Litli Bergþór - 01.05.1994, Blaðsíða 5

Litli Bergþór - 01.05.1994, Blaðsíða 5
Hvað segirðu til? Hér verða tíunduð helstu tíðindi úr sveitinni á útmánuðum og fram í byrjun maí. Veðurfarið hefur verið fremur gott, nokkuð rysjótt lengi vel, stutt bylgusa á páskadag, fremur kalt fram í maí en þá fór hægt hlýnandi. Vatn var orðið mjög lítið í jökulánum síðast í apríl. Samkvæmt þjóðtrúnni á mjólkin úr ánum að vera feit, þar sem sumar og vetur harðfrusu saman. Gefur það vonir um að lömb verði væn í haust. Heilsufar hefur verið gott, en þó gengið hlaupabóla. Ýmsir menningarviðburðir hafa verið hér, svo sem leiksýnig Ungmennafélags Gnúpverja, en leikflokkur þess sýndi gamanleikinn Blúndur og blásýra snemma í mars. Karlakór Selfoss söng í Aratungu og kóra Fjölbrautaskóla Suðurlands og Menntaskólans að Laugarvatni í Skálholtskirkju. Báðir þessir tónleikar voru allvel sóttir. Erkibiskupinn af Kantaraborg kom í heimsókn í Skálholt í sumarbyrjun. Jónas Gíslason, vígslubiskup í Skálholti, hefur sagt starfi sínu lausu og kosning í það embætti hefur farið fram meðal presta í Skálholtsbiskupsdæmi og nokkurra starfsmanna Þjóðkirkjunnar. Þeir þrír prestar sem hlutu flest atkvæði voru; Sigurður Sigurðarson, sóknarprestur á Selfossi, 49, Guðmundur Þorsteinsson, sóknarprestur í Árbæjar- sókn í Reykjavík, 38, og Karl Sigurbjörnsson, sóknarprestur í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík, 29 atkvæði. Aðrir munu hafa fengið samtals 13 atkvæði. Þar sem enginn fékk meirihluta atkvæða verður að kjósa aftur milli þessara þriggja. Val á vígslubiskupi getur snert Tungnamenn töluvert, þar sem ráð mun vera gert fyrir að hann verði sóknarprestur í Skálholtsprestakalli jafnframt vígslubiskupsstarfi, þegar núverandi sóknarprestur lætur að störfum. Farfuglar fóru að koma í mars, og munu álftin og þrösturinn hafa verið fyrst á ferðinni. Sumir leggja eyru við fyrsta hneggi hrossagauksins til að láta hann spá fyrir sér. Ekki er ólíklegt að margir ógiftir en vonandi enginn giftur hafi heyrt fyrst til hans í útsuðri, en forspáin er svona: / nónstaö ef aö gaukurinn gólar giftist sá sem einsamall rólar. Þeir giftu munu missa sinn maka og mæðu fyrir gleðina taka. Hins vegar mun gott fyrir alla að heyra fyrst í honum í suðri. / suörinu ef söngfuglinn ieikur í sællífinu verðurðu keikur. Fullur munt þú feitur út ganga, fjarlægist þér hallærið stranga. Glerskáli í gistiheimili við Geysi. Atli Þór tilbúinn að taka á móti gestum. í marslok og í byrjun apríl var flutt í kaupleigu- íbúðirnar 4 í tveim nýbyggðum húsum við Kistuholt í Reykholtshverfi. Nokkuð hefur ræst úr með verkefni hjá Yleiningu og verið unnið þar á tveimur vöktum upp á síðkastið. Að Haukadal III hefur verið opnað gistiheimili. Það er í húsi, sem upphaflega var gróðurhús, og eru þar 11 herbergi, snyrtiaðstaða, sérstakt salerni fyrir fólk í hjólastólum, eldunaraðastaða og um 250 fermetra glerskáli. í Úthlíð er stöðugt verið að bæta og auka við aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum, og í vetur hafa verið byggðir þar 2 sumarbústaðir til útleigu. Nýr rektorsbústaður hefur verið tekin í notkun í Skálholti, og var fólki boðið að skoða hann þegar hann var fullgerður í byrjun maí. Dálítið var um sinubruna undir lok apríl. Þeir munu nær allir hafa verið tendraðir af forsjálni og væntanlega samkvæmt tilskildu leyfi sýslumanns. Ekki ógnuðu þeir mannvirkjum verulega, en fyrir kom þó að slökkvilið var fengið til að hefta útbreiðslu elds, enda var jörð orðin mjög þurr undir lok apríl. Á vegum Biskupstungnahrepps hefur verið gefinn út nýr þjónustubæklingur, Þjónusta í Biskupstungum. í honum er kort af Biskupstungum, ýmsar gagnlegar upplýsingar og rúmlega 30 aðilar auglýsa þar þjónustu sína. Út er komin 4. prentun af ferðaþjónustubæklingi fyrir uppsveitir Árnessýslu. Hann er gefin út af uppsveitahreppunum 5 frá Þjórsá að Sogi. Hann geymir kort af þessum sveitum og sérkort yfir 9 þéttbýlisstaði. Stuttur pistill er um hverja sveit og greint frá ferðaþjónustu í hverri þeirra. A. K. Litli - Bergþór 5

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.