Bændablaðið - 01.09.2011, Blaðsíða 35
36 Bændablaðið | fimmtudagur 1. september 2011
Í grein í Fréttablaðinu sem birt-
ist 3ja ágúst síðastliðinn gerði
ég tilraun til að meta gjald-
eyriskostnað tengdan útflutningi
lambakjöts að verðmæti 2,75
milljarða króna á árinu 2010. Í
samhljóma aðsendum greinum í
Fréttablaðinu og Bændablaðinu
gerir forstöðumaður félagssviðs
Bændasamtaka Íslands tilraun
til að bæta ágiskanir mínar í
þessum efnum.
Forstöðumaður félagssviðs
Bændasamtaka Íslands hefur
aðgang að betri og fyllri upp-
lýsingum um framleiðslukostn-
að lambakjöts en ég hef sem
aðeins hef prentuð gögn frá
Bændasamtökunum að styðjast
við. Það ætti því að vera hægur
vandi að laga og bæta grófa
útreikninga mína. Það gerir for-
stöðumaðurinn ekki.
Ekki í grisju
Forstöðumaðurinn virðist gefa sér
að kindakjöt sé flutt út í grisjupok-
um í heilum skrokkum og kílóverð
útflutnings þannig sambærilegt við
kílóverð til bænda. Þetta er ekki
rétt. Það eru betri bitar sem eru
fluttir út, eftir verður kjöt sem
afurðastöðvar nýta í pulsur og
hakk. Þess vegna er kílóverð sem
Hagstofan gefur upp í útflunings-
skýrslum hærra en kílóverð þegar
bændur selja í heilum skrokkum
til afurðastöðva. Fullyrðing for-
stöðumannsins um að skilaverð
til bænda vegna útflutnings að
verðmæti 2,75 milljarðar króna
séu aðeins 1,3 milljarður króna
stenst ekki, enda er afurðastöðvum
ekki lengur heimilt að verðfella
kjöt sem fer til útflutnings.
1,5 til 2 milljarða króna halli
Tilkostnaður við að framleiða
kindakjöt sem gefur af sér 2,75
milljarða króna í útflutnings-
tekjur er umtalsverður. Sé
stuðst við tölur út búreikningum
Bændasamtakanna er kostnaður
vegna aðfanga (olíu, áburður,
rúlluplast, þjónusta dýralækna
o.s.frv.) um 2,7 milljarðar króna.
Reiknuð laun bónda, vaxtagjöld og
afskriftir tækja og bygginga nemur
samkvæmt sömu heimild um 2,6
millljörðum króna. Beingreiðslur
eru á bilinu 0,4 til 1,1 milljarður
króna. Þessi útflutningsstarfssemi
er rekin með 1,5 til 2ja milljarða
tapi þrátt fyrir stuðning skatt-
greiðenda. Tapið er fjármagnað
af afskriftasjóði bænda og af fjár-
málastofnunum. Ekki er í þessum
útreikningum tekið tillit til kostn-
aðar vegna grasnytja utan heima-
landa. Kostnaður vegna upp-
græðslu og landabóta á afréttum
lendir að mestu leyti á skattgreið-
endum og er umtalsverður.
Erlendur kostnaður um 1,1
milljarður króna
Í grein minni giskaði ég á að ríf-
lega 40% aðfanga væri erlendur
að uppruna. Sumir kollegar mínir
hafa gagnrýnt þá ágiskun og telja
að um vanmat sé að ræða. En 40%
af 2,7 milljörðum er 1,1 milljarð-
ur. Forstöðumaður félagssviðs
BÍ reiknar erlendan tilkostnað
með hliðsjón af söluverðmæti
afurðanna. Söluverðmætið er um
helmingur framleiðslukostnaðar-
ins. Það ætti að vera vel þekkt á
3ju hæðinni á Hótel Sögu. Benda
má forstöðumanninum á grein eftir
Jónas Bjarnason hjá Hagþjónustu
landbúnaðarins frá 2008 sem ber
heitið: “Stuðningur við sauðfjár-
rækt nam 61% af verðmætasköpun
í greininni 2006”, sjá http://www.
hag.is/pdf/annad_utgefid/Studn_
vid_saudfjarr2006.pdf. Jónas
metur verðmætasköpun með
hliðsjón af gjaldstofni búnaðar-
málagjalds. Sú skilgreining er
ekki í samræmi við aðferðafræði
þjóðhagsreikninga. Að öllu sam-
anlögðu felur aðferðafræði for-
stöðumanns félagssviðs BÍ í sér
um helmings vanmat á erlendum
tilkostnaði við framleiðslu útflutts
kindakjöts.
