Bændablaðið - 20.11.2007, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 20.11.2007, Blaðsíða 24
Bændablaðið | Þriðjudagur 20. nóvember 2007 Gerð var viðhorfskönnun í meðal almennings í desember 2006, um afstöðu til innfluttrar mjólkur og til innflutn­ ings á nýju kúakyni ● Í könnuninni kom fram að 85% svarenda taldi frekar eða mjög ólíklegt að hann myndi kaupa erlenda mjólk þótt hún stæði til boða. ● Þá voru 14% svarenda frekar eða mjög hlynntir því að flytja inn nýtt kúakyn, 23% voru hvorki né, 63% svarenda voru frekar eða mjög andvíg þeiri hugmynd. Algengustu ástæður andstöðu voru tilgreindar að íslensk mjólk væri betri en erlend mjólk og að viðkomandi væri andvígur blöndun íslenska kúastofnsins við aðra innflutta kúa- stofna. ● Þá var spurt hvort það hefði áhrif á afstöðu svarenda ef verð á mjólk myndi lækka við slíkan innflutning. Afgerandi meirihluti, 96%, taldi svo ekki vera. Capacent Gallup vann könnunina. BHB og ÞS tóku saman. Unnið var með fjórum rýnihópum á vegum Capacent Gallup. Tilgangurinn var að varpa frekara ljósi á afstöðu neytenda til neyslu mjólkur og mjólkurvara, innflutnings á mjólkurvörum og innflutnings á nýju kúakyni Af atriðum sem komu fram í rýnihópunum má nefna: ● Íslenskar mjólkurvörur eru að mati þátttakenda tvímæla- laust gæðavara. Í samanburði við erlendar vörur þykja íslenskar mjólkurvörur bragðbetri en sumir töluðu um vanafestu í því sambandi. ● Talsverðar áhyggjur komu fram hjá þátttakendum vegna mikils sykurs í matvælum almennt og þar með í mjólk- urvörum. Að þessu slepptu var viðhorf þátttakenda til mjólkuriðnaðarins mjög jákvætt. ● Í umræðum um gæði íslenskra mjólkurvara kom einnig fram að fóður og umhverfi íslensku kýrinnar hlyti að hafa eitthvað um það að segja hversu góð varan er að mati þátt- takenda. Stuttar flutningaleiðir hafa einnig sitt að segja. ● Mjólkurvörur þóttu almennt ekki dýrar, að ostinum und- anskildum. Þátttakendur voru ekki meðvitaðir um verð á drykkjarmjólk og töluðu um að þessi vöruflokkur hefði lítið vægi í heildarverði matarkörfunnar. ● Það var greinilegt að margir þátttakendur voru hvort tveggja í senn; Andvígir (eða tortryggnir gagnvart) inn- flutningi nýs kúakyns, og jákvæðir gagnvart innflutningi á erlendum mjólkurvörum. ● Það var mjög áberandi munur á afstöðu til þess að kaupa innflutta drykkjarmjólk eða innflutta osta. Fæstir gerðu ráð fyrir að innflutt drykkjarmjólk væri raunhæfur kostur, en innfluttur ostur kom vel til greina og jógúrt raunar líka. ● Það er greinilegt að mikið er um misskilning og vanþekk- ingu á ástæðum fyrir innflutningi nýs kúakyns, hvernig að honum yrði staðið og hvaða áhrif hann mun hafa fyrir íslenska kúakynið, bændur og neytendur. ● Þátttakendur vilja meiri upplýsingar og þá sérstaklega um rannsóknir á nýja kyninu og hvernig það muni spjara sig hér á landi. Talað var um að slíkar rannsóknir þyrftu að vera gerðar og kynntar af hlutlausum aðila. ● Mjög áberandi kynbundinn munur var á afstöðu þátttak- enda. Konur voru mun tortryggnari gagnvart innflutningi nýs kúakyns en karlar. ● Þeir þátttakendur sem voru að kaupa inn fyrir matvæla- vinnslur/stóreldhús, sögðust kaupa ódýrasta hráefnið, ef varan sem þeir framleiddu yrði jafngóð og áður. ● Þátttakendum var almennt alls ekki sama um íslenska mjólkurframleiðslu, íslenska kúabóndann og íslensku