Bændablaðið - 06.09.2012, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 06.09.2012, Blaðsíða 10
Bændablaðið | Fimmtudagur 6. september 201210 Fréttir Umhverfisráðherra svarar fyrirspurn þingmanns um álftir: Álftastofninn hefur vaxið um 60% á 20 árum –Svarið lýsir skilningsleysi gagnvart vanda bænda segir fyrirspyrjandi Ásmundur Einar Daðason, þing- maður Framsóknarflokksins, lagði fyrirspurn um álftir, í fjórum liðum, fyrir umhverfisráðherra á síðastliðnu þingi. Ráðherra hefur svarað fyrirspurninni, og er svarið birt á vefsíðu Alþingis 21. ágúst sl. Þar kemur fram að álftastofninn á Íslandi hefur vaxið um 60% á síðustu 20 árum. Leiða má líkur að því, samkvæmt síðustu talningu fyrir tveim árum, að stofninn telji nú um eða yfir 31 þúsund fugla. Ásmundur spurði hver væri stofn- stærð álftastofnsins og hver þróunin hefði verið undanfarin 20 ár. Í svari ráðherra kemur fram að íslenski álftastofninn hafi, sam- kvæmt talningu árið 2010, verið talinn um 29 þúsund fuglar. „Stofninn hér á landi hefur verið talinn vera um 14–19% af Evrópustofni álfta. Vöxtur álfta- stofnsins hefur verið misjafn undan- farin ár en heildarfjölgun í stofninum síðustu 20 árin er talin hafa verið um 60%, samkvæmt talningum í janúar á fimm ára fresti, frá 1986. „Allt bendir til þess að álfta- stofninn hafi verið tiltölulega stöð- ugur árin 1986–1995, en farið vax- andi síðan,“ segir í svari ráðherra. „Fjölgun í stofninum hefur sam- kvæmt talningu verið um 2,5 prósent á ári að meðaltali frá árinu 1991. Þó verður að hafa þann fyrirvara á þessum tölum að skekkjur eru ávallt nokkrar í slíkri talningu. Bæði geta fuglar verið tvítaldir og einnig missa menn af fuglum. Þá hafa ferðir fugla frá Íslandi til Skandinavíu og varp- fugla frá Skandinavíu til Bretlands gert mönnum erfiðara fyrir við að meta og túlka niðurstöður.“ Rök fyrir friðun fagurfræðilegs eðlis Ásmundur spurði hvaða rök lægju að baki alfriðun á álftum á Íslandi. Í svari ráðherra segir: „Álftir og svanir eru friðaðir í flestum löndum og hefur álft verið friðuð á Íslandi frá árinu 1913. Í nefndaráliti frá þeim tíma kemur fram að hluti af ástæðunni sé fagurfræði- legs eðlis, auk þess sem lítil hefð hafi verið fyrir því að veiða álftir t i l matar. Önnur ástæða er að á tímabili voru álftir mjög s ja ldgæfar hér á landi og benda talningar til að þær hafi ekki verið nema um 3–5 þúsund í kringum 1960.“ Segir mikilvægt að kanna málið Þá spurði Ásmundur hvort ástæða væri til að hafa áhyggjur af beitará- lagi bæði á ræktarlönd og úthaga vegna gæsa og álfta. Því svaraði ráðherra: „Það er ástæða til að fylgjast með beitarálagi af völdum gæsa og álfta, bæði á ræktarlöndum og nátt- úrulegum svæðum. Álag af völdum villtra fugla á ræktarland getur verið talsvert á ákveðnum svæðum og er því mikilvægt að þessi svæði verði kortlögð og aflað upplýsinga um það hversu mikið álagið er á einstök svæði og hvar gæti verið ástæða til þess að kanna málið ítarlegar.“ Ekki heimild til þess að aflétta friðun álfta Að síðustu spurði Ásmundur: „Er ráðherra tilbúinn að veita land- eigendum heimild, líkt og þeir hafa óskað eftir, til að verja akra og ræktunarlönd fyrir tjóni sem hlýst af álftum?“ Þessu svaraði umhverf- isráðherra: „Á ákveðnum svæðum getur ágangur álfta verið umtalsverður og full ástæða getur verið til að bregðast við til þess að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum hans. Bagalegast getur þetta verið þar sem ungfugl og fugl í sárum safnast fyrir í stórum hópum, líkt og gerist gjarnan við nýræktir og kornakra. Heildaryfirlit er ekki til yfir þessa staði, né yfirlit yfir ágangssvæði eða umfang meints tjóns. Undanfarið hafa umhverfis- ráðuneytið, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Bændasamtök Íslands unnið að því að taka saman upplýsingar um ágang af völdum gæsa og álfta á ræktarlöndum. Á grundvelli þeirrar vinnu er ætlunin að meta hvar þörf er á að bregðast við ágangi á rækt- arlönd og með hvaða aðferðum og aðgerðum best er að bregðast við. Ákvæði laga veita umhver f i s - ráðherra ekki leyfi til þess að aflétta friðun álfta en ráðherra hefur þó heimild til þess að veita s taðbundna undanþágu frá lögunum til að bregðast við tjóni.