Fréttatíminn - 14.12.2012, Blaðsíða 63
„Steisjon“
S
Skemmtilegt er að fylgjast með
því hvernig margt af því sem við
hjónakornin upplifðum á yngri
árum endurtekur sig hjá afkom-
endunum. Í grunninn ganga börn
okkar í gegnum það sama og
við gerðum á sínum tíma. Það er
eðlilegt því þarfirnar eru svipaðar
þegar þau vaxa úr grasi og stofna
eigin fjölskyldu.
Þess minnist ég að við splæst-
um í nýjan, þýskan eðalvagn
þegar við vorum komin fyrir
vind með fyrstu íbúðina sem við
keyptum. En börnunum fjölgaði
og þörf var á nýju húsnæði. Þá
þurfti að nýta alla tiltæka aura
enda var þetta fyrir tíma 90% lána-
reglunnar, kannski sem betur fer.
Það fyrsta sem varð undan að láta
var nýi, fíni hraðbrautavagninn.
Það var með eftirsjá að við létum
hann af hendi en um annað var
ekki að ræða. Við tókum japanska
smápútu upp í. Það auðveldaði
söluna á glæsivagninum, auk þess
sem erfitt var fyrir okkur að vera
bíllaus.
Sá gjörningur dugði þó
skammt. Fokhelda parhúsið sog-
aði til sína allt tiltækt fjármagn.
Því neyddumst við til þess að selja
japönsku pútuna og tókum upp
í hana undarlegasta bíl sem við
höfum átt um ævidagana, pólskan
Fíat. Sá var sólgulur að lit með
brúnum sætum, stolt pólskra
verkamanna sem fengið höfðu
leyfi ítalska bílaframleiðandans
til að framleiða gamla gerð, líkt
og Rússar gerðu á sínum tíma og
kölluðu sína afurð Lödu.
Vera kann að pólski Fíatinn
okkar hafi verið sprækur sem
lækur á æskudögum en þetta
eintak var orðið lúið. Hann var svo
þungur í stýri að nánast þurfti að
standa við stjórnvölinn. Sá guli
gegndi nafninu Jarúzelski, þung-
ur á bárunni eins og Wojciech
Witold Jaruzelski, síðasti leiðtogi
pólska kommúnistaflokksins
á árunum 1981 til 89, forsætis-
ráðherra og síðar þjóðhöfðingi
áður en Lech Walesa kom honum
á hnén í þeirri lýðræðisbyltingu
sem fór um austur-evrópsku ríkin
á þessum árum.
Ástandið á Jarúzelski okkar var
svipað og á nafnanum í Póllandi
og pólska kommúnistaflokknum.
Innviðirnir voru fúnir. Því gáfu
sig bæði hjarta og lungu í okkar
pólska Fíat, vél og gírkassi. Þessi
mikilvægu líffæri fundust í sam-
bærilegu hræi á bílapartasölu og
lengdu líf þess sólgula. Góðhjart-
aðir bílamenn aðstoðuðu okkur
við líffæraflutningana.
Þegar þyngstu byrði parhússins
var aflétt seldum við Jarúzelski.
Kaupandinn kom á reiðhjóli. Á
þeim tíma var það vísbending
um að fjárhagur væri bágur. Það
reyndist rétt því hjólreiðamaður-
inn náði ekki að greiða þá víxla
sem hann hafði samþykkt sem
borgun fyrir þann pólska. Þegar
útséð var um efndir tók ég mig til,
enn skráður eigandi Jarúzelskis,
og afskráði hann sem ónýtan.
Ekki veit ég hversu lengi hjól-
reiðamaðurinn ók á honum eftir
það en varla lengur en fram að
næstu skoðun.
Svipaða þróun frá bíl yfir í hús-
næði hef ég séð hjá eldri dóttur
okkar hjóna og tengdasyni. Þeg-
ar stelpan var 17 ára og komin
með bílpróf vildi hún eignast bíl.
