Bændablaðið - 17.12.2009, Qupperneq 12
12 Bændablaðið | fimmtudagur 17. desember 2009
Ein af jólabókunum í ár er frum-
raun stofnanda Bændablaðsins,
Bjarna Harðarsonar bóksala
á Selfossi, í skáldsögugerð. Svo
skal dansa heitir bók hans en þar
segir frá formæðrum Bjarna,
baráttu þeirra og flakki um ver-
öldina. Undirtitill bókarinnar er
skáldsaga úr veruleikanum því
þótt sagan sé skálduð styðst hún
við veruleikann sem konurnar
lifðu í, íslenskt samfélag frá síð-
ari hluta nítjándu aldar langt
fram eftir þeirri tuttugustu.
Við fengum góðfúslegt leyfi
Bjarna til að birta stuttan kafla
úr bókinni og berum niður þar
sem segir frá Hallberu sem rak
greiðasölu í Lækarbotnum ofan við
Reykjavík seint á 19. öldinni. Það
má með nokkrum sanni segja að
hún hafi verið upphafsmaður þess
sem síðar hlaut nafnið ferðaþjón-
usta bænda.
En hafi amma mín kennt mér að
varast syndina þá var það Hallbera
sem kenndi mér að lifa við hana.
Hallbera í Lækjarbotnum sem
ævinlega fór sínu fram og skeytti
í engu um skömm né heiður. Var
samt heiðarlegust allra og virt.
Dónarnir voru hræddir við hana og
herramenn heilsuðu henni.
Ég var komin vel á þriðja ára-
tuginn, saklaus og óspillt, þegar ég
réðist til hennar í vinnumennsku og
það var þar sem ég ætlaði að byrja
þessa sögu, ekki ólétt eða falleruð.
Ég hafði ekki verið nema sum-
arlangt inni í Botnum þegar reki-
stefnan varð út af Hallberu-barninu
sem mér var falið að gæta. Ekki að
ég gætti þess ekki nógu vel. Heldur
út af því hver ætti það.
Hallbera hafði verið gift kona á
bænum Hólmi rétt við Elliðavatn
í nokkur ár og átt þar gamlan og
lundleiðan mann sem hún giftist til
fjár. Þegar þau áttu orðið þrjú börn
tók hún saman við ungan vinnu-
mann á heimilinu, Gvend greyið,
sem var austanmaður og meinleys-
isgufa. Og Hallbera, sem var bæði
húsbóndi og húsfreyja á sínu heim-
ili, fór sínu fram eins og hreppstjóri
sem heldur við vinnukonu. Það var
meira en Gunnlaugur bóndi gat
þolað og þegar hún hafði eignast
strákhnokka, sem hann aldrei vissi
hvort hann sjálfur átti, flúði bónd-
inn að heiman og suður í Garð. En
búskapurinn blómgaðist án hans og
það gerði kona hans einnig. Þegar
hann hafði verið ár í burtu kom
Hallbera til prests með stúlkubarn
til skírnar og lýsti sem fyrr mann
sinn föður að barninu. Það var
skráð svo í kirkjubók en um haust-
ið varð rekistefna. Þá voru þau
Guðmundur farin frá Hólmi, hrökt-
ust þaðan undan dómsforsetanum
á Vatni og settust að í afréttarbrún-
inni þar sem Bera mín lét heita í
Lækjarbotnum.
– Það er út af honum Gunnlaugi,
stamaði hreppstjórinn Guðmundur
á Reykjum framan í þessa gust-
miklu uppsveitakonu. Þeir voru
tveir saman, nefndarmenn báðir
og mikils háttar á réttadögum
og heima í sínu ríki. Hér í ríki
Hallberu voru þeir allt í einu hálf-
vegis brjóstumkennanlegir án þess
að vita sjálfir hvernig á því stóð.
– Já, hefurðu hitt hann Gunnlaug
minn. Það er gott. Hann lifir þá.
– Já,og hann segist ekkert eiga í
barninu.
– Eiga í barninu? Ég er gift
kona og læt ekki bjóða mér neinn
yfirgang á mínu heimili. Hvað haf-
iði látið ofan í ykkur? Ég veit ekki
hvernig giftar konur feðra börn
þarna í neðra hjá ykkur í henni
Mosfellssveit en í minni heimasveit
sem er stórkristileg sveit og fögur,
annað en þessi ansvítans útkjálki.
Já, í minni sveit gangast eiginmenn
við börnum kvenna sinna þegjandi.
