Bændablaðið - 12.10.2004, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 12.10.2004, Blaðsíða 28
28 Þriðjudagur 12. október 2004 Allir einstaklingar í samfélagi manna bera einkennandi lykt sem menn greina vel frá sterkum ilmi svitalyktareyðis eða ilmvatns. Líkamslyktinni stýra nokkur gen, nefnd MHC-gen. Ilmskynið er eitt af næmustu skilningarvitum manna og dýra. Í dýratilraunum hefur komið fram að til dæmis bæði hornsíli og mýs völdu maka með MHC-genasamsetningu ólíka sinni eigin. Konur falla ekki fyrir pabbalykt Það olli nokkurri undrun þegar vísindamenn í Chicago í Bandaríkjunum komust að þeirri niðurstöðu að konur laðast helst að líkamslykt sem líktist líkamslykt og MHC-genasamsetningu feðra sinna. Þetta myndi leiða til þess að konur veldu maka sem hefði svipaðar erfðir og þær sjálfar og gæti stuðlað að skyldleikarækt og úrkynjun. Það veikir þessa niðurstöðu að í músatilraunum hefur komið í ljós að mýs forðast lykt feðra sinna þegar þær eru mökunarfúsar en eftir getnað velja þær lykt sem líkist feðrunum, líklega vegna þess að sú lykt veitir þeim öryggi til uppeldis afkvæmanna. Þá hefur komið í ljós að konur sem voru á getnaðarvarnarpillum brugðust við á svipaðan hátt og fengnar mýs, þær völdu menn með svipuð MHC-gen og feður þeirra. Þetta kunna að vera óþekktar aukaverkanir getnaðarvarnarlyfja og líklegt má telja að konur án pillunnar hefðu valið menn með ólíka genasamsetningu. Því kann að vera að konurnar í fyrrnefndri tilraun, sem völdu lykt feðra sinna, hafi einmitt verið undir áhrifum þessara aukaverkana pillunnar. Karlar og karldýr eru hins vegar ónæmari fyrir lykt kvendýra og makast við nánast hvaða kvendýr sem er mökunarfúst. Tilraun með líkamslykt og makaval manna Margar rannsóknir hafa sýnt að mæður þekkja vel lyktina af nýfæddum börnum sínum. Vísindamann í Detroit í Bandaríkjunum fýsti að vita hvernig aðrir fjölskyldumeðlimir kæmu út úr lyktartilraunum. Hann fékk til þátttöku í tilraun 25 fjölskyldur sem áttu að minnsta kosti tvö börn á aldrinum 6-15 ára. Hann lét þeim í té lyktarlausa boli, lyktarlausa sápu og plastpoka með lási. Þátttakendur áttu að sofa í bolnum í þrjár nætur, þvo þá með lyktarlausu sápunni og loka þá síðan í pokanum. Síðan lyktaði hver og einn af tveimur bolum, öðrum af eigin fjölskyldumeðlimi og hinum af óskyldum þátttakanda, án þess að vita um uppruna bolanna. Þátttakendur voru beðnir um að staðfesta hvor bolurinn væri af ættingja og hvor ekki og einnig hvor lyktin þeim þætti betri. Niðurstöðurnar voru á þá lund að báðir foreldrar þekktu ilminn af börnum sínum þó mæðurnar væru öruggari en hvorugt foreldranna gat greint á milli barna sinna. Öll börnin þekktu lyktina af föður sínum en hins vegar þekktu 5-8 ára börn ekki ilminn af móður sinni en 9-15 ára unglingar gerðu það. Það kom hins vegar á óvart að flestum þátttakendum líkaði betur við lyktina af óskyldum einstaklingum en sínum eigin fjölskyldumeðlimum. Mæðrum líkaði til dæmis illa við lyktina af börnum sínum og börnunum fannst lyktin af feðrum sínum ógeðfelld. Sem sagt: það að þekkja lykt og að líka við hana er tvennt ólíkt. Vörn gegn skyldleikarækt Vísindamenn telja að þessi andúð á lykt náskyldra ættingja kunni að vera hluti af varnarkerfi mannsins gegn sifjaspellum eða blóðskömm. Það var til dæmis athyglisvert að systkinum af gagnstæðu kyni líkaði illa við lykt hvors annars. Það að börnum skuli ekki falla í geð lykt af feðrum sínum er hluti af þróun þeirra til sjálfstæðis þar sem þau leita fremur í geðfellda lykt óskyldra. Þannig beinir ilmskynið fólki til fylgilags við