Bændablaðið - 08.02.2005, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 08.02.2005, Blaðsíða 24
24 Þriðjudagur 8. febrúar 2005 Í stuttu máli Sigvaldi Ragnarsson er bóndi á Hákonarstöðum í Jökuldal. Kona hans er Halla Eiríksdóttir, hjúkrun- arstjóri á Egilsstöðum, og ellefu ára stjúpdóttir hans, Rósey. Einnig búa þar foreldrar hans, Birna Jó- hannsdóttir og Ragnar Sigvalda- son, sem er fæddur og uppalinn á Hákonarstöðum. Land Hákonarstaða er um 10 þúsund hektarar. Tvíbýlt er á Hákonarstöðum. Ræktað land Sigvalda er um 30 hektarar Um 500 fjár er á vetrarfóðrum Að meðaltali voru 1,8 lömb eftir hverja á í vor. Greiðslumark búsins er rúmlega 300 ærgildi Þá eru ótaldir nokkrir hestar og fjörmiklar forystuær! Það er gaman að koma í heimsókn til Sig- valda og hans fólks á Hákonarstöðum á Jök- uldal. Sigvaldi er mikill áhugamaður um sauðfjárrækt og hann er líklega með yngri bændum þessa lands. Á Hákonarstöðum er nýlegt fjárhús sem rúmar um 400 kindur. Meðalfallþungi sl. haust var rétt um 16 kíló. Hákonarstaðabændur slátruðu snemma eða um 300 dilkum í ágúst. Sigvaldi sagði að hann hefði talið rétt að byggja húsið og bæta þannig vinnuaðstöð- una. „Ég vildi létta mér störfin“, sagði Jökul- dælingurinn en hann bætti því við að vél- væðingin hefði ekki tekið öll völd í fjárhús- unum. „Ég vildi ekki fá sjálfgjafakerfi því ég hef ekki fulla trú á því fyrirkomulagi. Maður verður nú að reyna aðeins á skrokk- inn,“ sagði Sigvaldi sem getur ekið heyrúll- um á fóðurgang en þarf að bera heyið út í garðana sem eru stuttir. „Það er prýðileg lík- amsrækt, hver gjöf tekur u.þ.b. hálftíma og menn hafa gott af því að strita svolítið. Ann- ars safna þeir bara mör,“ sagði Sigvaldi og kímdi. Þar sem við stóðum í fjárhúsinu og horfðum á hópinn sagði Sigvaldi að hann hefði látið telja fóstrin í kindunum í fyrravet- ur. „Það gekk vel. Nákvæmnin var rúmlega 80% sem telst mjög gott hjá fólki sem er að hefja sinn feril á þessu sviði. Þegar þetta lá fyrir gat ég flokkað kindurnar eftir því hvort talningin sýndi eitt eða tvö fóstur - eða ekk- ert. Þar með gat ég ákvarðað fóðrunina, hag- rætt og auðveldað starfið. Reynsla mín af þessu var það góð að ég hef pantað fóstur- talningu aftur. Þá nota ég tölvuforritið Fjár- vís til að halda utan um hópinn og mér líkar vel við þetta forrit.“ Þegar húsið var byggt árið 2000 ákvað Sigvaldi að hafa járnristar á slitflötum í gólfi en tré að öðru leyti. Undir þeim er haughús sem dælt er úr. Þess má geta að Sigvaldi blandar skítinn með haugmeltu frá Döggum sem gerir það að verkum að hann verður mun auðveldari viðureignar. Fjárhúsið er að sjálfsögðu byggt samkvæmt reglugerðum og því vel einangrað. Í þakinu eru mörg mis- munandi lög, það efsta er að sjálfsögðu bárujárn, en svo kemur pappi, krossviður, steinull og klæðning. Þegar Bændablaðið heimsótti Sigvalda í fjárhúsið var þar vel heitt - eða um 20 gráðu hiti - þrátt fyrir að viftan ólmaðist og gluggar væru opnir. Það var með afbrigðum loftgott í húsinu og ljóst að kindunum leið vel. Þar sem við stóðum og horfðum á sauðfé Sigvalda í fjárhúsinu lá beint við að spyrja hvert hann stefndi í sauðfjárræktinni á Há- konarstöðum. Sigvaldi hugsar sig um og segir svo að enn séu mörg handtök eftir við nýja fjárhúsið. „Ætli maður haldi ekki í horf- inu. Ég hef í sjálfu sér áhuga á að kaupa mér meiri rétt en eins og staðan er nú er verðið of hátt.