“ Svarið lýsir skilningsleysis í ráðuneytinu Ásmundur Einar Daðason segist í samtali við Bændablaðið ekki vera sáttur við afstöðu ráðherrans hvað varðar aðgerðir. „Mér finnst hún ekki vera að sýna mikinn lit í þá veru sem til að mynda Haraldur Benediktsson var að fjalla um í vetur, varðandi það að koma til móts við bændur sem eru að glíma við þennan vanda. Þetta snýst um að aflétta veiðibanni í samráði við landeigendur á ákveðnum svæðum. Ráðherra hefur vald til þess að grípa til aðgerða gagnvart túnum og ökrum sem eru hvít af álftum vor og haust. Því miður sýnist mér hún ekki tilbúin að beita því. Mér sýnist gæta ákveðins skiln- ingsleysis í umhverfisráðuneytinu á þeim mikla vanda sem stafar af fjölgun álfta eins og svar ráðherrans staðfestir. Það gætir líka skilnings- leysis á því gríðarlega tjóni sem bændur eru að verða fyrir. Þetta er nákvæmlega sama viðhorfið og gagnvart refnum, svartfuglinum og ýmsu öðru. Það skortir einfaldlega skilning á sjónarmiðum bænda og annarra og hvað þurfi til svo hægt sé að búa í landinu. Þeir sem yrkja landið hafa aftur á móti fullan skiln- ing á þessu og mikilvægi þess að ganga ekki um of á stofna enda líka þeirra hagsmunir. Ég veit þó ekki hvort þetta skilningsleysi í ráðu- neytinu stafar af þekkingarleysi eða hreinlega öfgafullum sjónarmiðum. Í ljósi þessa svars mun ég skoða málið betur þegar þingið kemur saman og þá hvort mögulegt er að flytja mál sem felur ráðherra að grípa til aðgerða,“ segir Ásmundur Einar. Hann segir að það verði líka skoðað hvort nauðsynlegt reynist að breyta lögum til að hægt sé að taka á þessu máli. /HKr. Ár Fjöldi álfta í janúar Stöðugt stækkandi álftastofn er farinn að verða mjög ágengur í túnum og ökrum bænda víða um land. Ásmundur Einar Daðason. Svandís Svavars- dóttir. Culture and Craft í samvinnu við Iceland Traveller: Pakkaferð á prjónasýningu Unravel í Bretlandi „Viðtökur hafa verið góðar og ég finn ekki annað en að áhugi fyrir þessari ferð sé mikill meðal íslensks handverksfólks,“ segir Ragnheiður Jóhannsdóttir en fyr- irtæki hennar Culture and Craft býður í samvinnu við Iceland Traveller pakkaferð á hátíðina Festival of Knitting UNRAVEL, sem er haldin í Farnham á Suður Englandi laugardaginn 23. og sunnudaginn 24. febrúar 2013. Ragnheiður segir að á sýningunni, sem nú er haldin í fjórða sinn, megi sjá ullarframleiðendur sem vinna ull- ina hvort heldur sem er í höndum eða með vélum. „Þarna eru líka hönnuðir og handverksfólk að sýna og selja eigið handverk, en líka stórfyrirtæki á þessu sviði, þannig að fjölbreytnin er mikil. Þetta er verulega áhugaverð og spennandi sýning fyrir þá sem starfa á þessum vettvangi,“ segir Ragnheiður, en hún fór á sýninguna í fyrra og þar kviknaði áhugi hennar á að skipuleggja ferð fyrir landa sína svo fleiri fengju notið. Sýningin fer fram á laugardegi og stendur yfir frá kl. 10 til 17, en hópurinn heldur utan deginum áður. Til að nýta ferðina sem best er búið að skipuleggja ferð á búgarð á sunnudeginum, þar sem búið er með alpaca-sauðfé og gefst þátttakendum kostur á að kynnast ræktunarað- ferðum, meðferð ullarinnar og ýmsu sem henni viðkemur í þeirri ferð. Ragnheiður segir að í Bretlandi séu nokkrar tegundir sauðfjár og ullin búi yfir ýmsum mismunandi eigin- leikum og áferð. „Það er mjög merkilegt fyrir okkur Íslendinga, sem erum vön íslensku sauðkindinni, að sjá hversu fjölbreytnin er mikil og eins hvernig unnið er með ullina þarna ytra, t.d. sá ég 15-20 mismunandi gerðir af rokkum á sýningunni í fyrra, hver og einn er notaður eftir því hvers konar ull verið er að vinna,“ segir Ragnheiður. „Þetta var merkileg upplifun.