SunnudagsMogginn - 18.09.2011, Blaðsíða 47
18. september 2011 47
S
káldsagan Frönsk svíta eftir Irene Nemirovsky
hefur farið sigurför um heiminn undanfarin ár.
Nemirovsky lést í Auswitsch árið 1942, senni-
lega úr taugaveiki, 39 ára gömul. Handritið að
bók sem hún var að vinna að var í ferðatösku sem dóttir
hennar Denise Epstein varðveitti. Það var ekki fyrr en
um sextíu árum eftir dauða móður sinnar sem Denise fór
að rýna í handritið og komst að því að það sem hún hafði
talið vera dagbókarskrif var skáldsagnarhandrit. Frönsk
svíta kom út í Frakklandi árið 2005, hefur verið þýdd á
fjölda tungumála og fengið gríðarlegt lof. Frönsk svíta er
nú komin út á íslensku í þýðingu Friðriks Rafnssonar og
skaust við útkomu beint í fyrsta sæti metsölulista Ey-
mundsson.
Dóttir Nemirovsky, Denise Epstein, var nýlega hér á
landi í boði Bókmenntahátíðar og Alliance Francaise og
kynnti bók móður sinnar. Með í för var Olivier Phil-
ipponnat sem ásamt Patrick Lienhardt ritaði merka ævi-
sögu Nemirovsky sem kom út í Frakklandi árið 2007.
Irene Nemirovsky var rússneskur gyðingur sem flutti
til Frakklands eftir rússnesku byltinguna ásamt for-
eldrum sínum. Hún byrjaði ung að skrifa og var þekktur
rithöfundur á millistríðsárunum. Hún giftist Michel Ep-
stein, sem var einnig rússneskur gyðingur, og þau eign-
uðust tvær dætur, Denise, sem nú er 82 ára, og Elísabetu
sem lést fyrir nokkrum árum. Nokkrum mánuðum eftir
handtöku eiginkonu sinnar var Michel handtekinn og
sendur í gasklefana í Auswitsch.
Denise Epstein lýsir móður sinni svo: „Mamma var
meðalhá, dökk yfirlitum, með afar hrokkið hár. Þegar
hún horfði á okkur börnin sín var augnaráð hennar milt
og fallegt en hún en horfði gagnrýnni augum á um-
hverfið. Hún var afskaplega góð, blíð og ljúf móðir. Sjálf
átti hún erfiða æsku. Móðir hennar var skrímsli. Ég á
erfitt með að nota orðið amma um þá konu. Hún hafnaði
móður minni frá upphafi og lét aðra um að hugsa um
hana. Þær fyrirlitu hvor aðra.“
Hvernig var líf þitt með foreldrum þínum og systur.
Voruð þið hamingjusöm fjölskylda?
„Já, foreldrar mínir voru afar ástfangin og hjónaband-
ið var mjög hamingjusamt. Þau sáu um uppeldi okkar
systranna í sameiningu og hugsuðu afar vel um okkur.
Þau voru mjög ólík. Mamma var fremur alvörugefin og
íhugul. Hún sagði okkur systrunum sögur á hverju
kvöldi og pabbi kenndi okkur lög með Mistinguette og
Josephine Baker, sem voru söngstjörnur þess tíma.
Þegar mamma var handtekin í júlímánuði 1942 varð
pabbi afar örvæntingarfullur. Þegar hann var svo sjálfur
handtekinn skömmu seinna varð hann eiginlega ánægð-
ur því hann var viss um að hann væri á leið á sama stað
og mamma og að þau myndu fá að vera saman. Hann
vissi ekki að hún var dáin.“
Að missa foreldra sína á svona hörmulegan hátt
hlýtur að hafa markað þig. Hvaða kenndir hafa hrærst
sterkast innra með þér? Er það reiði, hatur, biturð eða
sorg?