Það gerðu feður mínir og afar en
þið megið draga þetta allt í efa en
ég held að ykkur sé hollast að koma
ykkur út áður en ég skvetti hér úr
undan bælum ferðalanga og tek við
nýju fólki. Þetta er gistihús.
Einhvern veginn þannig gekk
samtalið í þrasi uns hreppstjórinn og
hans nótar hrökkluðust af bæ. Erindi
ekki fegnir. Vafalaust hefði faðern-
ismálið lent fyrir dómi ef ekki hefði
komið til að anginn Elín var aftur
borin til kirkju um veturnætur, nú
í kistu og mátti eftir það einu gilda
hver væri faðir barns sem ekki var
lengur til. Stóridómur löngu dauður
og frjálslyndisandar í landinu.
En ferð hreppstjóranna dró samt
slóða á eftir sér. Skaftfellingurinn
Gvendur varð þegjandalegri en
áður enda ekki þess verður að
kallast faðir sinna eigin barna. Og
Hallbera þoldi hann verr en áður.
Dag einn stóð hún inni við þver-
tréð í baðstofunni og horfði yfir á
þennan hjárænulega ástmann sinn.
Sjálf fór hún aldrei undir og þaðan
af síður yfir raft þennan sem hélt
langveggjum baðstofunnar frá því
að gliðna út. Innan við tré þetta var
bæði Gvendi og okkur vinnukind-
um ætlað pláss.
– Það er best að þú farir,
Gvendur.
– Fari hvert, ég fer ekkert. Ég bý
hérna. Ég á þessa baðstofu.
Orðin komu með hléum enda
fátítt að Skaftfellingurinn okkar
segði svo mörg orð saman.
Gvendur var orðinn skrækróma af
æsingi en Hallbera haggaðist ekki.
Ég veit ekki hvað gekk meira á en
var sagt að hún hefði fengið karlinn
til að samþykkja að hún ætti hálfa
baðstofuna og mætti gera við sinn
helming hvað hún vildi. Sjálfur
ætlaði hann að sitja í sínum hluta.
Stundu síðar reið þessi valkyrja
niður í Hólmskaupstað sem það er
farið að kalla Reykjavík. Hún kom
til baka undir kvöld með snikk-
arann Samúel með sér og lét hann
saga baðstofuna sundur á mæni.
Þvertréið góða um leið í tvo jafna
stubba.
Við sváfum í skálanum um nótt-
ina en Gvendur fór þegjandi burt af
bænum. Kom aldrei aftur. Ég vissi
næst af honum í Kaldárseli, fátæk-
um og óhamingjusömum gömlum
manni, og kenndi til. Hallbera var
jafn vond við hann og sjóliðinn var
seinna við mig. Það var stundum
eins og hún þyrfti að hefna allra ófara
okkar gagnvart karlpeningi þessa
heims. Og heyja mörg stríð önnur.
Hún var landnemi. Fékk svo
sem aldrei leyfi til að setjast að á
afréttinum en gerði það bara og var
innan fárra ára farin að höndla með
mat, brennivín og gistipláss fyrir
austanmenn. Fáheyrt að selja næt-
urgreiða en hún kærði sig kollótta.
Brennivínið gerði útslagið að eng-
inn maldaði í móinn eða fór annað.
Hvergi annars staðar var hægt
að fylla á pyttluna fyrir ullarlagð
eða smjörpund og nú voru meira
að segja til staup og frú Hallbera
Jónsdóttir var með konunglegt veit-
ingaleyfi.
Staupin og leyfið voru gjöf frá
kansellíráðinu á Kiðjabergi sem
kom við í ferð sinni til að fylgja
Jóni forseta til grafar. Hann kom
hingað drukkinn og reifst við okkur
stofupíkurnar að við skyldum dirf-
ast að traktera hann á brennivíni
í kaffibollum. Við vorum dauð-
hræddar við karlinn en þá stóð
Hallbera upp og sagði honum að
snáfast til að drekka það sem hér
væri til úr þeim koppum hér væru
til og halda kjafti.
– Snáfumst vér hvað, hvad for
et helvede? Hvaða herkerling eruð
þér? sagði sjálfur kanzi og horfði
bæði opinmynntur og glaseygur
upp á herfuna sem stóð fyrir fram-
an hann, þessi undarlega langleiti
og langdrukkni maður.
– Það sem stendur hér foran
lotlegt háyfirvaldið er engin
önnur en Hallbera Jónsdóttir í
Lækjarbotnum, náfrænka Jóns
kjafts og því erum vér svo gott sem
sveitungar.
