blaðið - 15.12.2006, Blaðsíða 40
40 FÖSTUDAGUR 15. DESEMBER 2006
blaðiA
Breiðir út fagnaðarerindið
Oskar Einarsson
var á unglings-
aldri þegar hann
uppgötvaði undra-
heim gospeltónlist-
arinnar. Á meðan
jafnaldrar hans
voru að hlusta á hljómsveitir á borð
við U2, Queen og Duran Duran var
Óskar að hlusta á spólur með gospel-
söngvaranum Andrae Crouch sem
forstöðumaður Hjálpræðishersins
á Akureyri hafði gaukað að honum.
Hann komst strax á bragðið og ekki
varð aftur snúið.
Óskar hefur á undanförnum árum
unnið ötullega að útbreiðslu gospel-
tónlistarinnar hér á landi meðal
annars sem tónlistarstjórnandi
Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu og
stjórnandi Gospelkórs Reykjavíkur.
Þá hefur hann enn fremur haldið go-
spelnámskeið víða um land og reynt
að breiða út fagnaðarerindið og sá
fræjum sem víðast. Svo virðist sem
starf hans sé farið að skila árangri
sem má til dæmis merkja á fjölgun
gospelkóra og samstarfi Gospelkórs
Reykjavíkur og Sálarinnar hans Jóns
míns í haust. Síðast en ekki síst hafa
jólatónleikar Fíladelfíu notið sívax-
andi vinsælda eftir að Sjónvarpið
hóf að senda þá út í jóladagskrá sinni
fyrir nokkrum árum.
„I síðustu viku vorum við með fimm
tónleika fyrir troðfullu húsi. Það
voru hátt í 2000 manns sem komu og
hlýddu á og við hefðum getað bætt
við fleirum. Þessir jólatónleikar byrj-
uðu fyrir um áratug og þá var það
aðallega safnaðarfólkið sem mætti
og allt fram til 2002 vorum við bara
með eina tónleika og fylltum húsið
einu sinni. Síðan urðu þeir tvennir,
þá fernir og núna fimm þannig að
það er greinilegur áhugi og hann er
að aukast,“ segir Óskar.
Hann segir að gæði tónlistarinnar
hafi einnig tekið framförum frá því
að hann byrjaði fyrst að fást við hana
í kirkjunni árið 1991.
„Gæði þess sem við erum að gera
í dag eru mun meiri en þegar við
byrjuðum en það hefur líka tekið
sinn tíma. Maður setti kannski ekki
markið jafnhátt þá. Við gáfum út
disk 1994 og þegar maður hlustar á
hann aftur í dag er vissulega margt
gott en það hafa líka sem betur fer
orðið framfarir og söngvurum hefur
farið mjög fram,“ segir hann.
Islendingar feimnir
að tjá trú sína
Þó að vinsældir gospelsins hafi
vaxið hér á landi á undanförnum
árum tók það sinn tíma að koma
íslendingum á bragðið og fá þá til
að meta þessa tilfinningaríku trú-
artónlist sem byggist mikið upp á
innlifun.
„Þetta hefur tekið svolítinn tíma
og það er hugsanlega vegna þess að
íslendingar eru svolítið lokaðir og
feimnir við að tjá tilfinningar sínar
og trú út á við. Þeir vilja frekar hafa
trúna út af fyrir sig og eru kannski
ekki alveg tilbúnir að hoppa hæð
sína í loft upp og hrópa halelúja á
hverju götuhorni," segir Óskar og
bendir á að í Ameríku sé þetta auð-
veldara enda alist Amerikanar upp í
kirkjunum og séu ófeimnari en við.
Hann segir jafnframt að í Skandin-
avíu sé mjög sterk gospelhefð og hafi
verið í mörg ár. Óslóargospelkórinn
sem heldur tónleika hér á landi um
helgina þykir til dæmis í fremstu röð
og hefur selt fjölda hljómplatna. „Ég
fór til Noregs með Hjálpræðishernum
þegar ég var 13 eða 14 ára og þar var
gospelkór á öðru hverju götuhorni. I
öllum bæjarfélögum voru allt að þrír
gospelkórar en á sama tima var ekki
einn einasti hér á landi. Kannski
erum við bara svona langt á eftir í
þessu eins og öðru en vonandi er það
eitthvað að breytast," segir hann.
Tónlist sem bætir líf fólks „Ég
vil reyna eftir fremsta megni að
syngja texta sem bæta líf fólks,
uppörva það og hafa einhvern
jákvæðan boðskap," segir Óskar
Einarsson stjórnandi Gospelkórs
fíeykjavíkur.
Myndi ekki syngja
með Silvíu Nótt
Óskar segir að gospeltónlist sé í
sjálfu sér trúartónlist með djass-, blús-
og sálarívafi og hægt sé að taka hefð-
bundin popplög og útsetja þau í go-
spelstíl. Að mati Óskars verður lag þó
aldrei ekta gospellag nema innihald
þess sé trúarlegs eðlis. Þá eru textar
sumra laga þess eðlis að þá má túlka
bæði trúarlega og veraldlega.
„Það er aragrúi af popplögum sem
gætu verið beggja blands og það eru
ekki alltaf skýr skil á milli. Suma
texta Sálarinnar sem við vorum að
syngja um daginn má skilja á tvo
vegu, til dæmis textann við „Þú full-
komnar mig“ og „Þú trúir því“ sem
Þóra Gísladóttir syngur með Stebba
Hilmars og Gospelkórnum. Þá má
skilja annað hvort sem tilbeiðslu til
almættisins eða óð til ástarinnar. Það
er undir hverjum og einum komið
hvernig þeir túlka textana og menn
upplifa tónlist á mismunandi hátt.
