Fréttablaðið - 19.12.2011, Qupperneq 44
19. desember 2011 MÁNUDAGUR28 28
menning@frettabladid.is
1:1 000 000
FRÁBÆRT Í BÚSTAÐINN
Í bókinni Án vegabréfs –
Ferðasögur rifjar blaða-
maðurinn og ljósmyndarinn
Einar Falur Ingólfsson upp
ferðir sínar um heiminn síð-
ustu tvo áratugina í orðum
og myndum.
„Ég hef lengi verið áhugasamur um
ferðasögur. Þær voru vinsælar hér
á landi eftir seinna stríð þótt minna
hafi farið fyrir þeim hér á seinni
árum, en eru þó sprelllifandi form
víða, til dæmis í hinum vestræna
heimi. Þetta eru sannar sögur, en
hægt að beita í þeim öllum brögð-
um skáldskaparins,“ segir Einar
Falur Ingólfsson, ljósmyndari og
blaðamaður, um nýútkomna bók
sína Án vegabréfs – Ferðasögur.
Bókin inniheldur ferðaþætti
frá fjarlægum deildum jarðar
yfir tveggja áratuga tímabil eða
svo. Víða er drepið niður fæti og
á margvíslegum stöðum, köldum
sem heitum og fjölmennum sem
fámennum. „Ég hef ferðast mikið
í gegnum árin, stundum í tengslum
við vinnuna en þó oftar af eigin
hvötum og þá
fyrst og fremst
til að taka ljós-
myndir,“ segir
Einar Falur. „Á
þessum ferðum
mínum, til Suð-
ur-Ameríku,
Kína, Indlands,
norðurpólsins,
Kanada, Fær-
eyja og víðar,
hef ég haldið ítarlegar dagbækur
og skráð í þær upplifanir, atburði
og samtöl. Þegar ég lagðist í dag-
bækurnar fyrir ári þótti mér svo
gaman að vinna úr þeim að úr varð
þetta samtal sagna og ljósmynda.
Þótt bókin sé samvinna margra
þátta er grunnhugmyndin alltaf
sú sama, að segja sögur af fólki og
stöðum. Hvort sem maður er stadd-
ur meðal þrjátíu milljón manna á
fjölmennustu samkomu allra tíma
í Indlandi eða í fámenninu á norð-
urpólnum, er mannlegt eðli alltaf
samt við sig.“
Höfundurinn segir sögurnar í
bókinni afar ólíkar innbyrðis en
allar mjög persónulegar. „Sum
ferðalögin voru bein viðbrögð við
einhverju sem ég var að upplifa
hér heima. Í janúar 2000, þegar
umræður um Kárahnjúkavirkjun
voru hvað heitastar hér, fór ég til
dæmis til Kína að skoða Þriggja
gljúfra stífluna við Jangtze-fljót
í Kína. Lónið sem þar var búið til
næði frá Reykjavík til Egilsstaða.
Kannski gerir bakgrunnur minn
sem blaðamaður að verkum að ég
reyni að setja slíka hluti í sam-
hengi. Einnig bjó ég í New York í
nokkur ár og það var ógleymanlegt
að snúa aftur til gömlu heimaborg-
arinnar nokkrum dögum eftir árás-
irnar á tvíburaturnana, sjá rústirn-
ar og tala við íbúa borgarinnar,“
nefnir Einar Falur sem dæmi.
Auk Án vegabréfs kemur Einar
Falur að þremur öðrum bókum
fyrir jólin, en hann þýddi Íslensk-
ar veiðiár eftir Robert Neil Stew-
art og á ljósmyndir í Veiðisögum
Bubba Morthens og bók um Grímsá
og Tunguá eftir Guðmund Guðjóns-
son. „Oft hef ég verið upptekinn
en þetta ár hefur líklega verið það
hressilegasta,“ segir Einar Falur
og hlær. „En bækurnar eru allar
komnar út og ég er mjög sáttur.“
kjartan@frettabladid.is
Mannlegt eðli samt við sig
LÍKVAKA „Þetta er fjölskylda í kirkjugarði í námaborginni Potósí á hásléttu Bólivíu. Daginn áður var amman jörðuð og um nóttina
grófu þau upp bein afans, sem lést átta árum fyrr. Nú átti að sameina gömlu hjónin í einni gröf.“ MYND/EINAR FALUR INGÓLFSSON
Tónlist ★★
Jóhann Sebastian Bach: Hljómsveitarsvítur
Kammersveit Reykjavíkur
Smekkleysa
Daufleg kammersveit
Út er kominn geisladiskur með Kammersveit Reykjavíkur. Þar flytur hún hljóm-
sveitarsvítur Bachs undir stjórn Reinhard Goebel. Maður spyr sjálfan sig af
hverju.
Svíturnar eru til á ótal upptökum, og þessi útgáfa bætir litlu við. Spila-
mennskan er að vísu ágæt, hún er nákvæm og stílhrein. En hvar er andagiftin?
Upptökurnar voru gerðar fyrir heilum ellefu árum, eftir að Kammersveitin
hafði flutt svíturnar á jólatónleikum. Það er eitthvað þreytulegt við túlkunina.