kúna. Í heild er viðhorfið til alls þessa mjög jákvætt. Hinu er ekki að leyna að margir telja eðlilega þróun að erlendar mjólkurvörur fáist hér í meira mæli en nú er. Minnt skal á að það hefur engin áhrif á fjárhag viðkom- andi einstaklings að svara spurningu í skoðanakönnun eða fjalla um mál í rýnihópi. Því kann kauphegðun fólks að verða talsvert önnur í raunveruleikanum en ætla mætti af niðurstöð- um skoðanakannana. Capacent Gallup vann könnunina. BHB og ÞS tóku saman. Gerð var viðhorfskönnun meðal almennings í mars­apríl 2007 ● Í könnuninni kom fram að 25% svarenda var frekar eða mjög hlynntur því að flytja inn nýtt kúakyn til landsins. 21% var hvorki né, 54% voru frekar eða mjög andvíg þeirri hugmynd. (Athyglisverður munur m.v. niðurstöður í desember 2006). ● Þá var spurt hversu mikilvægt svarendum þætti að neyt- endum standi áfram til boða nýmjólk, léttmjólk, und- anrenna, Fjörmjólk og Stoðmjólk úr núverandi kúakyni, að því gefnu að nýtt kyn yrði flutt til landsins. Það töldu 77% mjög eða frekar mikilvægt, 15% hvorki né, 8% frek- ar eða mjög lítilvægt. ● Þátttakendur voru spurðir hvort þeir myndu kaupa íslensk- an ost eða innfluttan ost, ef gæði væru sambærileg. Svör voru á þann veg að 63% myndu kaupa íslenskan ost, 20% þann ódýrari, 15% töldu það mismunandi eftir tegundum osta og 1% tók innflutta osta fram yfir íslenska. Frekari spurningar um afstöðu til ostategunda gáfu ekki skýra nið- urstöðu. ● Spurt var hvers helst væri að gæta við innflutning á nýju kúakyni til landsins. Svör voru þannig að 41% nefndu sjúkdóma, 25% að blanda stofnunum ekki saman og 10% vildu ekki leyfa innflutning. Capacent Gallup vann könnunina. BHB og ÞS tóku saman. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði létu vinna grein­ argerð um íslenska mjólkurmarkaðinn, og atriði sem hafa þýðingu við mat á þörf fyrir aukna hagkvæmni í mjólkurframleiðslu. ► Í greinargerðinni koma m.a. fram upplýsingar um heild- armjólkurframleiðslu, fjölda búa og fjölda kúa, þróun í sölu mjólkurvara 2002-2006 og líklega þróun mjólk- urframleiðslu og sölu mjólkur og mjólkurafurða næstu ár. ► Þá er fjallað um mikilvægi osta og dufts á íslenska mjólkurvörumarkaðnum. Þar segir: „Umreiknuð árleg sala osta og dufts nemur nærri 50% af heildarsölu mjólk- ur á landsvísu. Hvert%­stig í sölu þessara vöruflokka nemur því um 550­600 þús. lítrum af mjólk frá fram­ leiðenda. Töpuð markaðshlutdeild sem nemur 10% í þessum vöruflokkum næmi því um 5,5-6,0 millj. lítrum mjólkur á ársgrunni. Það samsvarar meðalframleiðslu 35-40 mjólkurframleiðenda í landinu m.v framleiðslu og fjölda þeirra á árinu 2006. Afurðaverðmæti þessa magns, m.v. greiðslur afurðastöðva fyrir innlagða mjólk, næmi um 260-290 millj. kr. á ári. Erfitt er að meta tapaða markaðshlutdeild í mjólkurdufti til hlítar, þar sem áhrif innflutnings á mjólkurdufti geta einnig komið fram í markaðshlutdeild annarra vara, sem hægt er að framleiða af stórum hluta með endurvinnslu innflutts mjólkurdufts.