Bændablaðið - 20.11.2007, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 20.11.2007, Blaðsíða 16
Bændablaðið | Þriðjudagur 20. nóvember 20071 Líf Ástþórs Skúlasonar, bónda á Melanesi á Rauðasandi, tók óvænta og afdrifaríka stefnu í febrúarmánuði árið 2004. Þennan dag var glærahálka þegar Ástþór keyrði skólabíl­ inn og í einni örmjórri, krappri beygju í Bjarngötudalnum missti hann bílinn út af og niður í 100 metra djúpt gil. Það varð ekki aftur snúið. Fyrir einhvern ógn­ arkraft komst Ástþór lífs af en mænan skaddaðist og máttur fór úr báðum fótum hans. Þrátt fyrir það er hann atorkusamur sem aldrei fyrr og stundar bústörfin eftir bestu getu. „Vegurinn var einn spegill og allt í einu skipti bíllinn sér niður og fór til hliðar. Ég var rétt búinn að losa beltið og ætlaði að koma mér út þegar ég fór út af. Þetta gerðist svo hratt að það var ekkert hægt að gera,“ segir Ástþór þegar hann lýsir þessu afdrifaríka atviki en hann var með meðvitund þar til sjúkraþyrlan flutti hann suður. Skrýtin tilfinning að vakna aftur Ástþór man glefsur frá því að hann var borinn upp í sjúkrabíl af slys- stað en það tók hann um þrjá mán- uði að fá minnið til baka. Fyrst um sinn var hann alveg úti á þekju á gjörgæsludeild og vissi hvorki í þennan heim né annan. „Það var skrýtin tilfinning að vakna því ég vissi ekki hvar ég var. Ég áttaði mig þó fljótt á því að ég var á sjúkrahúsi, en ekki fyrir vestan. Ég uppgötvaði að eitthvað mikið hafði gerst og starfsfólkið á gjörgæslu vissi hvar ég hafði farið út af en ekki mikið meira. Mér fannst fyrst verið að leyna mig einhverju en ég var að fara sækja krakka þegar ég lenti í slysinu og vildi vita hvort ég hefði verið einn í bílnum eða ekki. Það var um vika sem ég var í óvissu um það hvort ég hafði verið með krakka með mér og það fannst mér langerfiðasti tím- inn,“ útskýrir Ástþór og segir jafn- framt: „Mér fannst ástand mitt voða- lega lítilfjörlegt miðað við að ég fékk ekki að vita meira, það er hvort ég hefði verið einn í bílnum eða ekki. Ég var ekki alveg trúaður á að ég myndi ekki standa í fæturna aftur, það var einhvern veginn ekki rétt. En þetta eru eðlileg fyrstu við- brögð. Næsta skref er að læra að lifa með þeim.“ Allt hægt ef viljinn er fyrir hendi Að lokinni dvöl á gjörgæslu tók við um fjögurra mánaða endurhæfing hjá Ástþóri og það má segja að hún standi að vissu leyti enn. Hann tók fljótt ákvörðun um að snúa aftur vestur, það kom í raun ekkert annað til greina í hans huga. „Ég fór heim í lok júní og náði rétt í endann á sauðburðinum. Ég ákvað að láta ekki segja mér að þetta væri ekki hægt fyrr en ég væri búinn að reyna það. Þetta er vel hægt þar sem er góð aðstaða. Aðstaðan heima er þó takmörkuð fyrir hjólastól en ég er að breyta því svona smátt og smátt. Ég er búinn að veltast um þúfurnar fyrir vest- an frá því ég var smápolli og það er erfitt að slíta sig frá þeim,“ segir Ástþór. Í kjölfar slyssins hætti Ástþór kúabúskap. Foreldrar hans, Ólöf Matthíasdóttir og Skúli Hjartarson á Stökkum, tóku við kúnum en Ástþór hélt áfram sauðfjárbúskap. Hann mun minnka við sig niður í 290 kindur í vetur. „Ég er ekki með kvóta á kind- unum en þetta er atvinna sem ég get stundað og þarf reyndar að fá aðkeypt vinnuafl í smalamennsku og sauðburð en það er nú líka þannig hjá bændum sem ekki eru fatlaðir. Það er svo fátt á bæjum núorðið að yfir helstu álagstímana þarf að kaupa aðstoð. Það hefur verið gríðarlegur kostnaður fyrir mig að laga umhverfið að breytt- um aðstæðum hjá mér. Viðhorfið er þannig að fatlaðir eigi ekki að vera á vinnumarkaði og ég fæ til dæmis ekki styrki til framkvæmda. En