Fréttatíminn - 12.07.2013, Blaðsíða 54
My BuBBa Íslensk/sænsk hljóMsveit á siglingu
Úr uppvaskinu á Hróarskeldu
Hljómsveitin My Bubba, sem skipuð er vinkonunum Guð-
björgu Tómasdóttur og My Larsdotter hélt vel heppnaða
tónleika á Hróarskeldu og hyggur á frekari landvinninga. Guð-
björg er aldrei kölluð annað en Bubba og hljómsveitin dregur
því nafn sitt af nöfnum þeirra stallsystra.
„Þetta gekk ótrúlega vel vel,“ segir Bubba. „Við spiluðum á
eftirmiðdagstónleikum og það var alveg troðfullt og stemn-
ingin góð.“
Bubba syngur og spilar á gítar og banjó og My syngur og
leikur á kjöltuhörpu og gítar. Fleiri hljóðfæraleikarar bætast
svo í hópinn eftir tilefnum og oftast nær er kontrabassaleikar-
inn Ida Hvid með stelpunum í för.
My Bubba eru komnar á samning hjá danska plötufyrirtæk-
inu Fake Diamond Records og plata er á leiðinni. „Við erum
nýkomnar frá Los Angeles þar sem við vorum að taka upp
plötu,“ segir Bubba en þar nutu þær krafta upptökustjórans
Noah Georgeson sem unnið hefur mikið með The Strokes og
fleiri kunnum nöfnum.
Tónlist sinni lýsa stelpurnar sem vögguvísum úr sveitasæl-
unni en áætlað er að platan komi út í lok ársins.
My og Bubba kynntust fyrir um það bil fimm árum þegar
þær urðu sambýlingar í Kaupmannahöfn. „Þegar ég var að
flytja inn heyrði ég hana söngla yfir uppvaskinu. Ég var þá eitt-
hvað að dútla við að semja lag og spurði hvort hún vildi ekki
syngja með mér. Við byrjuðum svo bara að gera þetta til þess
að stytta okkur stundir. Bara eitthvað að dúlla okkur að syngja
heima. Við áttuðum okkur svo á því að við værum bara svolítið
góðar,“ segir Bubba og hlær.
Þær ákváðu því að troða upp á litlum tónleikum í Kaup-
mannahöfn. „Og akkúrat það kvöld hjólaði ítalskur kaffihúsa-
eigandi fram hjá og bað okkur um að koma og spila á kaffihús-
inu hans á Ítalíu.“
Þær slógu til þátt fyrir reynsluleysi af tónleikaferðum og við
tók túr um Ítalíu og víðar um Evrópu þannig að þær hafa varla
stoppað síðan og framundan er beinn og breiður vegur. -þþ
My og Bubba gerðu það gott á Hróarskeldu á dög-
unum og hyggja á frekari landvinninga og nýja plötu.
Transformers á Íslandi
Ísland og þá fyrst og fremst
náttúra þess og magnað
landslag er enn í brennidepli
bandarískra stórbokka í
kvikmyndabransanum. Tökulið
Game Of Thrones er orðið að
fastagestum hérna og ekki þarf
að fjölyrða um þann stjörnufans
sem eyddi síðasta sumri á
skerinu. Mannskapur frá sjálfum ofurframleiðandandum Jerry Bruckheimer
var svo á landinu nýlega að fanga íslenska náttúru filmu fyrir risahasarmynd-
ina Transformers 4 sem væntanleg er í kvikmyndahús næsta sumar. Ekkert
frægðarfólk var með í för þannig að heimsókn þessi hefur ekki farið hátt.
Sprengjubrjálæðingurinn Michael Bay leikstýrir myndinni sem verður að hætti
hússins mikil brelluveisla. Mark Wahlberg, Stanley Tucci og Kelsey Grammer
fara með hlutverk í myndinni en Ísland verður varla mjög áberandi þar fyrst
Bruckheimer sá ekki ástæðu til þess að senda þessa höfðingja á staðinn.
Helga skoðar óupplýst
sakamál
Fréttakonan Helga Arnardóttir á Stöð 2
vakti mikla athygli fyrir vandaða þætti sína
um mannshvörf á Íslandi sem Stöð 2 sýndi í
ársbyrjun. Þættina vann Helga með Brynju
Dögg Friðriksdóttur kvikmyndagerðarkonu
og þær eru nú komnar á kaf í gerð nýrra
þátta fyrir Stöð 2. Að þessu sinni fjalla þær
um óupplýst sakamál sem eru ekki síður
skuggalegt viðfangsefni en mannshvörfin
dularfullu. Þær stöllur eru á ferð og flugi
um landið í sumar að heimsækja vettvang
sakamála en Helga gengur með sitt fyrsta
barn og leggur ofurkapp á að klára þætt-
ina áður en barnið kemur í heiminn.
Þingmenn kaffærðir
í kæfupósti
Holskefla af óvelkomnum tolvupósti gekk
yfir þingheim í byrjun vikunnar en dæmi er
um þingmann sem fékk um það bil 2000
tölvupósta á alþingisnetfang sitt á um það bil
hálfum sólarhring eða svo. Hvort um úthugs-
aða árás á þingpóstinn hafi verið að ræða
liggur ekki fyrir en ljóst er að um einhvers
konar „spam“ hefur verið að ræða. Ruslpóst
sem í daglegu tali er stundum kallaður kæfa.