Kannski var sveitin bara lúin eftir tónleikana. Tæknilega séð er ekki hægt
að finna að neinu, en það vantar leikgleðina. Flutningurinn er vélrænn og
andlaus.
Martial Nardeau leikur einleik á flautu. Hann gerir það ágætlega, svo langt
sem það nær. Spilamennskan er öguð og rétt. En það dugir ekki til. Það vantar
tilfinninguna. Hinn dillandi lokakafli svítu nr. 2 er t.d. einkennilega kuldalegur.
Og flautan er of aftarlega í upptökunni. Útkoman er hvorki fugl né fiskur
Upptakan í heild, sem var í höndum Páls S. Guðmundssonar, er ekki nógu
góð. Hún er þurr og grunn, og fer tónlistinni illa.
Hér hefði mátt gera betur. Kammersveitin, sem er óneitanlega einn af
máttarstólpum tónlistarlífsins á Íslandi, á ekkert annað skilið.
Jónas Sen
Niðurstaða: Nákvæm en andlaus spilamennska, og upptakan er ekki nógu
góð.
AKRÝLMÁLVERK Á HRAFNISTU Björg Atla sýnir nítján akrýlmálverk í Menningarsal Hrafnistu, DAS, að Hraun-
brún 7 í Hafnarfirði. Sýningin stendur til 3. janúar og er öllum opin frá klukkan 14.30 til 19 daglega. Málverk Bjargar eru í
óhlutbundnum expressionískum stíl, litrík og ljóðræn. Björg útskrifaðist úr málaradeild Myndlista- og handíðaskólans 1982,
og kenndi málun á námskeiðum við Myndlistaskólann í Reykjavík 1982-1987.
Bækur ★★★★
Í klóm dalalæðunnar
Sindri Freysson
Veröld
Að strjúka nýspunnið silki
Sindri Freysson hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guð-
mundssonar 2011 fyrir ljóðabókina Í klóm dalalæðunnar
og án þess að hafa séð önnur handrit sem send voru inn
er auðvelt að skilja hvers vegna. Í klóm dalalæðunnar er
óvenju heilsteypt ljóðabók og vel unnin, heillandi ferðalag
um fortíð og nútíð í norðlenskri sveit, óður til fólks og nátt-
úru, full af óvæntum tengingum, hugmyndum og listilega
dregnum myndum.
Sveitin, Aðaldalurinn þingeyski, er í aðalhlutverki, taugin
frá kynslóð til kynslóðar sterk og náttúran, fólkið og dýrin
ein órofa heild sem ekkert raskar þótt ár og aldir líði.
Bókin hefst á ferðalagi norður í dalinn, ljóðmælandinn
einn á ferð yfir landið, „bestu ferðafélagarnir fjarverandi“
og áfangastaðurinn í senn æska hans og ættarsaga,
draumur og veruleiki. Afi og amma innrömmuð á veggnum
aðalleikendur í fyrsta þætti, stofninn sem framtíðin vex af.
Ég er kominn
Ég er
hér
Ófæddur
flesta daga
Óuppalinn
alla daga
Ófeiminn ferðalangur
Ekki lengur
myndasögur
í farteskinu
aðeins myndir
í eigin sögu
(bls. 34)
Sindri leiðir lesandann listavel í gegnum þá sögu. Raðar
brotum, byggir brýr yfir gljúfur fortíðarinnar, bregður
upp myndum af fólki og draugum, skapar heim fullan af
bláhvítu ljósi, næturhljóðum, sólþungum sumardögum
og nístandi frosti. Það er ekki sársaukalaust að ferðast um
eigin sögu, undir liggur þungur tregi, ljóðmælandinn í
senn þátttakandi og gestur og „að leikslokum er náttúran
eini sigurvegarinn“. (bls. 50)
Ef þú slæst
í svefnför
með mér
heyrirðu hringla
í klakadrönglum
einsog í dauðu klukknaspili
þegar þeir rekast saman
Tónlist
Drauma minna
(bls. 90)
Stíll Sindra er meitlaður og fáorður, hvert orð hefur vægi,
örmyndir endurspegla stærri veruleika, hið hálfsagða og
ósagða kraumar undir og eykur spennuna, ferðalagið um
leið hið eilífa ferðalag frá vöggu til grafar, „glerhöfuð eru
ekki gerð til að endast“ (bls. 74). Sveitin er heimurinn allur,
fullur af hættum og óuppgötvuðum undrum. Saga ein-
staklingsins, saga mannsins í fortíð, samtíð og framtíð.
Í klóm dalalæðunnar er ekki stór bók í orðum og blað-
síðum talið, en þær eru vandfundnar ljóðabækurnar sem
spanna stærra svið eða segja stærri sögu. Og allt unnið af
næmni og listfengi sem á sér fáar samsvaranir í ljóðagerð
samtímans. Tvímælalaust ein besta ljóðabók síðari ára.
Friðrika Benónýsdóttir
Niðurstaða: Heilsteypt og fantavel unnin ljóðabók. Spenn-
andi ferðalag um fortíð og samtíð.
EINAR FALUR
INGÓLFSSON