“ Ferðinni lýkur á mánudegi, þá verður m.a. komið við á Lacock Abbey sem er hefðbundin ensk höll, en í kringum hana var bakgrunnur Harry Potter kvikmyndanna. Þar eru einnig verslanir á hverju strái, en í blálokin verður höfð viðkoma á vefnaðarmarkaði, Cotswold Woollen Weavers. Flugfargjaldið er rúmar 52 þús- und krónur en annar kostnaður við ferðina rúmar 86 þúsund krónur, m.a. gisting, aðgangur að söfnum og sýningum, íslensk fararstjórn allan tímann, rútuferðir, hádegis- og kvöldverður. Að sögn Ragnheiðar þarf að panta og greiða fyrir ferðina fyrir 15. október næstkomandi, en alls eru 30 sæti í boði. Skráning er hjá Ragnheiði, m.a. gegnum netfangið ragga@cultureandcraft.com. Uppskeruhátíð verður haldin á Flúðum laugardaginn 8. septem- ber 2012. Þá verpur mikið um að vera og fjölbreytt dagskrá sem hefst á þakkargjörðarmessu í Hrunakirkju kl. 11:00. Kirkjan verður skreytt jarðargróðri og uppskeru og boðið upp á heima- bakað byggbrauð. Við messugjörðina mun Barnakór Flúðaskóla syngja sem og Kór eldri Hrunamanna, en prestur er sr. Halldór Reynisson. Í lok athafnar verða verðlaun veitt fyrir tré ársins í Hrunamannahreppi. „ Uppsveitahringurinn“ Nýr íþróttaviðburður undir nafn- inu „Uppsveitahringurinn“ verður haldinn i fyrsta sinn. Þar verður bæði hlaupið og hjólað um Uppsveitir. Er bæði um að ræða skemmti- og keppn- ishjólreiðar.Klukkan 10.30 leggur skemmtihjólreiðahópurinn af stað frá Flúðum. (46 km). Klukkan 12.00 leggur keppnishjólreiðahópurinn af stað frá Flúðum (46 km). Klukkan 12.00 leggja hlauparar af stað frá Reykholti (10 km +). Klukkan 14.00 verður verðlaunaafhending á Flúðum. Markaður í félagsheimilinu Markaðurinn Matarkistan verður haldinn í Félagsheimilið á Flúðum kl. 13:00-17:00. Þar verða á boðstólum matvæli frá fjölmörgum aðilum úr sveitinni: úrval af grænmeti, reyktur og grafinn lax úr Hvítá, Kjöt frá Koti, kræsingar í krukkum, mjöl, hunang og fleira. Einnig margs konar hand- verk, trémunir, prjónavörur og ýmis- legt fleira. Í Bjarkarhlíð verður Anna Magnúsdóttir handverkskona með opið hús frá kl. 13:00 til 17:00. Kurlproject Iceland er verslun og vinnustofa við Hvammsveg á Flúðum sem verður opin frá kl 14:00- 18:00. Minjasafnið Gröf verður opið frá 13:00 til 17:00. Einnig verður Bragginn, Leirvinnustofan Birtingaholti opinn frá 13:00- 18:00. Þar er um að ræða svokall- aða „Stúdíóverslun“ í skemmtilegu jarðhýsi í um 10 mín akstursfjarlægð frá Flúðum. „Leikur að List" verður í Laugarlandi frá 12:00 til 18:00. Þar verður boðið upp á myndlist, hand- verk og sýningu á 500 leikfangadúkk- um. Rabbi rósabóndi gefur grænmeti að smakka frá Garðyrkjustöðinni Laugarlandi. Grænna land, Sneiðin 5 (fyrir ofan tjaldsvæðið). Þar verður opið hús frá 13:00 til 17:00 en boðið er upp á garðyrkjuþjónustu, kransagerð, efni í heilsuvörur og snyrtivörur, jólakransa og námskeiðshald. Grænmetismót í golfi Í Efra-Seli verður opna íslenska grænmetismótið. Margt verður í boði og eru kylfingar hvattir til að kynna sér dagskrána á www.fludir.is. Kaffi- Sel, veitingastaðurinn í golfskálanum verður með tilboð á pizzum. Tekið verður á móti gestum í nýja, glæsilega garðinum á Hótel Flúðum á milli kl. 14:00 og 16:00.Verður gestum m.a. boðið að smakka ókeyp- is grænmetissúpu. Barinn verður að sjálfsögðu opinn Úti-Jóga Útijóga með léttu gönguívafi og æfingar aðlagaðar útiiðkun eru líka á dagskrá Uppskeruhátíðar. Byrjað á upphitunaræfingum, gengið á skjól- sælan og rólegan stað. Jógaæfingar, öndunaræfingar, íhugun og slökun. Farið frá félagsheimilinu á Flúðum kl. 16:00 Kaffi Grund Flúðum býður gómsæta grænmetisrétti að hætti Berglindar allan daginn. Þar á meðal er eitthvað af réttunum sem stórstjarnan Shania Twain fékk að borða í sumar,ásamt rétta af matseðli staðarins . Minilik Eþíópískt veitingahús verður opið frá 11:00 til 14:00 fyrir matargesti. Frá 14:00-17:00 verður „kaffi seremonía“ kaffið brennt, malað og soðið á Eþíópískan hátt. Matarkistan Hrunamannahreppur: Uppskeruhátíð á Flúðum

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.