetta verið nauðsynlegar fjár- festingar. Hafnir hafa verið forsenda þess að við gætum sjálf nýtt fiskimiðin í kring- um landið. Greiðar samgöngur hafa verið forsenda fyrir blómlegu atvinnulífi og mannlífi. Skólar og sjúkrahús eru grunn- þarfir. Allt hefur þetta verið byggt upp af fámennum hópi fólks. Við erum núna yfir 300 þúsund en fram eftir 20. öldinni vor- um við ekki nema helmingur af þeim fjölda. Það hafa því miklar byrðar lagzt á fáar herðar. En þessar fjárfestingar munu nýtast okkur til langframa þótt auðvitað þurfi að halda þeim við. Á dögunum sat ég á spjalli við athafna- mann af nýrri kynslóð Íslendinga, sem hefur gengið hægt um gleðinnar dyr og uppskorið í samræmi við það. Þessi ungi maður lýsti þeirri skoðun að þjóðarbú okkar væri of dýrt í rekstri. Það væru ekki bara of margir bankar, það væru líka of margar benzínstöðvar og yfirleitt of margt af of mörgu. Kostnaðurinn við þennan ofvöxt í margvíslegri starfsemi legðist með einum eða öðrum hætti á hvern einstakling í þessu fámenna sam- félagi. Þetta er áreiðanlega rétt. Það er fagn- aðarefni að nú hafa stjórnendur tveggja banka staðfest þá skoðun að fjár- málakerfið sé of umfangsmikið, að við þurfum ekki á svo miklum umsvifum í fjármálageiranum að halda. Þá er spurn- ing hvernig stjórnvöld bregðast við. Kostnaður við of stórt fjármálakerfi lendir á viðskiptavinunum. Það er áreiðanlega rétt að benzínstöðv- arnar eru of margar, það er of mikið í þær lagt, þær eru sumar hverjar opnar allan sólarhringinn. Til hvers? Fólk getur af- greitt sig sjálft og borgað í þar til gerðum tækjum. Þessi umframkostnaður kemur fram í hærra benzínverði. Matvöruverzlanir eru of margar. Þær starfa á of mörgum fermetrum. Þær eru opnar of lengi. Umframkostnaðurinn kemur fram í hærra matarverði. Það hefur orðið ótrúlegur vöxtur í rit- fangaverzlunum á Íslandi. Hvað ætli valdi því að ritfangaverzlun hefur allt í einu aukizt svona mikið?! Það eru jafnvel dæmi um að slíkar verzlanir hafi opið all- an sólarhringinn. Til hvers? Hitt er víst að þessi umframkostnaður kemur fram í hærra vöruverði. Byggingarvöruverzlanir eru of margar og of víða um landið ef mið er tekið af eðlilegum umsvifum. Þar er að vísu hægt að finna dæmi um að verzlun hafi verið lokað. En auðvitað er ljóst að ofvöxtur í þessari verzlunargrein kemur fram í hærra vöruverði. Það eru líka of mörg bílaumboð að selja of fáa bíla. Umframkostnaðurinn kemur annað hvort fram í hærra verði á bílum en þyrfti að vera eða í földum kostnaði ann- ars staðar við að halda uppi fjölda fyr- irtækja, sem ekki eru forsendur fyrir. Það eru líka of margir alþingismenn á Íslandi. Við þurfum ekki svona marga. Bættar samgöngur og ný samskiptatækni veldur því að færri þingmenn geta sinnt þeim störfum, sem fleiri þingmenn þurfti til áður. Umframkostnaðurinn kemur fram í hærri sköttum. Það eru of mörg sveitarfélög á höf- uðborgarsvæðinu. Það væri hagkvæmara að reka t.d. tvö sveitarfélög í stað sex. Þá mundi kostnaður við of marga bæjarfull- trúa og of marga embættismenn minnka stórlega og hægt að lækka útsvarið sem því nemur. Það hefur orðið ofvöxtur í utanrík- isþjónustu smáríkisins Íslands. Við höfum ekkert við svona mörg útibú í öðrum löndum að gera. Hagsmunagæzla okkar getur auðveldlega farið fram með ódýrari hætti. Þessi umframkostnaður kemur fram í hærri sköttum. Það eru of margar opinberar stofnanir, of margar nefndir, of mörg ráð. Þessi um- framkostnaður kemur fram í hærri skött- um. Í stuttu máli: það er hægt að reka ís- lenzka þjóðarbúið á mun ódýrari og hag- kvæmari hátt, hvort sem litið er til einka- rekstrar eða opinbers rekstrar. Sennilega er einkareksturinn ekkert betur staddur að þessu leyti en opinberi reksturinn. Með því að skera þennan umfram- kostnað niður og lækka verð á vöru og þjónustu og skatta sem því nemur er hægt að bæta lífskjör landsmanna umtalsvert. Það er hins vegar ekki alveg einfalt að gera þetta og sennilega flóknara i einka- rekstri en hinum opinbera. Við viljum frjálsa samkeppni. Það eiga allir sem þess óska að geta tekið ákvörðun um að setja upp bílaumboð eða ritfangaverzlun. Vandinn kemur hins vegar upp ef og þeg- ar í ljós kemur að engar forsendur eru fyrir þeim rekstri. Þá hefur tilhneigingin verið sú að halda honum gangandi i stað þess að hann hætti. Þá byrjar umfram- kostnaðurinn að verða til. Það þurfa að fara fram umræður í sam- félaginu um það, hvernig hægt er að draga úr