„Maður gengur í gegnum mörg stig við aðstæður eins
og þessar. Fyrst kom biðin og óvissan, sem var það erf-
iðasta. Svo kom reiðin, bæði gagnvart Þjóðverjunum og
líka gagnvart foreldrunum. Um
tíma höfðu foreldrar mínir tækifæri
til að flýja Frakkland. En þau sýndu
því ekki áhuga og mamma einbeitti
sér að því að halda áfram að skrifa
Frönsku svítuna. Við systurnar
hötuðumst um tíma við bók-
menntir því bókmenntirnar áttu
þátt í að taka mömmu frá okkur.
Ég hélt lengi í vonina og neitaði í
horfast í augu við þá skelfilegu
staðreynd að mamma myndi ekki
koma aftur. Þegar ég var sjálf orðin
móðir var ég enn að bíða eftir móður minni og þóttist
stundum sjá hana á götu. Smám saman varð ég að horf-
ast í augu við þá staðreynd að hvorki foreldrarnir,
frændurnir né frænkurnar kæmu til baka. Mitt val var að
halda áfram og eignast börn til að geta byggt upp mitt
eigið líf.
Ein af þeim fjölmörgu tilfinningum sem hrærðust með
mér var sársaukinn sem hverfur aldrei. En ég fann aldrei
til haturs.“
Nú hefur Franska svítan gert móður þína ódauðlega
og vakið athygli og áhuga á eldri verkum hennar. Þú
hlýtur að finna gleði í því.
„Ég er mjög stolt og glöð að bækur mömmu skuli
vekja svo mikla athygli um allan heim. Það er heilmikill
sigur. Sigur á gleymskunni. Sigur á nasistunum. Það er
stórkostleg gleði fyrir mig að vera umvafin ást lesenda
sem eru að enduruppgötva verk mömmu og sjá hversu
mikla umhyggju þeir sýna henni.“
Olivier Philipponnat er annar höfunda ævisögu Irene
Nemirovsky sem varð verðlaunabók í Frakklandi og
kom út á ensku árið 2010. Þegar hann og félagi hans Pat-
rick Lienhardt kynntu hugmyndina að ævisögunni fyrir
útgefanda sínum var hann ekki viss um að hugmyndin
væri góð, enda hafði Nemirovsky fallið í gleymsku.
Mánuði seinna kom Franska svítan út í Frakklandi og
allt var breytt. Bókin var á allra vörum. „Við vorum tvö
ár að skrifa bókina,“ segir Philipponnat. „Við fengum
aðgang að skjalasafni Nemirovsky þar sem var ógrynni
bréfa og handrita og við fundum einnig
áður óbirt handrit úr fórum síðasta út-
gáfustjóra Nemirovsky. Það voru litlar
heimildir til um líf hennar í Rússlandi og
þess vegna fór ég með Denise til Moskvu
til að hitta einn af síðustu ættingjum
Nemirovsky sem var enn á lífi. Þessi ætt-
ingi átti ýmsar myndir og deildi minn-
ingum sínum með okkur og þannig var
hægt að bregða upp mynd af lífi Nem-
irovsky í Rússlandi.“
Það er Friðrik Rafnsson sem á heið-
urinn af því að þýða Frönsku svítuna á
íslensku. „Ég hef þýtt hátt í þrjátíu bækur og þessi er sú
allra magnaðasta sem ég fengið að glíma við,“ segir
Friðrik. „Bókin er á svo mörgum plönum og tilfinn-
ingaskalinn er gríðarlega breiður. Nemirovsky skrifar
fágaðan og flottan stíl sem var heilmikið mál að koma til
skila. Ég var með frábært verk í höndunum. Það var að
ýmsu leyti erfitt að fást við þetta snilldarverk en um leið
ákveðinn lúxus og mjög skemmtilegt.“
Texti: Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is
Mynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is
Friðrik Rafnsson, Denise Epstein og Olivier Philipponnat
Sigur á gleymskunni
’
Það er stórkost-
leg gleði fyrir mig
að vera umvafin
ást lesenda sem eru að
enduruppgötva verk
mömmu og sjá hversu
mikla umhyggju þeir
sýna henni.“