ef um tómstund eða áhugamál er að ræða er það styrkt. Breytingar á traktornum þurfti ég til dæmis að borga sjálfur,“ útskýrir Ástþór og leggur áherslu á orð sín. Smíðar og málar Ástþór býr á uppvaxtarstað sínum á Rauðasandi í Vesturbyggð en það er einn afskekktasti staður lands- ins. Þar nást hvorki sjónvarps- né útvarpssendingar fyrir utan Rás 1 á langbylgju og stöku sinnum Rás 2 þegar þær eru samtengdar. Rafmagn er þar æði oft stopult. „Maður er eiginlega eins langt frá menningunni og hægt er að komast. Á veturna missum við oft rafmagn og það hefur til dæmis farið í þrígang í haust í nokkra stund. Maður spáir oft í það af hverju maður sé að standa í þessu en svo koma góðir dagar og það stappar í mann stálinu. Ég vil klára það sem ég er að gera áður en ég byrja á einhverju öðru. Þó að maður myndi gefast upp og hætta búskapn- um ætti ég til dæmis erfitt með að kljúfa kaup á sambærilegu húsnæði í bænum. Það hefur tíðkast í gegn- um tíðina að flestir þeir sem slasast líkt og ég og hafa verið búsettir úti á landi flytja suður. Ég sá svo sem ekkert líf fyrir mér í bænum, ég hef aðeins grunnskólamenntun og tölvur hafa aldrei heillað mig. Ég sá ekki fyrir mér innivinnu, ég verð að geta andað að mér fersku lofti, einhvers staðar úti á landi hefði ég endað,“ segir Ástþór. Ástþór bætir því við að það séu viss forréttindi að fá að alast upp í sveit og búa þar en honum líkar illa sú mikla hringiða og stress sem einkennir höfuðborgarsvæðið. „Það hefur aðeins blundað í mér að fara í Iðnskólann eða Myndlistarskólann en ég er búinn að vera með blýantinn á lofti frá því í grunnskóla og gerði mikið af því að teikna fyrir slysið. Ég hef mest teiknað heimilisdýrin og sveitina í kring en einnig fólk. Síðan smíða ég allt mögulegt sem þarf að nota úr járni eða tré. Ég geri við allt sjálfur sem bilar og get bjargað mér með það sem hefur þurft. Það kemur af því að búa svona afskekkt; ef menn eru ekki sjálfbjarga eru þeir dauða- dæmdir,“ segir Ástþór og glottir. Stapp í kerfinu Ástþór hefur ekki úr miklu að moða á mánuði; örorkubæturnar slaga upp í 100 þúsund krónur á mánuði með öllu og ef hann sýnir aðra inn- komu skerðast bæturnar. „Maður þarf að herða sult- arólina til að ná endum saman og þess vegna hef ég ekki náð að laga umhverfið nægjanlega að eigin þörfum. Það er alltaf vont að vera fyrstur en aðrir bændur sem hafa lent í mænuskaða hafa flutt í bæinn og hætt búskap. Til dæmis eiga tryggingafélögin erfitt með að trúa því að fólk með mænuskaða vilji búa úti á landi og það tekur óra- tíma að koma einhverju í gegn. Mér finnst það nógu mikið áfall að missa báða fæturna þó að maður þurfi ekki líka að betla í kerfinu. Ég kærði til dæmis fimm sinnum úrskurð til Tryggingastofnunar til að fá fjallahjóladekk undir hjóla- stólinn. Þetta var þvílíkt stapp í kerfinu og kostaði tugi ganga af dekkjum en gekk á endanum,“ segir Ástþór og vonbrigðin leyna sér ekki í málrómnum. Miskabæturnar sem trygginga- félagið greiddi Ástþóri í byrjun fóru í breytingar á traktornum og bílnum en hann fær engar umfram- bætur. Ástþór er þó ekki tilbúinn að kyngja því og berst nú fyrir að fá launatengdar bætur. „Það er rosalegur seinagang- ur í kerfinu og ég skil vel að fólk hafi gefist upp, það er mjög erf- itt að þurfa að berjast fyrir öllu. Tryggingafélagið staðhæfir að örorkan dekki launaliðinn og skýl- ir sér á bak við það að ég hafi ekki verið með fasta launatryggingu. Þeir gátu ekki tekið mið af veltunni á búinu og þetta er eitthvað sem bændur þurfa að huga að fyrir sig, lendi þeir í áföllum, það er að hafa launatryggingu og geta sýnt fram á