– Jóns kjafts, drafaði í Þorsteini
sýslumanni. – Jóns kjafts, þess
sem ég sendi á Brimarhólm og
kom ríkur maður út til baka árið
sem Hekla gaus og var þá kallaður
Danski-Jón og ég varð svo að hýða
aftur fyrir stuldi og þá var hann
aftur kallaður Jón kjaftur? Er hann
ódauður enn?
– Og nei, hann er dauður og
grafinn og bar aldrei sitt barr eftir
seinni hýðinguna en það er ekki
við yður að sakast sem hafið það
óskemmtilega starf að níðast á lít-
ilmagnanum enda væru varla lít-
ilmagnar ef enginn tæki að sér að
níðast á þeim. Blessaður mað-
urinn og láteð þér mig nú fá boll-
ann, hann er tómur og nú læt ég
hana Imbu draga af yður þessi for-
láta dönsku stígvél og svo getið
þér fengið brennivín í bolla aftur í
morgunsárið og mun ekki af veita.
Það var eins og þessi rustalegi
embættismaður yrði að leir í hönd-
unum á þeim Hallberu og Imbu um
kvöldið og mjæmti varla í honum.
Í bakaleiðinni austur í Grímsnes
færði hann sinni vinkonu og her-
kerlingu veitingaleyfi með signeti
frá kóngsins fógeta og silfurstaup,
ennþá uppnuminn yfir að alþýðu-
kona hafði rifið kjaft við hann
drukkinn. Ekki einu sinni aðallinn
í Víkinni þorði slíku.
Svo skal dansa
XZ >[
>
\ ] Q
Út er komin bókin Geislaþytur,
úrval sagna og ljóða eftir
Gunnar Valdimarsson frá Teigi
í Vopnafirði. Útgefandi er Félag
ljóðaunnenda á Austurlandi.
Fremst í bókinni kynnir
Þorsteinn, sonur Gunnars, ævi og
ritstörf föður síns á smekkvísan
hátt og býr lesandann undir þær
gagnmerku frásagnir og kveðskap
sem fylgja á eftir. Um tveir þriðju
hlutar bókarinnar eru laust mál og
þriðjungur bundið. Alls er bókin
um 180 bls. að stærð.
Lausamálið skiptist í 15 kafla.
Hinir sjö fyrstu þeirra fjalla um
lífið heima á Teigi framan af ævi
Gunnars, bústörf eftir árstím-
um og líf fjölskyldunnar. Svo oft
sem fjallað hefur verið um lífið í
sveitinni áður en tæknin hóf inn-
reið sína í íslenskar sveitir þá eru
þessar frásagnir jafn lifandi og
ferskar fyrir það, og minna á að
ekki einungis á hver einn bær sína
sögu, heldur á hver sveit og hvert
hérað sína sögu. Bróðir Gunnars,
Þorsteinn Valdimarsson skáld,
kemur einnig þarna við sögu,
nokkrum árum eldri en Gunnar en
auðfundið er hve náið hefur verið
með þeim og að það hefur hvatt
þá báða unga að árum til yrkinga.
Á eftir þessum frásögnum
fylgja lýsingar Gunnars á dvöl
hans í Reykjavík á stríðsárunum
síðari en árið 1948 fer hann til
Skotlands til að útvíkka sjóndeild-
arhring sinn. Sá kafli opnar les-
andanum nýja sýn á stöðu Evrópu
eftir síðari heimstyrjöldina. Vitað
var um þær mannfórnir sem þjóðir
Evrópu færðu. Hins vegar hefur
minna verið haldið á lofti því
hörmungarástandi sem þá ríkti í
Skotlandi, sem þó slapp við bein
stríðsátök. Í skosku Hálöndunum,
þar sem Gunnar dvaldist, svalt
allur almenningur og jafnvel betri
borgarar heilu hungri á þessum
tíma. Sýnilegt er að á útskerinu
Íslandi átti fólk mat sinn vísari á
þessum tíma.
Í lok þessa kafla bókarinn-
ar vindur sögunni aftur heim
til Vopnafjarðar með lýsingum
á daglegu lífi fólks en einn-
ig óvenjulegum frásögnum úr
búskapnum, svo sem um lækn-
ingu á hrossasótt.
Á eftir lausamálskaflanum
fylgir kaflinn „Ljóð og lausavís-
ur“, þar sem birt er bundið mál
höfundar frá 60 ára tímabili. Þessi
kafli er afar fjölbreyttur að efni og
ber vitni um heilsteyptan mann,
róttækan um samfélagsmál, sem
finnur til með samtíð sinni. En
Gunnar lyftir sér einnig upp úr
amstrinu og grípur smámyndir
úr umhverfi sínu til að lýsa hinu
almenna, mannlega og vekja til
umhugsunar um það.