Jaðarkostnaður á ekki við
Forstöðumaður félagssviðs BÍ
telur við hæfi að meta kostnað
vegna þriðjungs af framleiðslu
kindakjöts í landinu útfrá hvað
kostaði að framleiða síðasta
kílóið. Sagt með öðrum orðum,
forstöðumanninum finnst við hæfi
að íslenskir neytendur og íslenskir
skattgreiðendur greiði allan fastan
kostnað vegna framleiðslunnar
sem að verulegum hluta endar á
diskum erlendra neytenda. Þetta
er sjónarmið út af fyrir sig, en
mér finnst þá eðlilegt og sann-
gjarnt að íslenskir skattgreiðendur
og íslenskir neytendur fái meiri
aðkomu að því að ákveða hvert
umfang framleiðslungetunnar er.
Eftirspurn er háð verði
Forstöðumaðurinn fullyrðir að eft-
irspurn eftir innlendu kindakjöti sé
6.100 tonn á ári. Nú vita allir sem
minnstu nasasjón hafa af hagfræði
að eftirspurn er háð verði vörunn-
ar, verði staðkvæmdarvarnings,
tekjum neytenda og fleiri þáttum.
Fullyrðing forstöðumannsins
stenst því aðeins árið 2010 og að
því gefnu að skilaverð til bænda sé
413 krónur á kílóið. Innlend eftir-
spurn eftir lambakjöti árið 2010
hefði verið meiri hefði skilaverðið
verið lægra en 413 krónur á kílóið.
Þannig hefði innlendi markaðurinn
gleypt alla framleiðsluna, líka þá
framleiðslu sem í raun var flutt út
hefðu bændur sætt sig við 10 til
20% lægra skilaverð. Þetta veit
forstöðumaður félagssviðs BÍ enda
ágætlega menntaður hagfræðingur.
Lokaorð
Forstöðumaður félagssviðs BÍ
undirstrikar í lok greinar sinnar
að búvörusamningar verði til
í samskiptum samtaka bænda
og ríkisvalds. Neytendur og
almennir skattgreiðendur hafa
ekki átt aðkomu að því borði en
verið neyddir til að sæta þeim
niðurstöðum sem bændur og land-
búnaðarráðherra sættast á í sínum
reykfylltu herbergjum. Brýnt er
að heimila innflutning á landbún-
aðarafurðum án ofurtolla til að
gefa neytendum færi á að víkja sér
undan þegar þessir aðilar seilast of
djúpt í vasa þeirra.
Höfundur er prófessor í hag-
fræði við Háskóla Íslands.
Lesendabásinn
Hæpinn gjaldeyrisávinningur
og aðrar sögur úr sveitinni
Bændablaðið
Smáauglýsingar. 5630300
Fyrir lifandis mörgum árum sat
ég í hreppsnefnd. Þá kom frétt um
það að aflasæll maður að sunnan,
raunar að austan ef ég man rétt,
hygðist kaupa sér jarðnæði í
hreppnum. Ógn var talin standa
af áformum hans. Ekkert varð
af kaupunum, því gripið var til
gagnráðstafana með stuðningi
í þágildandi landslögum. Síðan
komst löggjafinn að því að þau
lög teldust óeðlilegar hömlur sem
bæri að afnema. Hver ætti að geta
keypt sér land þar sem hann hitti
fyrir líklegan seljanda, án afskipta
hreppsnefnda. Ekki voru allir
sáttir við breytinguna en þeim var
bent á að sjónarmiðið væri gamal-
dags og í ætt við vistarbandið.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar
heyrðist af austrænum aflamanni
sem væri búinn að gera saming um
kaup á vænum parti Grímsstaða á
Fjöllum og hefði áform um mikla
iðju þar uppi. Ráðamönnum syðra
hefur um margt orðið við líkt og
okkur í hreppsnefndinni þarna um
árið – þau gjalda varhug við gern-
ingnum. Aðstæður hafa þó breyst
á þann veg að ráðamenn geta víst
ekki með lagastuðningi gengið inn í
kaupsamninginn þannig að eigendur
Grímsstaða á Fjöllum fái notið þess
verðmætis sem í jarðarpörtunum er,
að mati hins frjálsa markaðar.