Pabbinn fór á útkikk og stað-
næmdist við Fíat Uno, tiltölulega
lítið keyrðan þótt nokkurra ára
væri. Þetta voru vinsælir bílar á
sinni tíð og ég taldi að unglings-
stúlkan réði við þau kaup. Þegar
ég sýndi henni bílinn ómakaði
hún sig ekki við að skoða hann,
fór ekki einu sinni út til að sparka
í dekkin. Það næsta sem ég frétti
var að hún hefði farið í Heklu og
ekið út á nýjum Fólksvagni.
Síðan liðu árin, hún festi ráð
sitt en áhugi hennar og sambýlis-
mannsins á heldur fínum bílum
fór saman, jafnvel mjög sport-
legum. Svo fæddist þeim barn
og síðar annað. Þá var þörfin á
stærra húsnæði óhjákvæmileg.
Miðbæjaríbúðin í 101 hentaði
ekki lengur.
Mín góða dóttir hefur alltaf
haft ákveðnar skoðanir á bíla- og
húsnæðismálum. Fjölskyldubílar
voru í meginatriðum fyrir aðra
og skutbíla leit hún beinlínis
hornauga. Þá voru dísilbílar ekki
inni í myndinni. Þeir gátu hentað
pípulagningarmönnum og raf-
virkjum sem verkstæði á hjólum.
Úthverfi höfuðborgarsvæðisins
leit hún svipuðum augum, jafn-
vel þótt hún væri alin upp í einu
slíku. Sportlegur bíll og íbúð
með sýn til Reykjavíkurtjarnar
var málið.
En aðstæður breytast og þá
er kostur að vera raunsær. Unga
fólkið stóð í sömu sporum við
fyrir þrjátíu árum, eða svo. Fjöl-
skyldan hafði stækkað, það þurfti
meira pláss – og barnvænt um-
hverfi þar sem nálægð leikskóla
og skóla skipti meira máli en
göngufæri við miðbæjarbari. Þau
staðnæmdust við fokhelt parhús
í úthverfi, líkt og við gerðum á
sínum tíma.
Og hvað gerist þá? Þrátt fyrir
betri lánakjör en var á ungdóms-
árum okkar þarf talsvert að
leggja á sig til að fullgera fokhelt
parhús sem hentar barnafjöl-
skyldu, í nálægð við leikskóla
og skóla. Það fyrsta sem undan
varð að láta var fíni sportlegi
bíllinn þeirra, rétt eins og þegar
við tröppuðum okkur niður í jap-
önsku pútuna og síðar þann sæla
Jarúzelski.
Líkt og var hjá okkur er erfitt
að vera bíllaus með börn sem
stöðugt þarf að keyra út og suður.
Unga parið fór því á útkikk eftir
brúkhæfum, sparneytnum bíl í
stað þess sportlega. Það var ekki
lengur þörf á aðstoð pabba sem á
sinni tíð staðnæmdist við notaða
Únóinn sem stúlkan fúlsaði við
og keypti sér nýjan og flottari.
„Hvernig bíl keyptuð þið
ykkur?“, spurði ég dóttur mína,
væntanlegan íbúa í parhúsi í út-
hverfi, þegar unga parið kom úr
bílaleiðangrinum.
Ég heyrði að hún hikaði aðeins
en stundi síðan í lágri röddu:
„Steisjon – dísil.“
Jónas
Haraldsson
jonas@
frettatiminn.is
HELGARPISTILL
Te
ik
ni
ng
/H
ar
i
Mikið úrval af nýju
jólaskrauti
IÐA Lækjargata 2a 101 Reykjavík sími 511-5001 opið 9 - 22 alla daga
IÐA ZIMSEN Vesturgata 2a 101 Reykjavík sími 511-5004 opið 9 - 22 alla daga
Helgin 14.-16. desember 2012 viðhorf 59