“ ► Þá er birtur samanburður á verði pr. lítra til framleiðenda í nokkrum löndum árin 2002 til 2006. Miklar hækkanir hafa orðið á mjólkurvörum á heims- markaði á árinu 2007. Þessar hækkanir, sem nema a.m.k. tugum prósenta, virtust koma flestum á óvart en þeim hafa fylgt mjög verulegar hækkanir á verði til framleið- enda. Erfitt er að ráða í hversu varanlegar þessar miklu hækkanir munu verða. ► Þá er fjallað um möguleika á útflutningi mjólkuraf­ urða og hvort kúakynið skipti máli í því sambandi. Þar segir m.a.: Útflutningur mjólkurvara skiptist í raun í tvo eftirtalda meginflokka, eftir eðli og umfangi: 1) Iðnaðarhréfni til matvælavinnslu (mjólkurduft og smjör) 2) Fullunnar sérvörur á neytendamarkað 1) Iðnaðarhráefni til matvælavinnslu (mjólkurduft og smjör) Til lengri tíma litið hefur útflutningur mjólkurvara, sem hráefni í aðra matvælavinnslu (1), ekki verið vandkvæðum bundinn, í þeim skilningi að erfitt hafi verið að losna við það magn sem nauðsynlegt vegna birgðahalds. Ekki hefur verið hægt að merkja það, í þessum viðskiptum okkar á und- angengnum árum, að við höfum haft sérstöðu í þeim útflutn- ingi vegna okkar kúakyns. Sérstaða okkar, sem hefur auð- veldað afsetningu afurða erlendis, snýr frekar að hreinleika mjólkurinnar og afurðanna, sem á grunn sinn í hreinni og lítt spilltri náttúru. Í þeim viðskiptum hafa komið upp kröfur um staðfestar mælingar, m.a. á mjólkurdufti, frá óháðum aðilum á hugsanlegu innihaldi ýmissa óæskilegra efna í útfluttum vörum. Íslenskar mjólkurvörur hafa staðist allar þær kröfur. 2) Fullunnar sérvörur á neytendamarkað Ekki er hægt að fullyrða um hvort sérstaða íslenska kúa- kynsins hafi afgerandi áhrif við útflutning og markaðssetn- ingu íslenskra mjólkurvara á neytendamarkaði erlendis (2). Á sama hátt er ekki hægt að útiloka að svo sé. Útflutningur er enn á tilraunastigi og markaðir enn í þróun. Reynsla á allra næstu árum mun leiða okkur nær vitneskjunni um það hvaða þættir það eru sem vigta þyngst í þeim árangri sem við vonandi náum. Hvort það er sérstætt kúakyn, hreinleiki umhverfis og náttúru, sérstaða varanna sjálfra eða sambland þessara þátta, er ekki hægt að fullyrða um á þessu stigi. Nýting mjólkurinnar til afurðavinnslu Ef eftirfarandi spurningu er varpað fram; „Er sami lítrafjöldi mjólkur með sama mælt efnainnhald að skila sömu afurðum, hvort sem mjólkin kemur úr núverandi íslensku kúakyni, eða þeim kúakynjum sem athugunin tekur til,“ liggur beinast við að reyna að meta þær forsendur sem eru aðgengilegar og til staðar til að nálgast svar við spurningunni. Undirstrikað skal að umfjöllunin gengur út frá þeirri grunnforsendu að mjólkin innihaldi sama hlutfall fitu og próteins, óháð kúakyni. Fyrst ber að gæta að því í hvaða tilvikum, þ.e. hvaða vöruflokkum, hugsanlegt er að mjólk frá mismunandi kúa- kynjum gæti framkallað mismunandi útkomu á afurðamagni við vinnslu. Vöruflokkar 1) Drykkjarmjólk sýrð og ósýrð 2) Rjómavörur 3) Jógúrt og skyrvörur 4) Viðbit 5) Ostar 6) Mjólkurduft Sá vöruflokkur sem beinast liggur við að beina sjónum að í þessu samhengi er flokkur 5) – Ostar. Aðrir vöruflokk- ar eru alls óháðir því úr hvaða kúakyni mjólkin kemur – að þeirri grunnforsendu gefinni að um sambærilegt hlut- fall efnaþátta mjólkurinnar sé að ræða, af þyngd hennar. Fyrir því eru bæði tæknilegar forsendur m.t.t. tækjabúnaðar vinnslunnar og einnig efna- og eðlisfræðilegir þættir mjólk- urinnar sem til áhrifa koma við vinnslu. Við ostagerð er, við grunnmeðhöndlum og skiljun, fram- leidd ostamjólk með því að minnka eða auka fituinnihald mjólkurinnar – allt eftir því hvort framleiða skal hefðbund- in fastan ost eða fituríkan sérost. Fituinnhald ostamjólkur er einnig stillt af m.t.t. próteininnihalds mjólkurinnar – þ.e. hlutfallið á milli þessara efnaþátta. Við sjálfa ystingu mjólkurinnar, í vinnsluferli ostsins, skiptir meginmáli sk. yfirgangstala fitu og próteins yfir í ostinn annars vegar og mysuþáttinn hins vegar (nýtingartala efnaþátta í vinnsluferlinu). M.