Sömu ráðamenn hafa nú ekki
hlaupið upp úr skónum í stuðningi
við eflingu byggðar og mannlífs
þar nyrðra. Þeir hljóta því að mæta
skorti á heimild til forkaupsréttar
með myndarlegum stuðningi við
svæðið, verði austurlenski aflamað-
urinn gerður afturreka með jarðar-
kaupin að boði ríkisvalds.
Grímsstaðir á Fjöllum eru merki-
legt pláss. Ég hef svo sem lítil kynni
haft af svæðinu nema sem ferðalang-
ur um malbikaðan langveginn þar
á ýmsum árstímum. Afmælisveisla
um sumarnótt þar uppi á einum bæ
fyrir allmörgum árum líður mér þó
seint úr minni, bæði vegna fólksins
þar og þess, hvernig morgunninn
heilsaði okkur nátthröfnunum, sem
þar vöktum á hásléttunni við söng
og hljóðfæraslátt.
Má vera að Kínverjinn Nubo hafi
líka lent í teiti þar uppi og hrifist af
víðernum og morgunfegurð. Af frétt-
um að dæma virðist hann vera hinn
geðugasti maður: heimavistarfélagi
Íslendings, sem ég hef alltaf borið
traust til, og ræktarsamur er hann:
minnist með þakklæti ullarpeysunnar
frá konunni góðu, íslensku ullarpeys-
unnar er barg honum þegar þústnaði
að um stund þar eystra.
Vitanlega skal löndin með lögum
byggja, en þegar lög eru sett og
þeim framfylgt þarf að gæta þess
að samræmi sé í þeirri hugsun sem
beitt er. Það á að vera sama hvort í
hlut á hvítur eða gulur, þú eða ég.
Möguleiki hrepps míns til þess að
hlutast til um það hverjir keyptu
hvaða jarðarpart hreppsins hér um
árið var afnuminn með lögum.
Síðan hafa ýmis gagnleg jarðavið-
skipti orðið sem færðu viðbótarlíf
í hreppinn: margt ágætisfólk hefur
komið, líka að sunnan. Mér skilst
ennfremur að til séu Íslendingar sem
eigi nothæfar íbúðir niðrá Manhattan
og heilu þorpspartana á Spáni.
Íslenski hesturinn varð verðmæti
í okkar augum eftir að erlendir
áhugamenn sáu og sýndu hvað hann
gat boðið nýjum tímum. Kannski á
það sama við auðnir og eyðilendur
„þarna úti á landi“, sem ráðamenn
þjóðar virðast sýna þverrandi áhuga.
Hvað varðar jarðarkaup Nubos,
væntanlegs Grímsstaðabónda, hlýtur
því að mega finna skynsamlega leið
á milli nei-við-öllu-stefnunnar og
algerrar opingáttar.
Bjarni Guðmundsson
Heimamenn eða sunnanmenn, hvítir eða gulir?Þórólfur Matthíasson:
Þórólfur Matthíasson:
Bjarni Guðmundsson.
Nýleg skoðanakönnun, unnin af
Capacent, sýnir að mikill meiri-
hluti þjóðarinnar er mótfallinn
ESB aðild. Af þeim sem tóku
afstöðu voru einungis 35,5%
fylgjandi aðild Íslands en 65,5%
mótfallin aðild. Utanríkisráðherra
hefur haldið því fram að stuðning-
urinn við að ljúka aðildarferlinu
hafi aukist. Önnur nýleg skoðana-
könnun sýnir þvert á móti meiri-
hluta fyrir því að draga umsóknina
til baka. Þessar kannanir sýna vel
að þjóðin vill að Alþingi og ríkis-
stjórn snúi sér að meira aðkallandi
verkefnum.