launaseðla. Lögum samkvæmt þarf tryggingafélag að gera fólki kleift að búa og lifa við sem líkast- ar aðstæður og áður og ég er núna að reyna hanka þá á því. Það þýðir ekkert að gefast upp, ég get ekki gert þeim það sem á eftir koma. Ég er kominn með fylgdarmann í þessu en það er bóndi fyrir austan sem lenti í vinnuslysi í fyrra og ætlar að láta á það reyna að vera með kindur eins og ég,“ útskýrir Ástþór. Ökklabrot og blóðeitrun Frá því Ástþór lenti í slysinu hefur hann verið virkur í endurhæfingu og er meðlimur í SEM-samtök- unum en honum, líkt og öðrum, finnst að sumt mætti betur fara í heilbrigðiskerfinu. „Það er ákveðinn galli á heil- brigðiskerfinu okkar því við höfum frábært fólk, bæði læknalið og starfsfólk endurhæfingar, en síðan er ferlið búið. Þegar maður kemur út í lífið lendir maður á veggjum og á ekkert að gera. Það er ekki gott að útskrifa fólk á veggi. Það væri hægt að spara mikinn sálfræði- og lækniskostnað með því, til dæmis, að koma fólki í hlutastörf,“ segir Ástþór og leggur áherslu á orð sín. „Það hefur verið ákveðinn tröppugangur hjá mér með heils- una. Fyrst átti ég erfitt með að nær- ast og því varð að fjarlægja gall- blöðruna. Ég er búinn að brotna nokkrum sinnum og hef tvíökkla- brotnað á sama fæti á fjórhjólinu í smalamennsku. Í upphafi smala- mennsku í fyrra sneri hællinn allt í einu fram en ég rétti úr þessu. Þetta gerðist í upphafi smalamennsku en ég rétti það sjálfur og kláraði dag- inn. Einnig hef ég nokkrum sinnum fengið sár sem gróa seint. Ég hef fengið sár á setbein vegna mars og einnig utanvert á mjaðmirnar. Eitt sinn þurfti ég að leggjast inn á spítala því ég fékk svo heiftarlega blóðeitrun. Ég rek mig kannski í og fæ marblett sem fer inn að beini, síðan líða vikur og þá verður þetta að sári. Það tekur tíma að læra að passa sig en það sem er hættulegast er að finna ekki fyrir sárunum.“ Hefur alltaf eitthvað fyrir stafni Fyrir slysið var Ástþór allt í öllu í sveitinni og var annáluð fjallageit. Það má segja að hann sé það enn þrátt fyrir fötlun sína því það eru fátt sem hann gerir ekki en nú tekur flest mun lengri tíma en áður. „Tæknilega séð er hægt að leysa nánast allt sem lýtur að því að ég geti starfað sem sauðfjárbóndi. Í smalamennsku fer ég á fjórhjóli og út um allt og svo er ég á duglegum jeppa. Ég læt fátt stoppa mig og get gengið í flestöll störf. Það eina sem mér finnst erfitt er að vera í girð- ingarvinnu og loka skurðarendum þar sem þarf að brölta um skurði. Þar kem ég ekki fjórhjóli eða stóln- um að og verð því strand. Ég verð alltaf að hafa eitthvað að gera og á ekki erfitt með það, í raun ræðst það af veðri hvað ég geri hverju sinni. Það gefur mér mikla lífsfyllingu að hafa eitthvað fyrir stafni, þeir væru annars ansi langir dagarnir,“ segir Ástþór kíminn á svip. Fyrir tveimur árum kynntist Ástþór Margréti Sigurðardóttur sem býr nú hjá honum ásamt börn- um sínum tveimur, Amelíu Eik, 7 ára, og Sigurði Páli, 5 ára, en þau eru Eiríksbörn. Ástþór segir það mikinn mun að hafa þau hjá sér og í því felist mikill styrkur. „Ég stundaði mikið veiðar áður, bæði stangveiði og skotveiði, og „Þýðir ekkert að gefast upp“ Ástþór heima í eldhúsi á Melanesi með heimilishundinn. (Ljósm. Þorsteinn Jónsson úr heimildamyndinni Annað líf Ástþórs). Ástþór með fjölskyldunni, Margréti Sigurðardóttur og börnum hennar; Amelíu Eik, 7 ára og Sigurði Páli, 5 ára. (Ljósm. Þorsteinn Jónsson úr heimildamyndinni Annað líf Ástþórs). Ástþór á tali við yfirlækni Grensásdeildar, Gisla Einars­ son en þar hefur Ástþór oft þurft að dvelja. Ljósm. ehg

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.