ö.o. hversu mikið af fitu- og próteini fer yfir í ostinn sjálfan, annars vegar, og hins vegar hversu mikið tapast yfir í mysuþáttinn. Yfirgangstala efna- þáttanna er hærri (þ.e. hlutfallslega meira yfir í ostinn og minna í mysu) eftir því sem osturinn er magrari. Fyrir liggja rannsóknir á erfðabreytileika mjólkurpróteina í íslenskum kúm. Þar kom fram sérstaða í sametningu (tíðni) mismun- andi kaseingerða í mjólk íslenskra kúa í samanburði við rannsóknir annarra kúakynja. Þar er, í ályktun ransókn- arinnar, nefnt að samsetning kaseingerða í íslenskri mjólk sé ákjósanleg bæði með tilliti til vinnslueiginleika mjólkurinn- ar og hollustu mjólkurafurða. Eðli málsins samkvæmt var ekki mögulegt að framkæma samanburðarrannsókn á útkomnu magni afurða við ostun mjólkur frá mismunandi kúakynjum. Fyrir því liggja ástæð- ur sem m.a. eru eftirtaldar. Ostagerð er flóknasta vinnsluferli mjólkur sem fram fer hjá afurðastöðvum. Ferlið samanstend- ur af breytum sem snúa að eðlis- og efnafræði mjólkurinnar, örverufræði í sambland við tæknilega meðhöndlun í fram- leiðsluferlinu þar sem m.a. tímasetningar, sýringarstig, hita- meðhöndlun, aldur hráefnis og meðhöndlun þess fyrir ostun koma til áhrifa. Það gefur því auga leið að erfitt getur reynst, ef það þá er raunhæft, að fá óyggjandi niðurstöður úr slík- um rannsóknum. Þær þyrftu að fara fram á sama staðnum, í sömu tækjum, og tryggja þyrfti að allir áhrifaþættir ferla í öllum tilvikum væru einsleitir. Ekki skal fullyrt að slíkar rannsóknir séu óframkvæmanlegar, en ljóst er að þessum skilyrðum er afar erfitt að ná milli framleiðslulota í slíkri tilraun. Vísbendingar um að mismunur á útkomnu verðmæti, mælt í magni osts, sé lítill eftir því hvaða kúakyn á í hlut, eru til staðar. Við útreikninga á ráðstöfun á móttekinni mjólk á fitu og próteingrunni, hjá afurðastöðvum, hefur bæði verið stuðst raunmælingar og reikniaðferðir nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum. Þar er m.a. stuðst við reiknireglur (Storch) við afstillingu á efnasamsetningu ostamjólkur áður en fram- leiðsluferlið hefst. Ekki komu fram vísbendingar, við inn- leiðingu umreikni- og ríkisstuðla fyrir mjólkurvörur, að nauðsynlegt hafi verið að beita öðrum viðmiðunum við þær aðstæður og hráefni sem við búum við. Pálmi Vilhjálmsson vann greinargerðina. Útdráttur BHB og ÞS. Skilaverð til mjólkurframleiðenda á tímabilinu 2002­2006 í íslenskum krónum Land 2002 2003 2004 2005 2006 Danmörk 29,7 29,3 27,6 23,8 26,1 Finnland 30,9 31,0 30,4 26,9 31,1 Holland 27,9 26,9 26,2 23,1 25,5 Svíþjóð 28,0 28,5 27,1 23,4 25,9 Nýja-Sjáland 13,9 13,6 15,6 14,8 15,2 Noregur 39,7 38,4 37,3 35,5 40,6 Japan 61,3 56,0 54,4 47,4 48,6 Ísland 41,7 41,7 42,7 44,2 45,4 Heimildir: Ísland: Verðlagsnefnd búvöru; Noregur: Ársskýrsla TINE 2006; önnur lönd: Danish Dairy Board (Milk prices in national currency). Kannanir á viðhorfum almennings til mjólkurframleiðslu Greinargerð SAM um íslenskan mjólkurmarkað

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.