umframkostnaði í þeim grein- um, sem ofvöxtur hefur hlaupið í, án þess að það leiði til ofstjórnar og miðstýringar. Í grundvallaratriðum snýst þetta ekki um annað en það sem heimili gerir, sem grípur til aðgerða til að draga úr óþarfa kostnaði eða fyrirtæki, þar sem kostnaður hefur farið úr böndum. Það eru sömu lög- mál sem gilda, þótt tölurnar séu aðrar. Það er hægt að bæta lífskjörin með öðr- um hætti en hækka krónutölu launa, sem engar innistæður eru fyrir. Þjóðarbúið er of dýrt í rekstri Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is Á þessum degi árið 1978 var komist að sam- komulagi í litlu húsi í Bandaríkjunum sem er kallað Camp David. Mennirnir þrír sem kom- ust að samkomulagi voru engir venjulegir menn enda ekki í neinu venjulegu húsi. Litla húsið sem er kallað Camp David er staðsett norðvestur af höf- uðborg landsins, Washington D.C. Þetta er látlaus for- setabústaður sem var aðalaðsetur samningaviðræðna milli Egypta og Ísraela árið 1978 þegar þeir náðu sínum óvæntu friðarsamningum undir stjórn Jimmy Carter forseta Bandaríkjanna. Arabar og Ísraelar voru búnir að vera í stanslausum stríðum á svæðinu frá því að gyðingar lýstu yfir sjálf- stæðu ríki. Ekkert af arabísku ríkjunum hafði gefið þumlung eftir í kröfum sínum og Egyptar voru ávallt í forystu þeirra, sem stærsta og máttugasta arabaríkið á svæðinu. Þarna varð mikil breyting á ástandinu í Mið- Austurlöndum. Þegar gyðingar háðu sjálfstæðisstríð sitt var mjög tví- sýnt um sigur þeirra. Eiginlega með ólíkindum að þeir náðu að hafa sigur með litlum mannafla og miklum bar- áttuvilja. En eftir sjálfstæðisstríðið fengu þeir mikinn stuðning að utan og efldust mjög hernaðarlega. Í stríð- unum sem fylgdu í kjölfarið árin 1956 og 1967 höfðu Ísr- aelar ávallt mikla yfirburði þótt öll arabaríkin í kringum þá væru sameinuð. Í Sex daga stríðinu árið 1967 höfðu Ísraelar gereytt flugher Egypta, Sýrlendinga og Jórdana á nokkrum dögum og eftirleikurinn á landi var auðveld- ur. En í Yom Kippur stríðinu árið 1973 urðu úrslit átak- anna ekki það afgerandi að í raun hrósuðu bæði Egyptar og Ísraelar sigri. Egyptar undir forystu Anwar El Sadat höfðu undirbúið þá innrás lengi og var El Sadat upphaf- inn í arabíska hluta heimsins fyrir að hafa náð að standa uppi í hárinu á Ísraelum. Því var það mjög óvænt þegar einmitt hann samdi frið við Ísraela í Camp David bú- staðnum aðeins fimm árum seinna. Jimmy Carter var forseti Bandaríkjanna og öfugt við forvera í hans starfi þótti hann sýna málstað araba skilning. Í samningaviðræðunum var Egyptum gefið aft- ur það land sem hafði verið tekið af þeim í Sex daga stríðinu. Þar af var Sinai skaginn mikilvægastur. En Egyptar lofuðu friði fyrir vikið og hafa ekki ráðist á Ísr- ael síðan þá. Menachem Begin var forsætisráðherra Ísr- ael á þessum tíma og samdi fyrir hönd þjóðar sinnar. Bæði Begin og El Sadat hlutu Friðarverðlaun Nóbels fyrir vikið. En af mörgum aröbum var El Sadat talinn vera svikari. Það að semja við erkióvininn og viðurkenna tilvist Ísrael gátu þjóðernissinnar í arabaheiminum ekki sætt sig við. Árið 1981 var Anwar El Sadat skotinn til bana af líf- vörðum sínum. Foringi tilræðismannanna var ungur Egypti að nafni Khalid Islambouli. Í réttarhöldunum sem fylgdu í kjölfarið sagði hann aðalástæðuna fyrir til- ræðinu hafa verið friðarsamningurinn við Ísrael. Egyptaland breytti samt ekki um stefnu við morðið á El Sadat. Hosni Mubarak tók við völdum af Sadat og hélt friðinn við Ísrael. Það er sagt um stjórn hans að hann hafi lagt svo mikla áherslu á öryggissveitir sínar að inn- anríkislögreglan hafi fengið meira fé til umráða heldur en sjóher, landher og flugher Egypta fékk samanlagt. Enda hélt Mubarak völdum frá 1981 og fram í febrúar í ár eða í um þrjátíu ár. Egyptaland sem hafði einsog önnur arabalönd verið höll undir Sovétmenn í kalda stríðinu varð mjög vinsamlegt Bandaríkjunum. Þótt þau vinsam- legheit ríkisins hafi kannski ekki náð til þjóðarinnar. borkur@mbl.is Friður við Ísrael Anwar El Sadat tekur hér í hönd Menachim Begin en á milli þeirra er forseti Bandaríkjanna, Jimmy Carter. ’ Arabar og Ísraelar voru búnir að vera í stanslausum stríðum á svæðinu frá því að gyðingar lýstu yfir sjálfstæðu ríki. Þetta látlausa hús er sumar aðsetur Bandaríkjaforseta og kallast Camp David en þar fóru friðarviðræðurnar fram. Á þessum degi 18. september 1978

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.