Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1964, Blaðsíða 34
öþófin, m. a. af því, að þófi kemur ekki fyrir í reyf-
unum, fyrr en ullarskil fara að koma á féð, og það
er ekki fyrr en síðast í febrúar og í marzmánuði,
sem þau koma á vel fóðrað fé.
Þegar gærurnar eru loðsútaðar, óklipptar, ber mest
á toginu á þeim, og það er mikils virði, að togið
á þeim sé áferðarfallegt, ef gæran á að verða góð
söluvara loðin. Annað atriði, sem hefur mikil áhrif
á útlit gæranna sútaðra, er litblærinn á gærunum
eftir sútun.
Það er gaman að fara í minjagripabúð og velja
loðna gæru handa útlendingi, sem vill kaupa eitt-
hvað „íslenzkt“, ef hægt er að finna þar margar
alhvitar gærur með hvitu og gljáandi togi, þéttum
og hrokknum þelfæti, blæfallegar, mjúkar viðkomu,
vel kembdar og snyrtar, fallega ristar sundur eftir
miðjum kvið og örðu- og fellingalausar á innra borði.
Slíkar gærur eru góð verzlunarvara.
Hitt er jafnömurlegt, ef gærurnar, sem á boðstól-
um eru, eru allar meira og minna gallaðar. Stund-
um eru gærurnar illa ristar eftir kvið, þannig að
kviðarskinnið hefur fylgt alveg annarri síðunni,
stundum hefur gæran verið birkt af með hníf, svo
óhönduglega, að sprett hefur verið i hana hér og
þar á innra borði, svo að skín i gapandi sprungurnar.
Sumar gærurnar eru svo strýhærðar, að þær minna
meira á geitarskinn en lambsgæru, aðrar með mis-
löngu togi, toglausar á hrygg, en með togstrýi i sið-
um. Stundum eru þær of mikið bleiktar, þannig að
ullin á þeim verður þurr, blædauf og stöm. En al-
gengasti gallinn á gærunum er sá sami og á ullinni.
Þær eru ekki hreinhvitar, heldur er i þeim meira og
minna af rauðgulum illhærmn.
Þessir gallar og kostir á loðsútuðum gærum eru
mikið til þeir sömu og áður er lýst í sambandi við
ullina. Ef þær eiga að verða góð vara, þarf ullin á
þeim að vera góð.
(32)