Bændablaðið - 27.01.2006, Side 24
24 Þriðjudagur 31. janúar 2006
Í síðustu viku skunduðu bændur og búalið, vel á annað
hundrað stykki í það heila, til Jótlands í þeim tilgangi að
berja augum tæki og tól, kálfa og kýr og allt annað sem
til sýnis var á hinni glæsilegu Agrómek landbúnaðarsýn-
ingu í Herning.
Tveir stórir hópar fóru frá Íslandi, fríður flokkur á vegum
Landssambands kúabænda og annar ekki svo ófríður heldur
frá Vélaveri. Samtals voru þetta um hundrað manns en auk
þess voru ýmsir íslenskir bústólpar á sýningunni á eigin veg-
um.
Þetta er níunda árið í röð sem Landssamband kúabænda
skipuleggur ferð á Agrómek og í öll skiptin hefur fararstjóri
verið Snorri Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sam-
bandsins en núverandi forstöðumaður búrekstrar á Hvann-
eyri. Hann sagði ferðirnar hafa gengið vel og mælst gífurlega
vel fyrir hjá bændum og búaliði enda hafa alls um fimm
hundruð manns farið á þessar sýningar undir hans farar-
stjórn.
Tilgangur ferðarinnar var öðru fremur að skoða Agrómek
sýninguna og fyrsti dagurinn fór fyrst og fremst í forkönnun,
því ógerningur var að grannskoða allt sem í boði var á fáein-
um tímum. Síðan var sýningin skoðuð nánar en um helming-
ur ferðarinnar á vegum LK, sem spannaði fimm daga, fór í
að skoða búskapinn hjá þeim dönsku. Meðal annars var
skoðað kúabú af vænni gerðinni, geitabú, afurðastöðvar o.fl.
Síðan kynntu menn sér einnig óhefðbundinn búskap s.s.
keilusal og ölkrár sem reyndar tilheyra dönskum landbúnaði
óvéfengjanlega.
Alvöru amboð
Það sem kom mönnum hvað mest á óvart á Agrómek var að
þarna var að finna tæki fyrir nánast hvert einasta handtak
sem viðkemur búrekstri. Mikla athygli vöktu róbótar til að
skafa flórristar og smúla svínastíur en hins vegar virtust ís-
lensku gestirnir kunna vel að meta allt sem var líklegt til að
virka og því stærri vélar því meiri hrifningu vöktu þær enda
íslenskir bændur ekki þekktir fyrir smámunasemi þegar kem-
ur að tækjum og tólum.
Árni Eyþórsson, bóndi á Bálkastöðum í Hrútafirði, sagð-
ist sem sauðfjárbóndi náttúrlega ekki eiga erindi á svona sýn-
ingu enda hefðu sauðfjárbændur varla efni á amboðum af
nýjustu og stærstu gerðum. Hins vegar lét hann vel af ferð-
inni og sagði alltaf nauðsynlegt að víkka sjóndeildarhring-
inn.
Ágætis útlönd
Reynir Gunnarsson, bóndi í Leirulækjarseli á Mýrum, var að
fara á Agromek í fyrsta sinn og í raun var hann að fara í fyrsta
sinn út fyrir landsteinana. Hann var hinn kátasti enda margt ný-
stárlegt sem fyrir augu bar og leist honum vel á það sem við
blasti á sýningunni. Ekki lét hann heldur síður af Danmörku og
innbyggjurum þar og komst að þeirri niðurstöðu að útlönd væru
ekki svo slæmur staður.
Bankamenn á búnaðarsýningu
Það voru ekki aðeins hefðbundnir bændur sem tóku þátt í ferð-
inni á Agrómek. Með í för voru þrír fulltrúar frá KB banka.
Þeirra á meðal var útibússtjóri KB banka á Sauðárkróki, Jóel
Kristjánsson. Hann sagði tilganginn með utanferð bankamann-
anna að kynna sér það nýjasta í lanbúnaðartækni og ekki síður að
kynnast því hvaða áform og væntingar íslenskir bændur hefðu
varðandi framtíðina. „Við erum að fjármagna fjárfestingar í land-
búnaði í stórum stíl og til að geta sem best þjónustað viðskipta-
vini okkar í þessum geira þá þurfum við að tala sama tungumál.
Við höfum sótt sjávarútvegssýningar í sama tilgangi og hví ekki
landbúnaðarsýningar? Bændur eru góðir viðskiptavinir og við
viljum að sjálfsögðu getað þjónað þeim sem best,“ sagði Jóel.
B
æ
nd
ur
í
flæ
ki
ng
Gísli Einarsson,
fréttamaður, tók myndir
og ritaði texta. Ætlunin
var að setja nöfn undir
hverja mynd en
umbrotsmaður Bbl. gafst
upp á því verki og ákvað
frekar að fjölga
myndunum....