Morgunblaðið - 04.06.2010, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 04.06.2010, Blaðsíða 32
32 Minningar MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. JÚNÍ 2010 Ég vil minnast kærrar samstarfs- konu, Guðrúnar Þórs- dóttur, sem við kveðj- um allt of fljótt. Guðrún var hug- myndarík og mikill vinnuþjarkur og var iðulega skrefi á undan okkur hinum en alltaf tilbúin að endur- skoða þegar þess gerðist þörf. Þó hugmyndirnar gætu virst erfiðar í framkvæmd í byrjun endaði það yf- irleitt þannig að eitthvað gott og áhugavert kom út. Guðrún var fylgin sér og hafði kraft og hug- myndaauðgi til að vinna hugmyndir áfram í raunhæfan búning. Það eru ótal mörg verkefni sem í dag lifa góðu lífi sem hún átti mestan þátt í að koma af stað. Ég minnist skemmtilegra og frjórra samræðna okkar um málefni Vinnuskólans en Guðrún hafði mikinn metnað fyrir hann og fann til mikillar ábyrgðar á öllu því unga fólki sem kom til starfa. Guðrún vildi uppfræða þau til að hjálpa þeim að verða nýtir þjóð- félagsþegnar. Hún vildi sjálf vera þeim góð fyrirmynd í umhverfis- vænum lífsstíl og hún hvatti svo okkur samstarfsmennina líka áfram. Guðrún hafði gott lag á að laða til sín hæfileikaríkt ungt fólk til starfa fyrir Vinnuskólann og var svo sjálf í fararbroddi fyrir góðu starfi. Hún vann markvisst að því að bæta ímynd Vinnuskólans og nokkuð víst að hver ferilskrá verður betri sem státar af starfi hjá Vinnuskólanum. Guðrún var mikill félagi og hrókur alls fagnaðar, henni var annt um að stuðla að jákvæðu andrúmslofti og lagði sitt af mörkum til þess að svo yrði. Það er mikill missir að Guð- rúnu sem samstarfsmanni og góðum félaga og erfitt að sætta sig við að hún sitji ekki lengur í ævintýraum- hverfinu sem hún hafði skapað á skrifstofunni sinni þegar komið er á morgnana. Hún átti það reyndar til að vera þar líka þegar maður fór þrátt fyrir vinsamlegar ábendingar um að hún ætti ekki að vinna svona mikið. Kæri Óli og fjölskylda, innilegar samúðaróskir til ykkar allra. Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri. Fegursta lilja vallarins teygir blómkrónu sína til himins mót hlýj- um geislum sólarinnar. Á næsta andartaki hnígur hún til jarðar og sameinast moldinni. Í hringrásinni miklu felst hinn guðdómlegi sann- leikur. Náttúrubarnið Guðrún, hjartkærasta vinkona mín frá æsku- árunum, er látin í blóma lífsins. Í huganum endurómar í sífellu: Það getur ekki verið satt. Ekki hún Guð- rún. En Guðrún lætur sér fátt um finn- ast, tekur bakföll af hlátri og hristir höfuðið svo að hárið stendur beint út í loftið, situr klofvega og öfugt í sæt- inu sínu fremst í skólastofunni og slær fótastokkinn svo að glymur í. Það er kennslustund hjá Magneu í 6.B í Melaskóla. Ártalið er 1964. Ég skrepp saman í sætinu aftarlega í stofunni, því að ég veit að skilaboð- unum er beint til mín og ávítur kennarans stöðva ekki Guðrúnu. Hún er yfirkomin af fögnuði yfir að hafa farið með mér á hestbak daginn áður. Það fær ekkert hamið gleði hennar og áður en ég veit af finn ég fullvissuna streyma um mig: Ég hef eignast vinkonu. Hún er ekki hrædd við neitt. Af hverju skyldi ég þá vera það? Saman leiðumst við hönd í hönd í gegnum æskuárin, Guðrún þó ætíð skrefinu á undan. Lífsgleði hennar eru engin takmörk sett og hún smit- ar mig af dirfsku sinni. Á Haga- skólaárunum erum við úti öll kvöld í Guðrún Þórsdóttir ✝ Guðrún Þórs-dóttir fæddist í Reykjavík þann 28. júní 1951. Hún lést á heimili sínu 25. maí 2010. Útför Guðrúnar fór fram frá Bústaða- kirkju 