Um 10 bls. af þessum kafla
bókarinnar eru æskukveðskapur
Gunnars þar sem þeir Þorsteinn,
bróðir hans, kveðast jafnframt á.
Síðasti hluti ljóðakaflans nefn-
ist „Tækifærisvísur og pólitík“.
Þar minnist Gunnar samferð-
armanna sinna á tímamótum í lífi
þeirra, ekki síst fólks sem margt
hvert hefur haldið sér til hlés en
eignast vináttu og virðingu sveit-
unga sinna og verið samfélagi
sínu styrkur. Slíkur kveðskap-
ur vill oft fyrnast fljótt en hér er
dregið saman gott sýnishorn af
honum.
Árið 1971 brá Gunnar búi á
Teigi, flutti með fjölskyldu sinni
til Reykjavíkur og stundaði í
fyrstunni ýmis tilfallandi störf.
Árið 1977 var honum boðið að
taka við rekstri fornbókaverslun-
arinnar Bókarinnar þar sem hann
starfaði til ársins 1998 með Snæ
Jóhannessyni. Verslunin var alla
tíð samkomustaður bókaáhuga-
fólks og nánast menningarstofnun
í borginni.
Með bókinni Geislaþyt hefur
atgervis Gunnars Valdimarssonar
verið minnst á verðugan hátt.
Lesendur hennar, þeir sem komnir
eru yfir miðjan aldur, munu finna
þar margt sem tengist þeirra eigin
minningum frá tíma sem nú er
horfinn. Matthías Eggertsson
Ritfregn
Geislaþytur
Út er komin ljóðabókin Bréf til
næturinnar eftir Kristínu Jóns-
dóttur á Hlíð í Lóni, með undir-
titlinum Ástarsaga. Útgef andi
bókarinnar er Félag ljóðaunn-
enda á Austurlandi.
Kristín er fædd og uppalin á
Hlíð í Lóni en starfaði um árabil
á Höfn í Hornafirði uns hún sneri
heim í Hlíð með manni sínum og
börnum og hefur rekið þar mynd-
arlegt fjárbú síðan.
Bókin Bréf til næturinnar er
um 100 bls. að stærð og yfirleitt
eitt ljóð með mismörgum erindum
á hverri síðu. Höfundur yrkir eftir
hefðbundnum íslenskum brag-
reglum, stuðlum og höfuðstöfum,
og málfarið er á allan hátt vand-
að. Sem betur fer á hefðbundið
íslenskt ljóðform sér marga þakk-
láta lesendur, þótt bragreglurnar
sanni hvorki né afsanni skáld-
skapargildi ljóða. Ljóð Kristínar
eru ort á tímabilinu 1990 til 2008
og birt í bókinni í réttri tímaröð.
Meginþema bókarinnar er ástin og
í ljóðunum er elskhuginn oft ávarp-
aður. Jafnframt er glögg mynd af
umhverfinu í ljóðunum, þó ekki
þannig að Lónið sem sveit komi
þar skýrt fram.
Eftir því sem bókinni vindur
fram og nær dregur nútímanum má
merkja breytingu á „fókusi“ höf-
undarins. Framan af er elskhuginn
ávarpaður beint í flestum ljóðunum
en eftir því sem á líður lyftir Kristin
sér upp úr umhverfi sínu, jafnframt
því sem myndmálið verður frum-
legra og sterkara.
Er þá aðeins ónefnt eitt sérkenni
bókarinnar, sem rímar ekki við þá
mynd sem birtist að öðru leyti af
skáldinu en er e.t.v. ein aðalfor-
senda þess að Kristín hefur gengið
skáldskapargyðjunni á hönd. Hér
er átt við það að rauður þráður í
gegnum bókina er kvíði og depurð,
án þess að nokkur sýnileg ástæða
komi fram hvað henni valdi. Geta
má sér þess til að þar sé einmitt að
finna aflvaka ljóðanna og það sem
gefi þeim dýpt. Vitað er að Kristján
Jónsson Fjallaskáld átti við þung-
lyndi að stríða og að sum kunnustu
og bestu ljóð hans eru ort undir
áhrifum þess. Alkunna er að það
er tjáning á því sem íþyngir, sem
öllu öðru fremur vísar veginn út úr
vandamálinu.
Bókin Bréf til næturinnar er
einlæg skilaboð til lesandans, þar
sem allur umbúnaður er vandaður
og hófsamur og höfundi sínum til
sóma.
Bréf til næturinnar
Úr jólabókaflóðinu