Bændablaðið - 06.09.2012, Blaðsíða 22

Bændablaðið - 06.09.2012, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. september 2012 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Sveppir eru ólíkir plöntum, meðal annars að því leyti að þeir hafa ekki blaðgrænu og geta því ekki ljóstil- lífað og unnið lífræn efni úr ólíf- rænum eins og plöntur. Frumur sveppa hafa frumuvegg líkt og plöntufrumur en veggurinn er ekki gerður úr beðmi eins og hjá plöntum heldur kítíni, líkt og ytri stoðgrind skordýra og sjávardýra, til dæmis humars og rækju. Sveppir lifa á rotnandi lífrænum leifum og/eða í sam- eða sníkjulífi með plöntum. Með rotnun umbreyta þeir lífrænu efni í ólífrænt, sem plöntur nýta sér. Líkt og plönturíkið er kallað flóra og dýraríkið fána er svepparíkið kallað funga. Á Íslandi hafa fundist og verið skrásettar um 2.000 tegundir sveppa en þá eru fléttur ekki taldar með. Flestir þessara sveppa eru svo smávaxnir að þeir sjást ekki með berum augum. Það sem í daglegu tali kallast sveppur er í raun aldin eða fjölgunarfæri örfínna þráða sem vaxa í jarðvegi, á trjám eða öðrum hýslum og kallast ímur. Af þeim ríflega 2.000 tegundum sveppa sem fundist hafa á Íslandi eru milli 30 og 40 stórsveppir taldir hæfir til átu en eru þó miseftirsóknarverðir. Til stórsveppa teljast sveppir sem sjást með berum augum. Stór hluti matsveppa telst til kólfsveppa, til dæmis lerkisveppur og kúalubbi. Söfnun sveppa Hér á landi fer fáum sögum af neyslu sveppa fyrr á öldum. Áhugi á neyslu þeirra er því nýr af nálinni en hefur aukist hratt á stuttum tíma. Ef safna á sveppum til átu er mikilvægt að vanda valið og neyta aldrei sveppa sem ekki hafa verið greindir hæfir til neyslu. Þrátt fyrir að hér á landi vaxi fáir eitraðir sveppir er aldrei of varlega farið og óþarfi að fara út í tilraunastarfsemi. Þrátt fyrir að tiltölulega fáar teg- undir af eitruðum sveppum finnist hér á landi má þó nefna tegundir eins og berserk, slöttblekil, köngulsvepp, viðarkveif, garðlummu, trektlur og höddur. Flestir þessir sveppir valda magaverkjum, uppköstum, niður- gangi og jafnvel ofskynjunum. Með hlýnandi loftslagi og aukinni ræktun má búast við að fjölgi í fungu landsins og því full ástæða til að fara varlega þegar sveppir eru tíndir til neyslu. Til að greina sveppi er gott að hafa góða bók við höndina. Byrjendum er ráðlagt að læra að þekkja nokkrar algengar tegundir til að byrja með, t.d. kúalubba, furusvepp og gorkúlu, en láta aðra sveppi eiga sig í fyrstu. Smám saman, eftir því sem þekkingin eykst, er svo nýjum tegundum bætt við í söfnunarferðum. Villtir íslenskir matsveppir eru allir hattsveppir en lögun hattsins getur verið mismunandi, til dæmis hvelfdur, flatur eða kúlulaga svo dæmi séu tekin. Ef litið er undir hatt ýmissa stórsveppa eru þar annaðhvort fanir eða pípur og lítið mál er að þekkja þær í sundur. Undir hatti pípusveppa er röð lóðréttra pípa sem minna einna helst á svamp. Fansveppir hafa aftur á móti lóðrétt blöð eða fanir sem liggja undir hattinum. Allir pípusveppir sem hér hafa fundist eru ætir nema einn, pipar- sveppur. Ætir pípusveppir eru lerki- og furusveppir, kóngssveppur og kúalubbi. Sveppir skjóta upp kollinum síð- sumars í ágúst og fram eftir hausti í september, jafnvel fram í október ef vel viðrar. Mest er um þá í skóglendi og hefur tegundum matsveppa fjölgað með aukinni skógrækt en þeir finn- ast einnig í mó- og graslendi. Sumar tegundir vaxa í kringum ákveðnar trjátegundir, eins og furusveppur og lerkisveppur, en aðrar lifa í sambýli við margar tegundir, til dæmis kóngs- sveppur og kúalubbi. Best er að tína sveppi 3 til 4 dögum eftir rigningu og í þurru veðri því annars eru þeir slepjulegir við- komu. Þá er líka mest af þeim. Sveppir eru bestir á meðan þeir eru ungir og óskemmdir af áti snigla eða skordýra. Þegar sveppir eru tíndir skal taka neðst um stafinn, snúa honum varlega og losa þannig frá jarðveginum. Einnig má skera þá lausa með beittum hníf. Ekki er ráðlagt að kippa