Ég vil fyrst og fremst flytja tónlist til
að upphefja Guð og tilbiðja. Þetta er
tilbeiðslu- og trúartónlist í mínum
huga,“ segir Óskar sem leggur mikið
upp úr textum og syngur ekki hvað
sem er.
„Ég gæti aldrei fallist á að við
syngjum um eitthvað sem væri á
móti minni sannfæringu. Textarnir
skipta miklu máli og ég vil reyna eftir
fremsta megni að syngja texta sem
bæta líf fólks, uppörva það og hafa
einhvern jákvæðan boðskap. Ef Silvía
Nótt hringdi í mig myndi ég líklega
ekki taka þátt í að syngja með henni.
Ég myndi ekki geta samþykkt það
sem hún stendur fyrir og hefur verið
að gera þó að það sé grín og glens,"
segir Óskar.
„Mér finnst að það mætti vera meira
um upplífgandi og skemmtilega texta.
Okkur veitir ekkert af því í þjóðfélag-
inu í dag að vera jákvæð og uppörva
hvert annað meira og vera skemmti-
leg. Mér finnst það mikilvægt. Auð-
vitað á öll tónlist rétt á sér en ég tel
að mitt hlutverk eigi að vera að gleðja
fólk,“ segir hann.
Sálin og Gospel
I haust hélt Gospelkór Reykjavíkur
tónleika með Sálinni hans Jóns míns
í Laugardalshöll þar sem mörg vinsæl-
ustu lög sveitarinnar voru færð í go-
spelbúning. Tónleikarnir voru hljóð-
ritaðir og kvikmyndaðir og komu
nýverið út á mynd- og hljóðdiski. í til-
efni af útgáfu disksins verður efnt til
annarra tónleika þann 30. desember
þar sem lögin á disknum verða flutt
auk nokkurra að auki sem ekki er að
finna á honum.
Óskar segir að samstarf Gospelkórs-
ins og Sálarinnar hafi verið eðlilegt
framhald af því sem báðir hóparnir
höfðu verið að gera, enda sé sálartón-
listin náskyld gospelinu.
Tildrög þessa samstarfs eiga sér
skemmtilega forsögu. í nóvember á
síðasta ári var Óskar ásamt nokkrum
söngvurum á Höfn í Hornafirði þar
sem hann hafði staðið fyrir gospel-
námskeiði. „Ég var að ræða um það
við samstarfsstúlkur mínar að það
gæti verið gaman að gera eitthvað
nýtt i gospelinu og stakk upp á því
að það mætti til dæmis taka einhver
lög með Sálinni eða fá hana í sam-
starf. Um það leyti sem við vorum
að ljúka þeirri umræðu á laugardags-
kvöldi hringdi síminn," segir Óskar.
í símanum var Jóhann Hjörleifsson,
trommuleikari Sálarinnar, sem Óskar
hafði áður unnið með. „Hann var
staddur á Akureyri þar sem hann
var að fara að spila á Sálarballi. Þeir
höfðu þá verið að ræða nákvæmlega
sama hlutinn, að það væri gaman að
gera eitthvað nýtt og þá kom sú hug-
mynd upp að það gæti verið gaman
að fá Gospelkór Reykjavíkur með sér
í samstarf. Við vorum því hvor á sínu
landshorninu að ræða sama hlutinn á
sama tíma,“ segir Óskar.
Þarf að útrýma fátækt á íslandi
Þrátt fyrir miklar annir um þessar
mundir gefur Óskar sér tíma til að
njóta jólanna sem eru í hans huga
tími samveru með fjölskyldunni.
„Þó að þetta hljómi kannski væmið
þá eru jólin hátíð ljóss og friðar og
ég fagna alltaf komu þeirra þó að ég
viti að margir eigi um sárt að binda.
Ég veit að það eru margir sem þjást
mjög mikið sérstaklega um jólin og
kviða þeim. Maður hugsar oft til
þeirra líka,“ segir Óskar og bætir við
að sér finnist frábært að geta lagt sitt
af mörkum með jólatónleikunum en
ágóði af þeim rennur til þeirra sem
minna mega sín. Sú hjálp er þó aðeins
dropi í hafið.
„Það þarf að útrýma þessari fátækt
á íslandi. Ég ætla ekki að vera pólit-
ískur og hef aldrei verið það en það
er skömm að í þjóðfélagi sem veður í
peningum og flestir hafa nóg að það
skuli ekki vera hægt að jafna bilið
betur en þetta að menn skuli vera í
vandræðum með að kaupa föt eða
mat. Ég vildi að maður gæti gert eitt-
hvað til að leysa vandamálið en það
þarf að taka á rót þess og breyta ýmsu
til að fólk geti að minnsta kosti glaðst
um jólin,“ segir Óskar sem vill að fólk
noti líka tækifærið til að rifja upp
hvað gerðist á jólunum og af hverju
við höldum þau hátíðleg. „Mín ósk og
bæn er náttúrlega sú að við reynum að
nálgast náungann af aðeins meiri kær-
leik og verðum pinulítið mýkri. Auð-
vitað væri draumurinn að fólk færi
á hnén og þetta væri tækifæri fyrir
það að taka trúarafstöðu og taka við
Jesú sem sínum leiðtoga, ekki aðeins á
jólunum heldur geri það að sínum lífs-
stíl eins og hjá mér. Gospeltónlistin
og trúin er lífsstíll eða eins og segir í
einu laganna sem við sungum á jóla-
tónleikunum þá eru jólin alla daga og
allt árið um kring,“ segir Óskar Einars-
son að lokum.