Heljarinnar tiltekt hefur því beðið þingmanna
og sjálfsagt er svona nokkuð bagalegt
þar sem mikilvæg erindi geta drukknað í
slíkum hafsjó af rusli og væntanlega lesa
flestir þingmenn vandlega öll erindi sem
umbjóðendur senda þeim. Íslensk gildi og
matarmenning eru nýjum forsætisráðherra
ofarlega í huga en þetta er varla sú kæfa
sem þingheimur vill sjá á sínum borðum.
É g hef nokkrum sinnum farið með fartölvuna og kaffibrúsa á eyðibýli og skrifað,“ segir Sólveig Jónsdóttir vinnur nú að annarri skáldsögu sinni
sem verður gjörólík þeirri fyrstu, bókinni Korter sem
var flokkuð sem skvísubók. Sólveig er leyndardóms-
full þegar kemur að efni nýju sögunnar sem hún reiknar
með að komi út næsta vor. Hún gefur þó upp að það sé
einmitt eyðibýlið og svæðið þar um kring sem sé undir-
liggjandi sögusvið í bókinni. „Eins og það getur verið
gaman að sitja á kaffihúsi og skrifa þá er þessi staður
mjög kærkominn til að fá ró og næði. Ég er töluverður
einfari þó að mér finnist auðvitað líka gott að vera með
fólkinu mínu. Það er einhver ljúfsár tilfinning að sitja
þarna nánast í algjörri þögn – staður sem var áður
heimili og fullur af lífi og er svo tómur og yfirgefinn
núna,“ segir Sólveig. Hún fæst ekki til að gefa upp
um hvaða eyðibýli er að ræða. Það kemur í ljós næsta
vor. „Þessi bók gerist líka á Írlandi en einu sinni bjó
ég þar og held þess vegna alltaf að ég kunni að dansa
riverdance í partýum. Síendurtekinn misskilningur af
minni hálfu,“ segir hún.
Sólveig er í fullu starfi sem kynningarfulltrúi
Unicef á Íslandi og nýtir því kvöld og helgar til að
skrifa. Þetta fyrirkomulag hentar henni ágætlega
því hún nýtur þess að skrifa. „Það er líka ákveðin
losun,“ segir hún. Bókin Korter kom út á Íslandi fyrir
rúmu ári en í desember var útgáfurétturinn seldur til
Þýskalands þar sem hún kemur væntanlega út í janúar
2014. „Mér finnst mjög spennandi að litla bókin mín hafi
öðlast eigið líf í Þýskalandi. Hún gerist í rauninni í tveimur
póstnúmerum í Reykjavík þannig að það verður áhugavert að
sjá viðtökurnar þarna úti.“ Sjálf hefur Sólveig aldrei komið til
Þýskalands. „Ég átti samt þýska ömmu, sem ég reyndar hitti
aldrei,“ segir hún glaðleg, þannig að þarna er einhver örlítil
tenging. Öllu meiri tengsl hefur Sólveig við Skotland þar sem
hún lauk meistaranámi sínu í þjóðernishyggju og þjóðernisá-
tökum frá Edinborgarháskóla. Þar komst hún í kynni við
skoskan leikhóp og skrifaði hún fyrir hann sitt fyrsta leik-
verk, The sea between us, sem var frumsýnt úti í júní. „Leik-
ritinu var vel tekið úti og ég er að skoða möguleikann á að fá
hópinn til Íslands. Sögusvið leikritsins er séríslenskt svo það
væri gaman að sjá það flutt á ensku og skoski hreimurinn átti
einhvern veginn mjög vel við efnið,“ segir hún.
Það er því nóg að gera hjá Sólveigu en þegar þessari vinnu-
viku lýkur er hún komin í sumarfrí frá Unicef. Hún ætlar að
nota tímann til að skrifa en líka gera eitthvað skemmtilegt
með kærastanum og tveimur stjúpdætrum, 3 og 5 ára. „Þetta
er fyrsta alvöru sumarfríið mitt með börn svo það er skemmti-
legt. Útilegur og nestisferðir eru ofarlega á blaði í þessum
efnum. Ég held að stefnan sé sett á að borða að minnsta
kosti eina máltíð á dag utandyra í sumarfríinu, sama hvernig
viðrar,“ segir hún.
Erla Hlynsdóttir
erla@frettatiminn.is
Ég er töluverður einfari þó að
mér finnist auðvitað líka gott
að vera með fólkinu mínu.
sólveig jónsdóttir fer Í fyrsta sinn Í alvöru suMarfrÍ Með BörnuM
Með fartölvuna á eyðibýli
Sólveig Jónsdóttir vinnur að annarri skáldsögu sinni sem er gjörólík þeirri fyrstu. Undirliggjandi
sögusvið er eyðibýli á Íslandi en einnig fer hún með lesendur til Írlands. Sólveig er að byrja í
sumarfríi frá dagvinnunni sinni og stefnir á að borða minnst eina máltíð á dag utandyra í fríinu,
sama hvernig viðrar.
Nýbúið er
að frum-
sýna leik-
verk eftir
Sólveigu
Jónsdóttur
í Skot-
landi, búið
er að selja
útgáfuréttinn
af Korteri
til Þýska-
lands og
nýtt sögulegt
skáldverk er
væntanlegt
að ári. Mynd/
Teitur
54 dægurmál Helgin 12.-14. júlí 2013
KRINGLUNNI
Sími 568 8777
Ný buxnasending frá
Vertu vinur okkar
á Facebook