óskylda einstaklinga og þá frá skyldleikarækt og sifjaspellum. Alison Motluk, 2003: Your family really does stink. NewScientist 24. August, 20. Birgitte Svenning, 2002. Konurnar falla fyrir pabbalykt. Lifandi vísindi10/2002, 60-61. Bjarni E. Guðleifsson, Möðruvöllum Úr ríki náttúrunnar 13. þáttur Er líkamslykt manna hluti af varnarkerfi gegn skyldleikarækt? Undanfarin misseri hafa starfs- menn Landgræðslunnar unnið að mati á beitilandi þátttakenda í gæðastýringu í sauðfjárrækt. Ljóst er að þetta verk hefur tekið talsvert lengri tíma en ráð var fyrir gert og má einkum rekja það til skorts á gögnum svo Nytjaland gæti lokið sinni vinnu við upplýsingaöflun um gróður og stærðir lands. Nú er búið að fara um þau svæði þar sem gögn Nytjalands eru tilbúin. Þetta eru annars vegar svæðið frá Skagafirði, vestur um og til Borgarfjarðarsýslu og hins vegar Norður Þingeyjarsýsla og Múla- sýslur. Enn vantar svolítið upp á að gögn í Suður-Þingeyjarsýslu, Eyjafjarðarsýslu og á Suðurlandi séu fullbúin. Í stórum dráttum þurfa um 5% þeirra framleiðenda, þar sem mat á beitilandi hefur farið fram, að vinna landbóta- og landnýtingar- áætlanir. Þessir bændur hafa í framhaldi af þessu fengið tilkynn- ingu um að þeir þurfi að vinna landbóta- og landnýtingaráætlun þar sem skilyrði um landnýtingu eru ekki uppfyllt. Þegar hefur borið á því að þetta þykir ekki sanngjarn dómur, land sé í framför og engin ofbeit til staðar vegna mikillar fækkunar fjár. Einnig liggur fyrir ályktun Landssamtaka sauðfjárbænda þar sem þess er krafist að Landgræðslan virði viljayfirlýsingu sauðfjársamnings- ins vegna mats á landnýtingarþætti gæðastýringar. Það er því e.t.v. ástæða til að tíunda hér á hverju mat á beitilandi byggist og rifja upp hvað stendur í téðri viljayfirlýsingu og þeim reglum sem settar voru í framhaldi af því. Viljayfirlýsingin Til upprifjunar þá eru sett fram markmið í samningi um fram- leiðslu sauðfjárafurða um: að sauðfjárrækt sé í samræmi við um- hverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið. En hvað eru æskileg landnýtingarsjónar- mið? Í viljayfirlýsingunni eru mörg orð sem lúta að mati á landnýtingu s.s. að nýting sé sjálfbær, ástand ásættanlegt og gróður í jafnvægi eða framför. Einnig stendur þar að nýting skuli vera ágreiningslaus og að stefnt skuli að því að auðnir og rofsvæði verði ekki nýtt til beitar. Af öllu þessu þá hefur því einkum verið haldið á lofti í um- ræðum meðal bænda að gróður verði að teljast í jafnvægi eða framför. Og hvað felst í því? Að einhverskonar jafnvægisástand sé til staðar, að eyðing gróðurs eigi sér ekki stað og/eða að merki séu um að gróður sé að sækja á. Í vinnu starfsmanna Land- græðslunnar síðustu misseri hefur komið í ljós að land er mjög víða í framför, gróðurþekja að aukast og plöntutegundir sem illa þola beit að verða meira áberandi. Það hefur einnig verið staðfest að víða er land að eyðast í dag sökum jarð- vegsrofs. En hvernig á þá að meta land, þar sem hluti þess er í fram- för og hluti þess að eyðast? Er það í framför, jafnvægi eða afturför? Hvernig á að meta gróðurtorfur þar sem gróðurþekja er heilleg ofaná en rof í jöðrum? Hvaða áhrif hefur þurrkasumarið 2004 á viðkvæm gróðurlendi, sem eru illa varin gegn vindi? Lagasetning Í 43. gr. laga nr. 101/2002 eru sett þau skilyrði að framleiðendur sem taka þátt í gæðastýringu í sauðfjárrækt skuli hafa aðgang að nægu nýtanlegu beitilandi fyrir búfé sitt. Landnýting skal vera sjálfbær þannig að framleiðslugeta landsins sé nægileg og nýting innan þeirra marka að gróðurfar sé í jafnvægi eða framför