3. júní 2010. löngum gönguferðum hlöðnum spennu, því að oftar en ekki erum við í hlutverki njósn- ara, stundum í æsilegu snjókasti við pilta í hverfinu. Og hver nema Guðrún býr til atburðarásina! Þegar heim kemur eru málin krufin til mergjar yfir ristabrauði og mjólk. Engu breytir þótt Guðrún flytji í annan bæjarhluta, mitt ann- að heimili færist þá til Önnu og Þórs í Fagrabæinn með til- heyrandi strætóferðum. Á sumrin eru það Húsafellsskógur og síðan Þórsmörk þar sem Guðrún hittir Óla. Það er eldheit ást við fyrstu sýn: „Hann er sætastur í heimi.“ Svo mörg eru þau orð. Allt er klappað og klárt. Og Guðrún var jafn heil í ástinni og í vináttunni. Ung varð hún móðir í fyrsta sinn, kjarkmikil og sterk eins og ætíð. Ský dró fyrir sólu þegar Þór veiktist lífshættulega og við tók erfið barátta fyrir heilsu hans. Virðing mín og aðdáun á vinkonu minni dýpkaði enn og jókst á þeim árum. Börnin hennar Guðrúnar eru lánsöm að hafa átt hana að móður. Að því munu þau búa alla ævi. Ást hennar mun umvefja þau og Óla alla tíð, svo mikið er víst. Og aðra ástvini hennar einnig. Kærleikurinn er sterkari en dauðinn. Það vissi Guðrún. Ég læt hér staðar numið þótt fátt eitt sé sagt. Hugur minn er fullur þakklætis fyrir vináttu Guðrúnar, gróðurreitinn hennar í garðinum mínum, stuðninginn á erfiðum tím- um, og fyrir samveru okkar nú síð- ast þegar tíminn þurrkaðist út. Guð- rún var ætíð skrefinu á undan. Líka í þetta sinn. Og eins og áður tekst henni með hugrekki sínu og óútskýr- anlegri visku að taka frá manni ótt- ann. Ekki bara óttann við að kyssa strák eða óttann við að vera ekki eins og hinir. Nei, nú er það óttinn við að deyja sem hún hefur tekið. Hún er farin á undan til að búa okk- ur hinum stað. Er það ekki henni líkt? Kristín Magnúsdóttir. Guðrún Þórsdóttir, vinkona mín, var einstök. Ég á henni margt að þakka. – Ég þakka henni vináttuna, ég þakka henni gleðina, ég þakka henni brosin, ég þakka henni ástúðina, ég þakka henni ósérhlífnina, ég þakka henni góðu ráðin, ég þakka henni stríðnina, ég þakka henni umhyggj- una, ég þakka henni hugrekkið, ég þakka henni þrekið, ég þakka henni margt, margt fleira, en sérstaklega fyrir að vera einstök. Því einstakur er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi, eða manneskju sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. Einstakur lýsir þeim sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu ann- arra. Einstakur á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. Einstakur er orð sem best lýsir Guðrúnu. Þegar ég sá þennan texta fyrst þá fannst mér hann strax passa við vinkonu mína. Með betri orðum er ekki hægt að lýsa henni þegar tregt er tungu að hræra. Ég votta Óla mínum, börnum, tengdabörnum, litla sólargeislanum, ömmustelpunni Guðrúnu, bróður, móður og tengdamóður Guðrúnar mína innilegustu samúð. Ég veit að það birtir upp um síðir, gleðin og bjartsýnin á lífið kemur aftur inn í tilveru þeirra. Ekki síst vegna þess hve Guðrún er eftirminnileg þeim sem elska hana. Hún hverfur aldrei en lifir með fólkinu sínu það sem eft- ir er. Hún stráði um sig geislum gleði, hjálpsemi og hugrekkis. Ég á alltaf eftir að búa að því hve mikill styrkur það er að hafa átt hana að vini. Ég kveð vinkonu mína með miklum söknuði og óska henni góðs á nýrri vegferð. Sigrún Björnsdóttir. Mín yndislega vinkona, Guðrún Þórsdóttir, er látin langt um aldur fram. Ég var svo lánsöm að leiðir okkar lágu saman á Fræðsluskrif- stofu Reykjavíkur á 9. áratug síð- ustu aldar og síðan á