Fréttatíminn - 12.07.2013, Blaðsíða 14
É g held að ég sé búin að taka út 5 ára þroska frá því að ég byrjaði að starfa á Alþingi. Þetta er búin að vera mikil keyrsla, það hafa legið fyrir stór mál á Alþingi,
mikil vinna í nefndum og annað,“ segir yngsti þingmaður
lýðveldissögunnar, Jóhanna María Sigmundsdóttir, sem
kosin var á þing í vor fyrir Framsóknarflokkinn. Jóhanna er
búfræðingur að mennt og nýorðin 22 ára. Foreldrar hennar
eru Sigmundur Hagalín Sigmundsson, bóndi og formaður
Búnaðarsambands Vestfjarða og Jóhanna María Karls-
dóttir húsfreyja en fjölskyldan er frá Látrum í Mjóafirði við
Ísafjarðardjúp.
Hér er á ferðinni ákveðin ung kona sem er ekki mikið
fyrir það að gefast upp auðveldlega. Segist hún oftast hafa
komist þangað sem hún hefur ætlað sér og lætur hlutina
ganga upp út frá sínum sjónarmiðum. Landsbyggðarmál
standa henni næst en áður en hún var kosin á þing voru
landbúnaðarstörf hennar draumastarf.
Jóhanna hefur haft í mjög mörgu að snúast frá upphafi
sumarþingsins enda þurft að læra mjög mikið á stuttum
tíma en yfirleitt segist hún ekki finna endilega fyrir því að
vera yngri en aðrir. Hún segir starfið mjög skemmtilegt en
jafnframt krefjandi. „Það er svolítið gott hvernig manni er
oft ýtt út í djúpu laugina á degi hverjum. Ég er búin að fara
upp í pontu og halda mína fyrstu ræðu á Alþingi og þá var
vissu fargi af manni létt,“ segir Jóhanna. „Þetta var alveg
ótrúlegt, ég var meira stressuð yfir því hvar ég var að fara
halda ræðuna en ræðunni sjálfri. Að standa í ræðustólnum
á Alþingi var bara ótrúleg tilfinning,“ segir Jóhanna.
„Það eru kannski vissir þættir sem stuða mig meira en
fólk sem er eldra, það er svolítið mikið álag á mér og ég trúi
alveg að ég taki þetta aðeins meira inn á mig.“
Vel tekið af öllum
Jóhanna segir sér ganga mjög vel og en sé enn að koma sér
almennilega inn í starfið. „Þetta er rosalega fjölþætt starf
og mörgu þarf að sinna. Maður er í nefndum og situr þing-
fundi auk annarra verkefna sem koma á borð til manns.“
Jóhanna segist reyndar vera búin að átta sig á því að hún
er orðin þingmaður og hafi skyldum að gegna og núverandi
markmið sé að vinna verkefnin eins vel og hún geti hverju
sinni.
„Fólk lítur ekki endilega á mig eins og ég sé yngst á
staðnum, ég er bara þingmaður og hef sömu skyldum að
gegna. Ég er búin að fá hjálp úr öllum áttum, um hvernig sé
best að fóta sig í starfi og hvernig sé best að koma sér inn
í starfið,“ segir hún. Jóhanna lýsir starfsfólki þingsins sem
bjargvættum sem reddi bara öllu. „Það hefur oft verið sagt
að það sé ekki hægt að halda því til streitu að allir í skóg-
inum eigi að vera vinir en það er nú samt svolítið svoleiðis
hjá starfsfólkinu á Alþingi. Það eru allir bara vingjarnlegir
og jákvæðir,“ segir Jóhanna.
Áhugaverðust finnst Jóhönnu öll þau samskipti sem hún
hefur við fólk úr öllum mögulegum atvinnugreinum um hin
fjölbreyttustu mál. „Og það er frábært að sjá sama áhuga
hjá öllum á því sem liggur fyrir á Alþingi,“ segir Jóhanna.
Margt hefur komið Jóhönnu á óvart frá því hún byrjaði
starfi sínu sem þingmaður. Sérstaklega hversu vel henni
hefur verið tekið af öllum alveg sama hvert er litið. „Margir
voru mjög hissa hvað ég væri ung í fyrstu ferð minni fyrir
Norðurlandaráð. Ég var oftast búin að vinna vel með fólki
þegar til tals kom hvað ég væri gömul. Þá er ég oftast
ánægð að heyra hvað fólk er hissa. Það gefur mér þá tilfinn-
ingu að ég sé að skila mínu,“ segir Jóhanna.
Vildi alltaf rökræða málin
Jóhanna segir að þegar hún var að alast upp hafi málefni
líðandi stundar verið rædd og það sem var að gerast í sam-
félaginu. „Ég hef verið nokkuð rökræn manneskja frá því að
ég var barn og hef alltaf þurft að rökræða hlutina og þurft
að fá að vita af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Á mínu
heimili er af því bara ekki svar,“ segir Jóhanna.
Jóhanna telur að áhuginn hjá ungu fólki hafi aukist með
tilkomu þess að yngra fólk er að koma inn á Alþingi með til-
komu nýrra flokka.
„Ég held að mesta hættan tengist því að þegar krakkar
eru að pæla í pólitík verði þeir fyrir of miklum áhrifum frá
vinum og fjölskyldu fremur en hvað þeir hafa ákveðið að
þeir vilji sjálfir,“ segir Jóhanna. Hún segir þó áhugann hafi
aukist í aðdraganda þessara kosninga og sér fjölgun ungs
fólks sem starfar og hefur áhuga á pólitík í kringum sig.