sveppum upp því þá er hætt við að ímurnar eða sveppa- þræðirnir skemmist. Ráðlegt er að tína sveppi í ílát sem loftar vel um, til dæmis körfu eða kassa, en aldrei í plastpoka eða plastílát því þá rotna þeir. Gott er að skera neðsta hlutann af stafnum burt. Hreinsa skal allt lauf og óhreinindi af um leið og sveppirnir eru tíndir og er ráðlegt að fjarlægja allar skemmdir strax. Ef til stendur að þurrka svepp- ina er gott að skera þá í tvennt til að sjá hvort þeir eru maðkaðir. Möðkuðum sveppum verður að henda og er best að gera það á staðnum. Þeir sem safna sveppum ættu að venja sig á að ganga vel um sveppamóinn og hvorki taka upp né sparka um koll sveppum sem ekki er ætlunin að safna. Sveppir eru nauð- synlegur hluti af hringrás náttúrunnar og engin ástæða til að skemma þá að ástæðulausu. Geymsla á sveppum Sveppir eru viðkvæmir og geymast illa og óráðlegt er að geyma ferska sveppi lengur en sólarhring eftir að þeir eru tíndir. Algengasta geymslu- aðferðin er frysting eða þurrkun. Ef frysta á sveppina skal hreinsa þá vel og skera í bita. Hita skal bitana við vægan hita á pönnu og láta þá svo kólna. Að því loknu skal setja þá í ílát og í frysti. Við þurrkun er best að sneiða sveppina og dreifa þeim á grind eða grisju. Sveppirnir þurfa að vera orðnir skraufþurrir fyrir geymslu. Ef þeir eru harðir og stökkir eru þeir nógu þurrir, en ef þeir eru seigir verður að þurrka þá betur. Þurrkaða sveppi má setja beint út í súpur og pottrétti en eigi að steikja þá þarf að láta þá liggja í bleyti í nokkrar klukkustundir fyrir matreiðslu. Sveppir sem eru góðir til neyslu Kóngssveppur (Boletus edulis). Ber nafn með rentu þar sem hann ber höfuð og herðar yfir alla aðra sveppi, bæði hvað varðar stærð og bragð. Sjaldgæfur en finnst í skógum og kjarri um allt land. Þar sem kóngs- sveppur vex á annað borð er yfirleitt allmikið af honum. Í Svíþjóð kallast kóngssveppurinn Karl Jóhann í höfuðið á Karli XIV Jóhanni Bernadotte, langa-langa- langa-langafa núverandi Karls XIV Gústafs Svíakóngs, sem var kóngur 1763 til 1844. Kóngur þessi var fransk ættaður og hafði mikið dálæti á sveppum og þá sérstaklega kóngssveppnum. Sagt er að Karl hafi innleitt sveppaát í Svíþjóð og á Norðurlöndunum. Kóngssveppur er þybbinn pípu- sveppur. Stafurinn er yfirleitt stuttur, en getur orðið 20 sentímetra langur og gildastur neðst. Hatturinn er allt að 25 sentímetrar í þvermál. Ljós- yfir í dökkbrúnn að lit og með matta og þurra áferð, en glansandi þegar hann er blautur. Holdið er hvítt. Stærsti kóngssveppur sem fundist hefur hér á landi fannst í Sauraskógi í Helgafellssveit árið 2003 og vó 3,58 kíló. Kúalubbi (Leccinum scabrum). Algengur um allt land og vex með birki og fjalldrapa. Ágætur mat- sveppur ef hann er ekki maðkétinn. Stafinn má þó vel nýta þó maðkur sé í hattinum. Pípusveppur. Hatturinn 4 til 20 sentímetrar í þvermál, hvolflaga í fyrstu en verður flatur eftir því sem sveppurinn verður stærri. Mattur og ljós og yfir í dökkbrúnn að lit. Hatturinn yfirleitt þurr viðkomu. Stafurinn hvítur, um 10 til 20 sentí- metra hár og mjókkar upp. Kragalaus. Holdið hvítt og þétt á ungum svepp- um en verður svampkennt með aldr- inum. Furusveppur/smjörsveppur (Suillus luteus). Fylgir furutrjám og vex oft mikið af honum lengi sumars og fram á haust. Bestir eru ungir, stinnir sveppir. Góður matsveppur. Pípusveppur. Hatturinn 5 til 12 sentímetrar í þvermál, hvolflaga í fyrstu en verður flatur eftir því sem sveppurinn verður stærri. Hatturinn súkkulaðibrúnn á ungum sveppum en gulbrúnn á þeim eldri. Hatturinn mjög slímugur og dökkur í röku veðri en glansandi og ljósbrúnn í þurru. Pípurnar gular í fyrstu en fölna með aldrinum. Stafurinn stuttur, um 4 sentímetrar. Hold stafsins er hvítt og þéttara en í hattinum. Lerkisveppur (Suillus grevillei). Mest er af honum á Austur- og Norðurlandi þar sem lerki þrífst betur en annars staðar á landinu. Er auð- þekktur á skærgulum og rauðgulum lit þar sem hann vex í kringum lerki. Pípusveppur. Hatturinn 5 til 12 sentímetrar í þvermál. Hvelfdur í fyrstu en flest út með aldrinum. Í fyrstu er hatturinn rauð- eða appels- ínugulur að lit en verður síðan gulur, jafnvel skærgulur. Slímugur í bleytu. Pípurnar skærgular í fyrstu en verða svo gulbrúnar. Stafurinn brúnleitur. 