Morgunblaðið - 27.10.2011, Page 18
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. OKTÓBER 2011
BAKSVIÐ
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturjg@mbl.is
Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrum-
varpi ríkisstjórnarinnar vegna
næsta árs að samtals verði tekið við
376 milljónum króna frá Evrópu-
sambandinu vegna umsóknar Ís-
lands um inngöngu í sambandið í
svonefnda IPA-styrki í ýmis verk-
efni á vegum einstakra ráðuneyta.
Ennfremur verði tekið samanlagt
við rúmlega einum milljarði króna í
þessi verkefni fram til ársins 2015
samkvæmt áætlunum.
Eru þá ótaldir fjármunir sem
renna frá Evrópusambandinu til
þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðu-
neytisins vegna þýðingar á löggjöf
sambandsins yfir á íslensku vegna
umsóknar Íslands.
Fræðsla og kortlagning
Gert er ráð fyrir því að verkefni á
vegum mennta- og menningarmála-
ráðuneytisins, sem stýrt er af Katr-
ínu Jakobsdóttur, fái á næsta ári 124
milljónir króna frá Evrópusamband-
inu í gegnum IPA-styrkjakerfið og
samtals 309 milljónir króna til ársins
2015. Til stendur að fjármunirnir
renni til Fræðslumiðstöðvar at-
vinnulífsins og verði nýttir til þess að
auka starfshæfni fullorðinna með
litla formlega menntun með því að
efla raunfærnimat.
Samtals er reiknað með að 468
milljónir króna renni úr IPA-sjóðum
Evrópusambandsins til Náttúru-
fræðistofnunar Íslands sem heyrir
undir Svandísi Svavarsdóttur um-
hverfisráðherra fram til ársins 2015
og þar af 125 milljónir á næsta ári.
Fjármunirnir verða nýttir til þess að
kortleggja vistkerfi og fuglalíf á Ís-
landi með það fyrir augum að auð-
kenna svæði sem þarfnast verndun-
ar. Auk þess er einnig gert ráð fyrir
stuðningi við verkefnið meðal annars
í formi þjálfunar, tækniaðstoðar og
búnaðar.
Styrkur frá Eurostat
Hagstofa Íslands mun samkvæmt
fjárlagafrumvarpinu fá 36 milljónir
króna frá Evrópusambandinu í IPA-
styrki á næsta ári og samtals 136
milljónir króna fram til ársins 2015
samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkis-
stjórnarinnar en stofnunin heyrir
undir efnahags- og viðskiptaráðu-
neyti Árna Páls Árnasonar. Fjár-
mununum verður varið til „að efla
gerð þjóðhagsreikninga“ eins og
segir í frumvarpinu. Þá hefur Hag-
stofan samið um 13 milljóna króna
styrk frá Eurostat, hagstofu Evr-
ópusambandsins, til undirbúnings að
kerfi sem ætlað er að halda utan um
utanríkisviðskipti Íslands við önnur
ríki Evrópusambandsins komi til
inngöngu í sambandið.
Að lokum er gert ráð fyrir því að
91 milljón króna renni úr IPA-
styrkjakerfi Evrópusambandsins til
verkefnis sem felur meðal annars í
sér þróunaráætlun fyrir Eyjafjalla-
jökulssvæðið og uppbyggingu þekk-
ingarseturs.
Meirihluti á vegum VG
Af þessum fjármunum frá Evr-
ópusambandinu rennur stærstur
hlutinn í krónum talið til verkefna
sem heyra undir ráðuneyti sem stýrt
er af ráðherrum í Vinstrihreyfing-
unni – grænu framboði, mennta- og
menningarmálaráðuneytisins og
umhverfisráðuneytisins, eða um 2⁄3 sé
miðað við þá styrki sem gert er ráð
fyrir á næsta ári en 77,5% sé miðað
við heildarupphæðina til ársins 2015.
Tekið skal fram að gera má ráð fyrir
að styrkjafjárhæðin væri mun hærri
ef sjávaraútvegs- og landbúnaðar-
ráðuneytið undir forystu Jóns
Bjarnasonar hefði ekki afþakkað
slíka styrki frá Evrópusambandinu
en hann kemur einnig úr röðum
vinstri grænna.
Enn umsóknarríki 2015?
IPA-styrkir Evrópusambandsins
eru ætlaðir ríkjum sem fengið hafa
stöðu umsóknarríkja að sambandinu
eða teljast möguleg ný aðildarríki.
Styrkjunum er einkum ætlað að auð-
velda umræddum ríkjum að gera
þær breytingar á stofnunum sínum
og löggjöf sem Evrópusambandið
telur nauðsynlegt að ráðist sé í áður
en þau geti fengið inngöngu í sam-
bandið.
Athygli vekur að gert skuli vera
ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi rík-
isstjórnarinnar að áðurnefnd verk-
efni á vegum ráðuneytanna njóti enn
IPA-styrkja frá Evrópusambandinu
á árinu 2015 en slíkir styrkir eru eins
og áður segir aðeins ætlaðir fyrir ríki
sem hafa stöðu umsóknarríkja en
ekki ríki sem orðin eru hluti af sam-
bandinu. Verður það vart skilið öðru-
vísi en svo að ekki sé gert ráð fyrir
því af hálfu stjórnvalda að Ísland
verði enn í stöðu umsóknarríkis þeg-
ar kemur fram á árið 2015.
Eftirlit ESB með ráðstöfun
Fram kom í máli Össurar Skarp-
héðinssonar utanríkisráðherra á
fundi utanríkismálanefndar Alþingis
18. október síðastliðinn að enn hefði
ekki verið tekið við neinum IPA-
styrkjum frá Evrópusambandinu
vegna umsóknar Íslands um inn-
göngu í sambandið.