að mati Landgræðslu ríkisins. Matið skal byggjast á stærð gróðurlendis og gerð þess, gróðurfari og framleiðni ásamt fyrirliggjandi gögnum um nýtingu og ástand, t.d. vegna rofs, uppblásturs o.fl., samkvæmt nánari reglum sem landbúnaðarráðherra setur. Í greinargerð með frumvarp- inu segir að í lagaákvæðinu sé lýst á hvern hátt haga skuli nýtingu beitilanda og úrbótum, sé þeirra þörf, svo að nýting auðlindarinnar sé með skynsamlegum hætti og um hana skapist víðtæk sátt. Reglugerð Í samræmi við áðurnefnd lög þá setur landbúnaðarráðherra nán- ari reglur um hvernig landnýting skuli metin og er það gert í 13. gr. reglugerðar nr. 175/2003. Þar er nánast sami texti og í lögunum en í I. viðauka reglugerðarinnar er nán- ar útfært hvað í matinu felst. Mats- reglurnar byggjast einkum á mati á stærð gróðurlendis og gerð þess, gróðurfari og framleiðni ásamt fyrirliggjandi gögnum um nýtingu og ástand. Nýtanlegt beitiland skal vera í viðunandi ástandi og miðað skal við að auðnir og rofsvæði verði ekki nýtt til beitar. Í þessu felst að þar sem verið er að nýta til beitar auðnir og rofsvæði, þó svo að nægileg beit sé til staðar fyrir það sauðfé sem þar gengur, þá skuli stefnt að því að hætt verði að nýta þessi sömu svæði til beitar í núverandi ástandi. Miðað er við að ekki megi vera mikið eða mjög mikið jarðvegsrof á meira en 5% af beitilandi og rofsvæði og auðnir mega ekki þekja meira en 33% af beitiland- inu. Víðast hvar á landinu hefur beitarálag af völdum sauðfjár minnkað verulega frá því sem það var mest, í kringum 1980. Og fjöl- margir bændur hafa unnið gríð- armikið starf á sínum jörðum við að bæta landgæði með upp- græðslu. Það sem hins vegar stendur eftir er að enn er verið að nýta land þar sem alvarlegt jarð- vegsrof á sér stað og fé hefur víða óheftan aðgang að auðnasvæðum. Markmið gæðastýringarinnar Niðurstaða gæðastýringarinnar verður að vera í samræmi við þá stefnumörkun sem felst í vilja- yfirlýsingunni, að nýting beitilands sé sjálfbær, ástand þess ásættanlegt og gróður í jafnvægi eða framför, að stefnt sé að því að auðnir og rofsvæði verði ekki nýtt til beitar, og að þannig skapist víðtæk sátt um þá landnýtingu sem styrkt er með opinberu fé. Slík sátt er bænd- um nauðsynleg sem framleið- endum matvæla og þar sem rekstur þeirra er styrktur með almannafé. Fram til þessa hefur í flestum tilvikum gengið vel að ná sátt um þau markmið að halda auðnum fjárlausum og að stöðva jarðvegs- rof sem á sér stað innan beitilanda. Þessum markmiðum er, eðli málsins samkvæmt, mis erfitt að ná. Upprekstraraðilar á afréttum hafa margir lýst vilja sínum til þess að halda auðnasvæðum og rof- svæðum fjárlausum með markvissri förgun þess fjár sem þangað leitar. Aðrir ætla að hefja umfangsmiklar uppgræðslur enda hafa bændur lengi verið manna duglegastir við að vinna að því markmiði að stöðva eyðingu lands með uppgræðslu. Ekki þarf því að vera um stefnubreytingu að ræða að því leyti, heldur að markmiðin séu skýr og að unnið verði markvisst að þeim. Því er gerð landbóta- og landnýtingaráætlunar síður en svo dauðadómur yfir sauðfjárbúskap viðkomandi fram- leiðanda, heldur tæki til að skerpa markmið og áherslur í nýtingu þess lands sem hann hefur til umráða. Björn H. Barkarson Höfundur er sviðsstjóri landverndarsviðs Landgræðslu ríkisins Efri mynd: Uppgræðsla bænda hefur breytt auðnum og rofsvæðum í nytjaland. Neðri mynd: Melar geta verið að gróa en mikið rof í jöðrum. Landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt - mat á beitilandi

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.