Vera - 01.12.1988, Page 32

Vera - 01.12.1988, Page 32
„Hef gott af. því að safna þessu saman'' Rætt við Helgu Sigurjónsdóttur Hún byrjaði í baráttunni, eins og hún orðar það sjálf, og flestar sem láta kvenfrelsismál til sín taka þekkja hana — eða að minnsta kosti skrif hennar. I bar- áttunni er hún áfram, en nú með öðrum formerkjum og nefnir hún sjálfa sig ,,tóm- stundafræðikonu". Um þessar mundir er að koma út á bók hluti afrakstrar starfs hennar í formi greinasafns sem ber heit- ið ,,l nafni jafnréttis". Helga Sigurjónsdóttir — því auðvitað er það hún sem er tómstundafræðikonan — fór snemma að hafa afskipti af kvenfrelsis- baráttunni. Hún var virk rauðsokka og tók þátt í stofnun Kvennaframboðsins 1981. Það var einmitt á þessum umrótaárum kvennabaráttunnar sem Helga fór að láta að sér kveða fyrir alvöru á síðum dag- blaðanna. ,,Það má segja að ég hafi byrjað í bar- áttunni og síðan hafi áhuginn þróast yfir í fræðistörf. Baráttustigið var þó nauðsyn- legt fyrir mig, við gerðum svo margt spennandi, og stundum jafnvel hættulegt. Síðan hef ég farið meir inn á við og nú er ég alltaf að grúska og þetta er orðið mitt tómstundamál," útskýrir Helga. — Var eitthvað sérstakt sem olli þessari áherslubreytingu hjá þér? „Ahugann hef ég haft lengi en það má kannski segja að þetta hafi byrjað í nor- ræna sumarháskólanum 1979. Veturinn 1980—1981 dvaldi ég svo í Gautaborg í launalausu fríi og fór beint inn í „Forurn för kvinnoforskning", sem er hópur kvenna við Háskólann í Gautaborg sem sinnir kvennafræðum. Þar komst ég í bækur og svo framvegis." — Árið 1982 birti Helga greinaflokk í Dagblaðinu, þar sem hún skoðaði jafn- réttishugtakið annars vegar og kvenfrelsi hins vegar, hugmyndir sósíalista um kven- frelsi og gerði hugtakið feðraveldi að um- talsefni. Greinarnar tíu vöktu mikla athygli meðal kvenfrelsiskvenna þá — og eru þessi málefni ennþá í brennidepli þar sem konur ræða sín mál. ,,Eg skrifaði þessar greinar meðal ann- ars vegna þess að ég var svo hrædd um að verið væri að stofna enn eina kvenna- hreyfinguna sem mundi festast í einhvers- konar jafnréttisrugli sem einungis mundi þjóna feðrasamkundunni. Sú hugsun fannst mér skelfileg og satt að segja fannst mér ég oft á þessum árum vera eins og rödd hrópandans í eyðimörkinni." — En tímarnir hafa breyst og nú gefur Helga meðal annars út þessar umdeildu greinar í bók. ,,Ég hef skrifað ýmislegt í gegnum árin, meðal annars þennan greinaflokk, og margir hafa beðið mig um þessar greinar, sérstaklega hópar úr öldungadeildum og framhaldsskólum, svo mig langaði til að koma þessu á prent í aðgengilegu formi. Ég reiknaði þó ekki með að útgefendur mundu slást um þetta efni, sérstaklega ekki eftir að hafa upplifað að leita til þeirra í sambandi við þýðingu á sænskri bók sem heitir „Kvinnors kriser". Það þótti fulltrúum bókaútgefenda ekki merkileg söluvara. En Björg Einarsdóttir hjá Bókrún sýndi þessu strax áhuga og fannst tíma- bært að gefa það út." — Helga segir að hægt sé að skipta bókinni í þrjá meginflokka: Aðdragandi að Kvennaframboðinu, greinaflokkinn frá 1982 og greinaflokk um klám. Helga skrifar inngang að bókinni en allt annað efni bókarinnar hefur verið birt áður nema grein sem er byggð á erindi Helgu um íslenskar konur sem hún flutti á kvennaþinginu i Osló. Þar gerir hún grein fyrir eldra og yngra kvennaframboði, gerir samanburð á þeim og greinir hugmynda- fræði þeirra. f þessu samhengi skoðar hún einnig stöðu íslenskra kvenna frá sögulegu sjónarhorni og ætti sýn Helgu á kvenna- sögu að vera lesendum Veru nokkuð kunn þar sem hún hefur birt greinar um þetta efni á síðum blaðsins. „Ég geymdi greinarnar um kvennasögu, eins og margt annað efni, vegna þess að mig langar til að fara dýpra í það og vinna það áfram." — Svo það er von á fleiri bókum frá þér? „Já, það er aldrei að vita og ég ætla að halda áfram að skrifa ef guð lofar. Það sem ýtti undir að ég fór út í þetta nú var að ég fékk smá styrk frá Kvennarann- sóknahópnum til að skoða Rauðsokka- hreyfinguna nánar. Við Björg erum nú báðar gamlar Rauðsokkur svo við gerum okkur vonir um að geta gefið út bók um hreyfinguna á 20 ára afmæli hennar 1990." — Hvaða augum lítur þú þessa bók sem nú er að koma út. Er hún tæki til að vekja til vitundar? „Vekja til vitundar ... Ég er alveg hætt að tala þannig. Ég hef skrifað það mikið að ég hef gott af því að safna þessu sam- an, sem byrjun til að geta svo farið dýpra. Hitt er annað mál að ég er kenn- ari og vil gjarnan segja frá því sem ég veit ef einhver hefur gaman af að hlusta. Ég er sannfærð um að þessi bók getur verið lesefni fyrir allar konur, hvort sem þær eru „langt eða stutt" komnar í kven- frelsisbaráttunni og ég vona að hægt verði að nota bókina sem einhverskonar kennslubók á námskeiðum og svo fram- vegis og að hún geti orðið kvennahreyf- ingunni til framdráttar." kb 32

x

Vera

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vera
https://timarit.is/publication/858

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.