Fræðslumið- stöðinni. Við áttum nána samvinnu sem kennsluráðgjafar við grunn- skóla borgarinnar á báðum skrif- stofunum. Guðrún var afar áhugasöm um allt sem gat stuðlað að velferð og góðu námi allra nemenda og lagði kapp á að hvetja til fjölbreyttra vinnubragða svo að hver einstakur nemandi fyndi eitthvað við sitt hæfi. Hún var alltaf hress og glöð og geislaði af orku sem hún bjó yfir til að framkvæma óþrjótandi hug- myndir varðandi ný vinnubrögð og má þar nefna náttúrufræði, nýsköp- un og lífsleikni sem skipuðu stóran sess. Hún skipulagði fyrir 10 ára nemendur borgarinnar í samvinnu við kennara gróðursetningu trjáa í borgarlandinu. Nemendahópum var úthlutað ákveðnu svæði við strendur borgarinnar til að kynnast lífi fjör- unnar og hreinsa það sem ekki átti heima þar. Hún var fyrst til að koma á skipulagðri kennslu sem stuðlaði að nýsköpunarvinnu nemenda í sam- vinnu við Kennaraháskólann og handmenntakennara og svo sá hún um að bestu hugmyndir nemend- anna væru verðlaunaðar og stund- um tókst að finna framleiðendur til að framleiða hluti úr nýsköpun nem- endanna. Hugmyndir Guðrúnar til gjöfullar námsvinnu nemenda gætu fyllt heila bók, svo ég læt hér staðar numið. Það er ekki hægt að hugsa sér betri vinnufélaga en Guðrúnu. Hún var svo hlý, skilningsrík og traust svo ekki sé minnst á hvað hún var skemmtileg og drífandi í félagsstarfi vinnufélaganna. Þegar leiðir skildi á Fræðslumið- stöðinni sá Guðrún um að við sem höfðum haft nánasta sambandið héldum áfram að hittast einu sinni á ári á heimilum okkar. Við hittumst síðastliðið haust og þá hvarflaði ekki að okkur að heilbrigða sjósunds- og hjólreiðakonan yrði nokkrum mán- uðum síðar að hverfa frá okkur vegna illvígs sjúkdóms. Vinkona okkar sem lifði svo heilbrigðu lífi og var að koma svo miklu til leiðar, nú síðast sem skólastjóri Vinnuskóla borgarinnar. Vinátta Guðrúnar og tryggð verð- ur ekki fullþökkuð en ég hafði oft á orði hve þakklát ég var fyrir árin sem við unnum saman og gátum þá styrkt hvor aðra í vandasömu starfi kennsluráðgjafans. Við Jón Freyr vottum allri fjöl- skyldu Guðrúnar innilega samúð. Blessuð sé minning hennar. Matthildur G. Guðmundsdóttir. Kær vinkona og samferðamaður í áratugi er látin í blóma lífsins. Guð- rún Þórsdóttir, skólastjóri Vinnu- skóla Reykjavíkur, helgaði sig allan sinn starfsferil kennslu, kennsluráð- gjöf og skólastjórnun. Hún lét sér ekkert mannlegt óviðkomandi í störfum sínum og var ávallt tilbúin að styðja góð málefni sem vörðuðu heill og hagsmuni grunnskólabarna. Það voru mér mikil forréttindi í starfi skólastjóra að eiga Guðrúnu að, þegar leita þurfti stuðnings eða ráðgjafar. Hún var í hverju máli ein- staklega ráðagóð. Hrósyrði hennar, áhugi og hvatning voru mikils virði, sögð beint frá hjartanu af sannfær- ingu og gleði. Við Guðrún vorum alltaf sammála í öllu því sem við ræddum, einstök málefni og öll sam- eiginleg verkefni. Það þurfti því ekki langa umhugsun eða marga fundi til að afgreiða erindin þegar leitað var til hennar sem verkefnisstjóra í ný- sköpunarstarfi grunnskóla eða sem skólastjóra Vinnuskólans um stuðn- ing við skákstarf í Rimaskóla. Guð- rún var allan sinn starfsferil réttur maður á réttum stað og í réttu starfi. Fyrir það eiga ótalmargir nemendur grunnskólanna í Reykja- vík og Vinnuskóla Reykjavíkur henni mikið að þakka. Við Guðrún höfðum í gegnum árin haft tækifæri til að gleðjast saman yfir árangri skólabarna sem náðu glæsilegum árangri í ýmsum ólíkum viðfangsefnum sem kölluðu á sköp- unargleði og