4 til 10 sentímetra hár og 1 til 2 sentí- metra breiður. Holdið gult og þéttara í stafnum en hattinum. Slímgumpur/slímstautull (Gomphidius glutinosus). Fansveppur, fylgir barrtrjám og vex í þyrpingum. Algengur á suðvestur- horni landsins en hefur fjölgað hratt annars staðar á landinu. Ágætur mat- sveppur en tína þarf hann á meðan fanirnar eru hvítar. Hatturinn 5 til 11 sentímetrar í þvermál, hallar eilítið á stafnum og þakinn slími. Hvelfdur í fyrstu en flest út með aldrinum. Grár og blá- brúnn en eldri sveppir svartflekkóttir. Holdið hvítt og lint. Fanirnar ljósgrá- ar en dökkna smám saman. Stafurinn boginn neðst. 4 til 10 sentímetra hár og 1 til 2 sentímetra breiður. Hvítur efst en gulur neðst. Ysta lag stafsins mjúkt viðkomu. Ullblekill/ullserkur (Coprinus comatus). Algengur í þéttbýli þar sem hann vex í litlum þyrpingum í grasi við vegkanta. Ágætur matsveppur en nauðsynlegt að tína unga og hvíta sveppi og best er að tína þá þar sem umferð er lítil. Fansveppur. Hatturinn langur og mjór, 5 til 30 sentímetra hár, í fyrstu egglaga og þakinn gráhvítum eða brúnleitum og ull- eða bómullar- kenndum flygsum sem brettast upp með aldrinum þegar hatturinn verður klukkulaga. Fanirnar þéttar eins og blöð í bók, hvítar í fyrstu en síðan rauðleitar og að lokum svartar. Liturinn breytist neðan frá og upp. Stafurinn hvítur, langur og holur. Túnkempa/túnætisveppur (Agaricus campestris). Góður mat- sveppur sem vex í grasi og gömlum túnum um land allt. Best er að tína unga, kúlulaga eða hvelfda sveppi með bleikar fanir. Fremur smávaxinn. Hatturinn hvítur en stundum með brúnleitum flygsum, 3 til 10 sentímetrar í þver- mál. Kúlulaga í fyrstu, síðan hvelfdur og að lokum flatur. Holdið hvítt. Fanirnar bleikar en dökkna eftir því sem sveppurinn eldist. Stafurinn hvítur, 3 til 7 sentímetra hár og 1 til 2 sentímetra breiður. Sortukúla/gorkúla/kerlingareld- ur/skollaeldur (Bovista nigrescens). Þokkalegur matsveppur. Yfirleitt nokkrir saman í gras- og mólendi. Algengur um allt land. Kúlusveppur, hvítur með eilítið vörtóttu yfirborði. 3 til 7 sentímetrar í þvermál, dálítið aflangur. Holdið hvítt og stinnt í fyrstu og kallast þá merarostur. Með auknum þroska verður holdið gul- grænt og lint. Að endingu þornar sveppurinn og verður dökkbrúnn og ef stigið er á hann gjósa gróin út. Gulbroddi (Hydnum repandum). Vex í kjarri og skógum og þar sem hann vex getur verið nokkuð mikið af honum. Ágætur matsveppur sem tína má á öllum þroskastigum. Hatturinn óreglulegur að lögun, hvelfdur eða flatur, fölbleikur, dökk- gulur eða rauðbleikur að lit. 2 til 10 sentímetrar í þvermál, sléttur og þurr viðkomu og verður ekki slímugur í raka. Holdið hvítt. Neðan á hatt- inum eru ljósir og stökkir broddar eða gaddar sem geta orðið hálfur sentímetri að lengd en hvorki fanir né pípur. Stafurinn stuttur, 4-6 sm, og ljósari en hatturinn. Kantarella (Cantharellus cibarius). Einn eftirsóttasti sveppur í heimi. Fremur sjaldgæfur hér á landi en finnst í flestum landshlutum. Vex í skógum eða í grennd við þá. Fremur smávaxinn en þybbinn sveppur með lykt sem minnir á aprí- kósur. Rauðgulur eða eggjarauðu- gulur á litinn. Hatturinn hvelfdur í fyrstu en síðan flatur og að lokum trektlaga, 2 til 12 sentímetrar í þver- mál. Holdið fölgult eða hvítleitt. Þurr og seigur viðkomu. Kantarella er ekki með fanir heldur grunn og þykk rif sem líkjast fönum. Engin eiginleg skil eru milli hattsins og stafsins. Stafurinn 3 til 7 sentímetra hár og 1 til 2 sentímetra breiður. Breiðastur efst en mjókkar niður. Stafurinn er sléttur viðkomu og svipaður á litinn og hatturinn. Garðyrkja & ræktun Haldið í sveppamó Ullserkur.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.