Þá sagðist Össur ætla að leggja
fram þingsályktunartillögu á Alþingi
á þessu þingi um fullgildingu á
rammasamningi á milli ríkisstjórn-
arinnar og framkvæmdastjórnar
Evrópusambandsins um ráðstöfun
IPA-styrkja og eftirlit sambandsins
með henni hér á landi.
Meirihluti styrkja vegna VG
Stærstur hluti styrkja frá ESB vegna umsóknar um inngöngu í sambandið vegna verkefna á vegum
ráðuneyta sem stýrt er af vinstri grænum Gert ráð fyrir að Ísland verði enn umsóknarríki árið 2015
Reuters
Styrkir Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna næsta árs að Ísland þiggi IPA-styrki frá Evrópusambandinu til ársins 2015.
Áætlaðir IPA-styrkir frá Evrópusambandinu
2012 2013 2014 2015 Samtals:
Mennta- og menningarmálaráðuneytið 124 77 77 31 309
Umhverfisráðuneytið 125 148 148 47 468
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið 36 43 43 14 136
Iðnaðarráðuneytið 91 91
(milljónir króna)
Evrópusambandið hefur sett
það skilyrði fyrir því að land-
búnaðarkaflinn í viðræðum um
inngöngu Íslands í sambandið
verði opnaður að íslensk stjórn-
völd leggi fram tímasettar áætl-
anir um það hvernig og hvenær
þau hyggist gera breytingar á
löggjöf og stjórnsýslu landbún-
aðarmála hér á landi.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra, hefur
hafnað því að slíkar áætlanir
verði gerðar þar sem ekki
standi til að gera slíkar breyt-
ingar nema fyrir liggi að Ísland
ætli í Evrópusambandið. Össur
Skarphéðinsson, utanríkis-
ráðherra, hefur fullyrt að ekki
verði ráðist í slíkar breytingar
nema Íslendingar samþykki inn-
göngu í sambandið í þjóðar-
atkvæði.
En þá hlýtur sú spurning að
vakna hvernig hægt sé að setja
saman tímasettar áætlanir um
aðlögun að kröfum Evrópusam-
bandsins þegar ekki liggur fyrir
hvenær slíkt þjóðaratkvæði
kunni að fara fram.
Tímalausar
áætlanir?
ESB-UMSÓKNIN
Una Sighvatsdóttir
Hjörtur J. Guðmundsson
Aðgerðahópur húsgagnasala telur
það ekki standast skoðun að Arion
banki hafi aðeins lagt Pennanum til
100 milljónir króna frá stofnun árið
2009 og að afkoma fyrirtækisins sé í
takt við áætlanir. Hópurinn segir að
allt önnur mynd en bankinn dragi
upp komi fram þegar ársreikningar
Pennans fyrir árin 2009 og 2010 séu
skoðaðir.
Í yfirlýsingu frá Skúla Rósants-
syni, talsmanni aðgerðahópsins, seg-
ir að afkoma Pennans fyrir fjár-
magnsliði og afskriftir sé neikvæð
um 24.618.146 krónur á þessum ár-
um. „Jafnframt liggur fyrir að Arion-
banki hefur lagt Pennanum til
1.366.412.523 kr. í hlutafé og virðist
það hafa verið greitt inn í félagið í
þremur hlutum og hefur það fé að
sjálfsögðu verið nýtt til rekstrar,“
segir í yfirlýsingunni.
Í óvæginni samkeppni
Húsgagnasalar segjast eiga í
óvæginni samkeppni við Pennann
sem hafi, fyrir utan áðurnefnd fram-
lög, fengið umtalsverðar upphæðir
lánaðar frá Arion banka á síðustu
misserum. Hópurinn bendir á að tap
Pennans, samkvæmt ársreikningum
síðustu tveggja ára, sé samtals
1.035.382.907 krónur.
„Slíkt tap þarf að fjármagna –
hvaða nöfnum sem menn nefna þá
fjármögnun,“ segir ennfremur í yfir-
lýsingunni. Ljóst sé að fyrirtæki með
slíkt tap þurfi að hafa sterkan eig-
anda og þolinmóðan banka.
„Það er okkar mat að yfirlýsing
bankans frá því í gær sé röng eða í
besta falli mjög villandi enda virðist
tilgangur hennar vera sá að leiða um-
ræðuna frá kjarna málsins,“ segir
Skúli. Húsgagnasalar spyrji sig hvort
tilmæli Samkeppniseftirlitsins um
eðlilegar arðsemiskröfur bankans
séu uppfylltar í þessu tilviki. Til skoð-
unar sé að skila inn formlegri kæru.
Gerður söluvænlegri
„Kjarni okkar gagnrýni á vinnu-
brögð Arion banka varðandi málefni
Pennans er að endurskipulagning á
fjárhag í raun gjaldþrota fyrirtækis
hefur tekið allt of langan tíma. Okkur
þykir óeðlilegt að slíkt fyrirtæki hafi
bolmagn til að standa í mikilli mark-
aðssókn,“ segir Skúli. Þeir telji að
með innspýtingu á fjármagni í rekst-
ur Pennans sé Arion banki að reyna
að ná fram meiri veltu og gera fyrir-
tækið söluvænlegra sem komi niður á
samkeppnisaðilum.
Morgunblaðið/Ómar
Umræða Frá fundi fulltrúa aðgerðahóps húsgagnasala með fulltrúum Arion banka sem fram fór í gær.
Til skoðunar að
leggja inn kæru
Segja yfirlýsingu Arion banka ranga