rökhugsun. Stuðningur og hvatning Guðrúnar og Vinnu- skóla Reykjavíkur vó þungt í þeim árangri. Ég kveð þessa dugmiklu og hæfileikaríku konu með mikilli eft- irsjá en fullur þakklætis. Blessuð sé minning Guðrúnar Þórsdóttur. Helgi Árnason. „Guðrún mín er farin“ stóð svo átakanlega í skeytinu frá æskuvini mínum Óla í liðinni viku. Samferð frá því á seinni hluta unglingsáranna skyndilega lokið á ótrúlega skjótan hátt. Fjölskyldan algerlega þrumu lostin og á engan hátt undir þessa atburði búin. Gleðin sem með réttu hefði átt að ríkja á heimilinu, þegar dótturdóttir fæddist og yngsti sonurinn fagnaði stúdentsprófi, sveipaðist áhyggjum og döprum hugsunum um afleiðing- ar sjúkdóms þess, er hafði heltekið Guðrúnu. Já, sorgin og söknuðurinn hefur svo sannarlega barið að dyrum í Vergakoti. Við sem þekktum Guðrúnu fylgd- umst máttvana með atburðum ger- ast, vonuðum að kraftaverk gerðist og trúðum því að ef einhverjum tæk- ist að sigrast á erfiðum sjúkdómi, þá mundi það verða hún Guðrún. Þessi einbeitta, viljasterka vinkona okkar hafði svo oft sýnt og sannað styrk sinn til að leysa úr erfiðum verk- efnum í lífinu að við leyfðum okkur að trúa því að hún mundi vinna bug á sjúkdómnum. Guðrún var glæsileg kona með skarpleitt andlit, ljós yfirlitum og það sópaði að henni. Hvellur dillandi hláturinn gaf alltaf til kynna að Guð- rún væri á staðnum. Hún var ein- beitt og rökföst og það var alltaf gaman að spjalla við hana um hvað sem var. Óli og Guðrún voru sam- hent hjón og héldu vel utan um fjöl- skylduna. Bjuggu börnum sínum tryggt og hlýtt heimili og hugsuðu með alúð um foreldra sína. „Ég kveiki á kertum mínum við krossins helga tré“ segir í sálmi Davíðs Stefánssonar um dauða Krists. Við vinir Guðrúnar munum kveikja á kertum og horfast með auðmýkt í augum á það sem enginn maður ræður við og okkar allra bíð- ur. Við biðjum Guð að styrkja og lýsa vegferð fjölskyldunnar, sem nú þarf að vinna sig burt frá sorg og söknuði með því að kalla fram ynd- islegar minningar sem Guðrún skil- ur eftir sig. Elsku Óli, það er engin mildi í þeirri atburðarás sem nú er orðin, en ég finn að vilji þinn og styrkur til að takast á við erfiðleikana, styðja og hjálpa börnum ykkar, er þér nú efst í huga. Og þannig geri ég ráð fyrir að Guðrún hafi lagt línurnar, þegar ljóst var hvert stefndi. Við þökkum okkar kæru vinkonu samfylgdina og biðjum fjölskyldunni Guðs blessunar. Blessuð sé minning Guðrúnar Þórsdóttur. Jón og Halldóra. Lífið er hverfult og við eigum að njóta hvers dags með ástvinum okk- ar líkt og væri hann sá síðasti. Það er sá lærdómur sem ég hef dregið af atburðum síðustu vikna. Að hugsa til þess að Guðrún hafi nú kvatt þennan heim er óraunverulegt og fyllir hug minn trega. Orkumikil, lífsglöð og hjartahlý eru orð sem lýsa Guðrúnu vel og fá mann til að spyrja hvers vegna fólk búið slíkum kostum er hrifið burt langt fyrir ald- ur fram. Mér segir svo hugur að þörf hafi verið fyrir krafta hennar og þeirra sé nú notið á öðrum stað. Ég er fædd á afmælisdegi Guð- rúnar og allt frá því ég man eftir mér var mér sagt að hún hefði feng- ið mig í afmælisgjöf. Við deildum fleiru en afmælisdegi því áhugi á menntunarfræðum var okkur sam- eiginlegur og hvatti hún mig áfram á þeirri braut. Guðrún var fyrirmynd á fleiri sviðum því móðurhlutverkinu sinnti hún af alúð eins og öðru auk þess sem leitun var á konu með aðra eins orku og kraft til ræktar líkama og sálar. Á gleðistundum fjölskyld- unnar tók Guðrún ævinlega til máls til að heiðra þann sem stundina átti og ég á hlýja minningu frá því þeg- ar hún mælti fögur orð í mínu brúðkaupi. Guðrúnar verður sárt saknað og eftir situr stórt skarð í fjölskyldunni en nafn hennar mun lifa í litla ljósinu, barnabarninu sem hún fékk að njóta alltof skamman tíma. Elsku Óli, Þór, Stefán, Anna Hulda, Friðrik og fjölskyldur, megi Guð vera með ykkur og styrkja á þessum erfiða tíma. Helena Katrín. Svo djúp er þögnin við þína sæng, að þar heyrast englar tala, og einn þeirra blakar bleikum væng, svo brjóst þitt fái svala. Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt, svo blaktir síðasti loginn. En svo kemur dagur og sumarnótt, og svanur á bláan voginn. (Davíð Stefánsson.) Á sólríkum sumarmorgni, þegar náttúran vaknar af vetrardvala, sofnar annað líf. Hugsanir streyma fram og ljúfar minningar renna fyrir hugskotssjónum. Þannig lifir minningin um vinkonu okkar, Guð- rúnu, sem lést að morgni þriðju- dagsins 25. maí. Guðrún Þórsdóttir var stórglæsi- leg kona, hávaxin, teinrétt og með afar fallegt ljóst sítt hár. Hún var full af lífsþrótti og hreystin upp- máluð. Guðrún var brosmild og með glettið blik í augum. Hún gerði grín að nefi sínu og hló þá gjarnan hátt eins og hún gerði oft; svona svolitlum hrossahlátri. Guðrún sýndi samtímamönnum sínum áhuga, átti auðvelt með að setja sig í spor annarra og gefa góð ráð. Guðrún unni fjölskyldu sinni mjög og ber heimili og garður þeirra Óla þess glöggt merki. Vergakot er einstaklega lifandi og hlýleg fjöl- skylduparadís. Við Guðrún höfum þekkst í rúm fjörutíu ár og margt brallað um dagana. Ungar kynnt- umst við mönnum okkar, sem eru æskuvinir. Við ásamt fleiri vinum höfum haldið hópinn alla tíð og oft ferðast saman. Guðrún var góður ferðafélagi og upp úr standa þrjár ferðir með hópnum. Á Kúbu nutum við góða veðurs- ins, gróskumikillar náttúru og fal- legs mannlífs. Alls staðar var gróð- ur, meira að segja hringaði bergflétta sig upp girðingarstaura og fólkið var elskulegt, fallegt og í litríkum fötum. Á hverjum áning- arstað var tónlist og dans og nutum við þess að reyna að dansa eins og innfæddir. En við íslensku konurn- ar, með stífu mjaðmirnar, náðum illa að dilla okkur eins og fólkið sem hefur drukkið dansinn í sig með móðurmjólkinni. Þá hlógum við oft og mikið. Einn daginn ákváðum við Guðrún að fara í skólaheimsóknir og bera saman kjör nemenda á Kúbu við kjör þeirra íslensku. Sá dagur varð einn sá eftirminnilegasti á Kúbu og höf- um við oft rifjað hann upp. Þar sáum við nemendur með stílabæk- ur sem klipptar höfðu verið í þrennt og með svo þykk blöð að þau líktust helst þerripappír. Stíla- bókin var nefnilega notuð ár eftir ár og vinna vetrar strokuð út til að bókin nýttist aftur næsta vetur. Önnur ferð er ekki síður eftir- minnileg en þá áttum við saman nokkra fallega sumardaga í Fljóta- vík á Hornströndum þaðan sem Óli á ættir að rekja. Í vetur fórum við í afar skemmtilega ferð til Berlínar þar sem við upplifðum sögu Evr- ópu í hverju skrefi. Og nú þegar sorg og söknuður ríkir í huga mér, ylja þessar ljúfu minningar og fyrir þær er ég óend- anlega þakklát. Ég á eftir að sakna Guðrúnar og nærveru hennar. Um leið og við Þórður þökkum Guð- rúnu fyrir góða samfylgd vottum við Óla, okkar kæra vini, og fjöl- skyldunni allri okkar dýpstu sam- úð. Litla nýfædda Guðrún á eftir að veita þeim styrk til að takast á við sorgina. Minningin um góða og skemmtilega konu lifir. Blessuð sé minning Guðrúnar Þórsdóttur. Marta María Oddsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.