Freyr - 01.03.1981, Síða 34
Helstu einkenni
riðuveiki í sauðfé
Eftir Pál A. Pálsson, yfirdýralækni
Þegar fjárhópur er skoðaður með tilliti til riðuveiki, verður
að hafa tvennt í huga:
Einkenni veikinnar sjást varla á kindum fyrr en þær eru
veturgamlar. Algengust er veikin í kindum 2—4 vetra, en
getur oft komið fram í eldra fé, einkum þar sem veikin er
að byrja í fjárhópnum.
Byrjunareinkennin eru nokkuð breytileg frá degi til dags,
meira áberandi suma daga en aðra og mislangur tími líður
þar til einkenni verða stöðug. Því getur þurft að skoða
kind á þessu stigi oftar en einu sinni til að verða viss í sinni
sök. Oft skortir nokkuð á, að öll einkenni riðuveiki komi
fram í einni og sömu kindinni.
Fyrstu einkenni riðuveiki munu vera þau, að kindin legg-
ur af þrátt fyrir góða lyst og er oft óeðlilega þorstlát.
Ótti og hræðsla gerir fljótt vart við sig, en þetta getur
verið erfitt að greina og meta fyrir menn, sem ókunnir eru
fénu. Þessar kindur kippast stundum snögglega við meðan
þær eru að éta, hrökkva frá garðanum, án þess að þær verði
fyrir styggð, jafna sig þó fljótt aftur (eftir 1—2 mínútur) og
taka til við gjöfina á ný. Þessi hræðsla kemur best í ljós, ef
reyna á að handsama kindina, hún æðir þá á hvað sem fyrir
er, og sé hún dregin til, eftir að búið er að ná henni, hnígur
hún oft niður.
Sé tekið þéttfast í horn á
kindum, sem eru með veikina á
byrjunarstigi, má oft finna örfínan
titring á höfðinu.
Ef kindur þessar eru skoðaðar
nákvæmlega, má oft merkja smá
krampadrætti í kring um augun og
í kjálkavöðvum.
Tannagnístur er áberandi hjá
riðukindum, sfandi þær eða liggi
óáreittar.
Þar sem kláði fylgir riðu, má oft
sjá að hyrnt fé er að reyna að klóra
sér með hornunum og síðar fer það
að nudda sér upp við staura, veggi
og stoðir.
Ef riðukind er klórað létt ofan í
bakið, virðist hún hafa fróun af
því, teygir fram snoppuna og
kjamsar í sífellu líkt og kláðakind.
Mjög er misjafnt hvað þessi
fyrstu'einkenni riðu standa lengi.
Ef vel er fylgst með kindinni, sést,
að þau geta varað vikum saman.
Því næst fara að koma fram hin
eiginlegu riðueikenni.
Kindin missir vald á hreyfing-
um, fer að verða óstyrk í fótum
eins og hún missi fótanna, einkum
ef hún er rekin upp í móti eða eftir
ósléttu landi. í byrjun kemur
óstyrkleikinn mest fram í öðrum
hvorum afturfæti og ágerist svo
smám saman. Best sést þetta, þeg-
ar kindin er látin hlaupa. Henni
hættir þá til að hnjóta eða heykjast
í fætinum, missir eðlilegan
hlaupatakt. Síðar verða hlaupin
álappaleg, hún slettist til að aftan,
ber framfæturna óeðlilega hátt og
hleypur stundum líkt og hún væri í
hafti á afturfótum, hættir þá til að
velta um koll og fær þá stundum
krampakast.
Samfara þessum breytingum á
fótaburði fer oft að bera á titringi
eða riðu á hausnum og er það mest
áberandi, þegar kindin hefur reynt
á sig.
Smám saman missir kindin
þrótt, þreytist fljótt í rekstri, vill
liggja mikið.
Stundum fylgir riðu ákafur
kláði, er oft kemur fram áður en
truflana í gangi verður vart. Getur
kindin orðið viðþolslaus, tætir af
sér ullina og er sífellt að klóra sér
eða nudda upp við stoðir, staura
eða börð. Stundum sést að riðu-
sjúklingar naga eða sleikja fæturna
194 — FREYR