Byrjaði snemma í búrekstrinum
Hrunið hafði áhrif á Jóhönnu með ef til vill öðrum hætti en
hjá hinum dæmigerða 17 ára unglingi. Hún var þá farin að
taka fullan þátt í búrekstrinum heima og sá greinilega fjár-
hagslegar afleiðingar hrunsins. Fjölskyldan rekur blandað
býli, með sauðfé, nautgripi, mjólkurkýr og hross. „Ég fór að
taka eftir áhrifum hrunsins á pappírum, því að ég var inni
í búrekstrinum heima, aðföng fóru að hækka meira en það
sem fékkst út úr rekstrinum, bara eins og gerðist í öðrum
fyrirtækjum,“ segir Jóhanna.
Landsbyggðarmál, eins og samgöngu- og byggðastefnu-
mál, eru ofarlega í huga Jóhönnu en hún hefur bæði búið
á landsbyggðinni og í þéttbýli. „Maður hefur víðari sjón-
deildarhring en ella. Maður verður að vinna öll mál vel og
ég ætla að gera það,“ segir Jóhanna.
Hún þekkir vel til nýsköpunar og segist hafa unnið mikið
í tengslum við nýsköpun áður en hún kom inn á Alþingi.
„Ég tel nýsköpun vera mjög góðan kost í raun fyrir landið
í stað þess að vera endalaust að treysta á eitthvað annað,
við verðum að reyna að finna hvað við getum gert sjálf og
skapað sjálf. Ég mun leggja ríka áherslu á það að nýsköpun
fái að dafna meira en hefur verið,“ segir Jóhanna.
Ekki vera hrædd
Jóhanna leggur áherslu á að unga fólkið megi ekki vera
hrætt. Það sem hafi áhrif á hversu lítið af ungu fólki fer í
pólitík sé að fólk er hrætt við að segja sínu skoðun, hrætt
við að þeir sem eldri eru hlusti ekki. „Ég er bara búin að
læra það síðasta árið að ef manni finnst að ekki sé hlustað,
þá hefur maður bara hærra og á endanum er tekið mark á
þér. Síðan er alveg þess virði að hafa verið lengi í barátt-
unni þegar þú sérð árangurinn af því að hlustað er á þig
og einhver talar þínu máli. Þegar vinnan fer að skila sér,
þá gleymir maður hversu erfitt þetta var og fer að njóta
afrakstursins,“ segir hún.
Ef Jóhanna hefði ekki verið kosin á þing í vor væri
hún núna í girðingarvinnu og að huga að slætti. Hennar
draumastarf var og er enn að vera bóndi. „Já, enn sem
komið er hefur hugarfarið ekki breyst og ég vona að ég
fái tækifæri til að vinna við landbúnað í framtíðinni, hvort
sem það er í búrekstri, framleiðslu eða annað,“ segir
Jóhanna.
Gleymdi nánast afmælinu sínu
Í frítíma sínum, sem hefur ekki verið mikill að undanförnu,
finnst Jóhönnu rosalega gott að komast vestur í sveita-
sæluna og vinna einhverja líkamlega vinnu. „Mér finnst
svo margt hafa setið á hakanum núna því að ég er búin að
vera í bænum, ég er með á heilanum að ég þurfi að klára
að smíða, smyrja, kaupa og vinna önnur verk sem þarf að
klára. Ég átti afmæli fyrir nokkrum dögum en það fór ein-
hvern veginn framhjá mér vegna þess að ég var ekki að
gera það sem ég er vön að gera í aðdraganda afmælisdags-
ins. Þess vegna gerði ég mér ekki grein fyrir hvaða dagur
var,“ segir Jóhanna.
Jóhanna er mjög ánægð með það hvar hún er í dag og
segir að mikill fjöldi manns hafi staðið við bakið á henni.
„Þetta er aðeins stærri beygja en ég bjóst við að taka áður
en ég færi að búa eða vinna innan landbúnaðargeirans en
ég er ákveðin að skila þessu vel frá mér.“
Jóhanna segir að hún hafi ekki ákveðið að leggja stjórn-
málin alfarið fyrir sig og tíminn verði að leiða í ljós hvað
verður.
„Það er á hverjum degi sem nýjar dyr opnast fyrir manni.“
María Elísabet Pallé
maria@frettatiminn.is
Jóhanna María Sigmundsdóttir bóndi, yngsti
þingmaður lýðveldissögunnar, tekur hinu nýja
hlutverki með yfirveguðum hætti. Henni finnst
hún hafa tekið 5 ára þroska á þeim fáum vikum
sem hún hefur setið á þingi. Hún hefur ekki
stefnt sérstaklega að því að leggja pólitíkina
fyrir sig og segir að aðeins tíminn muni leiða
það í ljós. Segir þó að fólkið sitt búist alls ekki
við því að hún dragi sig úr pólitíkinni að fjórum
árum liðnum. Jóhanna María segir að nýaf-
staðið sumarþing hafi verið stíft en hún muni
koma tvíefld til baka á haustþinginu.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: Ég er bara búin að læra það síðasta árið að ef manni finnst að ekki sé hlustað, þá hefur maður bara hærra
og á endanum er tekið mark á þér. Mynd/Teitur
Búin að taka út
fimm ára þroska
14 viðtal Helgin 12.-14. júlí 2013