“ Líklega henta fáir staðir jafn vel til sauð- fjárræktar og Jökuldalurinn. Á vorin opna þeir feðgar hliðin og féð streymir út í sumar- hagann. Fæstar sjá ástæðu til að fara langt enda landið gott. Sigvaldi segir beitarhagann í góðu jafnvægi - og frekar í bata en hitt. „Landnotkun hefur líka breyst frá því sem áður var. Vetrarbeitt hefur verið hætt og bændur sleppa ekki lengur nema jörð sé al- gróin. Nú er ekki lengur þörf fyrir forystuær eins og í gamla daga. Hins vegar eigum við nokkrar slíkar en það er nú meira til gamans gert. Þessar ær mega ekki hverfa.“ En hvernig gengur að smala? Nú er land ykkar stórt en fólkið fátt. „Það hefur gengið nokkuð vel. Ættingjar og vinir eru tilbúnir til að koma og taka þátt í þessu með okkur.“ Hver er reynsla ykkar af því að slátra í ágúst? „Það flokkaðist vel og matið var gott. Við slátruðum hjá Norðlenska á Húsavík þannig að líklega hafa flestir okkar dilka hafnað á diskum milla í Ameríku. Annars höfum við líka reynt nýjungar á sviði mark- aðssetningar því hér á bæ tókum við þátt í verkefninu Austurlamb. (www.austur- lamb.is) Fyrir þá sem ekki þekkja þá er um að ræða heimasíðu sem fólk getur heimsótt og keypt lambakjöt frá ákveðnum bæjum. Það greinileg þörf fyrir þjónustu af þessu tagi - margir vilja kaupa upprunamerkt kjöt í lofttæmdum umbúðum. Ég tek eftir því að sama fólkið er að kaupa aftur og aftur. Auð- vitað gleður það mitt jökuldælska hjarta. Það hafa komið margar fyrirspurnir frá útlönd- um en því miður er það ekki gerlegt að verða við þeim. Verðið sem við fengum fyrir ágústdilk- ana var betra en ef við hefðum látið slátra seinna. Reynslan er sem sagt sú að nú - rétt eins og árið á undan - hleyptum við til tveimur vikum fyrr en við erum vön og fyrstu ærnar eiga að bera í byrjun maí. Í sjálfu sér gætum við látið hluta ánna bera enn fyrr því við eigum til húsnæði sem gæti hentað í þessu sambandi.“ Sauðfé og laufa- brauð úr postulíni Bændablaðið heimsækir ábúendur á Hákonarstöðum í Jökuldal Sigvaldi í fjárhúsinu. Lífið í sveitinni hefur tekið miklum breytingum frá því sem áður var. Fólk er mun færra en búin hafa stækkað. Hér á öld- um áður hefði bóndi með 400 ær á vetrarfóðrum verið talinn með ríkustu mönnum! Sigvaldi notar fyrst og fremst heimahrúta en hann sæddi um 100 ær í fyrra - og það verk annast hann sjálfur. Þess má geta að Sigvaldi hefur keypt hrúta frá þekktum fjárræktarbúum á Snæfellsnesi. Stofninn á Hákonarstöðum er annars kominn af svonefndu Jökuldalsfé. Sigvaldi og Ragnar faðir hans.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.