Á sama tíma fer pólitísk spenna
vaxandi innan ESB, atvinnuleysið
er í hæstu hæðum og vandi evrunnar
vex. Þeir sem veita ESB umsókninni
forystu neita að ræða þessa stöðu á
opinn og málefnalegan hátt. Ekkert
má skyggja á vegferðina, opna
umræðan nær ekki út fyrir veggi
utanríkisráðuneytisins og hefur ítrek-
uðum óskum um opna nefndarfundi
verið hafnað.
Ekkert í boði nema ESB
Því hefur jafnan verið haldið fram að
mikilvægt sé að sækja um aðild að
ESB til að sjá hvað sé í boði. Nú eru
staðreyndirnar að koma í ljós og auð-
vitað er ekkert í boði nema regluverk
ESB og umsóknarferlið tekur mið af
þeirri staðreynd. Hluti af þessu ferli
er svokölluð opnunar- og lokunar-
skilyrði en þau fela í sér að ESB gerir
kröfur til aðlögunar bæði áður en
einstakir kaflar eru opnaðir og þeim
lokað. Íslendingum hafa enn ekki
verið birt þessi skilyrði en í Króatíu
(Króatía er í aðlögunarferli líkt og
Ísland) verður t.d. styrkjakerfi ESB
í landbúnaði að virka 100% áður en
samningskaflanum er lokað og ekk-
ert er í boði nema regluverk ESB.
Mikil og vaxandi spenna hefur
verið undanfarið milli utanríkis-
ráðuneytisins og landbúnaðarráðu-
neytisins vegna þess að landbúnað-
arráðherra vill fylgja þingsályktun
Alþingis sem segir skýrt að ekki
skuli fara fram aðlögun fyrir þjóðar-
atkvæðagreiðslu. Utanríkisráðherra
vill hinsvegar hefja aðlögun að
kröfum ESB strax og streitist á móti
því að samningsskilyrði verði mótuð
enda liggur ljóst fyrir að allar þær
undanþágur sem talað var um áður
en sótt var um aðild eru í besta falli
fjarstæðukenndur draumur.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar
beita öllum ráðum til að koma í veg
fyrir samráð um mótun samnings-
skilyrða. Bændasamtökin hafa óskað
eftir aðkomu að mótun samnings-
skilyrða og sett fram varnarlínur sem
byggja á mikilli vinnu við að fara
yfir allt sem snýr að landbúnaðarum-
hverfi ESB. Einstakir Alþingismenn
hafa einnig sett fram kröfu um að
koma að mótun samningsskilyrðanna
enda var kveðið á um slíkt áður en
sótt var um aðild. Þrátt fyrir þetta
þá liggur allt á huldu um hvað sé
að gerast í mótun þessara samnings-
skilyrða.
Það þarf breytta forgangsröðun!
Á meðan ríkisstjórnin arkar blind
í átt til Brussel þá eru fyrirtæki og
heimili landsins látin sitja á hak-
anum, skuldavandinn er enn óleystur,
atvinnuleysi í hæstu hæðum og ungt
fólk flytur til Noregs. Sóknarfæri
okkar liggja mjög víða og eftir hrun
áttum við Íslendingar mikil tæki-
færi til að vinna okkur hratt uppúr
efnahagslægðinni. Nú má ekki meiri
tími glatast og við þessar aðstæður
er mikilvægt að ríkisstjórnin sýni
forystu í verki. Það þarf að efla inn-
lenda framleiðslu á öllum sviðum,
auka hagvöxt, draga úr atvinnuleysi
og þannig hindra frekari fólksflótta
frá landinu.
Ég er þess fullviss að hægt er
að ná sátt bæði á Alþingi og meðal
þjóðarinnar um að skapa umgjörð
fyrir þessar áherslur. Þeir eru færri
sem eru tilbúnir til að taka þátt í
Brussel vegferð ríkisstjórnarinnar en
svo virðist vera sem ESB sé lausn
þeirra á öllum vanda. Á sama tíma
sýna Íslendingar ítrekað í skoðana-
könnunum að þeir vilja breytta for-
gangsröðun. Skilaboðin skýrast og
verða háværari dag hvern en hvenær
ætli ríkisstjórnin sjái ljósið?
Ásmundur Einar Daðason
Þingmaður Framsóknarflokksins
Forgangsröðun gegn þjóðarvilja!
Ásmundur E. Daðason.